Category Archives: d’arenberg

Wine Spectator Top 100 2010 — Flaccianello trompast aftur

ws100Bandaríska víntímaritið Wine Spectator var að gefa út hinn árlega TOP 100 lista yfir vín ársins 2010.

Listinn er ekki skipaður 100 einkunnahæstu eða „bestu“ vínum ársins heldur eru þáttaðir inn hlutir eins og verð og aðgengi víns.

M.ö.o. listi yfir framúrskarandi vín að mati blaðsins, hvernig sem á það er litið.

Í fyrra var eitt af okkar vínum í svokölluðum Top 10 hluta listans, Flaccianello 2006 frá Fontodi. Þær 120 flöskur sem við fengum af þessu víni voru fljótar að fara en eingöngu var hægt að kaupa það með sérpöntun í gegnum ÁTVR (þeas. vínið fékkst ekki í hillum Vínbúðanna).

Nú hefur hið merkilega gerst að 2007 árgangur af Flaccianello nær líka inn á listann í ár en ekki hefur það gerst oft að sama vínið geri það tvö ár í röð. Reyndar er þetta í þriðja sinn sem Flaccianello kemst á Top 10 listan tímaritsins síðasta áratug sem er einstakt. 2007 árgangur kemur hingað til lands á næsta ári.

Til hamingju Giovanni Manetti og fjölskylda!

Við eigum reyndar fleiri vín á Top 100 listanum eða framleiðendur sem við flytjum inn eða höfum flutt inn. Fyrir utan Flaccianello 2007, sem er í 8. sæti listans, má finna Chateau Flaugergues Cuvee Sommeliere 2007 í 50. sæti, Christian Moreau Chablis Les Clos 2008 í 59. sæti, d’Arenberg The Stump Jump 2008 í 63. sæti, Chateau de Lascaux Languedoc 2008 í 85. sæti, Chateau Saint Cosme Cotes de Rhone 2008 í 88. sæti og Domaine Tempier Bandol Rose 2009 í 99. sæti.

3 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, christian moreau, d'arenberg, fontodi, saint cosme, tempier, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Tveir hljóta titilinn Winery of the Year

Tveir af okkar vínbændum eru svo heppnir að hafa verið bestaðir af bandarísku vínpressunni Wine and Spirits. Tímaritið veitir 100 framleiðendum titilinn BEST WINERY OF THE YEAR sem þeim hefur þótt skara framúr árið 2010.

Bestunina hljóta Castello di Querceto í Toskana og hinn ástralski d’Arenberg.

Þetta er flott viðurkenning sem þessir góðu vínbændur eiga vel skilið og óskum við þeim innilega til hamingju!

Vel á minnst, Beljan vill koma því að að hún er fædd og uppalin hjá Castello di Querceto (sjá nánar).

Til upprifjunar birtum við í gamni mynd sem átti að prýða utanverðan botn Beljunnar.

beljan_botn

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, d'arenberg, dómar, vín, wine and spirits

Vínin yfir páskana

Eins og kemur fram í nýjasta bréfi Frú Laugu þá mælum við sérstaklega með rauðvíninu Cotes du Rhone 2006 frá Chateau de Montfaucon með páskalambinu. Þetta hefur þægilegan ilm, þéttan ávöxt og flotta byggingu. Látlaust vín í besta skilningi þessa orðs sem er við hæfi á þessum tíma yfirvegunar og innri friðar.

Önnur vín sem sýna sínar bestu hliðar í nærveru lambakjöts eru rauðvín úr Sangiovese þrúgunni eins og Chianti Classico 2007 frá Castello di Querceto, Chianti Classico 2006 frá Fontodi eða Montefalco Rosso 2005 frá Arnaldo Caprai.

Klassísk rauðvín sem falla ekki í skuggann af lambinu eða öfugt.

Í hvítu deildinni mælum við með einhverju svolítið þykku og höfugu til að standa í hárinu og t.d. humri og laxi en með ferskleika engu að síður, eins og t.d hið skemmtilega Chardonnay hvítvín The Stump Jump Lightly Wooded Chardonnay 2008 frá d’Arenberg nú eða madamman sjálf Comtesse Madaleine 2007 frá Chateau de Montfaucon.

Síðan má líka draga fram Beljuna en það vill svo til að þær eru einmitt úr þessum þrúgum sem mælt er með hér fyrir ofan, sú rauða úr Sangiovese og sú hvíta úr Chardonnay. Okkur finnst rauðvínið vera að vaxa með tímanum sem það hefur haft í maga beljunnur og hvítvínið fer að verða meira grípandi með hækkandi sól og vori.

Gleðilega páska!

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, montfaucon

Vín mánaðarins í Gestgjafanum

Það var ánægjulegt þegar við vorum nýbúin að fjalla um dræma sölu góðvínanna þriggja frá Chateau Mourgeu du Gres í Vínbúðunum að Gestgjafinn tók eitt þeirra upp á arma sína. 

Litla rauðvínið Les Galets Rouges 2008 í hálfs líters flöskunni er Vín Mánaðarins með 4 1/2 glas. 

Góður dómur fyrir vín sem á allt gott skilið að okkar mati. „Ilmurinn er yndislegur“ segja þau en það eru engar ýkjur því fá vín í okkar herbúðum hafa eins mikinn og flottan ilm og ilmur er stór hluti góðs víns. 

Það er minnst á annað vín frá Vín og mat í blaðinu en Stump Jump Riesling fær sömuleiðis 4 1/2 glas en sá dómur miðast við hversu vel vínið paraðist með bláskel þar sem Riesling vín eru sérstaklega til umfjöllunar. 

Chateau Mourgues de Gres Les Galets Rouges 2008VÍN MÁNAÐARIKNS 4 1/2 glas
Í neðri hluta Rhone-dalsins er jarðvegurinn mjög grófur (þekktast í þeim efnum er Chateauneuf du Pape og nágrenni) og leirkenndur með sandsteini frá Ölpunum. Lofstslagið er oft mjög heitt þannig að vínviðurinn „þjáist“ en nær raka djúpt í berginu. Betri staðarþrúgurnar eins og syrah, grenache og mourvédre í góðum höndum gefa góð vín. AOC Costiéres de Nimes er á vesturbakka Rhone og tilheyrir Languedoc. Chateau Mourgues du Gres er lítið vínhús og leiðandi hvað varðar gæðaframleiðslu í þessu AOC og skorar alltaf mjög hátt hjá Robert Parker. Hér er syrah 75% og grenache, mourvédre og carignan 25% alls., vínið er geymt í ár á stáltanki til að varðveita ferskleikann. Þetta er ungt vín og þarf líklega að láta það bíða í glasinu í 10-15 mínútur en ilmurinn er yndislegur, afar hreinn ávöxtur (rauð og svört ber), hvítur pipar, kryddjurtir og engar ýkjur sem gefur strax til kynna að þetta margslungna vín sé í einstöku jafnvægi. Í munni er það fylgið sér, vínið er þétt, nokkuð af fíngerðum tannínum, mikið af ferskum, sólríkum, svörtum berjum, lakkrís og pipar – langt eftirragð. Matarvín, prófið með andarbringu, hreindýri, entrecote eða nautasteik með bearnaise.
Verð: 1.850 kr. (50cl)
Okkar álit: Frábært vín í einstaklega þægilegri flðskustærð fyrir 2 (50cl), margslungið og mikið matarvín. Ungt – betra eftir svolítinn tíma í glasinu.  “ (- Gestgjafinn 3. tbl. 2010)

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, mourgues du gres

The Stump Jump GSM eitt af TOP 100 vínum árið 2009 að mati Wine Spectator

Nýr TOP 100 listi er kominn út hjá bandarísku útgáfunni Wine Spectator, fyrir árið 2009.

Við eigum þrjú vín á listanum, Fontodi Flaccianello 2006 (99 stig í 8. sæti) sem er væntanlegt á nýju ári til landsins, San Michele Appiano Pinot Grigio 2008 (90 stig í 70. sæti) sem hefur fengist hér þó ekki þessi árgangur, og The Stump Jump GSM 2008 frá d’Arenberg (90 stig í 82. sæti, við erum með 2007 í gangi núna).

Það er mjög eftirsóknarvert að komast á listann því hann getur haft góð áhrif á sölu og orðspor viðkomandi víngerða um allan heim.

Eins og bloggarinn hefur áður bent á er þessi árlegi listi mjög markaðsvæddur og takmarkaður en þó verður ekki framhjá því litið að þau vín sem komast á hann eru áhugaverð og góð, sum jafnvel frábær kaup og önnur hugsanlega framúrskarandi.

2 athugasemdir

Filed under appiano, d'arenberg, dómar, fontodi, wine spectator

d’Arenberg minnir á sig

stump jump gsm minniÞegar kemur að upplýsingastreymi frá framleiðendum til okkar í höfuðstöðvum Víns og matar – þá má eiginlega skipta hópnum í tvennt; d’Arenberg og allir hinir.

Flestir framleiðendur senda okkur annað veifið póst með nýjum dómum og tilheyrandi fréttum en d’Arenberg er sér á báti. Í hverjum mánuði sendir d’Arenberg fréttabréf auk þess að dúndra ýmsum póstum þess á milli. Vefsíða d’Arenbergs er líka framúrskarandi.

Okkur leiðast ekki þessir tíðu skeytasendingar; d’Arenberg hússtíllinn sem nær frá vínum til mannlegra samskipta einkennist af húmor og hispursleysi.

Í önnum síðustu vikna höfum við ekki haft undan að segja frá sigrum framleiðandans á vínsviðinu, ekki síst á bandarískum vettvangi, en nú skulu lesendur og þá sérstaklega unnendur d’Arenberg vína uppfærðir.

Líklegast ber hæst viðurkenning sem d’Arenberg hlaut í bandaríska víntímaritinu Wine and Spirits sem ein af víngerðum ársins, Winery of the Year, en slíkur titill fellur til þeirra sem hafa jafna og breiða línu af fyrirmyndar vínum (sjá umfjöllun og dóma blaðsins um d’Arenberg).

Þá tók Gary nokkur Vaynerchuk The Footbolt 2006 til umfjöllunar (fæst í Vínbúðunum) í sjónvarpsbloggi sínu Wine Library TV en væntanlega er ekkert efni sem fjallar um vín með eins mikið áhorf sem stendur og hefur Gary vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og víðar. The Footbolt fær góða umfjöllun í þættinum en d’Arenberg víngerðin sjálf fær mikið lof (sjá myndræmu).

Gary bætti um betur og birtist í sjónvarpsþættinum The Today Show með þrjú vín sem áttu að sýna fólki nýjar hliðar á vínupplifun og var eitt þeiirra Riesling hvítvín frá d’Arenberg (sjá myndræmu). Við flytjum það reyndar ekki inn en bjóðum upp á annað Riesling, The Stump Jump Riesling, sem er ekki síður spennandi.

En til Ástralíu – James Halliday gefur d’Arenberg fullt hús stiga í bók sinni Australian Wine Companion og velur sem „Outstanding Winery“ sjötta árið í röð. James þessi er sérfræðingur í áströlskum vínum. (sjá dóma og umfjöllun hér).

d’Arenberg hefur líka tekið höndum saman með nokkrum þekktum víngerðum í Ástralíu og stofnað verkefnið First Families. Að baki þess standa víngerðir sem framleiða framúrskarandi vín og eiga það sameiginlegt að hafa verið í eigu sömu fjölskyldu í marga ættliði – verkefni sem er ætlað að auka meðvitund almennings um sögu, menningu og gæði ástralskrar vínframleiðslu.

Þá ber að nefna sérstaklega vín sem fæst hér í Vínbúðunum á góðu verði sem hefur fengið fína pressu um víða veröld, rauðvínið The Stump Jump GSM (sjá dómana) sem einn kallar svo viðeigandi „Just a damn good drink“.

Að ógleymdri framkomu The Laughing Magpie í japönsku manga teiknimyndaseríunni Dreggjar Guðanna sem var fjallað um hér á blogginu ekki fyrir löngu.

Þetta er aðeins brot.

Við höfum ítrekað ósk okkar að fá hingað til lands Chester Osborn, eiganda og víngerðarmann d’Arenberg, og eru ágætar líkur að það gerist næsta vor.

Þangað til heldur d’Arenberg áfram að minna á sig með reglulegum skeytasendingum.

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar

Hvað er að gerast?

Það hefur ekiki heyrst mikið í okkur undanfarið hérna á blogginu þar sem kraftarnir okkar beinast svolítið að Frú Laugu þessa dagana og svo verður eitthvað áfram.

Frúin er annars við góða heilsu!

Sprúttsalan hefur þó ekki legið niðri á meðan. Við höfum t.d. boðið upp á vínsmökkun á hverjum föstudegi í Frú Laugu kl. 16.00 fyrir gesti og gangandi.

Og það eru mörg ný vín væntanleg þrátt fyrir Kreppu Gömlu en þannig var það á sumardögum að ÁTVR blés til samkeppni um vín á svokallaðan sérlista (sérstakur listi til að þétta úrval Vínbúðanna þar sem upp á skortir) og sendum við inn slatta af vínum frá okkar framleiðendum.

Fyrir valinu urðu all mörg vín af þeim sem við sendum inn en ekki er víst að öll rati endanlega í hillurnar þar sem við þurfum að hugsa um að flutningar og annað borgi sig þegar stærri myndin er skoðuð. Þau vín sem birtast hér þó örugglega, eru reyndar lögð af stað til landsins, eru ein fjögur ný vín frá hinum suður-ítalska Bisceglia, þrjú ný frá Lambrusco-framleiðandanum Lini, þrír rauðvínsboltar frá Saint Cosme í S-Frakklandi (þ.á.m. Chateauneuf-du-Pape) og tvö freyðivín frá nýjum Prosecco framleiðanda Val d’Oca. Þar fyrir utan hafa flust á sérlistann vín sem þegar voru til í Vínbúðunum frá t.d. Hubert Sandhofer, d’Arenberg og fleirum.

Við segjum frá þessu öllu betur þegar veigarnar berast til landsins.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, d'arenberg, fréttir, frú lauga, lini, saint cosme, sandhofer, val d'oca