Category Archives: decanter

Domaine Jean Grivot er ein af súperstjörnunum í Búrgúnd að mati Decanter

.

Fyrir 10 árum síðan gaf Búrgúndar-sérfræðingurinn Clive Coates út lista af framleiðendum sem hann taldi þá bestu í Búrgúnd. Af urmul framleiðenda voru aðeins fimm á listanum. Nú eru þeir orðnir 17.

Þökk sé framförum í víngerð í héraðinu undanfarin ár að vínin eru almennt orðin betri, segir Clive. Honum finnst menn sýna náttúrunni meiri virðingu (margir á svæðinu eru lífrænir eða bíódínamískir) fyrir utan að vanda sig betur og skilar það sér í hreinni og beinni umbreytingu frá vínvið í flösku.

Okkar maður Jean Grivot er einn af nýju súperstjörnunum í Búrgúnd að mati Clive Coates eða eins og Clive segir: „Etienne Grivot is one of my favourite winemakers in Burgundy, and one of the most thoughtful. […] [T]he star of the cave is the Richebourg, a wine of remarkable beauty, intensity, and ravishing fruit. There is nothing obvious or clumsy here, just sheer breed.“

Eins og sjá má á myndinni þá elskar Grivot berin sín.

Fyrir utan Grivot eru hinir 16 (fyrstu fimm eru þeir upprunalegu): Comtes Lafon, Leroy, Romanée-Conti, Armand Rousseau, De Vogüé, Denis Bachelet, Sylvain Cathiard, Anne Gros, Michel Gros, Bonneau du Martray, Michel Lafarge, D’Auvenay, Guy Roulot, Louis Carillon, Leflaive og Ramonet.

Nánari upplýsingar um þessa framleiðendur og aðra er að finna í bók Clive Coates, The Wines of Burgundy, sem er nýkomin út.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, decanter, frakkland, grivot

Amedei súkkulaði vinnur Gullnu baunina á Chocolate Awards 2008 – aftur

Amedei súkkulaði er í sviðsljóðinu þessa dagana, bæði Gestgjafinn og Decanter fjalla um Amedei súkkulaði í nýjustu tölublöðunum.

Gestgjafinn er tileinkaður súkkulaði að þessu sinn. Þegar ég frétti að það stæði til lagði ég til við blaðið að haldið yrði smakk á dökku súkkulaði sem var tekið vel í. Amedei fær góða umsögn í blindsmakkinu (bls. 41, 4. tbl.) en ég skal viðurkenna að ég hefði viljið sjá það toppa þetta smakk.

Decanter fjallar aðallega um vín en í nýjast tölublaðinu (apríl) er tvær síður lagðar undir súkkulaði og er fókuserað sérstaklega á Amedei sem „model producer“. Þar kemur fram að síðan fyrirmyndarfyrirtæki eins og Amedei fór að framleiða súkkulaði í nánariasamstarfi við bændurna og greiða þeim hærra verð hefur gæðum fleygt fram. Greinarhöfundurinn, Fiona Beckett, endar greinina á að lýsa Chuao súkkulaði frá Amedei með „deep chocolatey aroma and flavour and an amazingly long finish.“ Í greininn er kakóekrum Amedei í Venezuela, Chuao og Porcelana, líkt við það besta sem gerist í heimi vínframleiðslu, eins og ofurvínið Petrus.

Helst ber að minnast á Chocolate Awards 2008 sem voru haldin í þriðja sinn í ár. Þar sigraði súkkulaði frá Amedei eina ferðina enn sem besta dökka súkkulaðið. Að þessu sinn kom það í hlut 63% súkkulaðisins frá Amedei að hljóta Gullnu baunina en jafnframt hlutu gullverðlaun Porcelana og Chuao auka þess sem silfur hlutu 66%, 70% og „9“ sem er með 75% kakó. Mjólkursúkkulaðið frá Amedei hlat silfur í sínum flokki.

Það er gott úrval af Amedei súkkulaði í Ostabúðinni á Skólavörðustíg og hjá Sandholt á Laugaveginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, decanter, Gestgjafinn, súkkulaði, verðlaun/viðurkenningar

Hvað er málið með Decanter og 2004 súpertoskanina?

Ég er svolítið hvumsa yfir Decanter þessa dagana.

Í nýjasta tímaritinu er 2004 árgangur frá Toskana tekinn fyrir, nánar tiltekið svokallaðir súpertoskanir. Jafnan eru það þau vín frá Toskana sem framleiðendur leggja mest í og upp úr.

2004 árgangur er afskaplega góður víða á Ítalíu, þá ríkti gott og jafnt verðurfar. En vínsmökkunarhópur blaðsins dissar þennan árgang verulega. Aðeins eitt vín fær fullt hús, 5 stjörnur, og ekkert vín fær 4 stjörnur. Þetta er vægast sagt óvenjulegt miðað við góðan árgang, gæði vínanna og þá staðreynd að sjaldan er svo illa gefið á heildina í dálkum blaðsins.

Okkar fulltrúi Flaccianello 2004 fær bara 2 stjörnur, rétt eins og hið fræga Tignanello og t.d. annað vín sem heitir Montevertine. Þessi má geta að Flaccianello 2004 fær 95 stig hjá bæði The Wine Advocate og Wine Spectator.

Annars staðar í blaðinu er svo grein um 50 bestu vín Ítalíu (vín sem hafa verið framúrskarandi í gegnum árin) og þar eru öll þessi þrjú vín í þeirra hópi og meira að segja stór mynd af Tignanello 2004 sem fær hálfgerða útreið (a.m.k. miðað við væntingar) síðar í blaðinu.

Þetta er í takt við þann helsta galla sem mér finnst um Decanter. Mismunandi fólk fjallar um sömu vín milli ára, jafnvel í sama blaði, og því skortir alveg viðmiðun sem hægt sé að túlka einkunnir blaðsins út frá, árgang eftir árgang.

Ef sami gagnrýnandi eða hópur gagnrýnenda fjallar um sömu vín ár frá ári, jafnvel þótt maður sé ekki alltaf sammála, verður til sú viðmiðun sem mér finnst vanta í Decanter. Einkunnir þess aðila má skilja út frá einkunnum hans frá fyrri árum og svo koll af kolli. Ekki þessi losaraháttur sem mér finnst oft ríkja hjá Decanter.

Annað sem ég set út á í þessari umfjöllun Decanter eru smakknótur sem fylgja hverju víni sem fær 3 stjörnur og yfir. Þær eru frekar ófókuseraðar og einfaldlega leiðinlegar og þrátt fyrir nokkurn mun á einkunnunum er ekki að finna mun í textanum. Þannig er sagt um vínið sem fær 5 stjörnur að það sé „Tight, concentrated, not giving much away. This one has middle and promise and is still very closed. Fruit will win. There is a great deal here.“ á meðan að eitt af allra neðstu vínunum fær meðal annars umsögnina „Very good“.

Og besta dæmið um ósamræmi í Decanter.

Það varðar annað rauðvín sem kemur einmitt líka frá Fontodi, þ.e.a.s  Chianti Classico. Sami árgangur af því, 2004, fær 3 stjörnur í einu hefti Decanter en í öðru hefti fær sama vín 5 stjörnur. Það er eitt misræmið milli árganga en hjá einu og sama víninu þá eru hlutirnir að verða verulega ruglandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under decanter, fontodi

Franskar þverstæður í auglýsingum og umfjöllun á áfengi

Það virðist undarlegt að á meðan sífellt fleiri rannsóknir benda til góðra áhrifa léttvínsneyslu í hófi, bæði á sál og líkama, þá eru viðurlög gegn vínneyslu víða að herðast.

Frakkar af öllum þjóðum ákváðu ekki fyrir löngu að banna áfengisauglýsingar í sjónvarpi. Þegar bannið var lagt fram lögðust franskir víngerðarmenn ekki nægilega vel gegn því þar sem að þeir töldu sig of litla yfir höfuð til að stunda slíka auglýsingamennsku og að bannið myndi hins vegar gera erlendum risakeppinautum þeirra erfiðara fyrir að herja á þeirra heimamarkað með auglýsingarherferðum í sjónvarpi. M.ö.o. þeir töldu sig vera að vernda sinn hag.

Áfengisauglýsingar í dagblöðum og tímaritum eru hins vegar leyfðar svo framarlega sem þeim fylgi texti um skaðsemi áfengis.

Nú renna hins vegar á þá tvær grímur í kjölfar dómsúrskurðar þar sem ANPAA (Franska áfengis- og vímuefnaforvarna-ráðið) hefur sigrað í máli sem það höfðaði á hendur dagblaðsins Le Parisien þar sem fjallað var um kampavín í blaðinu og birtur listi í því sambandi yfir ákveðin vín, verð og hvar þau væru fáanleg. Le Parisien var sektað um 5.000 Evrur.

Dómurinn mun hugsanlega hafa fordæmisgildi þannig að allar víntengdar skriftir í frönskum dagblöðum þurfa að hafa viðvörunartexta um skaðsemi áfengis.

Þverstæðurnar birtast svo best í því að frönsk yfirvöld eru á einn veginn að hamla útbreiðslu franskrar vínframleiðslu í sínu landi í gegnum ANPAA en breiða hana út til annarra landa í gegnum hin ýmsu samtök sem vinna að markaðssetningu franskar vínmenningar.

Denis Saverot, ritstjóri franska víntímaritsins La Revue du Vin de France, skrifar í nýjasta Decanter að þarna sé vegið að franskri vínmeningu og snúið baki við yfir 1000 ára sögu. Hann bendir líka á áhugaverða staðreynd að á meðan neysla hins náttúrulega hamingjudrykks, léttvíns, í Frakklandi hefur hrunið eru Frakkar í dag orðnir að þeirri þjóð sem neytir mest af þunglyndislyfjum. Hann bendir líka á að í þeim tveimur héruðum Frakklands þar sem áfengisvandi er mestur, Pas de Calais og Bretagne, eigi sér stað engin vínrækt.

3 athugasemdir

Filed under decanter, frakkland, fréttir, vangaveltur

Viðtal við Chester Osborn í Decanter

Chester d’Arenberg Osborn er fæddur 1962.

Hann er ekki bara vínframleiðandi heldur dútlar við myndlist, tónlist, skriftir og hannar auk þess eigin fatalínu, eins og kemur fram í viðtali sem er tekið við hann í nýjasta Decanter víntímaritinu.

Smelltu til að lesa viðtalið og sjá myndir

Skv. viðtalinu er Chester ekki hrifinn af mikilli eik heldur leitar að steinefnakenndum og blómlegum eiginleikum í víni. Öll vínin eru úr lífrænu hráefni, nokkuð sem ég vissi ekki, og 7 ára sagðist hann ætla að búa til vín sem væru „yummy“.

En hvar fær hann þessar skyrtur?

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, decanter, viðtal

Decanter: „Er ekki tími til kominn að taka áströlsk vín alvarlega?“

Við höfum flutt inn vínin frá Kay Brothers nokkuð lengi. Upplagið er lítið og þau svona fljóta með stærri pöntunum frá Torbreck og ekki síst d’Arenberg en d’Arenberg og Kay Brothers eru nágrannar í McLaren Vale héraði  í S-Ástralíu.

Við tökum bara tvö rauðvín frá Kay Brothers og eru þau bæði úr shiraz þrúgunni, Hillside Shiraz og Block 6.

Robert Parker nokkur hefur lengi verið örlátur á stigin sín þegar kemur að þessum tveimur vínum og gefið hinu fyrrnefnda hæst 95 stig og því síðarnefnda 98 stig. Að öðru leyti hef ég ekki séð Kay bræðurnar dúkka svo oft upp í vínpressunni yfir höfuð, það virðist fara lítið fyrir þeim. Líklegast vegna þess að fyrirtækið er lítið og virðist ekki stunda mikla markaðssetningu.

Kay Brothers er m.ö.o. gott dæmi um þá framleiðendur sem eru til umfjöllunar í desember hefti breska víntímaritsins Decanter. Þeir eru ekki allir litlir framleiðendur en að mati tímaritsins eru þeir dæmi um þá grósku sem á sér stað í ástralskri víngerð um þessar mundir og sér ekki fyrir endann á.

Greinarhöfundurinn Matthew Jukes lofar áströlsku vínin hástert, ekki síst fyrir gott verð og gæði og mikla fjölbreidd sé álfan skoðuð í heild sinni. Hann varar þó við því að áströlsk vín séu fyrst og fremst metin fyrir sín góðu kaup þótt sú ímynd hafi verið þeim mikill styrkur í kröftugri markaðssetningu síðustu ár því hún skyggi á hið raunverulega gildi ástralskra vína – gæðin.

„Er ekki tími til kominn að taka áströlsk vín alvarlega?“ er fyrirsögn greinarinnar.

Greinarhöfundur gengur nokkuð langt í þá átt að lýsa Ástralíu sem framleiðanda bestu vína á jörðu þegar hann ber vín álfurnnar saman við vín frá nýja eða gamla heiminum, og skýtur kannski aðeins yfir strikið með stórkostlegar yfirlýsingar. Það er samt full ástæða til þess að benda á gæði og margbreytileika ástralskrar vínframleiðslu og hvetja fólk til þess að sjá í gegnum vegg af ódýrum súpermarkaðsvínum sem þaðan streyma og prófa eitthvað sem sýnir betur hversu álfan er megnug þótt það kosti að jafnaði aðeins meira.

Hér eru þrjú vín sem ég legg til:

HIllside frá Kay Brothers
Juveniles frá Torbreck
The Laughing Magpie frá d’Arenberg

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, decanter, kay brothers, torbreck, vangaveltur

CDQ fær 5 stjörnur í Decanter — þrisvar sinnum

.

Allt er þá er þrennt er.

Castello di Querceto gerir það gott í ágúst-hefti Decanter.

Þrjú vín fá fullt hús stiga, 5 stjörnur.

Ég man ekki eftir því að svo mörg vín frá einum og sama framleiðandanum hafi náð hæstu einkunn í sama Decanter blaðinu.

Ég bíð nú spenntur eftir að fá blaðið sent í pósti. Kýldi á ársáskrift í leiðinni.

Vínin þrjú sem fengu fimmstyrnið eru Chianti Classico 2005 (fæst núna í Vínbúðunum), Chianti Classico Riserva 2003 (fæst aftur í haust) og Chianti Classico Il Picchio Riserva 2003.

Ég er forvitinn að lesa hversu mörg önnur vín frá Toskana fá hæstu einkunn því ég geri ráð fyrir að hlutur Castello di Querceto sé ansi feitur.

Smelltu hér til að lesa dómana í fullri lengd á vefsíðu Castello di Querceto.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, dómar, decanter