Category Archives: ferðalög

Bragðlaukahátíð í Tórínó

beljan_mjolkBloggarinn og frú héldu til Tórínó á haustdögum til þess að heimsækja Salone del Gusto, hina miklu bragðlaukahátíð sem haldin er á vegum Slow Food samtakanna á hverju ári.

Skoðaðu myndirnar

Sýningin virkar í stuttu máli þannig að matvælaframleiðendur víðs vegar úr heiminum, aðallega Ítaliu þó, byggja sér bás á sýningarsvæðinu í 5 daga og bjóða vörur sína til kynningar og sölu. Þetta er því raunverulegur markaður þar sem sýningargestir geta gert matarinnkaupin auk þess að fræðast heilmikið.

Varan er öll það sem mætti kalla „slow food“, þeas. vönduð í víðum skilningi þess orðs.

Í fyrsta skipti var íslenskur framleiðandi með bás á sýningunni, Móðir Jörð í Vallanesi, auk þess sem hið virka samfélag Í ríki Vatnajökuls kynnti vörur undan jöklinum, brennivín og vestfirskan harðfisk á básnum við hliðina á Móðir Jörð. Básinn hjá Móðir Jörð var vel heppnaður og varan rauk út. Vonandi verður framhald hér á.

Mikil mannmergð var á sýningarsvæðinu svo þetta er ekki beint kósý markaður en gagnlegur til að skoða, fræðast og fá hugmyndir. Sérstaklega var erfitt að keyra barnakerru um svæðið en bloggarahjónin höfðu tekið yngsta krílið með í ferðina, sem fékk þó ekkert annað en móðurmjólkina og barnamat.

Stór þáttur sýningarinnar eru samkomur af ýmsu tagi og smakkaði bloggarinn sig í gegnum tvö mjög svo náttúrulega námskeið („Natural Wine“ og „Wine Additives“). Terra Madre samfélagið var auk þess með ýmsa fundi þar sem m.a. var rætt um stöðu matarmenningar á Norðurlöndum og margt fleira.

Íslenskir Slow Food-ingar áttu sinn hlut í samkomuhaldinu og héldu námskeið sem fjallaði um ýmis konar íslenskan mat og stórmathákarnir Óli og Gunnar á DILL héldu matarsýningu sem sló í gegn. Bravó!

Bloggarahjónin versluðu ekki ýkja mikið á sýningarsvæðinu enda svo margt í boði að maður vissi vart hvar ætti að byrja en versluðu aðeins meira afturámóti hjá góðum nágranna sýningarsvæðisins, EATALY, sem er risastór og dásamleg Slow Food matarbúð. Bloggarinn misskildi þetta reyndar aðeins í byrjun og hélt að nafnið væri EATALL en var stöðvaður rétt svo í tíma af frúnni. Alls voru gerðar fjórar innkaupaferðir í þennan draumaheim sem hlýtur að teljast Disneyland Slow Food smjattpatta og ýmislegt ítalskt góðgæti verslað til nánari glöggvunar — ó já, auk þriggja bretta af pasta sem koma til landsins 6. desember næstkomandi!

Gúlp!

Eitt var sérstaklega áhugavert í Eataly sem verður að benda á en það var BELJAN en sú var ekki þriggja lítra rauðvínskútur eins og Beljan okkar heldur þúsund lítra mjólkurtankur af ófitusprengdri og ógerilsneiddri mjólk (sjá mynd). Muuuuuu….!!! Síðan var bara skrifað „ath – best að sjóða fyrir notkun“ og fólki leyft að bera ábyrgð á lífi sínu sjálft.

Við gátum aðeins skoðað Tórínó og fær hún 3 stjörnur af 5 mögulegum. Miðborgin er flott, svolítið grand og Parísarleg með flottum klassískum arkítektúr víða, en þetta er mikil bílaborg því fyrir utan miðbæinn eru breiðar götur og bílar, bílar, bílar, með tilheyrandi mengun og skítugheitum. Þarna er líka eitthvað skrítið og yfirgefið Ólympíuþorp og það er eins og borgin geti ekki ákveðið sig hvort hún ætli að vera gamaldags sporvagnaborg eða nútíma neðanjarðarlestarborg. Nóg um það, vel var snætt og borgin nýtur þess að vera í hjarta víngerðarsvæðanna Barolo, Barbaresco, Barbera o.sfrv. og dramatískt Alpalandslagið er nú ekki slappur bakgrunnur fyrir stórborg.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, myndir

Nokkrir DVD sem er næstum hægt að borða

Um tíma þegar heimilið var með BBC Food í áskrift datt bloggarinn ítrekað inn í ákveðna tegund af sjónvarpsþáttum. Þessir þættir voru ekki hefðbundir uppskriftaþættir með prúðbúnum sjónvarpskokki í myndveri heldur lögðu þeir mikið upp úr hráefninu sjálfu. Þáttastjórnandinn (sem var kokkur) fór þannig út á ekrurnar, niður í fjöru, sigldi á bátum, rölti inn á markaðinn, kíkti í sláturhúsið – hvert sem gott, staðbundið hráefni var að finna.

Síðan hófst matreiðslan, alltaf í nýju umhverfi eftir því hvar þátturinn gerðist hverju sinni; heima í eldhúsi viðkomandi framleiðanda, í káetu lítils veiðibáts, stundum á veitingastöðum eða bara undir berum himni úti á engi og við lygna á.

Öllu þessu var miðlað af mikilli ástráðu og stundum slatta af breskum húmor hjá köppum eins og Keith Floyd sem yfirleitt eldar með vínglas í annarri hendinni og hinum stóískari Rick Stein. Keith er öllu hrárri en Rick fágaðri, hvor með sína kosti.

Við keyptum í dag loksins nokkra þætti með köppunum tveimur á amazon:

Rick Stein Food Heroes (mjög áhugaverð sería þar sem Rick ferðast um Bretland og notar staðbundið hráefni)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd Around The Med (miðjarðarhafs matargerð)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd On Italy (matur, vín og menning Ítalíu)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd Uncorked (Keith ferðast um vínekrur Frakklands í þessari seríu)

Það má segja að þættirnir miðli í leiðinni heilbrigðari lífsstíl því staðbundið og hollt hráefni er það besta sem völ er á. Þeir fá mann til þess að langa til og njóta þess að borða (og drekka) betur í víðum skilningi þess orðs.

Frábært skemmtiefni ef maður er þannig innstilltur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, matur, sjónvarp, uppskrift

Kvikmynd frá heimsókn til vínframleiðenda í Frakklandi

Þegar við fórum til Frakklands síðasta haust tókum við stutta kvikmynd af heimsóknum okkar til vínframleiðenda allt frá suðri (Languedoc, Rhone og Provence) norður til Búrgúndarhéraðs.

Uppskeran var í fullum gangi, veður var gott og við náðum nokkrum ágætum augnablikum úr lífi franskra víngerðarmanna.

C’est la vie.

Ykkar undirritaður fer með aðalhlutverk í myndinni auk þess að leikstýra og klippa en naut góðrar aðstoðar Rakelar. Nú þarf bara að semja tónlistina.

Við blogguðum ekkert um þetta ferðalag á sínum tíma, kvikmyndin kemur í staðinn fyrir það, en við tókum fullt af ljósmyndum.

Sannsöguleg mynd. Fæst á öllum betri myndbandaleigum.

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, ferðalög, flaugergues, frakkland, grivot, kvikmyndir, lucien le moine, mas de gourgonnier, mourgues du gres, sjónvarp, vincent girardin

Myndir úr frakklandsferð

.

Við Rakel og yngsta afkvæmið Áslaug Birna skruppum til Frakklands í lok september.

Ferðalaginu verður betur líst hér innan skamms en myndirnar eru komnar á flickr.

Myndasýningin hefst í París þar sem við kíktum í óperuna, röltum um og borðuðum góðan mat.

Þaðan tókum við lest til Montpellier og heimsóttum síðan á fjórum dögum vínframleiðendur allt frá S-Frakklandi og norður eftir til Búrgúndarhéraðs, smökkuðum vín og fylgdumst með uppskerunni sem var víðast hvar í fullum gangi.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, frakkland, myndir

Beint frá býlinu um allt Ísland

.

Það er ekki langt síðan að samyrkjubú voru kjölfesta víngerðar í flestum héruðum Evrópu. Bændur voru þá bara ræktendur vínberja sem síðan voru seld í samyrkjubúin sem bjó til vínin.

Þá var greitt fyrir magn en ekki gæði.

Eftir að bændur fóru að framleiða sín eigin vín jukust gæðin til muna og þeir fengu meira fyrir sinn skerf. Þannig vissi neytandinn líka hver ræktaði vínið og hvaðan það nákvæmlega kom. Neytandinn gat leitað beint til þeirra sem framleiddu bestu vöruna.

Svipuð þróun virðist vera að eiga sér stað í íslenskum landbúnaði. Bændur um allt land eru farnir að búa til vörur í þeirra eigin nafni og selja á staðnum eða jafnvel um allt land.

Það eru spennandi tímar framundan í íslenskum landbúnaði.

Beint frá býli er samstarfsverkefni „bænda sem stunda eða hyggjast stunda sölu afurða beint frá býli bóndans á Íslandi.“ Það var stofnað í febrúar 2008. Á vefsíðunni má finna nánari upplýsingar um þá bændur sem eru aðilar að verkefninu.

Tilvalið að kippa slíkum lista með sér í ferðalagið og byggja matseldina á hráefni bóndans í nágrenninu eins og unnt er.

Við Rakel höfum ekki komist lengra en til Flúða það sem af er sumri en þar fengum við einhverja bestu íslensku tómata sem við höfum smakkað (næstum blóðrauðir að innan og bragðmiklir) og brokkolí sem var svo gott að það naut sín langbest eitt og sér, léttsoðið með smá salti.

Ýmsar góðar upplýsingar aðrar um íslenskan landbúnað má finna í Bændablaðinu,

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, matur

Dominique og Eymar heimsækja Arnaldo Caprai

Í lok maí fóru blaðamenn og vínspekúlantar Gestgjafans, mæðginin Dominique og Eymar, í heimsókn til Arnaldo Caprai sem er staðsettur í Úmbría-héraði Ítalíu.

Í nýjasta Gestgjafanum er blaðsíðu-grein um framleiðandann („Arnaldo Caprai – frumkvöðull og hugsjónamaður'“ bls. 75, 9. tbl. 2008) og í blaðinu þar á undan fjallaði Dominique um matar-markað í Perugia, höfuðborg Úmbría héraðsins.

Frekar verður fjallað um heimsóknina í næsta tölublaði Gestgjafans en ég ætla að taka mér það bessaleyfi og hafa það eftir blaðamönnum að þeir voru alsælir með móttökur framleiðandans, vín, mat og menningu héraðsins.

Ævintýri líkast heyrðist mér.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir blaðamenn heimsækja einn af okkar framleiðendum með svo markvissum hætti síðan við stofnuðum fyrirtækið og er það ekki síst að þakka metnaði framleiðandans til að bjóða blaðamenn svo velkomna og miklum áhuga þeirra mæðgina til þess að kynna sér nýja og spennandi hluti sem eru ekki á allra vörum hér á Íslandi.

Ekki ennþá.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, ferðalög, Gestgjafinn

Léttklæddasti maðurinn í Veróna — bloggarinn skreppur á Vinitaly 2008

.

Hún er stór.

Vínsýningin sem skiptir mestu máli á Ítalíu fyrir seljendur og kaupendur er án efa hin árlega Vinitaly í Veróna, í byrjun apríl. Bloggarinn var einn af 45.000 erlendum gestum þetta árið en alls mættu 150.000 gestir á sýninguna fyrir utan vínframleiðendurna sjálfa.

Þetta er mikið af fólki. Þótt fjöldinn dreifist á þá 5 daga sem sýningin stendur yfir eru margir gestir sem mæta dag eftir dag og því ekki ólíklegt að giska að um 100.000 gestir hafi verið þarna saman komnir þegar mest lét. Bloggaranum fannst vægi sitt í þessari mannmergð full lítið en 185cm dugðu samt til að fölt andlit hans gægðist öðru hverju upp úr svartkollóttu mannhafinu.

Það var sól og hlýtt í Veróna, svona 17°C. Bloggarinn asnaðist út á skyrtunni fyrsta morguninn til að kaupa tannbursta og leið vel í loftslagi sem teldist jafnvel betra en íslenskt sumar en varð strax mjög vandræðalegur þegar hann uppgötvaði að hann var á þeirri stundu hugsanlega léttklæddasti maðurinn í allri Veróna, innan um kappklædda Ítalí, og lét vera að framkvæma þá tilhugsun sem hafði læðst að honum fyrr um morguninn að baða sig í gosbrunnum borgarinar.

En þetta hófst allt kvöldið áður. Þá var kvöldverður á Pompieri í boði Caprai þangað sem bloggarinn mætti seint og fékk í staðinn express útgáfu af herlegheitunum því ekki skyldi hann sleppa við neinn rétt. Hann var því ennþá að tyggja pylsur þegar settur var diskur af pasta fyrir framan hann og hálfnaður með pastað þegar kjötrétturinn kom en þar náði hann hinum gestunum og fylgdi þar á eftir í gegnum osta og síðan súkkulaðiköku. Var gerður góður rómur að matarlyst bloggarans. Öllu skolað niður með vínunum frá Arnaldo Caprai.

Þetta var ekki í síðasta skipti sem bloggarinn snæddi með Caprai og kompaníi því í hádeginu daginn eftir var boðið upp á margrétta fiskmáltíð inni á sýningarsvæðinu þar sem Caprai vínin voru smökkuð enn frekar. Saddur og glaður bloggari gekk út í sólina með fullan maga af kolkrabba, smokkfisk, skelfisk og ýmsum öðrum sjávardýrum ásamt einu stykki af Michelin stjörnu en bloggaranum er næstum sama hvað hann fær að borða ef það er Michelin stjarna í boði og þessi kom frá veitingastað í hafnarbænum Livorno í Toskana.

Ekki verður tíundað ítarlegar hvað bar á fund bloggarans á sjálfri sýningunni sem var svona „business as usual“. Nýir árgangar af öllum vínum sem Vín og matur flytur inn voru smakkaðir og er óhætt að segja að bloggarinn hafi verið ánægður með sína menn, „Complimenti!“ hrópaði bloggarinn hvað eftir annað. Sömuleiðis var leitað á ný mið eins og tími gafst og ekki ólíklegt að einhverjar nýjungar skili sér á næstunni.

Helst ber að nefna tvennt sem gerðist hins vegar utan sýningarsvæðisins. Annað var heimsókn í óperuhúsið sem var steinsnar frá hóteli bloggarans, 25 skref nánar tiltekið. Ein af fyrstu óperum Verdis var í boði, Attila, sem fjallar um Atla Húnakonung. Fín ópera sem ber þess merki að vera samin snemma á ferli tónskáldsins, nokkru áður en stórvirki eins og Rigoletto komu til sögunnar. Í sumar verður óperuhúsinu lokað og óperuflutningurinn færist út undir beran himinn, inn í rómverska hringleikahúsið Arena eins og frægt er orðið.

Hinn hápunkturinn í utandagskránni var heimsókn til Dal Forno Romano. Bloggarinn kom þangað fyrst fyrir nákvæmlega ári síðan og er árangurinn þeirrar ferðar þegar búinn að skila sér eins og auglýst var í Vínpóstinum ekki fyrir löngu. Hér voru kynnin endurnýjuð, smakkað úr tunnum, en eftirminnilegust er skoðunarferð um splúnkunýja víngerðina sem er reyndar enn í smiðum. Ef það er til nokkuð sem heitir hápunktur í víngerð þá er ekki ólíklegt að hann náist hér í húsakynnum Dal Forno fjölskyldunnar.

Smelltu til að skoða fleiri myndir frá heimsókninni á Vinitaly

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, matur, tónlist, vínsýning, veitingastaðir

New York — vínsmakkanir og námskeið hjá EWS

Einhver á leiðinni til New York?

EWS er vínklúbbur í New York sem heldur glæsilegar vínsmakkanir með girnilegum þemum eins og Súpertoskani, 2005 Búrgúnd, 1998 Chateauneuf-du-Pape osfrv. Niðurstöður eru síðan birtar á vefnum hjá Robert Parker.

Kíktu á næstu smakkanir

Ég ætla einhvern tímann að fara. Þau kosta reyndar sitt en þess virði þar sem vínin eru undantekningalaust áhugaverð.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, robert parker, vínsmökkun

Frakklandsferð — Mugison rokkar í Meursault

1.11.2007

Það var frídagur.

Öll franska þjóðin í fríi og þar af leiðandi ég líka.

Kærkomið tækifæri til þess að kanna betur þorp og vínekrur á rólegu tempói.

Það var því ekið af stað, suður af Beaune í þetta skiptið, þar sem hvert vínþorpið tók við af öðru með stuttu millibili við undirleik Mugison. Flottur diskur hjá kallinum sem afmeyjaði svolítið virðuleika þessara heimsþekktu vínþorpa.

Smeltu hér til að skoða gervihnattarmynd af þorpunum

Fyrsta þorpið var Pommard. Ég lét mér nægja að aka þar í gegn en stoppaði í því næsta og rölti um þröngar götur smábæjarins Volnay sem þekktur er fyrir sín fínlegu og kvenlegu rauðvín. Það var fallegt veður, logn, sól og ekkert of svalt. Kirkjuklukkur hljómuðu, kona gekk hjá með baguette og ég settist á bekk þar sem ég gat horft yfir sléttuna fyrir neðan bæinn. Skv. skilti sem stóð þar hjá yfir víngerðarmenn bæjarins viðast þeir flestir heita Rossignol (skoðaðu stækkaða mynd af þessu skilti í Volnay).

Ég beið eftir tækifæri til þess að segja „Góðan daginn herra Rossignol“ við næsta mann sem ég myndi hitta en það var ekki nokkur hræða. Bærinn var að slappa af.

Eftir það renndi ég í gegnum Monthélie og þaðan til Meursault.

Þegar hér var komið við sögu var Mugison kominn í þungarokksgírinn og ég bað hann um taka sér pásu.

Ég lagði bílnum og gekk upp og niður þröngar götur Meursault þar til ég rataði á stíg sem leiddi mig út á vínekrurnar. Þar tók við meira labb, myndatökur, þukl á steinum og vínvið en ég lét vera að bragða á jarðveginum – læt nægja að smakka hann óbeint í gegnum vínið sem þaðan kemur.

Svangur ók ég af stað til þorpanna Puligny Montrachet og Chassagne Montrachet þar sem meiningin var að snæða á veitingastaðinum Le Chassagne. Glætan. Ekki séns að fá þar borð svo nú voru góð ráð dýr enda hafði ég ekki tekið eftir mörgum veitingastöðum á leið minni um þorpin. Ég ákvað því að aka ekki lengra heldur rölta aðeins um vínekrurnar í Montrachet þaðan sem dýrustu hvítvín í heimi koma frá og skella mér síðan aftur til Beaune og finna mér bita þar.

Í kringum hótelið í Beaune var ekki að finna sjoppu sem var opin til að selja mér svo mikið sem baguette og salami þannig að ég endaði sársvangur inni á hóteli og þáði það eina æta sem þau gátu boðið mér sem var kaldur bjór.Takk, hann var góður.

Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég hélt á veitingastaðinn Le Gourmandin í miðbæ Beaune. Ég fór um leið og hann opnaði 19.00, fyrstur á staðinn. Svangari ferðalang höfðu þeir aldrei séð. Hér var ráðist í fjölbreyttan matseðil en sem fyrr lét ég vera að panta vín af stórglæsilegum vínseðli því það er takmarkað hvað einn maður getur drukkið. Ég tók mér því tvö glös af hvítu og tvö af rauðu af sæmilegu úrvali glasavína. Le Gourmandin valdi ég eftir meðmæli Lucien Le Moine sem á mörg vín á vínlistanum þar en fleiri höfðu mælt með honum og ég bætist hér með í þann hóp. Stemningin er svona „bistro“ og andrúmsloftið þægilega afslappað eftir því, maturinn til fyrirmyndar og úrval vína í fyrirrúmi. Ég táraðist næstum við að sjá flösku af Luciano Sandrone í einni hillunni.

Daginn eftir skyldi haldið til Champagne.

Smelltu hér til að skoða myndir frá ferðinni

Smelltu hér til að lesa aðrar bloggfærslur úr ferðinni

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, ferðalög, frakkland, lucien le moine, veitingastaðir

Frakklandsferð – 20 stykki Lucien Le Moine og eitt stykki Romanée Conti

.

31.10.2007

Reis upp á þriðja degi.

Morgunmatur.

Stephan Brocard kom að sækja mig kl. 10.00. Hann er af Brocard fjölskyldunni sem framleiðir vín í Chablis en hefur ákveðið að fara eigin leiðir og stofna negociant fyrirtæki í Búrgúnd. Engin 1er Cru eða Grand Cru ennþá en mjög góð vín af lægri stigum og nokkuð góð kaup. Stephan er ungur og metnaðarfullur og af vínunum sem við smökkuðum að dæma er hann greinilega hæfileikaríkur. Breytir engu þótt hann eigi ekki vínekrurnar sjálfur því það er sterk hefð fyrir því í Búrgúnd að kaupa þrúgur af bændum sem ræktaðar hafa verið eftir tilmælum þess er kaupir (svokallaður negociant business) og stígur Stephan sterkur inn í þessa hefð. Kannski með smá forskot enda með reynslu úr fjölskyldufyrirtækinu. Enduðum á nýjum fúsjón/vínbar í Beaune og Stephan fræddi mig betur um stefnu sína í víngerð sem er mjög í takt við aðra metnaðarfulla framleiðendur sem ég hitti í þessari ferð.

Gott mál.

Síðla dags mælti ég mér mót við sjálfan Mounir, eiganda Lucien Le Moine. Víngerð hans er óvenjuleg. Hann er ekki staðsettur í einhverju þorpanna eins og flestir framleiðendur heldur í miðri Beaune. Lucien Le Moine er negociant fyrirtæki eins og fyrirtæki Brocards. Mounir kaupir tunnurnar fullar af víni af völdum framleiðendum en elur þær síðan sjálfur og setur á flöskur. Magnið er lítið, ein tunna eða tvær af hverri sort og er það í raun smæðin sem hefur gert Mounir kleyft að kaupa yfir höfuð vín af helstu vínekrum svæðisins – og það eingöngu 1er og Grand Cru.

Takk fyrir.

Í einni tunnu eru um 300 vínflöskur sem er ekki mikið fyrir eina tegund af víni. Og Mounir gerir 52 tegundir héðan og þaðan af Cote d’Or svæðinu, allar í svona litlum magni fyrir utan Bourgogne rautt og Bourgogne hvítt sem hann framleiðir aðeins meira af en þau tvö vín eru mun betri en óbreytt „bourgogne“ eru almennt því megnið sem fer í þessi vín er raun village og 1er cru.

Þá hófst hin ógleymanlega vínsmökkun.

Mounir leiddi mig í gegnum hverja tunnuna af fætur annarri, allt frá Chassagne Montrachet Les Grandes Ruchottes til Corton Charlemange og frá Pommard Les Grands Epenots til Richebourg. Allt saman 2006 árgangur. Tók ekki nema um hálftíma að snarast í gegnum 20 vín með tilheyrandi, lifandi lýsingum Mounirs sem voru ýmist „dýrslegt“, „kvenlegt“ og allt þar á milli og tilheyrandi misgáfulegum kommentum og hummi frá bloggaraanum sem aldrei hefur fengið eins ítarlega og skemmtilega yfirferð á eins mörgum, góðum vínum – fyrr eða síðar.

Og hananú.

Það sem gerði þessa vínsmökkun enn áhugaverðari er að ég vissi ekki hvar ég hafði vínin frá Lucien Le Moine fullkomnlega þótt tilfinning og fyrri smakkanir lofuðu góðu. Hann hefur verið að fá frábæra dóma í pressunni, ekki síst þeirri bandarísku en líka þeirri bresku þótt einn krítíker hafði lýst frati á hann og það enginn annar en Búrgúndarsérfræðingurinn Clive Coates (sem, merkilegt nokk, lýsir tvo aðra framleiðendur – Grivot og Moreau – sem við flytjum líka inn, sem tvo af 10 bestu í héraðinu). Clive hefr örugglega ekki kíkt á nýjstu árganga Lucien le Moine. Hér eru engir eikaðir kraftaboltar á ferðinni eða nútímaleg tískuvín heldur einstaklega fáguð og týpísk vín eins og þau sem bloggarinn sækist eftir frá hinu eina og sanna Búrgúndarhéraði. Mounir lýsti sjálfur yfir ánægju með 2006 árganginn því hann er aðgengilegur ungur en er jafnframt til geymslu sem að hans mati eru fýsilegri árgangar heldur en þeir sem vilja láta bíða, og bíða eftir sér.

Mounir á skemmtilegan feril að baki. Starfaði hjá munkum í Beaune við vínrækt áður en hann stofnaði fyrirtækið og notfærði sér síðan þau góðu sambönd til þess að vingast við og kaupa vín, til eigin framleiðslu, af framleiðendum í héraðinu. Hann aðhyllist náttúrulega víngerð, þyngdarlögmálsvíngerð, í raun gerir vínin eins og þau voru gerð fyrir 50 árum. Hann vill enga öfga á neinu sviði, uppskeran er t.d. ekki öfga-lág heldur í kringum 40hl per hektara. Eikartunnur eru sérsmíðaðar og framleiddar í eikarlundi sem hann á sjálfur.

Kvöldmatur.

Ég var svo upprifinn af þessari reynslu hjá Lucien Le Moine að ég ákvað að hálda áfram á sömu braut á einhverju af betri veitingahúsum Beaune og fyrir valinu varð Bernard-Loiseau sem er nýr staður í eigu samnefnds Michelin staðar (3 stjörnur) ekki langt frá borginni. Svona hálfgert Michelin útíbú og nokkuð ódýrara en frumgerðin. Það sem er merkilegt við þennað stað er að allur vínlistinn er til í glasi, nánar tiltekið er búið að setja allar tegundir af vínlistanum í Enomatic vélar sem spýta svo út úr sér tilheyrandi skammti eða hálfskammti.  Og þetta voru bara ansi hreint góð vín. Þarna sá bloggarinn sér leik á borði og pantaði Vosne-Romanée 1er Cru 2004 frá Romanée Conti en svo dýrt glas hafði hann aldrei verslað áður – 45 evrur fyrir glasið – aðallega til að geta sagst hafað drukkið Romanee Conte, og jú – vínið var ansi hreint gott. Frekar aumt samt að sötra drykkinn úr of litlu glasi (það er bara ein stærð af glösum á staðnum). Maturinn var til mikilliar fyrirmyndar á þessum stað en bloggarinn fékk samt næstum hjartaáfall af risastórum skammti af fois gras og svo sterkum ostum að á tímabili vissi hann ekki hver hann var eða hvað hann hét. Tomatsúpan í forrétt var ljómandi og dúfan var virkilega góð. Í lokin eitt stk. risavaxið soufflé og bloggarinn rúllaði saddur heim á hótel.

Smelltu hér til að skoða myndir úr ferðinni á flickr

Smelltu hér til að lesa fleiri blogg færslur úr ferðinni

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, ferðalög, frakkland, grivot, hótel, lucien le moine, veitingastaðir

Frakklandsferð — Betri morgunmatur en kvöldmatur

.

30.10.2007

Vaknað snemma til að hitta Moreau feðga kl. 8.00 því þeir áttu báðir erindi annars staðar þennan sama morgun. Sem reyndar hentaði mér vel því ég átti langa keyrslu fyrir höndum.

En fyrst… morgunmatur.

Morgunmatur á svona ferðalögum er kapítuli út af fyrir sig. Þótt bloggarinn gefi sér sjaldnast tíma fyrir svoleiðis lúxus hér heima þá er góður rólegheitamorgunmatur nauðsynlegur í byrjun góðs dags á flakkinu. Það þarf ekki að vera flókið en baguette, croissant, sultur, smjör, hunang, kaffi og safi eða vatn eru vanalega á matseðlinum (bloggarinn lætur kjöt, egg, grauta og slíkt yfirleitt eiga sig). Og aðeins meira kaffi.

Morgunmaturinn á Hostellerie des Clos þennan morgun samanstóð einmitt af þessum elementum en þau voru bara SVO góð. Allt saman einfalt en það var heimalögunin sem gerði hann svo ómótstæðilega góðan. Enda kannski ekki við öðru að búast þar sem er Michelin stjörnu veitingastaður. Sultur og hunang af bestu sort, greip- og appelsínusafarnir nýkreistir og svo framvegis. Bloggarinn var næstum búinn að framlengja dvöl sína á hótelinu bara til þess að geta borðað þar meiri morgunmat.

En þá var rúllað út á götu og inn í bíl og ekið stað til Domaine Christian Moreau við Framleiðendagötuna í Chablis sem vísar manni út úr bænum, beint inn í Grand Cru vínekrurnar sem gnæfa í breiðri hlíð yfir bænum. Þar tóku á móti mér Moreau-feðgarnir, Christian og Fabien, og kom það í hlut þess síðarnefnda að sýna mér víngerðina og fara yfir framleiðsluferlið enda stýrir hann því dag en ekki faðir hans.

Í Chablis eru eikartunnur rökræddar. Þ.e.a..s hvort nota eigi þær yfir höfuð við gerð Chablis hvítvínanna og þá hversu mikið. Fabien fer hinn gullna meðalveg, notað eikartunnur að hluta en setur meirihluta vínsins í tanka. Áhugavert þótti mér þegar hann lýsti eikartunnunum sínum (þeir kaupa 10 nýjar á ári fyrir um 500E stykkið) eftir að ég hafði spurt hvers vegna eikin væri lítið áberandi í vínunum. Hann sagði að þér létu rista eikartunnurnar lengi en á vægum hita sem gæfi þeim þessar eftirsóknarverðu niðurstöður. Við viljum nefnilega ekki „eikuð“ Chablis vín, það er nóg af þeim annars staðar.

Eftir að hafa kvatt feðgana rölti ég um Grand Cru vínekrurnar, tók myndir og spókaði mig um í haustblíðunni. Fátt getur gefið manni betri tilfinningu fyrir svæði og víni þess eins og að standa í miðjum vínekrum og horfa yfir bæinn. Nema þá kannski að hafa glass í annarri hönd og flösku í hinni, en það var óviðeigandi á þessari stundu.

Brunað til Beaune.

Hótelið í Beaune var bókað með aðgengi í huga, þ.e.a.s. að hægt væri að leggja bílnum án þess að stofna mannslífum í hættu og þar á meðal mínu eigin en samt þannig að hægt væri að labba í miðbæinn. Hótelið sem uppfyllti þessi skilyrði og á fínu verði var Hotel Grillon í um 1km göngufjarlægð frá miðbæ Beaune, þungamiðju helsta vínræktarsvæðis Búrgúndar, Cote d’Or. Prýðilegt fjölskylduhótel.

Næsta vínfund átti ég við Étienne Grivot, eiganda og víngerðarmann Domaine Jean Grivot. Vínframleiðandi sá á það sameiginlegt með Domaine Christian Moreau að vera á lista Búrgúndarsérfræðingsins Clive Coates yfir 10 bestu vínframleiðendur héraðsins. Domaine Jean Grivot er í bænum Vosne-Romanée sem er í svona 20 mínútna keyrslu norður af Beaune, í áttina til og aðeins spölkorn frá sinnepsborginni Dijon.

Ég var á undan áætlun og naut þess að rölta um Vosne-Romanée þorpið og ekki síst vínekrurnar. Domaine Jean Grivot fann ég síðan fljótlega á einni af aðalgötum gamla þorpsins, við rætur vínekranna, með tvo þekkta vínframleiðendur sér við hlið, Anne Gros og Henri Jayer. Hér búa stórlaxarnir, m.a. Leroy og Romanée Conte.

Þegar ég mætti var einu smakkinu að ljúka. Þessi tími í Búrgúnd er tími heimsóknanna þar sem vínkaupmenn og blaðamenn koma til að smakka, m.a. höfðu Clive Coates og Allan Meadows stoppað við nýlega. Síðan fékk ég rúnt með hinum viðkunnalega Étienne um kjallarann. Étienne gaf mér að smakka 6 rauðvín af 2006 árgangi úr tunnu og 6 rauðvín af 2005 úr flösku, allt frá Nuits-St-Georges til hins magnaða Richebourg. Hann var sammála þeim almenna rómi að 2005 væri framúrskarandi ár og betra en 2006. 2006 fannst mér hins vegar gefa 2005 vínunum lítið eftir, sérstaklega Richebourg 2006. Sterkan hússtíl má finna í öllum vínunum frá Grivot, fallegur litur mikil jörð koma upp í hugann.

Áður en ég kvaddi svo hjónin Etienne og Marielle og þakkaði fyrir heimsóknina og fallega bók sem þau gáfu mér, ræddum við um að auka skammtinn fyrir Vín og mat þegar 2006 árgangurinn verður settur á markað. Við fáum nefnilega bara tvo kassa af 2005, takk fyrir.

Brunað til Beaune II.

Þá var ekið niður á hótel og rölt á vínbarinn Bistrot Bourguignon. Mér var bent á hann til að smakka góð vín en svo reyndist úrvalið í glasi ekki svo gott og glösin tíkaleg þótt vínlistinn í heild sinni hafi verið flottur. Ég sé mig þó ekki spandera í dýrt vín á stað sem þessum, frekar panta ég bjór. Ég smakkaði þó eitt glas af hvítu og eitt af rauðu með og var hvítvínið ágætt en rauðvínið slappt. Matur sæmilegur. Ég velti því samt fyrir mér af hverju það séu ekki fleiri vínbarir í svona mekka vínsins sem Beaune er, þar sem hægt er að panta toppvín í glasi í notalegu umhverfi. Það verður þó að segjast að þótt bloggarinn sé ágætur skal ég glaður endurmeta kosti Bistrot Bourguignon í góðum félagsskap.

Smelltu hér til að skoða myndir úr Frakklandsferðinni á flickr

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, ferðalög, frakkland, grivot, veitingastaðir

Frakklandsferð — Týndur í París (næstum)

.

29.10.2007

Aldís fékk flensu og fluginu seinkaði um 6 tíma þar til Bryndís kom og bjargaði málunum og skilaði okkur á París Charles de Gaulle 18.00. Þá var náð í Hertz bílinn og skundað út í myrkrið og rigninguna. Of seinn, lélegt skyggni og hraðbrautarflækja Parísar ekki til að einfalda málin. Þá var bara að draga djúpt andann og treysta á örlögin.

Allt er gott sem endar vel.

Christian Moreau beið eftir mér á hótelinu í Chablis. Við ætluðum fyrst að hittast 17.00, svo 20.00 og síðan hringdi ég klökkur til að gera honum grein fyrir því að ég næði aldrei fyrr en 21.30. Við ætluðum nefnilega að borða saman – skilurðu? Hann reyndist hins vegar hinn rólegasti. Ég henti töskum upp á herbergi og kastaðist aftur niður í lobbí á mettíma en svo heppilega vildi til að veitingastaður kvöldsins var einmitt á hótelinu. Hótel Hostellierie des Clos er dæmigert sveitahótel og kostar ekki mikið en fyrirtak, það litla sem ég sá af því, og Michelin veitingastaðurinn var mjög notalegur, óþvingaður en elegant.

Christian er hress karl, kominn langleiðina að sjötugu myndi ég giska, og talar góða ensku. Hann sagði mér frá sögu fyrirtækisins, hvernig fjölskylda hans væri aftur búin að ná stjórn á vínekrum sínum eftir að hafa leigt þær stóru fyrirtæki (sem kallaðist einfaldlega Moreau en tilheyrði utanaðkomandi risafyrirtæki) og hefði síðan 2002 framleitt vín undir eigin merki, Domaine Christian Moreau Pere et Fils. Faðir og sonur (sjá mynd).

Við supum á Chablis vínum hans, spjölluðum og snörluðum okkar á dásamlegum mat — hiklaust þeim besta sem ég fékk í þessari ferð, m.a. fois gras, humar og ekki síðri ferskum hörpuskelfiski (hrár sýndist mér) með nýtíndum Búrgúndar-trufflum. Trufflað!

Christian gerði mér grein fyrir því að nú væru vín hans seld til um 30 landa (fyrirtækið flytur nánast 100% framleiðslunnar út fyrir Frakkland sem er sjaldgæft) og hefði Ísland verið númer 28 í röðinni, og að nú væri bókinni lokað þar sem ekki væri til meira vín fyrir fleiri. Aumingja Eistar.

En við rétt sluppum — guði sé lof.

Jæja, þá var kúrt sig og dreymt um vínlendur morgundagsins.

Smelltu til að skoða allar myndirnar úr ferðinni á flickr.com 

3 athugasemdir

Filed under búrgúnd, christian moreau, ferðalög, frakkland, hótel, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Vínsýningin hefst

.

Dagur 4, 29. mars.

Vinitaly vínsýningin stendur í 5 daga, frá 9.00 til 19.00. Það þýðir 50 tíma af léttvínsþambi ef maður ætlar að nýta hverja mínútu. Ef einhver kynni að vera að velta því fyrir sér þá nennti ég nú ekki að hanga þarna allan tímann og … ég spýti hverjum dropa. Annars endist maður ekki mjög lengi.

Upp úr 9.00 var rölt af stað frá hóteli. Minni bloggarans var einhvern veginn á þá veg að það væri ekkert mál að rölta frá miðbænum yfir á sýningarsvæðið og skundaði af stað með ófríska eiginkonuna. Við rötuðum alveg en röltið var amk. 30 mínútur í gegnum svæði sem seint verður talið með hreinni og fallegri hlutum borgarinnar. Leigubílar notaðir hér eftir.

10.00 vorum við mætt á básinn hjá Chianti Classico framleiðandanum Castello di Querceto. Okkur eru minnistæðar þær hlýju móttökur sem við fengum hjá fjölskyldunni á heimili þeirra í Toskana fyrir tveimur árum (lestu bloggið um heimsóknina) og því var ráð að hefja sýninguna hjá þeim. Hjónin Alessandro og Antonietta voru í góðu formi og leyfðu okkur að smakka á nýju árgöngunum. Við fengum að heyra að 2006 árgangur væri einn sá besti fyrr og síðar, orð sem áttu eftir að enduróma á nánast öllum básum sem við heimsóttum þar eftir. 2006 rauðvínin eru reyndar yfirleitt ekki komin á markaðinn ennþá en þau hvítu eru það hins vegar í flestum tilfellum.

11.00 var skundað á splúnkunýjan bás Umani Ronchi víngerðarinnar en eins og hjá Castello di Querceto höfðum við átt ansi fína dvöl hjá Umani Ronchi á Ítalíuferðalagi okkar fyrir tveimur árum (lestu bloggið). Gianpiero og Laura tóku á móti okkur en þau sinna markaðsmálum fyrir fyrirtækið, Umani Ronchi er nefnilega stærra fyrirtæki en svo að fjölskyldan geti sinnt öllum helstu störfum. Við smökkuðum 2005 og 2006 af Casal di Serra og þótt mér ánægjulegt hvað 2006 lofar góðu, betri en 2005 sem nú fæst í Vínbúðunum. Nýi árgangurinn er framleiddur með aðeins öðrum áherslum en áður og verður því líst betur síðar. Við smökkuðum ýmis vín, m.a. nýja línu frá Abruzzo héraði sem koma frá nýrri landareign fyrirtækisins og einnig glæsilegt Cumaro sem mun snúa aftur í hillur Vínbúðanna innan skamms.

Gianpiero leyfði okkur líka að smakka af nýrri matarlínu sem unnin er í samvinnu við einhvern Michelin stjörnu kokk úr héraðinu. Þetta er niðursoðinn fiskur af ýmsu tagi og sultur. Mjög gott en flytur maður fisk inn til Íslands?

12.00 var síðasta stopp dagsins. Fontodi er einhver rómaðasti framleiðandi í Chianti Classico. Síðar á sýningunni þegar ég heimsótti einn rómaðasta Brunello di Montalcino framleiðandann þá lyftist á honum brúnin ég sagðist flytja inn Fontodi vín og hann sagði mér að það væru góð meðmæli fyrir Vín og mat þar sem sá taldi Fontodi þann besta í Chianti Classico og vildi líkja sjálfum sér við hann og hans aðferðir.

Við smökkuðum nýja árganga þar sem annars staðar en hér eru öll vín fyrsta flokks og það var sönn ánægja að velta þeim um munninn og … spýta! Giovanni Manetti, eigandi og víngerðarmaður hjá Fontodi (hann svarar líka öllum tölvupóstum, talandi um markaðsdeildir) settist aðeins niður með okkur. Vínin hans eru lífræn en hann segir að það sé ekki beinlínis þess vegna sem þau séu eins og þau eru, þau væru líklegast alveg jafn góð þótt ekki væru þau svo lífræn því það væri landið sjálft sem byggi yfir þessum einstökum gæðum. Þeir sem hafa staðið og horft yfir vínekrur Fontodi geta vel ímyndað sér kosti þessa lands, hinnar „Gullnu hlíðar“ við bæinn Panzano (lestu bloggið um heimsókn okkar til Fontodi árið 2005).

13.00 yfirgáfum við svæðið. Rakel ætlaði heim morguninn eftir og því vildum við rölta meira um borgina og njóta hennar saman. Við kíktum á kirkjur, röltum um þröngar götur og enduðum á Teatro Romano þar sem útsýni yfir borgina var einstakt. Staðurinn er áhugaverð blanda af rómversku leikhúsi og klaustri sem var reist þar nokkru síðar. Í klaustrinu er safn með alls kyns rómverskum minjum.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á Osteria La Fontanina með Alessandro og Antoniettu, eigendum Castello di Querceto, tengdasyni þeirra og heildsala frá Mexíkó sem var með móður sína með sér. 8 réttir takk fyrir, 6 skv. matseðli (sjá matseðil) og 2 auka. Úff! Á milli rétta, og með réttum reyndar líka, fengum við að heyra af kvennaáhuga Mexíkóbúans sem lýsti því reglulega yfir að hann væri mikið karlmenni („macho“) sem væri nauðsynlegt að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Ég veit samt ekki alveg hvort móðir hans var sammála því.

Staðurinn er einstaklega skemmtilegur og svo þröngur að Alessandro gerði mikið grín að því að ameríkanar kæmust alls ekki þarna inn (og hló mikið af því sjálfur). Skraut og vínflöskur eru upp um alla veggi. Leifur á La Primavera hafði sérstaklega mælt með þessum stað og það var þess vegna skemmtileg tilviljun að okkur skildi einmitt hafa verið boðið þangað.

Fyrir utan mjög gott freyðivín, hvítvín og sætvín (I capitelli frá Anselmi) sem staðurinn mælti með þá voru dregnir fram tveir gamlir árgangar af vínum Castello di Querceto sem voru á vínlistanum, Cignale 1997 og La Corte 1997. Þau sýndu okkur hversu vel þau geta elst því þetta voru bara unglingar ennþá.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Diskóbúlla í Dólómítunum

Dagur 2, 27. mars.

7.00 á fætur.

8.00 inn í rútu.

10.00 mætt á Sellaronda skíðasvæðið í Dólómítunum. Veðrið var rjómagott, færið var fyrirtak og umhverfið óviðjafnanlegt. Ekki svo mikið af fólki og því engin bið í lyftur. Eiginlega er ekki hægt að biðja um meira þótt bloggarinn hafði ekki stigið á skíði í 15 ár. Rakel fór hins vegar í hópgöngu á snjóblöðkum þar til við hittumst í hádeginu.

13.30 matur á Rifugio Comici sem af öllum ólíklegum veitingastöðum er Miðjarðarhafs-fiskistaður í miðri skíðabrekku. Fiskurinn er hins vegar veiddur af ættingja fjölskyldunnar sem á staðinn og sóttur daglega niður á strönd svo hann sé alltaf ferskur og góður. George Clooney er víst fastagestur þarna. O jæja, staðurinn var amk. virkilega góður, þrír fiskréttir og síðan eftiréttur og drukkin með rauðvínið Pinot Nero 2005 og hvítvínið Schulthauser Pinot Bianco 2006 frá afmælisbarninu að sjálfsögðu, San Michele Appiano.

Þá var skíðað niður að rútunum með fullan maga af mat og víni og ekið af stað. Við stoppuðum til að hitta hóp gesta sem höfðu valið erfiðari skíðaleið (svo erfiða að tveir ameríkanar týndust í dágóðan tíma) og allir fengu Alpahatta merkta víngerðinni. Þarna stigum við upp í skíðalyftu, 6-8 í hverja, og hífðumst upp í 2.200 metra hæð þar sem beið okkar heitt rauðvín, meiri matur og … diskódans!

Diskóbúllan Club Moritzino er furðulegur fjallakofi sem eldar frábæran mat og spilar síðan dúndrandi danstónlist á milli rétta þar sem gestir eru hvattir til að standa upp á stólum og sleppa af sér beislinu. Það gekk eitthvað illa að fá Íslendinginn til að gefa sig allan í fjörið en á endanum var hann þó farinn að smella fingrum, – og gott ef ekki stíga nokkur úthugsuð spor. Stjórnendur San Michele Appiano víngerðarinnar fóru hins vegar hamförum á dansgólfinu og eiginlega má segja að stuðið á mannskapnum hafi verið skrambi gott.

Þegar matnum og djamminu lauk um 23.00 fóru allir í snjóbíla sem keyrðu okkur niður brekkuna að rútunum. Á miðri leið þurfti að gera neyðarstopp þar sem var farið að renna af einhverjum og allir fengu síðasta sopann af St. Valentin Pinot Nero 2004.

Að lokum hlykktust rúturnar af stað eftir svo bugðóttum vegum að manni fannst þeir fara í hringi þar til við komum á hótelið í Meranó tveimur tímum síðar.

Afmælisprógrammi var formlega lokið. Takk fyrir okkur, þetta var virkilega vel skipulagt, flott og skemmtilegt.

Það staðfestist líka að San Michele Appiano gerir einhver best gerðu vín á norðurhveli Ítalíuskagans, hin stílhreinu og tæru hvítvín með hið margverðlaunaða (13 sinnum hlotið hæstu einkunn 3 glös í Gambero Rosso)  St. Valentin Sauvignon Blanc í broddi fylkingar ásamt karaktermiklum rauðvínum, ekki síst St. Valentin Pinot Nero sem hlýtur að teljast með bestu vínum Ítalíu úr Pinot Noir þrúgunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Ljósasjóv undir berum himni

.

Dagur 1, 26. mars.

Flug  í Keflavík 7.20, millilending í Frankfurt og þaðan til Veróna 18.00.

Vinitaly vínsýningin í Veróna er stærst og elst allra vínsýninga. Ekki hissa kannski að hún skuli vera elst enda liggja allar rætur á endanum til Móður Ítalíu (og reyndar þaðan til Grikklands og Asíu en gleymum því) en að hún sé stærst kom mér á óvart þar sem ég taldi Bordeaux vera umfangsmeiri. Nóg um það.

En áður en sýningin hófst fórum við Rakel í afmæli til San Michele Appiano sem kenndur er við þorpið Appiano. Þótt ég hafi vanið mig á að nota ítalska heitið (eins og Gambero Rosso gerir) þá væri eiginlega réttara að nota þýskuna því hún virðist vera ráðandi tunga innan fyrirtækisins enda reka fyrirtækið menn með nöfn eins og Günther, Anton og Hanz.

Þeir hjá Appiano voru svo elskulegir að bjóða okkur flug og gistingu enda ekki á hverju ári sem menn verða 100 ára (þegar leið á partýið og menn urðu hressir voru þeir byrjaðir að lofa svona partýi á 5 til 10 ára fresti en ég held að kannski hafi það verið í hita leiksins…- aldrei að lofa þegar maður er í slíku stuði). Grazie mille!

Við Rakel lentum sem sagt 18.00 á Veróna flugvelli sem var skemmtilega sveitalegur miðað við gímaldið í Frankfurt, og brunuðum til Appiano á bílaleigubíl. Partýið var byrjað þegar við mættum en við komum akkúrat í forréttinn. Ekki er hægt að segja að við Rakel létum lítið fara fyrir okkur þegar við gengum inn í salinn þar sem allir voru sestir til borðs því dyrnar sem við þurftum að opna til að ganga inn voru svona 300 fermetrar að flatarmáli og Rakel í skjannahvítri kápu með 5 mánaða bumbu út í loftið og ég í skjærgrænum jakka með 34 ára gamla bumbu út í loftið.

Okkar var vísað til borðs hjá frændum okkar Norðmönnum og Finnum. Norðmenn voru ung vinaleg hjón sem við ræddum svolítið við í ferðinni og Finnar voru fremur þöglir á hinum enda borðsins. Ég hefði hvort sem er ekki heyrt neitt í þeim því tónlistin var hávær – talandi um tónlistina, hún var prýðisgóð og flutt af áhugamönnum sem allir störfuðu sem fréttamenn hjá RAI sjónvarpsstöðinni. Öllu hressari voru tékknesku fulltrúarnir sem einnig sátu við borðið, svo hressir að það þurfti reglulega að sussa á þegar þurfti að fá þögn í salinn. Anton, sem ég held að sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sat síðan á milli okkar og Tékkanna.

Kvöldið leið þannig að hver rétturinn var reiddur fram af öðrum undir vaskri stjórn Michelin-stjörnu kokks sem ég náði ekki hvað heitir og með réttinum var borið fram vín frá víngerðinni sem víngerðarmaðurinn Hanz Terzer kynnti jafnóðum. Þetta voru eðalvín öll sem eitt, allt frá hinum ljúfa Riesling Montiggl 2006 til hins heillandi Pinot Nero St. Valentin 2004, nú eða sætvínsins Comtess í endann sem var eðal. Skemmtilegt var að smakka 1998 árgang af Pinot Grigio St. Valentin sem sýndi hversu vel vínið getur þroskast, verulega áhugavert, og ekki síður skemmtilegt var að smakka sérstakt hátíðarvín úr Chardonnay, Pinot Grigio og Pinot Bianco sem er hið fyrsta þar sem þeir blanda nokkrum þrúgum saman (aðeins framleiddar um 200 flöskur). Ótrúlegt miðaða við að víngerðin gerir um 30 ólík vín en þau eru öll sem eitt úr sinni þrúgu hvert.

Áður en rúllað var upp á hótel (Hótel Steigenberger er í 30km fjarlægð í bænum Merano) vorum öllum húrrað út í garð þar sem var framið ljósasjóv á stóran húsvegg víngerðarinnar. Það var gott veður, allir voru hressir – þetta var svona létt Cinema Paradiso stemning. Og borið var fram Gewurztraminer St. Valentin 2006 undir öllu saman. Ljósasjóvið sýndi upphaf víngerðarinnar en líka stutta senu frá landi hvers fulltrúa (gestir voru nær eingöngu innflutningsaðilar um allan heim) og fengum við að sjá Flugleiðavél, gamla báta, íslenska fánann og fleira undir söng Bjarkar þegar kom að Íslandi. Skemmtilegt nokk. Einna flottast fannst mér samt þegar orginal teikningnum víngerðarinnar var varpað á húsið í réttum hlutföllum, það var kúl.

Komið á hótel á miðnætti, framundan skíðadagur í Dólómítunum.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, matur, vínsýning, vínsmökkun

Hótel KEA um páskana

.

Síðan í desember hefur Hótel KEA boðið upp á tvö rauðvín sem Vín og matur flytur inn, The Laughing Magpie frá Ástralíu og Mas Nicot frá Frakklandi.

Þannig að nú er manni óhætt að renna norður án þess að hafa áhyggjur af því að fá ekkert gott að drekka.

T.d. má drekka þessi tvö vín með sérstökum páskamatseðli sem hótelið býður upp á fram á sunnudag. Það verður líka lifandi tónlist og eitthvað fyrir börnin — smelltu hér til að skoða seðilinn og dagskránna

Betra að taka hlý föt með sér því spáin framundan er frekar köld og hvít.

2 athugasemdir

Filed under d'arenberg, ferðalög, hótel, hótel kea, mas nicot, matur

Lagt af stað á Vinitaly

.

Jæja, þá er komið að því.

Vinitaly vínsýningin í Veróna hefst á fimmtudaginn.

Við Rakel leggjum reyndar í hann eldsnemma í fyrramálið, fljúgum til Frankfurt og þaðan samdægurs til Veróna. Lending í Veróna 18.00, bílaleigubíll sóttur með hraði og síðan brunað beint í norður þar til við komum ti San Michelel Appiano, framleiðandans okkar í Alto Adige héraði, sem býður okkar í 100 ára afmælisveislu.

Afmælisveislan stendur í tvo sólahringa, á þriðjudeginum er öllum boðið á skíði og mat um kvöldið. Á miðvikudeginum keyrum við aftur til Veróna þar sem við ætlum að vera mætt um hádegi, borða og njóta borgarinnar.

Þetta er nú einu sinni borg elskendanna.

Á fimmtudeginum opnar vínsýningin en við ætlum bara að eyða þar fyrri hluta dags og leyfa okkur að skoða borgina betur eftir hádegið. Þennan morgum hittum við Fontodi, Castello di Querceto og Umani Ronchi, höfum svona klukkutíma í hvert stopp. Rakel fer á föstudagsmorgun og þá tekur við þriggja daga stím hjá mér. Ég mun aðallega heimsækja þá framleiðendur sem við flytjum þegar inn og taka m.a. stöðuna á nýju árgöngunum en hef líka mælt mér mót við nokkra aðra spennandi framleiðendur.

Þetta verður smakk og meira smakk. Öllum vínum verður hins vegar spýtt í dall, annars brennur maður út mjög fljótt — ég lærði það af reynslunni.

Vonandi get ég eitthvað bloggað á meðan á ferðalaginu stendur en ég ætla síðan að fjalla betur ferðina þegar ég er kominn aftur heim.

Arrivederci!

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning

Flugleiðir velja Vín og mat á Business Class vínlistann

Ég er nokkuð ánægður akkúrat núna. Svona næstum eins ánægður og krakkarnir í Langholtsskóla sem unnu Skrekk í gær.

Inn um lúguna kom bréf frá Flugleiðum með pöntun fyrir Business Class vínlistann árið 2007.

Það eru 8 vín á vínlistanum, fjögur fyrir Evrópu Business Class (187ml flöskur) og fjögur fyrir Bandaríkja Business Class (750ml flöskur).

Af 8 eigum við 3 sem við erum eiginlega mjög ánægð með.

Þetta er þriðja árið sem við störfum með Flugleiðum. Frá stofnum Víns og matar hafa vínin okkar verið á Business Class vínlistum Flugleiða, 2007 verður fjórða árið í röð.

Hvernig fer valið fram? Birgjar senda 2-3 sýnishorn af hverju víni sem er síðan smakkað af nokkrum helstu vínsérfræðingum landsins og stóru vínteymi af hinum og þessum að auki til að gefa sem breiðasta mynd af vínunum sem eru smökkuð.

Og að vínunum þremur. Fyrst ber að nefna Pinot Noir rauðvín (750ml Business Class USA) frá San Michele Appiano, okkar framleiðanda í Alto Adige á norðurhjara Ítalíu, síðan Grecante hvítvín (750ml Business Class USA) frá Arnaldo Caprai á Mið-Ítalíu og loks sérsmíðuð hvítvínsbland (187ml Business Class Evrópa) fyrir Vín og mat frá nýjum framleiðanda, Sandhofer í Austurríki.

Þess má geta að báðir ítölsku framleiðendurnir hafa verið valdir framleiðendur ársins hjá Gambero Rosso/Slow Food.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, caprai, ferðalög, flug, fréttir, gambero rosso, hvítvín, rauðvín, sandhofer, vín

Myndir frá Per og Britt: Chateau Mourgues du Gres og Mas de Gourgonnier

Ég hitti sænsku hjónin Per og Britt Karlsson á leiðina á Vinisud vínsýninguna í Montpellier snemma á þessu ári. Við vorum að reyna að finna rútuna úr miðbænum til sýningarsvæðisins, þau kunnu frönsku og ég hékk með þeim á meðan við rundum út úr strætóleiðum til að taka í stað rútunnar. Á leiðinni í strætó spjölluðum við heilmikið saman enda reyndumst við vera með marga af sömu framleiðendunum á heimsóknarlistanum fyrir vínsýninguna.

Per og Britt skrifa um vín, fara í vínferðir og eru þekkt í Svíþjóð á þeim vettvangi.

Á vefsíðunni þeirra rakst ég á þessar skemmtilegu myndir frá einum af okkar framleiðendum, Chateau Mourgues du Gres. Ennþá ítarlegri myndalista af Mourgues du Gres er að  finna hér (ath. birtist á fjórum síðum).

Einnig rakst á nokkrar myndir (ath. birtist á tveimur síðum) frá Mas de Gourgonnier.

Ch. Mourgues du Gres er í Rhone héraði en Mas de Gourgonnier í nágrannahéraðinu Provence. Vínstíllinn (rauðvín) hjá þessum tveimur er nokkuð ólíkur þar sem sá fyrrnefndi gerir mjög ávaxtarík vín en sá síðarnefndi gerir jarðbundnari vín og þurrari.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, mas de gourgonnier, mourgues du gres, myndir, vínsýning

Flugvellir í Evrópu aflétta banni á vökva í handfarangri

Undanfarið hefur verið bannað að taka með sér vökva í handfarangri um borð í flugvélar. Nú er verið að aflétta því banni svo framarlega sem ílátin séu ekki stærri en 100ml (barnamatur og lyf undanskilin) þar sem menn telja að fljótandi sprengiefni í svo smáum einingum geti ekki grandað flugvél á lofti.

Nú verða öll vín í veröldinni framvegis framleidd í 100ml flöskum. Orðtakið „Wine by the glass“ fær þannig alveg nýja merkingu.

Nei nei, bara að grínast. En — það verður ekki lengur hægt að kaupa vín hjá vínbændum erlendis eða í skemmtilegum vínbúðum og taka með sér um borð í vélarnir nema þá að setja góssið í ferðatöskurnar eða í trausta kassa sem hægt er að setja í almennar farangursgeymslur.

100ml hámarkið á aðeins við um vökvaílát er viðkomandi tekur með sér að heiman. Það verður ennþá hægt að kaupa stærri einingar á flugvöllunum sjálfum eftir að búið er að fara í gegnum skoðunarhliðin og taka með sér um borð í vélarnar. Það mun eflaust auka talsvert söluna í öllu er viðkemur vökva (vatn, vín, ilmvötn, tannkrem o.s.frv.) á fríhafnarsvæðinu.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, flug, fréttir

Vinitaly vínsýninginn – hér kem ég

Þá er ég búinn að ganga frá flugmiðum og hóteli í Veróna um mánaðarmótin mars/apríl.

Flugmiðarnir höfðust með smá púsli enda engin bein og greið leið niður á smáflugvöllinn í Veróna.

Hótelið var erfiðara. Vínsýningin er vel sótt þannig að öll herbergi fyllast að því er virðist með árs fyrirvara. Ég sendi út um 10 fyrirspurnir í sumar auk þess að skoða heilmargar leitarvélar þangað til ég fékk loks eitt jákvætt svar sem ég tók fegins hendi. Skilyrðið mitt var að vera í miðborginni en þaðan er sýningarsvæðið í göngufjarlægð. Reyndar fékk ég boð um gistingu hjá framleiðanda á svæðinu sem á geysilega flottan kastala en þar sem ég hef ekki áhuga á vínum þeirra í bili amk. fannst mér eitthvað ómögulegt við það að sníkja þar gistingu.

Vinitaly vínsýninginer sú stærsta á ítalíu og kæmi mér ekki á óvart að hún væri sú stærsta í heimi á eftir Bordeaux vínsýningunni. Þarna koma saman nánast allir framleiðendur Ítalíu, vínkaupmenn, veitingamenn, blaðamenn og áhugafólk. Ég er ekki síst spenntur fyrir boðum á lokaðar smakkanir, matarboðum og slíku sem gefur svona ferð ennþá meira gildi.

Ég hef ekki farið nýlega, síðast gekk það ekki einfaldlega vegna þess að ég fann hvorki hótel né flug. Árið þar á undan fórum við Rakel frekar í almennilega heimsókn til framleiðandanna okkar og ferð á vínsýninguna því að mestu óþörf.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, vín, vínsýning

Hótel í Helsinki: Klaus K

Rakel var á fundi og ráðstefnu í Helsinki og ég fékk að koma með.

Helsinki er vinaleg borg. Manni líður eins og heima hjá sér. Helsinki er dálítið eins og stór Reykjavík undir smávegis Eystrasaltsáhrifum — fyrir utan tungumálið.

Við fundum hótel á netinu sem lofaði góðu. Klaus K er nýuppgert hótel, hefur verið opið aðeins síðan í nóvember á síðasta ári. Hótelið er í Design Hotels hópnum sem er safn hótela er leggja mikið upp úr nútímalegri og flottri hönnun og þægindum. 101 Hótel er eina íslenska hótelið í hópnum. Klaus K var á þessu ári valið á Hot List hjá ferðatímaritinu Conde Nast sem inniheldur 60 topp hótel og kom það okkur því á óvart hversu ódýr herbergin voru miðað við það. 130E fyrir Envy Plus sem er eitt af stærri herbergjum hótelsins — með morgunverði og útsýni út á götu. Á hótelinu eru þrír girnilegir veitingastaðir hver með sínu nefinu; lifandi ítalskur staður í andyrinu, dimmur hamborgara- og pizzustaður með finnsku kvikmyndaþema og finnskur gæðaveitingastaður með besta vínlistann. Hvíti barinn var hins vegar flottastur og er hann andlitið af næturklúbbi í kjallara hótelsins. Kokteilarnir voru girnilegir. Þjónustan á veitingastöðunum sem og öllu hótelinu var vinaleg og fyrsta flokks án nokkurs yfirlætis. Geysilega vel heppnað hótel að okkar mati.

Mikið af góðum veitingastöðum í Helsinki voru í sumarfríi í júlí en við fundum góðan ítalskan stað, Sasso, við hafnarmarkaðinn. Sasso er nútímalegur staður, vínlistinn var nokkuð góður og maturinn sömuleiðis. Þótt hann fari ekki rakleiðis í eftirminnilega flokkinn mælum við með þessum stað. Af veitingastöðunum á Klaus K prófuðum við aðeins Filmitahti sem er svona finnsk útgáfa af Planet Hollywood. Hamborgari, salat og sjeik var allt gott fyrir skyndibitastað. Staðurinn var mjög ólíkur hönnun hótelsins og það sama má segja um ítalska staðinn sem var ekki nútímalegur eins og hótelið (eða Sasso) heldur eftirmynd lítils Ristorante eða Trattoria á ítalíu.

Nýlistasafnið verð ég að minnast á. Þetta er í annað sinn sem ég kem þangað inn og var sýningin nú sérstaklega flott (skoðaðu líka þessa auglýsingu). Hvert verkið af öðru (mörg verk tóku mikið pláss, jafnvel heilan sal) heillaði okkur upp úr skónum, hvert á sinn hátt. Enginn sem fer til Helsinki má missa af þessu safni en húsið er eitt og sér þess virði að skoða.

Ekki voru gerðir merkir vínfundir í þessari ferð en þó fórum við í Alko sem er finnska vínmónópólían. Ætli Alko þýði „Alkinn“? Það kæmi mér a.m.k. ekki á óvart miðað við staflana af forvarnarlesefni í anddyri vínbúðanna finnsku. Í Alkanum keypti ég hvítvínið Greco frá framleiðanda sem ég skoðaði fyrir löngu og heitir Di Majo Norante. Hann gerir góð kaup í Molise héraðinu syðst á Ítalíu og var þetta hvítvín all skemmtilegt verð ég segja. Keypti líka freyðivín frá Ferrari í Trentino héraði sem er einn fremsti freyðivínsframleiðandi Ítalíu. Freyðivínið var sömuleiðis skemmtilegt.

Smelltu hér til að sjá myndir af Klaus K, Sasso og nokkrar aðrar velvaldar frá Helsinki á flickr.com

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, helsinki, veitingastaðir

Spilagaldrar á Llar de Foc

Jæja, þá erum við komin úr fríi. Skruppum til Salou sem er strandbær 100 km. suður af Barcelona. Stórfjölskyldan fór öll sömul; mamma, systur mínar tvær, menn og börn og nokkrir góðir meðlimir til viðbótar.

Salou er dæmigerður ferðamannastrandbær og almennt lítið spennandi hvað varðar matargerð en þó fundum við marga fína staði. Sérstaklega mæli ég með fiskistöðunum við ströndina þar sem hægt er að fá skelfisk af ýmsu tagi, smokkfisk, sardínur og fleira. Svo var einn all góður á hótelinu okkar Occidental Blau Mar sem var ekki í boði hjá Terranova heldur leigðum við það sjálf og reyndist það prýðisgott, eina hótelið á aðalsvæðinu sem er alveg við ströndina.

Besti veitingastaðurinn var La Llar de Foc á Via Roma (hliðargata af „Laugaveginum“) sem var sá eini með góðan vínlista. Vínlistinn var reyndar frábær. Fyrst röltum við þarna við án þess að borða en keyptum flösku af Mauro 1998 og drukkum úti á svölum uppi á herbergi. Mjög gott vín úr Tempranillo þrúgunni að mestu.

Nokkrum dögum síðar fórum við þangað til að borða og drekka.  Þá kíktum við niður í vínkjallarann þar sem stoltur eigandinn sýndi okkur einhver fágætustu vín Spánar. Þarna voru 100 ára gamlar gersemar m.a. í bland við fjölda árganga af rómaðasta víni landsins, Vega Sicilia. Hégómi undirritaðs fékk svo sitt nauðsynlega kitl þegar hann benti á vínin okkar frá Artadi og kallaði þau bestu vínin í Rioja. Ég stillti mig samt og lét vera að lýsa því yfir að ég flytti þau til Íslands enda eiginkonurnar farnar að senda okkur sms um að forréttirnir væru farnir að kólna. Ég bað um að fá flösku af Numanthia frá Toro vínhéraðinu (uppáhaldsvín Roberts Parker og fleiri) en hann vildi ekki láta okkur hafa hana því honum fannst vínið of ungt. Við völdum þá magnum flösku af Clos Mogador 1995 sem kemur frá Priorat vínhéraðinu u.þ.b. 30 kílómetra vestur af Salou. Ilmurinn af víninu var eftirminnilegur með áberandi steinefnum og vínið allt hið besta.

Matur var góður, steikurnar í sérflokki. Ég fékk mér entrecote af uxa (þ.e.a.s ekki ungnauti) „rare“ sem var dekksta og bragðmesta nautakjöt sem ég hef smakkað. Það var ofsalega mjúkt og gott þótt ég verði að viðurkenna að svona þroskað nautakjöti er svona alveg um það bil við það að fara út af sporinu. Almenn ánægja ríkti við borðið um gæði matarins og feykilega góðir spilagaldrar eigandans vöktu mikla lukku. Í lokin var drukkið styrkt vín Pedro Ximénez frá Malaga sem er ólíkt sérrí (jerez) fyrir það hversu sætt það er. Það var feitt og sætt með áberandi sveskju. Ég keypti flösku til að taka með til landsins. Við tókum hana upp í gær og fengum vægt sykursjokk, stakk henni inn í ísskáp og ætla að prófa hana kælda næst.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, ferðalög, hótel, rioja, spánn, veitingastaðir

Ítalíuheimsókn – Dagur VIb

Piemonte – Luciano Sandrone

Rúnturinn til Sandrone frá Amedei var lengri en ég gerði ráð fyrir og mættum við ekki fyrr en rétt undir 17.00 þrátt fyrir að hafa mælt okkur mót kl. 15.00. Það gerði þó ekkert til, Luciano og Barbara dóttir hans voru pollróleg yfir þessu.

Luciano Sandrone er stórgerður maður sem gerir fínleg vín. Barolo vínum er stundum líkt við Búrgúndí en mörg þeirra vína sem ég hef smakkað af nýja skólanum frá svæðinu eru þó mun kröftugri og karlmannlegri – væri frekar hægt að líkja þeim við Bordeaux. Barolo vínin frá Sandrone eru þó hins vegar hiklaust „Búrgúndí“… hann segir það sjálfur.

Fjölskyldan býr í sama húsi og víngerðin. Þetta er nýtt og afar glæsilegt hús sem er ekki beinlínis týpískt ítalskt heldur minnti mig einhverra hluta vegna frekar á Kaliforníuvínhús, nútímalegt en umfram allt fúnksjónalt… kannski áhrif frá S-Ítalíu eða Spáni.

Allavegana… þarna sameinast virðing fyrir hefðunum og nútímaleg hugsun sem hvergi annars staðar. Allt ferlið fer eftir þyngdarlögmálinu þ.e. þrúgunum er keyrt efst í húsið þar sem þær renna ofaní í gerjunartanka og þaðan á hæðina fyrir neðan í tunnurnar. Nýjasti hluti hússins var enn í byggingu og sáum við hvernig hvert herbergi er byggt innan í öðru stærra herbergi svo að bilið þar á milli veiti 100% jafna kælingu, eins konar hús í húsi. Frönsku barrique eikartunnurnar sem Sandrone notar eru svokallaðar No Toast þ.e.a.s. þær hafa ekkert verið ristaðar svo að vínin verði aldrei kaffærð í eik. Hann var eini framleiðandinn sem við hittum á þessu ferðalagi sem notar slíkar tunnur eingöngu… allir aðrir voru með Low Toast eða Medium Toast.

Síðan smökkuðum við með Luciano gegnum línuna og kvöddum með leiðbeiningar um góðan veitingastað, Le Torri í kastalaþorpinu Castiglione Falletto:

Antipasto:
(Arnar) La carne cruda e la salsiccia di Bra
(Rakel) Le verdure di mezza primavera ripiene e salsa al basilica

Primo Piatto:
(Arnar) I gnocchi di patate al castelmagno d’Alpeggio
(Rakel) I tajarin al ragú di salsiccia di Bra

Vín:
hvítvínið Langhe Bianco 2001 frá Scavino sem var einstaklega gott og ferskt með góða mýkt og fyllingu, bragðmikið með keim af smjöri, ananas, salvíu og kiwi m.a.

Maturinn var góður en ég verð að segja að hráa kjötið (cruda) sem ég fékk í forrétt var ekkert í líkingu við þunnt og elegant nautacarpaccióið á La Primavera heldur stærðar kjöthrúga sem leit út eins og búið væri að hvolfa úr nautahakkskjötpakka á disk og … thats it ! Ég var eins og tryllt ljón að reyna að koma öllum þessu hráa kjöti oní mig. Þegar við báðum um reikninginn var okkur tjáð til óvæntrar ánægju að Luciano Sandrone hefði boðið okkur þessa máltíð…. af hverju hafði ég ekki pantað Barolo ?! urrr….

Hótelið var síðan lítið en stórglæsilegt fjölskylduhótel Casa Pavesi (Heimili Pavesi fjölskyldunnar) í kastalaþorpinu Grinzane Cavour en því miður gátum við lítið notið þægindanna og verandarinnar með útsýninu yfir Barolosveitirnar því við þurftum að vera í Alto Adige kl. 10.00 morguninn eftir… 5 klukkutíma í norðaustur.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, ítalía, ferðalög, hótel, luciano sandrone, matur, veitingastaðir

Ítalíuheimsókn – Dagur V

Toskana – Castello Di Querceto

Við höfðum komið fyrir nokkrum árum til Castello di Querceto og mundi ég því nokkurn veginn hvar hann var staðsettur, efst í hlíðunum austur af bænum Greve, umkringdur vínekrum og skóglendi. Nokkrum kílómetrum sunnar er Monte del Chianti, hæsti tindur Chianti Classico svæðisins í 950m hæð.

Í kastalanum búa eigendurnir Alessandro og Antonietta. Þau bera með sér öryggi og yfirvegun þeirra sem eiga ættir sínar að rekja meðal heldra fólks aftur í aldir en umfram allt óþvinguð, gestrisin og hlýleg. Þau voru eins og gamlir vinir þegar við kvöddum daginn eftir.

Þegar við komum ríkti sorg á bænum – refur hafði étið tvo kvenkyns páfugla og karlarnir tveir reikuðu vælandi kringum kastalann. Þessir tignarlegu fuglar pössuðu vel við umhverfið.

Hápunktur heimsóknarinnar, hugsanlega allrar ferðarinnar, var hádegisverður í kastalanum með hjónunum, uppkomnum börnum og mökum og tvennum öðrum hjónum sem eru góðvinir fjölskyldunar. Innan í litlum en heillandi kastalanum fengum við antipasti (crostini ýmis konar og ólífur) ásamt freyðivíni hússins áður en okkur var vísað til borðs. Félagsskapurinn var svo góður og notalegur að manni leið vel þrátt fyrir að hafa engan þeirra hitt áður. Maturinn var síðan framreiddur; aspasmús í forrétt, lasagna, villisvín, tiramisú og heimalagað konfekt með kaffinu. Tvær stúlkur starfa í eldhúsinu og maturinn var frábær. Með þessu voru drukkin einnarekrustórvínin Il Picchio Riserva, Il Querciolaia og Il Sole di Alessandro. Þau heilluðu mig upp úr skónum og get ég ekki beðið eftir að flytja þau inn. Í lokin komu Vin Santo, Brandy og tvær tegundir af grappa. Mér hefur sjaldan liðið eins vel í eins góðum félagsskap í eins fallegu umhverfi.

Síðan var rölt um kastalanna, vínekrur og víngerð – rætt og rabbað.

En veislan var ekki á enda. Skundað var á veitingastað í nágrenninu um kvöldið, borðað pasta og kjöt og eftirréttur. Ég náði ekki að klára neinn réttanna þrátt fyrir góðan vilja enda maginn ennþá að vinna á hádegisverðinum. Þar voru drukkin m.a. stórvínin La Corte og Cignale. Alessandro sagði okkur yfir matnum hvernig hann var uppgötvaður á veitingastað í Mílanó af amerískum heildsala sem keypti síðan upp alla framleiðslu kastalans.

Grái Benzinn hans Alessandro held ég að hafi ratað sjálfur til baka þessa 5km aftur til kastalans þar sem eftirminnilegum degi var lokið í eldhúsinu með tári af grappa og Brandy. Síðan var það beint í bólið í einu af fjölmörgum húsakynnum kastalans sem leigð eru til ferðamanna (agriturismo).

Mér fannst merkilegt hvernig karakter hjónanna endurspeglaðist í eftirminnilegum vínunum; aðgengileg en flókin, bragðmikil en silkimjúk, fáguð og í einstaklega góðu jafnvægi – framleidd af metnaði, virðingu og ástríðu.

Daginn eftir var svo ríkulegur hádegisverður í eldhúsi kastalans og sterkur espresso áður en við skunduðum af stað til að hitta Luciano Sandrone í Piemonte með viðkomu í súkkulaðiparadís Amedei.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, ferðalög, veitingastaðir

Ítalíuheimsókn – Dagur IVa

Umbria – Arnaldo Caprai

Við komum til Caprai kl. 10.00 eftir 2.5 tíma keyrslu frá Ancona. Sól og blíða eins og var reyndar alla ferðina. Það var mikið um að vera hjá Caprai því á sunnudeginum eftir áttu þau von á 5.000 gestum í mikið húllumhæ sem haldið er einu sinni á ári og felst í göngutúr um vínekrurnar, vín og mat og tónlistarflutningi af ýmsu tagi. Þennan sunnudag er reyndar svokallaður Cantine Aperte dagur á Ítalíu þar sem fólk er hvatt til að heimsækja vínframleiðendur út um allt land en hjá Caprai er dagurinn sérstakur. Svo er líka verið að stækka húsið talsvert.

Roberta Cenci tók á móti okkur og leiddi okkur um nálægar vínekrur. Caprai er einhver flottasti framleiðandi Ítalíu þegar kemur að ekki bara gæðum heldur líka tilraunastarfssemi og rannsóknum á öllum mögulegum hlutum er varða vínrækt, ekki síst Sagrantino þrúgunni. Með stuttu millibili sá maður t.d. Sagrantino þrúgu sem hafði verið strengd upp á mism. hátt í mism. hæð, með mism. þéttleika og á mism. jarðvegi.

Síðan var kíkt á framleiðsluferlið og loks smakkað. 2002 var ekkert 25 Anni framleitt en í staðinn lítið magn af Collepiano. Collepiano 2002 var einfaldlega mjög gott og ekki mikið síðra en 2001 þótt stíllinn væri annar. Við smökkuðum öll vínin nema sætvínið sem var uppselt enda aðeins gert á nokkurra ára fresti, næst verður það 2003 árg. og kemur hann á markað 2006… það verður eitthvað magnað. Einu sinni voru öll Sagrantino vín sæt og var það með tilkomu Caprai sem fyrstu þurru vínin litu ljós svo um munaði.

Hittum Marco Caprai og gáfum honum bók um Ísland.

Caprai er frumlegur hvað markaðssetningu varðar. Vefsíðan er í meira lagi sérstök og svo gefa þau út bæklinga og bréf af ýmsu tagi t.d. mjög skemmtilegt dagblað sem inniheldur ýmsan fróðleik og greinar er tengjast framleiðandanum.

Eftir heimsóknina kíktum við í nágrannabæinn Bevagna sem er mjög fallegur og vel varðveittur og nörtuðum í samlokur áður en haldið var lengra.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, ferðalög

Ítalíuheimsókn – Dagur III

Le Marche – Umani Ronchi

Við ákváðum að eyða heilum degi með Umani Ronchi enda höfðum við aldrei komið áður til Ancona og Umani Ronchi einn okkar mikilvægasti viðskipavinur. Grand Hotel Palace er við höfnina og sótti Gianpiero okkur þangað kl. 9.30 þaðan sem leiðin lá til vínekranna í Castelli di Jesi þar sem Umani Ronchi framleiðir Verdicchio hvítvínin sín, m.a. Casal di Serra. Hittum þar yfirmann vínræktarinnar (agranomista) Luigi Piersanti og hann fór með okkur í bíltúr þar sem við urðum m.a. vitni að fyrstu blómunum springa út þennan dag 24.maí – af Chardonnay-kyni, Verdicchio springur út síðar.

Arnar og GianpieroHádegisverður samanstóð af trittico á veitingastaðnum Il Maresciallo (Marskálkurinn) en það eru þrír pastaréttir hver á eftir öðrum a) ravioli burro salvia b) tortellini al ragú c) tagliatelle all’anatra (önd)… úff ! Bara drukkið gosvatn enda vínsmökkun framundan. Veitingastaðurinn var stór og bjartur en andrúmsloftið var dæmigert cucina casalinga – eins konar framlengin á eldhúsi fjölskyldunnar sem bjó í sama húsi… enginn matseðill.

Fórum síðan í höfuðstöðvarnar þar sem eru skrifstofur, vínframleiðsla og lager. Þar hittum við eigandanna Dr. Massimo Bernetti. Umani Ronchi er nýbúinn að byggja Cantinu sem hýsir um 500 eikartunnur (aðrar 500 eru geymdar annars staðar) og er hún nútímalega hönnuð flott með fullkomnu kælikerfi – var fjallað um hana í tímaritinu Architectural Digest. Þar smökkuðum við okkur í gegnum nokkur vínanna og komu tvö vín sérstaklega skemmtilega á óvart; Montepulciano d’Abruzzo (U.R. framleiðir langmest af þessu basic-víni eða 2.000.000 fl., um helmingur heildarframleiðslunnar) og Lacrima di Morro d’Alba sem er sjaldgæft og ilmríkt rauðvín er minnir á Moscato. Drukkum líka 2001 Cumaro sem var einstaklega flott. Einnig var ég hrifinn af ódýru hvítvínunum. 2004 er málið. Dr. Bernetti kíkti svo á okkur og sötraði hvítvín meðan við smökkuðum og spjölluðum.

Um kvöldið kíktu Michele Bernetti, framkvæmdastjóri og sonur Massimo, og Gianpiero til okkar á hótelið til að kasta á okkur kveðju áður en við vorum keyrð á veitingastaðin Da Emilia í litlu sjávarþorpi, Portonovo, um 15 mín suður af Ancona þar sem okkur var boðið upp á endalaust mikið af mismunandi matreiddum fiski skoluðum niður með Casal di Serra 2003… og súkkulaðikaka með heimalöguðum myntuís á eftir. Enginn matseðill var á staðnum og létum við valið alfarið í hendurnar á mjóa og gamla þjóninum (eigandi ?) sem hljóp á milli borða eins og hann ætti lífið að leysa… eina skiptið sem ég sá hann hægja á sér var þegar hann skammtaði okkur skelfiskspagettíið af mikilli nákvæmni og alúð.

Við fengum einstaklega góðar og vinalegar móttökur hjá Umani Ronchi og áttum þar stórkostlegan dag.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, umani ronchi, veitingastaðir

Ítalíuheimsókn – Dagur IIa

Toskana – Fontodi

Ívar á La Primavera var búinn að segja mér frá heimsókn sinni til Fontodi síðastliðið haust ásamt Leifi og Jamie Oliver og lýsa yfir aðdáun sinni á bæði vínum og víngerð. Ég hafði oft smakkað vínin áður og keyrt um sveitirnar í kring en aldrei heimsótt framleiðandann sjálfan. Ívar hafði rétt fyrir sér.

Fontodi er 100% lífrænn framleiðandi þótt það komi aðeins fram á ólífuolíunni þeirra. Sjálfsþurftarbúskapur er hugsjón, t.d. eru nautgripir ræktaðir neðst í dalnum þar sem vínviður dafnar illa – til að metta eigendur og starfsfólk og til að búa til náttúrulegan áburð.

Conca d’Oro (gulldalur) er heitið á skál-laga hlíðunum er teygja sig suður af bænum Panzano og er eitt besta „cru“ Chianti Classico. Giovanni Manetti benti í áttina að dalnum… allar vínekrurnar þar voru hans fyrir utan lítið frímerki neðst í dalnum sem tilheyrir hinum góða Rampolla.

Til að forðast að þvinga vínið áfram með slöngum og dælum þegar vínið er búið til byggir ný og glæsileg víngerð Fontodis á þriggja hæða þyngdarlögmálskerfi. Þrúgunum er hellt inn efst, gerjaðar á hæðinni fyrir neðan og renna svo niður í kjallarann þar sem þær eru settar á eikartunnur.

Við smökkuðum m.a. Flaccianello 2004 (100% Sangiovese) úr tunnu, tveimur tunnum réttara sagt – báðar voru nýjar, franskar „barrique“ eikartunnur en önnur var meðalristuð og hin ekkert ristuð. Gaman að finna hversu mikill munur var á sama víninum úr sitt hvorri tunnunni og sýnir það hversu stóra rullu tunnan spilar í að móta karakter vínsins.

Og hvað þýðir Fontodi ?

Font = gosbrunnur, odi = Óðinn, m.ö.o. Gosbrunnur Óðins … já, forfeður okkar fóru víða.

Giovanni þurfti að keyra 10 tíma til Vínar þar sem Vínsambandið í Chianti Classico var með kynningu en sendi okkur Rakel í hádegismat, í boði hússins, á virkilega góðan veitingastað í grenndinni; Locanda Pietracupa.

Antipasto:
– Rakel; Sformato di carciofi (þistilhjörtumús) con salsa al burro (smjörsósa)
– Arnar; Millefoglie di Pate di fegatine al vinsanto con gelatine (útfærsla á crostini toscani þ.e. brauð með kjúklingalifrapate)

Primo:
– Rakel; Tagliolini (pasta) ai fiori di zucca (kúrbítsblóm) e tartufo
– Arnar; Piccione (dúfa) con vinaigrette tartufate (trufluediksósa)

Vín:
– hvítvínið Palagetto – San Gimignano… ferskt og gott en bara eitt glas enda keyrsla og meira smakk framundan…

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, chianti classico, ferðalög, fontodi, veitingastaðir