Category Archives: fiskur

Uppskrift: Humar að hætti hússins með fersku salati

Það er nú varla hægt að tala sérstaklega um „að hætti hússins“ sem einhverja eina ákveðna leið þegar humar er annars vegar heldur frekar hvað er við höndina hverju sinni og hvernig stemningin er. Á að grilla úti, á pönnu eða ofni? Súpu, risotto, pasta, salat?

Frú Lauga fékk í hendur humar beint frá sjómönnum á Höfn í Hornafirði — sýnishorn af því sem verður fáanlegt í búðinni fljótlega með vorinu.

Við ákváðum að gera eitthvað einfalt og byrjuðum á að taka hann úr skelinni og hreinsa svörtu görnina — auðvelt að gera það með því að halda þétt aftast á sporðinum þegar humar er dreginn út og þá verður görnin oftast (!) eftir. Skeljarnar setjum við svo í poka, frystum og geymum til að nota síðar í fiskisoð.

Ólífuolía hituð á pönnu og humrinum (1kg) skellt út á. Velta til og frá svo hann bakist jafnt á öllum hliðum og út í gegn. Líklegast um 5-6 mínútur í heildina, alls ekki of lengi. Þá er humar fjarlægður en allur safinn skilinn eftir á pönnunni.

Safinn á pönnunni er allur úr humrinum sjálfum kominn fyrir utan væga ólífuolíu svo hann er bragðmikill og hægt að nota sem grunn í ýmsar útfærslur. Við gerðum þetta svona í þetta sinn: útí fór skvetta af hvítvíni og staup af sætvíni (hægt að sleppa eða setja örlítið koníak eða uppáhalds líkjör jafnvel), u.þ.b. desilíter af rjóma, salt og pipar og bingó! Sósugerðin tekur 3-4 mínútur og síðan hellt yfir humarinn og borið fram með góðu fersku salati.

Þar sem er humar þar er hvítvín.

Við mælum með alll-þéttu hvítvíni með humrinum og notuðum að þessu sinni Little James frá Chateau Saint Cosme sem gaf máltíðinni aðra vídd með sínum mikla, ilmríka karakter.

Færðu inn athugasemd

Filed under fiskur, saint cosme, uppskrift

Uppskrift: Lax með spergilkáli og baunamauki

Hversdagsmatur þarf ekki að vera hversdagslegur. Þessi hversdagsréttur er svo sparilegur að hann má vel hafa spari líka. Hann uppfyllir allar kröfur upptekinna, barnmargra fjölskyldna, hann er afar einfaldur og fljótlegur, næringarríkur og ljúffengur. Hann er sérstaklega gott að gera þegar nýtt, ferskt og næringarríkt spergilkál (brokkólí) er á boðstólnum og að sjálfsögðu er best að nota ferskan og góðan lax.
 
Lax:
Laxaflak (roð- og beinhreinsað)
Rifið ferskt engifer (athugið að engifer er gott að geyma í frysti og rífa frosið niður með fínu rifjárni eftir hentugleika – þannig geymist það von og viti og er alltaf ferskt)
sítrónusafi úr 1/2 sítrónu
svartur pipar úr kvörn
sjávarsalt
 
Laxaflakið er sett í ofnfast mót. Ofan á það er dreift rifnu engiferi, sítrónusafa, svörtum pipar úr kvörn og sjávarsalti. Sett inn í 200°C ofn í 20 mín.
 
Spergilkál:
Soðið í vatni með smávegis salti.
 
Baunamauk:
1 dós organic bean mix (eða kjúklingabaunir eða aðrar baunir að eigin vali)
1 stórt hvítlauksrif (eða tvö minni)
sítrónusafi úr 1/2 sítrónu
1 msk rjómi
 
Öllu blandað saman og maukað í matvinnsluvél.
 
Oft er gaman að setja matinn smekklega á diskana áður en borið er á borð. Fallegt er að setja skammt af þessum rétti á hvern disk, laxabita, spergilkál og svolítið af baunamauki á hvern disk og bera svo á borð við kertaljós. Þá líður heimilisfólkinu líka svolítið eins og það sé á veitingahúsi. Af hverju ekki að hafa svolítið gaman af matarlistinni fyrir matarlystina.
 
Buon appetito.

Það væri tilvalið að prófa rósavínið Rosando frá Hubert Sandhofer með þessum rétti.

Færðu inn athugasemd

Filed under fiskur, matur, sandhofer, uppskrift

Matarsíðan hans Júlla Júl

Hinn framtakssami Dalvíkingur Júlíus Júlíusson er búinn að stofna matarsíðu áhugamannsins, eins og hann kallar hana.

Mjög forvitnileg síða með uppskriftum og fróðleik um mat, skrifað á persónulegan hátt. Byrjunin lofar góðu.

Þar má t.d. finna þessa uppskrift að Steinbít á Ritzpúða. Uppskriftin mun jafnframt birtast í bók sem kemur út fyrir jólin og nefnist „Meistarinn og áhugamaðurinn“.

Júlíus hvetur þá sem sýsla með matvöru að senda sér hráefni sem hann ætlar að elda upp úr og fjalla siðan um reynsluna á vefnum og hefur matarteymi sér til aðstoðar en bætir við: „Allt er þetta til gamans gert og af einskærum áhuga fyrir mat, drykk og eldhúsinu almennt. Skrifin verða með jákvæðum en gagnrýnum formerkjum.“

Aldrei að vita nema við gaukum að honum Amedei súkkulaði fyrir jólin og sjá hvað fæðist úr því.

En talandi um Amedei súkkulaði og uppskriftir, hér er uppskrift að Cantucci smákökum sem við birtum fyrir jólin 2006.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, blogg, fiskur, matur, súkkulaði, uppskrift

Innbakaður lax

Þessa uppskrift gerum við oft. Hún er einföld, fljótleg og verulega góð.

Þegar við gerðum hana fyrst, fyrir all mörgum árum síðan, drukkum við rauðvín með úr Pinot Noir þrúgunni með — annað franskt og hitt frá Oregon. Það var í fyrsta skipti sem við drukkum rauðvín með fiski og ef einhverjir fordómar voru uppi fyrir máltíðina voru þeir horfnir með öllu á eftir. Fiskur og rauðvín geta verið frábær blanda, lax með Pinot Noir alveg sérstaklega. Pinot Nero (Noir) 2004 frá Appiano gengur vel með þessum rétti.

Við kaupum tilbúið smjördeig í Hagkaup og fletjum það vel út. Tengjum saman nokkur í eina góða breiðu svo laxinn passi vel inn í (þ.e.a.s. deigið þarf að vera nógu stórt til að hylja laxinn alveg í lokin). Smjördeigið er síðan smurt á því svæði sem laxinn fer á með góðu sinnepi (t.d. hunangssinnepi), salti og pipar og ostsneiðar síðan settar yfir. Laxinn er settur á staðinn og ofan á hann fer aftur sinnep, salt og pipar og ostsneiðar. Að lokum er hellingur af steinselju sett yfir laxinn og deiginu lokað yfir allt saman svo laxinn er alveg hulinn.

Þá er þessu snúið á hvolf og sett í eldfast mót, pennslað með eggi og stungin nokkur göt í deigið svo það bólgni ekki. Sett í ofn (200°C max) og bakað í svona 20 mínútur.

Við höfum bara gott ferskt grænmeti með, t.d. klettasalat.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, þrúgur, fiskur, uppskrift