Category Archives: fontodi

Wine Spectator Top 100 2010 — Flaccianello trompast aftur

ws100Bandaríska víntímaritið Wine Spectator var að gefa út hinn árlega TOP 100 lista yfir vín ársins 2010.

Listinn er ekki skipaður 100 einkunnahæstu eða „bestu“ vínum ársins heldur eru þáttaðir inn hlutir eins og verð og aðgengi víns.

M.ö.o. listi yfir framúrskarandi vín að mati blaðsins, hvernig sem á það er litið.

Í fyrra var eitt af okkar vínum í svokölluðum Top 10 hluta listans, Flaccianello 2006 frá Fontodi. Þær 120 flöskur sem við fengum af þessu víni voru fljótar að fara en eingöngu var hægt að kaupa það með sérpöntun í gegnum ÁTVR (þeas. vínið fékkst ekki í hillum Vínbúðanna).

Nú hefur hið merkilega gerst að 2007 árgangur af Flaccianello nær líka inn á listann í ár en ekki hefur það gerst oft að sama vínið geri það tvö ár í röð. Reyndar er þetta í þriðja sinn sem Flaccianello kemst á Top 10 listan tímaritsins síðasta áratug sem er einstakt. 2007 árgangur kemur hingað til lands á næsta ári.

Til hamingju Giovanni Manetti og fjölskylda!

Við eigum reyndar fleiri vín á Top 100 listanum eða framleiðendur sem við flytjum inn eða höfum flutt inn. Fyrir utan Flaccianello 2007, sem er í 8. sæti listans, má finna Chateau Flaugergues Cuvee Sommeliere 2007 í 50. sæti, Christian Moreau Chablis Les Clos 2008 í 59. sæti, d’Arenberg The Stump Jump 2008 í 63. sæti, Chateau de Lascaux Languedoc 2008 í 85. sæti, Chateau Saint Cosme Cotes de Rhone 2008 í 88. sæti og Domaine Tempier Bandol Rose 2009 í 99. sæti.

3 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, christian moreau, d'arenberg, fontodi, saint cosme, tempier, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Flaccianello 2006 er komið til landsins!

Eitt rómaðasta vín 2006 árgangs frá Toskana er án efa Flaccianello 2006 frá Fontodi víngerðinni.

Það hlýtur 99 stig í Wine Spectator og 8# sæti á TOP 100 listanum góða sem tímaritið gefur út.

Robert Parker gefur því 96 stig.

Aðrir dómar eru eftir því.

Það er því óhætt að segja að þetta hreinræktaða Sangiovese rauðvín sé svolítið merkilegt með sig þessa dagana. Fyrir okkur er það holdgervingur Toskana þar sem frábær víngerð og fegurð sveitarinnar sameinast í einhverju einstöku.

Giovanni Manetti, eigandi Fontodi víngerðarinnar, var svo elskulegur að leyfa okkur að fá rausnarlegan skammt af víninu þrátt fyrir hina miklu eftirspurn og þá staðreynd að það er uppselt víða um heim.

Vínið kom til landsins í síðustu viku og við eigum nóg til ennþá. Verð 8.900 kr.

Áhugasamir sendi okkur vinsamlegast póst á vinogmatur@vinogmatur.is til að kanna stöðuna áður en það er sérpantað hjá ÁTVR.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, fontodi, robert parker, wine spectator

The Stump Jump GSM eitt af TOP 100 vínum árið 2009 að mati Wine Spectator

Nýr TOP 100 listi er kominn út hjá bandarísku útgáfunni Wine Spectator, fyrir árið 2009.

Við eigum þrjú vín á listanum, Fontodi Flaccianello 2006 (99 stig í 8. sæti) sem er væntanlegt á nýju ári til landsins, San Michele Appiano Pinot Grigio 2008 (90 stig í 70. sæti) sem hefur fengist hér þó ekki þessi árgangur, og The Stump Jump GSM 2008 frá d’Arenberg (90 stig í 82. sæti, við erum með 2007 í gangi núna).

Það er mjög eftirsóknarvert að komast á listann því hann getur haft góð áhrif á sölu og orðspor viðkomandi víngerða um allan heim.

Eins og bloggarinn hefur áður bent á er þessi árlegi listi mjög markaðsvæddur og takmarkaður en þó verður ekki framhjá því litið að þau vín sem komast á hann eru áhugaverð og góð, sum jafnvel frábær kaup og önnur hugsanlega framúrskarandi.

2 athugasemdir

Filed under appiano, d'arenberg, dómar, fontodi, wine spectator

Tom Cannavan fjallar um Chianti Classico framleiðendur

Gleðilega páska!

Það er við hæfi að fjalla í dag um rauðvín sem eru svo góð með lambakjöti, páskalambinu.

Reyndar látum við sjálf það eiga sig (það eru nú páskar) en gefum í staðinn Tom Cannavan, breska vínspekúlantinum, orðið.

Bloggarinn skoðar reglulega vefinn hans Tom www.wine-pages.com og þar er ný umfjöllun um Chianti Classico framleiðendur.

Lestu greinina hans Tom Cannavan

Það er skemmtilegt að tveir fyrstu Chianti Classico framleiðendurnir í röðinni eru einmitt okkar menn, Fontodi og Castello di Querceto. Hægt er að lesa jafnframt dóma um nokkur vína þeirra og eru þeir góðir, á bilinu 88 til 95 stig fyrir Fontodi vínin og 86 til 92 fyrir Querceto.

Chianti Classico svæðið er endalaust fallegt eins og myndin hér fyrir ofan sýnir, ekki amalegt að búa í því miðju og framleiða vín sér og öðrum til ánægju.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi

Vín og matur: Vín með lambakjöti

Vín með lambalæri, vín með lambakótilettum, vín með lambalundum, vín með lambahrygg. Það skiptir ekki öllu máli hvaðan af lambinu kjötið er, vínið sem fer best með því er meira eða minna það sama.

Á þessu heimili er lambakjötið nefnilega alltaf meðhöndlað eins einfaldlega og mögulegt er, salt og pipar, í mesta lagi einhver fersk krydd til að nudda á kjötið, og nánast aldrei nein sósa. Íslenska lambakjötið er eiginlega of gott þegar það er upp á sitt besta til að vera að drekkja því í sósu. Maður vill að lambakjötið njóti sín, annars gæti maður alveg eins verið að nota soja“kjöt“. Þetta berum við svo gjarnan fram með fersku salati eða einhverju léttbrösuðu eins og pönnusteiktum gulrótum, sveppum og þess háttar. Það má alveg vera frumlegur í meðlætinu ef það skyggir ekki á aðalleikarann.

Lambakjötið er tiltölulega opið fyrir ýmsum gerðum vína, jafnvel sumum hvítvínum, en það er eitt svæði í veröldinni sem gerir rauðvín sem virðast fædd til þess að drekka með góðu lambakjöti.

Þessi vín heita einu nafni Chianti Classico eftir samnefndu svæði innan Toskana héraðsins á Ítalíu sem einu sinni hét bara Chianti en heitir í dag Chianti Classico, sem þýðir „hið upprunalega Chianti“. Hið upprunalega Chianti liggur á milli borganna Flórens og Siena. Aðeins rauðvín frá því svæði fá að kalla sig Chianti Classico en allt í kring fyrir utan það eru einnig framleidd Chianti vín ýmis konar sem þó fá ekki að kalla sig „Classico“.

Fyrir okkur eru Chianti Classico vínin hin erkitýpísku ítölsku rauðvín sem við unnum svo mikið. Þar liggur ástríða okkar fyrir vínum einna dýpst. Þegar best lætur finnur maður í þeim ilminn af sveitinni í Toskana og þau verða aldrei of þung heldur eru sígild matarvín. Það er eitthvað sem gerist þegar þessi vín eru pöruð með lambakjöti sem eldað hefur verið á þennan einfalda hátt sem lýst er hér fyrir ofan. Bæði lambakjötið og rauðvínið eru í essinu sínu.

Við höfum sannreynt þetta á öllum okkar Chianti Classico vínum. Þau sem eru fáanleg í Vínbúðunum sem stendur eru frá tveimur framleiðendum sem eru í u.þ.b. 15 mínútna fjarlægð hver frá öðrum. Fontodi gerir eingöngu lífræn vín og stundar sjálfsþurftarbúskap, Fontodi Chianti Classico er fágunin ein með lifandi karakter sem flytur okkur í einni svipan til þessa hjarta Ítalíu. Eikarkastalinn, Castello di Querceto, framleiðir breiða línu vína með sínum einkennandi stílhreina hússtíl sem við erum svo heilluð af. Castello di Querceto Chianti Classico gengur jafnvel enn lengra en nafni þess frá Fontodi í að fanga anda sveitarinnar og hefur léttari áferð á meðan stóri bróðir Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er öllu meira og þykkara með burði til að standa í hárinu á nautasteikum sem lambasteikum.

Niðurstaða: við mælum með Chianti Classico rauðvínum með íslensku lambakjöti

Lokaorð: allir segi „mmmmmmeeee……“

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, fontodi, matur

Átta ný vín frá Ítalíu fara í Vínbúðirnar í dag

Lítil bylting í gangi hér.

Ekki á hverjum degi sem við sendum átta ný vín í Vínbúðirnar. Þessi hersing er afleiðing af heimsókn bloggarans á Vinitaly vínsýninguna í vor (lestu meira um heimsóknina).

Frá Arnaldo Caprai eru tvö ný vín með sama nafni, Anima Umbra rautt og Anima Umbra hvítt, sem ætlað er að fanga anda Úmbría héraðsins eins og nafnið „anima umbra“ gefur til kynna. Þau eru með sniðugum flipa aftan á flöskunni með nafni vínsins sem hægt er að fjarlægja. Umani Ronchi er sömuleiðis að spreyta sig á nýju víni, Pecorino Vellodoro, sem kemur frá vínekrum framleiðandans í Abruzzo héraði. Hvítt og rautt frá Falesco eru með í för, Poggio dei Gelsi og Tellus, bæði frá Lazio héraði. Síðan er það alveg nýr framleiðandi, Lini í Emilia Romagna héraðinu, og koma frá honum tvö freyðandi vín, rautt Lambrusco og hvítt Moscato, en frá Lini höfum við einnig fengið Balsamik edik. Að lokum er það Chianti Classico frá Fontodi sem er nú tæplega alveg nýtt en það er að byrja aftur í vikunni eftir nokkurt hlé frá Vínbúðunum.

Fimm framleiðendur frá fimm mismunandi héruðum á Ítalíu. Tilviljun eiginlega að öll þessi héruð liggja gott sem upp að hvert öðru á miðju stígvélinu.

Vínin átta fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni frá og með morgundeginum.

4 athugasemdir

Filed under ítalía, caprai, falesco, fontodi, lini, umani ronchi, vínbúðirnar

Hvað er málið með Decanter og 2004 súpertoskanina?

Ég er svolítið hvumsa yfir Decanter þessa dagana.

Í nýjasta tímaritinu er 2004 árgangur frá Toskana tekinn fyrir, nánar tiltekið svokallaðir súpertoskanir. Jafnan eru það þau vín frá Toskana sem framleiðendur leggja mest í og upp úr.

2004 árgangur er afskaplega góður víða á Ítalíu, þá ríkti gott og jafnt verðurfar. En vínsmökkunarhópur blaðsins dissar þennan árgang verulega. Aðeins eitt vín fær fullt hús, 5 stjörnur, og ekkert vín fær 4 stjörnur. Þetta er vægast sagt óvenjulegt miðað við góðan árgang, gæði vínanna og þá staðreynd að sjaldan er svo illa gefið á heildina í dálkum blaðsins.

Okkar fulltrúi Flaccianello 2004 fær bara 2 stjörnur, rétt eins og hið fræga Tignanello og t.d. annað vín sem heitir Montevertine. Þessi má geta að Flaccianello 2004 fær 95 stig hjá bæði The Wine Advocate og Wine Spectator.

Annars staðar í blaðinu er svo grein um 50 bestu vín Ítalíu (vín sem hafa verið framúrskarandi í gegnum árin) og þar eru öll þessi þrjú vín í þeirra hópi og meira að segja stór mynd af Tignanello 2004 sem fær hálfgerða útreið (a.m.k. miðað við væntingar) síðar í blaðinu.

Þetta er í takt við þann helsta galla sem mér finnst um Decanter. Mismunandi fólk fjallar um sömu vín milli ára, jafnvel í sama blaði, og því skortir alveg viðmiðun sem hægt sé að túlka einkunnir blaðsins út frá, árgang eftir árgang.

Ef sami gagnrýnandi eða hópur gagnrýnenda fjallar um sömu vín ár frá ári, jafnvel þótt maður sé ekki alltaf sammála, verður til sú viðmiðun sem mér finnst vanta í Decanter. Einkunnir þess aðila má skilja út frá einkunnum hans frá fyrri árum og svo koll af kolli. Ekki þessi losaraháttur sem mér finnst oft ríkja hjá Decanter.

Annað sem ég set út á í þessari umfjöllun Decanter eru smakknótur sem fylgja hverju víni sem fær 3 stjörnur og yfir. Þær eru frekar ófókuseraðar og einfaldlega leiðinlegar og þrátt fyrir nokkurn mun á einkunnunum er ekki að finna mun í textanum. Þannig er sagt um vínið sem fær 5 stjörnur að það sé „Tight, concentrated, not giving much away. This one has middle and promise and is still very closed. Fruit will win. There is a great deal here.“ á meðan að eitt af allra neðstu vínunum fær meðal annars umsögnina „Very good“.

Og besta dæmið um ósamræmi í Decanter.

Það varðar annað rauðvín sem kemur einmitt líka frá Fontodi, þ.e.a.s  Chianti Classico. Sami árgangur af því, 2004, fær 3 stjörnur í einu hefti Decanter en í öðru hefti fær sama vín 5 stjörnur. Það er eitt misræmið milli árganga en hjá einu og sama víninu þá eru hlutirnir að verða verulega ruglandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under decanter, fontodi