Category Archives: frú lauga

Melónur og fleira frá Sikiley

valdibella_baendurBlóðappelsínurnar sem við fluttum inn frá Sikiley í vetur slóu í gegn í Frú Laugu. Margir töluðu um bestu appelsínur sem þeir höfðu smakkað og flestir voru ánægðir að sjá loksins aftur blóðappelsínur á landinu.

Við vorum afskaplega ánægð með þau viðskipti og ekki spillti fyrir að uppruninn er þessi fallega vina-eyja okkar í suðrinu sem á það skylt við Íslandið góða að spúa eldi og ösku öðru hvoru yfir fólk og sveitir.

Blóðappelsínurnar verða hér aftur í kringum jólin.

En þessi póstur átti ekki að fjalla um þessar rauðu elskur heldur annan ávöxt og öllu stærri.

Melónur.

Eftir rúma viku kemur bretti af sikileyskum, gulum melónum í Frú Laugu sem við flytjum inn sjálf eins og appelsínurnar. Þær eru lífrænt vottaðar og koma frá samlagi nokkurra bænda í Camporeale u.þ.b. 35 kílómetra frá Palermo. Með í för verður ólífuolía frá bændunum, möndlur og þrjú vín sem fara í Vínbúðirnar 1. október. Allt lífrænt.

Nú verður spennandi að sjá hvort melónurnar standast væntingar og þá geta þær orðið fastur liður á ítalska ávaxtadagatalinu okkar.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, ólífuolía, frú lauga

Eplin frá Ekkidal

biomela_dalurVið höfum tvisvar sinnum ekið í gegnum Trentino hérað á N-Ítalíu, bæði skiptin í vínerindum. Héraðið dregur svip sinn af Ölpunum sem standa eins og varðturnar sitt hvoru megin við langan og breiðan dal með litlum útskotum og hjáreinum hér og þar. Þessi hluti Alpanna er sérstaklega fallegur og áhrifamikill með sína karaktermiklu Dólómíta í aðalhlutverki.

Það er okkur minnistætt þegar við ókum þarna í gegn hversu áberandi eplarunnarnir voru. Ekki furða því Trentino er hjarta eplaræktunar á ítalíu með alls 10.000 hektara.

Af þessum 10.000 hekturum á Bonetti fjölskyldan 10. M.ö.o. litlir bændur á eplaskalanum.

Anna Bonetti og fjölskylda ræktar eplin sín í þeim hluta sem kallast Val di Non („Ekki-dal“). Fyrir 25 árum hóf fjölskyldan samstarf við hina rómuðu San Michele landbúnaðarstofnun með það fyrir augum efla sjálfbærni akranna með nýtingu skordýra m.a. sem endaði á því að framleiðslan varð að öllu leyti lífræn og hefur svo verið í meira en 20 ár.

foradori_dalurÞað er skemmtileg tilviljun að Anna Bonetti og fjölskylda búa steinsnar frá annarri sterkri Alpakonu sem við þekkjum vel og reyndar heimsóttum. Sú heitir Elisabetta Foradori og höfum við flutt inn vínin hennar í mörg og stóð til, og stendur enn, að endurnýja sambandið við Elisabettu á þessu ári. Foradori vínin eru einmitt lífræn eins og eplin frá Bonetti svo það helst vel í hendur að tengjast þessum tveimur mögnuðu bændum og nágrönnum.

Eplin eru komin í Frú Laugu og eftir að vera búin að smakka okkur í gegnum þau erum við bjartsýn á að þeim verði eins vel tekið og hinum ljúffengu blóðappelsínum frá Sikiley. Þá munum við taka upp þráðinn næsta haust og flytja inn ný epli frá Trentino í nóvember með sikileyskum blóðappelsínum í kjölfarið í desember.

Eplin og appelsínurnar eru í „season“ út vorið en þó með þeim hætti að appelsínurnar eru týndar jafn óðum og þær eru sendar til okkar á meðan eplin eru týnd að hausti en geymd við sérstakar aðstæður sem halda þeim góðum í fleiri mánuði.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, frú lauga

Frú Lauga fær nýja vefsíðu

Þeir sem hafa skoðað www.frulauga.is hafa eflaust rekið sig á ákveðið hreyfingarleysi frúarinnar þegar kemur að endurnýjun efnis á vefinn.

Nú stendur það allt til bóta.

Í smíðum er ný og betrumbætt síða þar sem upplýsingar um bændur og aðra góða framleiðendur verður í fyrirrúmi ásamt ljósmyndum. Bloggþátturinn verður sömuleiðis dreginn inn á síðuna sjálfa og á endanum verður www.vinogmatur.is settur í sama módel (og sérstök bloggsíða www.vinogmatur.wordpress.com hættir að vera til svona danglandi þarna út af fyrir sig). Ein stór fjölskylda, allir vinir.

Við erum með góða hugmyndahjálpara í þessari vinnu. Við gerum ekki ALLT sjálf. Ekki allt (kaupmaðurinn skúrar reyndar og þrífur Frú Laugu daglega svo hún verði hrein og ánægð með sig).

takkVinur okkar Valgeir Valdimarsson hjálpar okkur í hugmyndavinnu og útfærslum. Hann býr í París sem stendur og er sannkallaður kosmópólitan sem drekkur martini og reykir vindla. Valgeir rekur www.takktakk.is en fyrirtækið fékk nýlega (2011) verðlaun samtaka vefiðnaðarins fyrir herferðina www.icelandwantstobeyourfriend.com.

Annar vinur okkar kemur síðan að nánari fíníseringum í útliti og hugmyndavinnu. Sá heitir Einar og er nágranni okkar (m.ö.o. hann býr ekki París). Einar hannaði m.a. lógó Frú Laugu og á heiðurinn að því að setja „frúnna“ fyrir fram „Laugu“ þegar Frú lauga var bara Lauga á fyrstu hugmyndastigum. Hann er nýbúinn að stofna eigið fyrirtæki www.eogco.is sem er svo nýtt að það er ekki búið að vinna nein verðlaun ennþá.

Frú Lauga er í góðum höndum og býður spennt eftir endurkomunni á skjáinn.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga

Salatdressing Rakelar

klettasalatFrú Lauga skrapp í viðtal til Sillu á Rúv Rás 1 þar sem salatdressing Rakelar kom m.a. til tals.

Hér má hlusta á þáttinn hennar Sillu og viðtalið

Salat er borðað á þessum heimili á næstum hverjum degi. Við notum salatblönduna góðu frá Hveratúni um vetur en þegar hlýnar notum við salat frá Engi eða útiræktað salat frá Vallanesi og fleiri góðum aðilum. Við ræktum líka oftast klettasalat í garðinum eða úti á svölum.

Það er því gott að gera smávegis dressingu sem lyftir salatinu á hærra plan frekar en stela senunni.

6-8 msk góð kaldpressuð jómfrúar ólífuolía
1 msk gott balsamik edik
Kreistur hvítlaukur – 2 góð rif (eða eftir smekk)
1 væn tsk. gott hunang
svartur pipar úr kvörn eftir smekk
sjávarsalt eftir smekk

Hrært saman með skeið og gaffli (gaffallinn situr ofan í skeiðinni meðan hrært er) þar til sósan verður þykk og jöfn.

Uppskriftin að ofan er sérlega góð en einnig er hægt er að skipta út balsamic ediki fyrir vínedik eða sítrónu, hvítlauknum fyrir sinnep, hunanginu fyrir hlynssýróp eða agavesýróp og svarta piparnum fyrir hvítan,rósapipar eða blandaðan pipar. Einnig má skipta út sjávarsaltinu fyrr Himalaya salt sem er einnig mjög gott og heilnæmt. Og nú er hægt að nota íslenskt reykjanessalt frá Kryddveislunni.

Það er varla til sá réttur þar sem er ekki viðeigandi að hrista fram ferskt og gott salat.

2 athugasemdir

Filed under frú lauga, uppskrift, viðtal

2011 — Ár blóðappelsínunnar

blodappelsinaBloggarinn á tvær minningar um blóðappelsínur, báðar mjög góðar.

Hann man þegar hann var drengur og keyptar voru appelsínur á heimilið að öðru hvoru reyndust þær vera blóðappelsínur. Þetta var eins og að vinna í happdrætti því ekki aðeins virkuðu þessar framandi og blóðugu appelsínur spennandi heldur voru þær líka alltaf góðar.

Eða svo segir minningin. Hún lýgur ekki.

Styttra er síðan við upplifðum blóðappelsínur á Ítalíu. Þá birtust þær um miðjan vetur þar sem þær flæddu norðureftir landinu og fylltu búðir og bari sem pressuðu safa eins og óðir væru um hávetur. Við hömstruðum appelsínur á þessum tíma.

Það hefur því lengi blundað í okkur að flytja inn sikileyskar blóðappelsínur (tarocco og fleiri sortir) og núna þegar Frú Lauga er fædd höfum við stað til að bjóða þær til sölu. Tímabil blóðappelsínunnar á Sikiley er frá desember til apríl og stóð til að bjóða þær til sölu fyrir jól en tíminn rann frá okkur

En.

Pöntun er farin í loftið og ef allt gengur eftir mætir eitt bretti sikileyskar blóðappelsínur í Frú Laugu 27. janúar á því herrans ári 2011 —  ári blóðappelsínunnar.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, frú lauga

Afmæli í Frú laugu – myndir


Vorum að setja á flickr nokkrar góða myndir af grænmeti, gestum og gangandi úr afmælisveislu Frú Laugu í ágúst.

Frábær dagur, sól, góður matur og gott fólk.

Skyldi hér vera komið einkennislag Frú Laugu?

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, sjónvarp

Uppskeruhátíð í Frú Laugu — Tónlist, matur og vín

Köllum það afmælisveislu, köllum það uppskeruhátíð, köllum það haustfagnað, póstlistapartí eða þakkagjörðarhátíð.

Það verður gleði í í Frú Laugu næsta fimmtudag.

Tónlist, matur og vín.

Frú Lauga vill umfram allt þakka fyrir góðar og hlýlegar móttökur og alla þá hvatningu sem hún hefur fengið.

TAKK!

Dagskráin hefstu klukkan 16.00 með harmonikkuleik að hætti Gunnars Kvaran en hann ætlar að spila næstu tvo tímana. Dill-uð grænmetissúpa verður í boði vina okkar Óla og Gunnars frá hinum frábæra veitingastað DILL auk þess sem við ætlum að smyrja makríl frá Höfn í Hornafirði á góðu flatkökurnar frá sveitabakaranum á Auðkúlu.

Bændur verða líka í búðinni því Sveina á Sogni ætlar að mæta með nauta-carpaccio og grafið naut til að smakka og í kringum 17.00 mæta Erpsstaðabændur með nýlagaðan rabarbaraís.

Kl. 18.00 ætlar tríóið Kolgeit að leika fyrir utan Frú Laugu. Það er skipað heiðursmönnunum Davíð Þór Jónssyni, Sigtryggi Baldurssyni og Helga Svavari Helgasyni. Gréta og Stína ætla síðan að spila nokkur íslensk dægurlög.

Beljan verður veislustjóri og nú má fylla glösin — muuu!

Af þessu tilefni ætlar Frú Lauga að hafa opið alla leið til 20.00.

Og vorum við búin að segja það?

TAKK!

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga

Langamýri — Rabbarbarabarónar Íslands

Það var á sólríkum sunnudagsmorgni sem við renndum í hlað hjá Kjartani og Dorothee á Löngumýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Hér er ekki látinn duga hefðbundinn búskapur, þótt góður sé, heldur stigið skrefinu lengra í vöruþórun og framleiðslu. Það hófst fyrir nokkrum árum í góðu samstarfi með hönnunardeild Listaháskóla Íslands og afurðin var Rabarbía, gómsæt karmella úr Löngumýrar-rabbarbara í frumlegum og fallegum umbúðum.

Karmellan hefur fengist í Frú Laugu frá því við opnuðum dyrnar ásamt sultum og fíflasýrópi en Kjartan og Dorothee hafa líka sent okkur gærur, lambakjöt og sauðakjöt, landnámshænuegg og ristaðar möndlur fyrir jólin. Að ógleymdum rabbarbaranum sjálfum sem hefur komið til okkar bæði ferskur og frosinn. Lífrænn búskapur.

Heimsóknin þennan sunnudag var afar skemmtileg. Lamb fæddist í beinni, fjárhús voru rannsökuð, landnámshænur hvattar til að halda áfram að verpa fyrir Frú Laugu, klappað á kettlingum, gengið út í haga og borðuð kjötsúpa og rabbarbarapæ. Hér hljóta allar máltíðar að enda á rabbarbarapæ.

Ný sending af ferskum rabbarbara er væntanleg upp úr miðjum júní.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, vín

Hollar og mikilvægar ólífur í Frú Laugu

Ólífur eru mikilvægar.

Að horfa á þennan litla, bitra ávöxt er eins og hafa sögu mannkyns í hendi sér.

Egyptar, Grikkir, Rómverjar; Hómer, Biblían, Kóraninn; Aþena, Múhammeð, Tutankhamen; viður, lauf, ávöxtur, olía – fáar plöntur eiga eins langa og jákvæða sögu sem lækningarmáttur, næring eða boðberi dýrðar, visku og friðar.

Ólífur eru líka hollar.

Þær eru sjaldnast borðaðar beint af trénu heldur verkaðar í saltlausn eða olíum sem kemur af stað náttúrulegri gerjun sem breytir eiginleikum ólífunnar svo hún verður betri og hollari. Hollar ólífur eru m.a. taldar styrkja ónæmiskerfi, vernda DNA, minnka líkur á hjartasjúkdómum og svo mætti lengi telja.

Til þess að hámarka ferskleika, bragð og ekki síst hollustu er hins vegar mikilvægt að ólífurnar séu einmitt framleiddar á þennan náttúrulega hátt en ferlinu ekki flýtt eins og gjarnan er gert með vítissóda í iðnaðarframleiddum ólífum og ýmsum óþarfa aukefnum bætt þar samanvið.

Ólífurnar í Frú Laugu eru „markaðsferskar“ sem þýðir að þegar við höfum sett þær í dollur endast þær eingöngu í 2 vikur svo það þarf að nálgast þær og meðhöndla eins og hvert annað grænmeti.

En þær eru góðar og þær eru hollar.

Það skiptir öllu máli.

Fimm tegundir eru fáanlegar í Frú Laugu:

Dökkar Kalamata frá Grikklandi og dökkar Gaeta frá samnefnu svæði á S-Ítalíu, grænar Nocellara del Belice frá Sikiley, miðjarðarhafsblanda af nokkrum grænum og dökkum tegundum með smávegis rósmarín og loks stórar grænar með fyllingu (hvítlauk, papriku og sítrónu). Þær eru verkaðar í saltvatni þar sem ýmist er bætt við sólblómaolíu, vínediki eða náttúrulegum sýrum (mjólkursýru, sítrus, c-vítamíni).

100 grömm af ólífum kosta 290 krónur og höfum við sett þær í 200g dollur til að byrja sem greiðast eftir vigt.

Ólífur Ragnar Grímsson munu fást með haustinu

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, heilsa, matur

Uppskrift: Sólþurrkaður saltfiskur með aioli-sósu

Við matreiddum sólþurrkaðan saltfiskinn frá Langanesi sem fæst í Frú Laugu á 1.980 kr/kg.

Hann var útvatnaður í 3 sólahringa og var vatni skipt á honum daglega. Þótt þrír dagar virtust passlegir fyrir þykkari bitana var það jafnvel of mikið fyrir þá þynnri svo væntanlega má stytta útvötnun í 2 sólahringa og þá kannski vega upp á móti með því að skipta oftar um vatn. Þetta hefur aðallega með söltun fisksins að gera og smekk viðkomandi fyrir miklu eða litlu saltbragði. Hann var síðan soðinn í svona 15 mínútur.

En afskaplega var hann bragðgóður, namm!

Við höfðum einfalt meðlæti með (þroskaða tómata og gullauga úr Frú laugu og ferskt avokado) sem varla er hægt að kalla uppskrift fyrir utan þessa góðu aioli sósu sem við gerðum í fyrsta skipti en hún er sérstaklega algeng á miðjarðarhafssvæðinu þar sem þessi tegund af fiski er talsvert borðuð.

Svona er uppskriftin af aioli sósunni sem mætti líka kalla hvítlauksmajónes:

6-8 hvítlauksrif (eftir stærð og smekk)
1 eggjarauða
1 bolli ólífuolía
salt
1 lítil sítróna (eða læm)

Eggjarauða og hvítlauksrifin sett í blöndunartæki og hakkað þar til vel maukað. Safi út sítrónu kreistur út í í litlu magni í einu á meðan blöndunartækið er í gangi. Saltað að smekk.

Að lokum er ólífuolíunni hellt í mjórri bunu hægt og rólega út í blönduna þar til hún tekur sig og verður gul-hvít.

Ef blöndun mistekst (er vökvakend og nær ekki að blandast saman) má hella blöndunni í skál og byrja upp á nýtt með annarri eggjarauðu og einu hvítlauksrifi sem er maukað eins og áður – og hella síðan misheppnuðu blöndunni út í hægt og rólega í mjórri bunu þar til nýja blandan tekur sig og verður að ljósgulri sósu.

Með þessu drukkum suður-franskt hvítvín sem okkur fannst viðeigandi og passaði það einkar vel með, Little James frá Saint Cosme.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, uppskrift

Uppskrift: Spagettí með bláskel

Við höldum áfram að benda á það hversu bláskelin er gott hráefni á góðu verði.

Það er mikið spurt í Frú Laugu hvernig sé best að elda hana og við bendum yfirleitt á einföldustu leiðina; skella henni á heita pönnu, skutla fínsöxuðu kryddi og lauk (eða sellerí) og hvítvínsglasi, bíða þar til hún opnar sig (5 mín max) og þá er rétturinn tilbúinn á diskinn.

Við útfærðum þess uppskrift aðeins öðruvísi í upphafi nýja ársins og notuðum sem grunn uppskrift frá Mario Batali.

Hráefni:

1 kg bláskel
2 bollar ferskir, saxaðir konfekttómatar (eða aðrir vel þroskaðir tómatar)
1 laukur
1 sellerístöng
5 hvítlauksrif
4 matsk. ólífuolía (t.d. frá Bisceglia)
1/2 glas hvítvín
1/3 glas rauðvín
salt og pipar
300 gr. spagettí

Ólífuolían hituð á pönnu. Hvítlaukur skorinn í þunnar sneiðar og mýktur í olíunni á pönnunni í smá stund (1-2 mín.) þar til ljósgulur (alls ekki brúnn). Fínt söxuðum lauk og fínt sneiddu sellerí bætt út í og steikt í 2 mínútur til viðbótar. Helming hvítvíns bætt út í og steikt í aðrar 2 mínútur. Þá eru tómatar settir út í ásamt restinni af hvítvíninu og rauðvíninu (hægt að nota bara hvítvín) og soðið í 8 mínútur á meðalhita með lokinu á. Piprað og saltað. Skelinni skellt út í, lokið sett aftur á, og soðið í max 5 mínútur til viðbótar.

Spagettí soðið meðan á þessu stendur. Ef það er soðið síðar má láta sósuna standa með lokinu á og setja bláskelina síðan rétt í lokin u.þ.b. þegar spagettíið er að verða tilbúið.

Spagettí hellt yfir sósuna á pönnunni og blandað vandlega saman og ólífuolíu skvett yfir. Gott að nota súpudiska þar sem sósan er all fljótandi.

Við notuðum Beljuna í matargerðina en drukkum með ljómandi gott hvítvín Galets Dorés frá Chateau Mourgues du Gres sem smellpassaði með.

Bláskelin var náttúrulega úr Hrísey og fæst í Frú Laugu á 1.190 kr. kg.

Buon appetito!

Færðu inn athugasemd

Filed under beljan, bisceglia, frú lauga, mourgues du gres, uppskrift

Alikálfur frá Lágafelli

Hestar eru í aðalhlutverki á bænum Lágafelli frekar en ær og kýr. Þar ráða bændur og hjón, Sæunn og Halldór.

Við höfum fengið folaldakjöt frá þeim til að selja í Frú Laugu sem er afskaplega gott.

Eins og víða er búskapurinn blandaður og það má segja að hjónin séu sérfræðingar í ræktun alikálfa. Alikálfur er 100 daga gamall kálfur sem hefur nánast eingöngu drukkið mjólk á sinni stuttu ævi en einnig svolítið annað fóður eins og hey.

Alikálfarnir eru fáir, kannski er einum til tveimur slátrað að meðaltali á mánuði.

Kjötið af kálfunum er einstaklega mjúkt og bragðgott, milt en ekki bragðlítið.

Við elduðum nýlega file og rib-eye úr alikálf frá Lágafelli. Það er varla hægt að tala um uppskriftir.

Alikálfur – File:

File var skorið í bita (litlar steikur) eins og það kom fyrir (var ekki lamið í þunnar sneiðar eða slíkt). Velt upp úr blöndu af hveiti, fersku kryddi (blóðberg eða bergmynta hentar vel) og svolitlum parmaosti. Velt upp úr hrærðu eggi og síðan aftur upp úr hveitinu og sett á pönnu. Hitinn á pönnu má ekki vera of heitur svo húðin brenni ekki heldur verði létt ljósbrún (1 mínúta max á hvorri hlið). Sett í eldfast mót og eldað í ofni í um 10 mínútur við 170 gráður.
Alikálfur – Rib-eye

Rib-eye er alltaf mjjög skemmtilegur vöðvi, vel fitusprengdur og bragðmikill. Við krydduðum vöðvan í heilu lagi (800g stykki eða svo) með salti og pipar og brúnuðum vandlega á öllum hliðum á pönnu (tekur 2-3 mínútur). Létum hvíla sig góða stund. Nudduðum með fersku rósmarín (smátt söxuðu), settum í eldfast mót og helltum svolitlu rauðvíni yfir (eitt las eða svo) og notuðum til þess Beljuna okkar góðu. Sett í ofn við 170 gráður í 10 mínútur, tekið út og látið standa í sma´stund (korter nægir), og þá sett aftur inn í aðrar 10 mínútur eða svo. Látið standa aftur í korter og borið fram.

Alikálfurinn er án efa eitthvað allra besta kjöt sem við höfum eldað á heimilinu, svo mjúkt og bragðgott.

Vínið með alikálfinum má vera sæmilega kröftugt þótt ´kálfurinn sé mildur á bragðið. Við drukkum með Saint Joseph frá Saint Cosmé sem smellpassaði, svolítið eins og alikálfurinn, mjúkt, milt en lúmskt öflugt.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, uppskrift

Endurfundir með Amedei

Frú Lauga ætlar að bjóða upp á Amedei súkkulaði fyrir jólin.

Líklegast eru um 2 ár síðan við fluttum síðast inn Amedei en vegna gengismála slepptum við því alveg fyrir síðustu jól.

Við ætlum að láta nægja þessi jól að selja Amedei í Frú Laugu svo við getum haldið verðinu niðri og temprað aðeins áhrif gengishrunsins.

Pöntun er lögð af stað og vonandi berst súkkulaði í hús um miðjan næsta mánuð. Þarna verða góðkunningjar, sumir í nýjum umbúðum, í bland við nokkrar skemmtilegar nýjungar. Konfekt látum við alveg eiga sig þótt það sé hrikalega gott og girnilegt – okkur finnst einfaldlega verðið of hátt eins og sakir standa og setjum kraftinn í hreina súkkulaðið í staðinn. Þó verða þarna einhverjar girnilegar fyllingar, súkkulaðikrem, hvítt súkkulaði með pistasíum … …

Frú Lauga elskar súkkulaði.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, frú lauga

Hvað er að gerast?

Það hefur ekiki heyrst mikið í okkur undanfarið hérna á blogginu þar sem kraftarnir okkar beinast svolítið að Frú Laugu þessa dagana og svo verður eitthvað áfram.

Frúin er annars við góða heilsu!

Sprúttsalan hefur þó ekki legið niðri á meðan. Við höfum t.d. boðið upp á vínsmökkun á hverjum föstudegi í Frú Laugu kl. 16.00 fyrir gesti og gangandi.

Og það eru mörg ný vín væntanleg þrátt fyrir Kreppu Gömlu en þannig var það á sumardögum að ÁTVR blés til samkeppni um vín á svokallaðan sérlista (sérstakur listi til að þétta úrval Vínbúðanna þar sem upp á skortir) og sendum við inn slatta af vínum frá okkar framleiðendum.

Fyrir valinu urðu all mörg vín af þeim sem við sendum inn en ekki er víst að öll rati endanlega í hillurnar þar sem við þurfum að hugsa um að flutningar og annað borgi sig þegar stærri myndin er skoðuð. Þau vín sem birtast hér þó örugglega, eru reyndar lögð af stað til landsins, eru ein fjögur ný vín frá hinum suður-ítalska Bisceglia, þrjú ný frá Lambrusco-framleiðandanum Lini, þrír rauðvínsboltar frá Saint Cosme í S-Frakklandi (þ.á.m. Chateauneuf-du-Pape) og tvö freyðivín frá nýjum Prosecco framleiðanda Val d’Oca. Þar fyrir utan hafa flust á sérlistann vín sem þegar voru til í Vínbúðunum frá t.d. Hubert Sandhofer, d’Arenberg og fleirum.

Við segjum frá þessu öllu betur þegar veigarnar berast til landsins.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, d'arenberg, fréttir, frú lauga, lini, saint cosme, sandhofer, val d'oca

Uppskrift: Rauðrófurísotto með lerkisveppum frá Móðir jörð

Klukkan 18.00 í dag starði ég svangur en andlaus inn í ísskápinn.

Hvað í ósköpunum var hægt að gera í matinn?

Í ísskápinum voru rauðrófur og fennel frá Móðir Jörð og það rifjaðist upp fyrir mér að við áttum frosna lerkisveppi, sömuleiðis frá Móðir Jörð. Þá datt mér í hug að að prófa rísottó úr þessum afurðum en svepparísótto hefur löngum verið þjóðarréttur á N-Ítalíu þótt ekki sé ég viss um að rauðrófur hafi oft slysast þar með.

Ég skar rauðrófuna (1 stk) mjög smátt og lét malla ásamt brytjuðu fenneli (smá stubbur og „hár“) í slatta af ólífuolíu og smá rauðvíni í 10 mínútur. Þá fór einn bolli af arborio grjónum út í ásamt bolla af vatni. Soðið á vægum hita í opnum potti í 20 mínútur eða svo og vatni sífellt bætt við til að halda raka í grjónunum og svo þau brenni ekki (örugglega fara 6-8 bollar af vatni þegar upp er staðið). Þá fóru brytjaðir lerkisveppir út í (frosnir). Soðið í svona 10 mínútur í viðbót og vatni bætt á eins og þarf ásamt grænmetiskrafti frá Sollu (2-3 matskeiðar) og pipar. Þegar grjónin voru tilbúin (mjúk undir tönn en ekki ofsoðin heldur mátulega stinn) tók ég pottinn af pönnunni og bætti út í fullt af ferskri steinselju (gróft skorinni) og slatta af rifnum parmeggiano osti og smá smjörklípu.

Sniðugt að bera fram með því að dreifa vel úr á diskinum, fletja út.

Með þessu var sopið á restum gærdagsins, Bandol rauðvíni frá Tempier, en gott hvítvín frá S-Ítalíu eins og Falanghina frá Bisceglia eða rauðvín frá Piemonte héraði í N-Ítalíu eins og Dolcetto d’Alba frá Luciano Sandrone væri eðalgott.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, frú lauga, móðir jörð vallanesi, tempier, uppskrift, vín

Uppskrift: Síðusteik af Korngrís frá Laxárdal

Endurvöktum sunnudagsmatinn í gær með góðri hádegissteik, kartöflum, sultu og grænmeti og ís á eftir.

Svolítið léttvín flaut með svo ekkert minna þurfti en léttan blund til að núllstill kerfið á eftir.

Steikin var svokölluð síðusteik af Korngrís frá Laxárdal en korngrísirnir þar á bæ borða ekki bara nánast eingöngu íslenskt fóður heldur er fóðrið af hollustu sort. Bændurnir rækta bygg og kaupa af bændum í nágrenninu og gefa síðan grísunum sínum það að borða.

Heilbrigður lífsstíll svínanna skillar sér greinilega í gæðakjöti því síðusteikin sem við elduðum í gær var afar góð.

Kryddblandan er búin til svona:

Blönduð piparkorn léttristuð á pönnu og mulin. Bætt út í salti, sykri og fersku, fínskornu rósmarín. Kryddblöndunni nuddað á steikina og mikið af henni, kjötmegin (þ.e.a.s. ekki fitumegin þótt það væri eflaust í lagi) og meðfram hliðunum.

Ofninn hitaður í 250°C eða svo. Steikin sett í eldfast mót eða á litla plötu með fituhliðina upp og undir er sett skúffa með vatni. Þannig ristast hliðin sem snýr upp og verður brún og falleg en kjötið fyrir neðan verður mjúklega soðið og safaríkt. Líklegast dugir um klukkutími í steikingu.

Þegar steikin er tilbúin er hún látin bíða svolitla stund og allur safinn sem af henni lekur settur í skál og notaður sem sósa því ljúffeng kryddblandan er mestöll þar.

Steikingin heppnaðist mjög vel og kjötið hitti í mark meðal viðstaddra. Bárum fram með soðnum, lífrænum kartöflum frá Engi og grænkáli frá Engi sömuleiðis sem og frá Vallanesi (Móðir Jörð) sem við gufusuðum. Smjör og salt fór yfir kartöflurnar, salt, edik og ólífuolía (hóflega) yfir salatið. Rabarbíu-sultur frá Löngumýri.

Bingó!

Opnuðum lífrænt, hvítvín frá Provence í S-Frakklandi, Mas de Gourgonnier, sem passaði vel með enda steikin með sínum pipar og rósmarín í nokkuð s-frönskum anda.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, mas de gourgonnier, matur, uppskrift

Áhugaverð frétt á Sky um matvælaframleiðslu og öryggi

Bloggarinn sat í morgun með espressó bolla og fartölvu, svaraði tölvupósti og hlustaði lauslega á Sky fréttastöðina. Eins og alltaf þegar minnst er á mat sperrti hann eyrun þegar fjallað var um matvælaframleiðslu í Bretlandi og áskorun um að auka þyrfti þar í landi framleiðsluna, bæta gæðin og um leið minnka skaðlega áhrif hennar á umhverfið.

Áhyggjurnar stafa af því að eftir 40 ár mun eftirspurn eftir mat um heim allan hafa aukist um 70% að sögn fréttamanns.

Og þótt nægar birgðir séu í landinu tæki það ekki nema 20 daga fyrir eyjaskeggja að borða sig til síðasta brauðmola.

Fæðuöryggi er því áhyggjuefni þar í landi og efling nauðsynleg.

Matur, okkur nauðsynlegasta efni á eftir súrefni ætti að vera meira í forgrunni umræðu hér á Íslandi en hann gerir, í stjórnmálum, fjölmiðlum og meðal almennings.

Vonandi getum við séð Frú Laugu sem virkan þátttakanda í framtíðinni í að stuðla að og bæta gæði og framleiðslu íslensks hráefnis, aðgengi og eftirspurn. Það geta allir Íslendingar með því að velja gott, íslenskt hráefni.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga, matur

Uppskrift: Grillaðar Jöklableikjur

Fyrsti maturinn sem við elduðum úr hráefni úr matarkistu Frú Laugu var framreiddur í gærkvöldi.

Jöklableikjurnar frá Hala í Suðursveit eru eðal hráefni, mátulega stórar og þykkar og alls ekki eins feitar eins og eldisfiskur er gjarn á að verða því Fjölnir og Þorbjörg á Hala sjá til þess að bleikjurnar haldi línunum með kraftmiklu sundi á meðan á ræktun stendur.

Það er varla hægt að kalla matreiðsluna okkar þetta kvöldið sem formlega „uppskrift“ því hún var svo einföld en við tókum fjögur Jöklableikjuflök og grilluðum með roðhliðina niður þar til fiskurinn var orðinn ljósbleikur í gegn með smávegis maldon salti. Þegar hann var tilbúinn settum við hann á disk og helltum bræddu smjöri með hvítlauk og fersku rósmarín sem við sóttum út á svalir.

Þessi matreiðsla hentar bleikjunni vel, ekki of mikið smjör, ekki of mikill hvítlaukur og hóflegt rósmarín. Við viljum að bragðið af bleikjunni njóti sín.

Bárum fram með sítrónu sem hver og einn kreisti yfir að vild.

Tíndum salat og kartöflur í garðinum. Salatið var borið fram grænt með eingöngu balsamik ediki og virkaði ótrúlega vel svona ferskt. Kartöflurnar voru skornar í báta beint úr moldinni og inn í ofn með ólífuolíu hellt yfir og slatta af maldon salti. Pössuðum að hafa ekki kartöflurnar of lengi inni í ofni svo ferskleikinn myndi ekki glatast.

Mikið var þetta gott! Ekki spillti fyrir að nánast allt hráefni var sótt í forðabúr fjölskyldunnar.

Drukkum með nýtt hvítvín frá d’Arenberg sem gjörsamlega smellpassaði með, Stump Jump Chardonnay. Það verður kynnt síðar í Vínpóstinum en það hóf sölu 1. ágúst í Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, frú lauga, Jöklableikjur, uppskrift