Category Archives: fréttir

Uppskeruhátíð í Frú Laugu — Tónlist, matur og vín

Köllum það afmælisveislu, köllum það uppskeruhátíð, köllum það haustfagnað, póstlistapartí eða þakkagjörðarhátíð.

Það verður gleði í í Frú Laugu næsta fimmtudag.

Tónlist, matur og vín.

Frú Lauga vill umfram allt þakka fyrir góðar og hlýlegar móttökur og alla þá hvatningu sem hún hefur fengið.

TAKK!

Dagskráin hefstu klukkan 16.00 með harmonikkuleik að hætti Gunnars Kvaran en hann ætlar að spila næstu tvo tímana. Dill-uð grænmetissúpa verður í boði vina okkar Óla og Gunnars frá hinum frábæra veitingastað DILL auk þess sem við ætlum að smyrja makríl frá Höfn í Hornafirði á góðu flatkökurnar frá sveitabakaranum á Auðkúlu.

Bændur verða líka í búðinni því Sveina á Sogni ætlar að mæta með nauta-carpaccio og grafið naut til að smakka og í kringum 17.00 mæta Erpsstaðabændur með nýlagaðan rabarbaraís.

Kl. 18.00 ætlar tríóið Kolgeit að leika fyrir utan Frú Laugu. Það er skipað heiðursmönnunum Davíð Þór Jónssyni, Sigtryggi Baldurssyni og Helga Svavari Helgasyni. Gréta og Stína ætla síðan að spila nokkur íslensk dægurlög.

Beljan verður veislustjóri og nú má fylla glösin — muuu!

Af þessu tilefni ætlar Frú Lauga að hafa opið alla leið til 20.00.

Og vorum við búin að segja það?

TAKK!

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga

Hvað er að gerast?

Það hefur ekiki heyrst mikið í okkur undanfarið hérna á blogginu þar sem kraftarnir okkar beinast svolítið að Frú Laugu þessa dagana og svo verður eitthvað áfram.

Frúin er annars við góða heilsu!

Sprúttsalan hefur þó ekki legið niðri á meðan. Við höfum t.d. boðið upp á vínsmökkun á hverjum föstudegi í Frú Laugu kl. 16.00 fyrir gesti og gangandi.

Og það eru mörg ný vín væntanleg þrátt fyrir Kreppu Gömlu en þannig var það á sumardögum að ÁTVR blés til samkeppni um vín á svokallaðan sérlista (sérstakur listi til að þétta úrval Vínbúðanna þar sem upp á skortir) og sendum við inn slatta af vínum frá okkar framleiðendum.

Fyrir valinu urðu all mörg vín af þeim sem við sendum inn en ekki er víst að öll rati endanlega í hillurnar þar sem við þurfum að hugsa um að flutningar og annað borgi sig þegar stærri myndin er skoðuð. Þau vín sem birtast hér þó örugglega, eru reyndar lögð af stað til landsins, eru ein fjögur ný vín frá hinum suður-ítalska Bisceglia, þrjú ný frá Lambrusco-framleiðandanum Lini, þrír rauðvínsboltar frá Saint Cosme í S-Frakklandi (þ.á.m. Chateauneuf-du-Pape) og tvö freyðivín frá nýjum Prosecco framleiðanda Val d’Oca. Þar fyrir utan hafa flust á sérlistann vín sem þegar voru til í Vínbúðunum frá t.d. Hubert Sandhofer, d’Arenberg og fleirum.

Við segjum frá þessu öllu betur þegar veigarnar berast til landsins.

Færðu inn athugasemd

Filed under bisceglia, d'arenberg, fréttir, frú lauga, lini, saint cosme, sandhofer, val d'oca

The Laughing Magpie í japanskri teiknimyndaseríu

Guðirnar hafa talað.

„Dreggjar guðanna“ er japönsk manga teiknimyndasería um ungan mann sem missir föður sinn, mikinn vínspekúlant og gagnrýnanda. Í erfðaskrá föðursins er sett af stað keppni milli mannsins og fósturbróðir hans um að finna 12 „guðdómleg“ vín veraldar.

Ég hef ekki séð þessa seríu og veit ekki hvort hún hefur verið þýdd á ensku (hefur verið þýdd á amk frönsku) en bíð spenntur eftir að komast yfir hana einhvern tímann.

Nú er ennþá meiri ástæða til því að í nýjasta heftinu ferðast ungi vínsmakkarinn til Ástralíu og smakkar The Laughing Magpie frá d’Arenberg við mikla ánægju.

Þetta er í fyrsta sinn sem ástralskt vín birtist á síðum teiknimyndahetjunnar því gamlir standardar úr evrópskri víngerð hafa ráðir þar ríkjum.

Sala á The Laughing Magpie rauk upp í kjölfarið, 2006 árgangur er uppseldur en við búum svo vel að eiga slatta af 2006 á lagernum okkar.

Smelltu til að lesa forsíðufrétt um birtinguna sem vakti mikla athygli í Ástralíu

Svona lítur þetta út á síðum „Dreggja guðanna“:

—————-

Plantað fyrir 210 árum, áströlsk vín eru afurð vinnu fólksins. Shizuk hefur fundið kandídat undir áströlskum himni.

SHIZUKU: Þetta Shiraz er virkilega gott. Ég bjóst ekki við miklu frá víni með skrúftappa.

ST’ÚLKA: Þetta vín hefur unnið mörg verðlaun, þetta er vín fyrir fólk með puttan á púlsinum. Það kemur frá svæði ekki langt frá sem heiti McLaren Vale. Þetta er d’Arenberg Laughing Magpie Shiraz Viognier 2006 árgangur.

SHIZUKU: Við skulum flytja þetta vín inn.

STÚLKA: Góð hugmynd. Það myndi kosta á milli 2000 og 3000 yen í Japan. Fyrir utan að leita að kandídötum þurfum við að finna vín til innflutnings líka.

SHIZUKU: Það er kryddað og barmafullt af orku og lífi. Bæði framandi en líka fyrir venjulegt fólk á sama tíma.

Ein athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, dómar, fréttir

Áhugaverð frétt á Sky um matvælaframleiðslu og öryggi

Bloggarinn sat í morgun með espressó bolla og fartölvu, svaraði tölvupósti og hlustaði lauslega á Sky fréttastöðina. Eins og alltaf þegar minnst er á mat sperrti hann eyrun þegar fjallað var um matvælaframleiðslu í Bretlandi og áskorun um að auka þyrfti þar í landi framleiðsluna, bæta gæðin og um leið minnka skaðlega áhrif hennar á umhverfið.

Áhyggjurnar stafa af því að eftir 40 ár mun eftirspurn eftir mat um heim allan hafa aukist um 70% að sögn fréttamanns.

Og þótt nægar birgðir séu í landinu tæki það ekki nema 20 daga fyrir eyjaskeggja að borða sig til síðasta brauðmola.

Fæðuöryggi er því áhyggjuefni þar í landi og efling nauðsynleg.

Matur, okkur nauðsynlegasta efni á eftir súrefni ætti að vera meira í forgrunni umræðu hér á Íslandi en hann gerir, í stjórnmálum, fjölmiðlum og meðal almennings.

Vonandi getum við séð Frú Laugu sem virkan þátttakanda í framtíðinni í að stuðla að og bæta gæði og framleiðslu íslensks hráefnis, aðgengi og eftirspurn. Það geta allir Íslendingar með því að velja gott, íslenskt hráefni.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga, matur

M-ið í „Vín og matur”

Stundum erum við spurð: „Vín og matur — en hvar er allur maturinn?“

Svarið hingað til hefur alltaf verið eitthvað á þann veg að vínin væru í aðalhlutverki enn sem komið er en stundum þvældust með ólífuolíur, hunang, edik og súkkulaði sem við borðum mest allt sjálf.

Það er að breytast.

Við erum búin að leigja húsnæði að Laugalæk 6 við hliðina á 10-11 og opnum þar bændamarkað síðsumars.

Nafnið á verzlunina er komið, það verður tilkynnt í sérstökum tölvupósti sem fer í loftið um leið og hönnun lógós er frágengin, og að sjálfsögðu hér á blogginu og Facebook.

Við hlökkum endalaust mikið til þessa nýja verkefnis sem við höfum fóstrað með okkur í fleiri ár en hefur nú loksins tekið á sig rétta mynd.

Það verður ánægjulegt að hitta ykkur þar!

Fyrstu myndir komnar á Flickr

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir

Verðhækkanir í Vínbúðunum

Það hefur ekki farið framhjá neinum að verð á víni og öðru áfengi hefur hækkað. Ástæðan er margumrædd hækkun áfengisgjalds.

Þetta gerðist hratt. Við fengum föstudaginn til að breyta verðum til Vínbúðanna í samræmi við hækkunina og í dag tóku nýju verðin þegar gildi í búðunum.

Það var ekki hjá því komist að hækka verðin því að lagerinn okkar eins og hjá öðrum sprúttsölum er hýstur á frísvæði þar sem við greiðum áfengisgjöld og virðisauka jafnóðum og vara er leyst út og hún afgreidd til Vínbúðanna.

M.ö.o. frá og með fyrsta degi sem ríkisstjórnin ákvað að hækka gjaldið þurftum við að greiða meira en áður fyrir að leysa út af frísvæðinu.

Hækkun okkar vína er á bilinu 100 til 150 krónur á hverja flösku. Einhver vín hækka aðeins meira þar sem gengislækkun krónunnar er ennþá að skila sér í einstaka víni.

Ekki beint gleðifréttir.

Nú er bara að bíða og sjá hvað krónan gerir á næstunni. Vonandi styrkist hún og við getum farið að lækka einhver verð í staðinn fyrir að hækka.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, vínbúðirnar

Hástökkvari mánaðarins í Vínbúðunum

Í hverjum mánuði fáum við sprúttsalar yfirlit frá ÁTVR yfir sölu með útreiknaðri framlegð fyrir hvert og eitt vín. Listinn skiptist í tvennt, yfir vöru sem er í kjarna annars vegar og hins vegar vöru sem er til reynslu.

Þarna sjáum við hvernig okkar vín koma út í samanburði við önnur og hvað vantar upp á til að reynsluvín komist í kjarna eða hversu mikil hætta er á því að kjarnavín dettur úr sölu. M.ö.o. mjög gagnlegur listi sem við getum skoðað í gegnum sérstakan birgjavef, sem og aðrar fréttir og skýrslur.

Í ný-útsendum lista yfir apríl mánuð síðastliðinn kom okkur skemmtilega á óvart að sjá að hástökkvari mánaðarins í flokki reynsluvína er Chianti frá Querceto sem tókst á einum mánuði að slengjast hálfa leiðina í kjarna.

Og fyrstu 10 dagana í maí virðist sem ekkert lát sé á vinsældum vínsins og það lítur vel út með framtíð þess sem stendur. Allavegana erum við nógu bjartsýn til að hafa bókað síðustu 600 flöskurnar sem framleiðandinn átti hjá sér og reiknum með að taka 600 til viðbótar í sömu sendinga af nýjum árgangi, 2008.

Sú sending kemur eftir mánuð eða svo. Hún ætti reyndar að vera ansi skemmtileg og óvenju myndarleg fyrir okkar litla fyrirtæki því þar með í för verður fyrsta kassavínið okkar, rautt og hvítt, en meira um það síðar.

 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Og enn af verðbreytingum…

Það er ekki annað hægt að segja en að starfsmenn Vínbúðanna hafi haft nóg að gera í verðmerkingum síðusta misserið.

Fyrst var það hver hækkunin á fætur annarri sem skall á þegar gengið féll og féll og vínkaupmenn þurftu að hækka söluverð í kjölfarið, síðan hækkun á áfengisgjaldi og loks breytingar á lögum er varða álagningu ÁTVR.

Þessari síðustu verðbreytingu var dembt á starfsmenn Vínbúðanna og landsmenn alla 22. desember. Skemmtilegur jólaglaðningur það. Nú er álagning á öll léttvín 18% og það sem er merkilegt við það er að það er ekki munur gerður á því hvort léttvínið fæst í kjarna eða reynslu. Áður var álagningin 13% fyrir fyrrnefnda flokkinn en 19% fyrir þann síðari.

Við höfum alltaf verið með nánast öll vínin okkar í reynslu, þ.e.a.s. í 19% flokkinum, sem hafa þar af leiðandi þurfti að etja kappi við 13% vínin en nú eru öll vín jöfn og kvörtum við svo sem ekki yfir því (þótt betra hefði verið ef sameiginlega prósentan hefði farið niður en ekki upp). Við höfum bara átt tvö vín í kjarna undanfarið, Arnaldo Caprai Grecante og Castello di Querceto Chianti Classico Riserva og hækkuðu þau tvö svolítið á meðan öll hin vínin okkar í Vínbúðunum lækkuðu um þetta prósentustig.

Nú þarf ég að fara að breyta verðunum á www.vinogmatur.is því þau eru flest úreld.

Já það er fjör.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Hækkun um hundað kall takk fyrir

Svona til að einfalda hlutina þá má segja að hækkun áfengisgjalds í vikunni hafi leitt til 100 kr. hækkunar (miðað við 750ml flösku af léttvíni með meðaláfengisprósentu).

Þetta ætla ég ekki að sýna fram á með dæmi. Það yrði frekar frekar leiðinlegt.

Okkar vín hækkuðu öll sem eitt um 100 kall fyrir utan eitt sem hækkaði meira (200 kr.) og annað sem hækkaði minna (60 kr.).

Þetta er náttúrulega nokkuð fúlt, að þurfa að hækka vínin ofan á gengisfallið, og spurning hvort þetta hafi þurft að gerast síðustu daga fyrir jól. Mætti halda að betra væri að halda aftur af útgjöldum ríkis en auka tekjur með þessum hætti þar sem það stuðlar að aukinni verðbólgu. Þrátt fyrir hagsmuni er samt ekki hægt að segja að manni þætti betra að skorið væri niður í menntun eða hjúkrun landsmanna heldur en klípa af vínneyslu landsmanna.

O jæja.

2 athugasemdir

Filed under fréttir, vínbúðirnar

Hátíðarvínlisti Íslands 2008 – pantaðu beint af vefnum

Hann er kominn út, Hátíðarvínlisti Íslands 2008.

Gospel íslenskra vínunnenda.

Í fyrsta sinn í sögunni er hægt að gera pantanir á hátíðarvínum beint af vefnum okkar.

Smelltu hér til að skoða Hátíðarvínlistann og panta hátíðarvínin

Það er hægt að senda pöntunina í hvaða Vínbúð sem er og það er ekkert lágmarksmagn.

Ef þú vilt ekki nýta þér nýjasta nýtt má líka skoða Hátíðarvínlistann á pdf og prenta hann jafnvel út. Dettur þá í hug að það megi áframsenda hann á vini og vandamenn, hengja upp á kaffistofum vinnustaða, lesa upp úr honum á bókafundum, ljóðakvöldum, mótmælendafundum osfrv. osfrv.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, hátíðarvín, vínlisti

Vínþjónasamtökin veita okkur Hvatningarverðlaunin 2008

Grandalaus gekk ég inn á Hilton Hótel Nordica í gær klukkan 16.00 og hugsaði hvað það gæti verið notalegt að vera útlendingur í smá stund í þessu fína lobbíi og sötra kannski eins og einn GT, Martini eða freyðivínsglas, með allt krepputalið hinum megin við glerið.

Tilefnið var reyndar að kíkja á samkomu hjá Vínþjónasamtökum Íslands og smakka á 10 vínum sem samtökin veittu Gyllta Glasið þetta árið. Í þetta sinn kepptu einungis vín undir 2.000 kr. frá Ameríku um glasið og tókum við því ekki þátt en stefnum á að gera það í fyrsta skipti að ári.

Þetta stutta innlit átti heldur betur eftir að enda á skemmtilegan hátt þegar kom að veitingu Hvatningarverðlauna Vínþjónasamtakanna árið 2008. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru afhent, í fyrra féllu þau í skaut Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Verðlaunin eru veitt „sem viðurkenning fyrir að stuðla markvisst að vínmenningu á Íslandi, með því að leggja áherslu á vandað úrval af víntegundum á aðgengilegu verði.“

Ræðumaður hafði þessi orð að segja:

„Á tíma þennslunnar sótti hann nýja framleiðendur heim og valdi vandlega nokkra þeirra sem höfðu öðlast frægð á heimsmarkaðnum (eða ekki) en voru líka sérstakir persónuleikar sem mynduðu persónutengsl. Hann stækkaði sjóndeildarhringinn, sinn og annarra, að miklu leyti af hugsjón. Hann hélt okkur við efni og kynnti fyrir okkur vínbændum sem eiga ekki erindi í heimsvæðingu og eru lífandi tákn síns héraðs. Hann minnir okkur stöðugt á að hafa gæði að leiðarljósi en ekki gefa eftir í auðvelda sjónarmiðið “þetta er svo vinsælt”, hann minnir okkur á að gera kröfur.

Hann vinnur einn og er flokkaður sem “eins manns birgi”, en hann nær þó að halda uppi fróðlegri kröftugri heimasíðu, markvissu fréttabréfi þar sem skín hans kimnigáfa, hann slakar ekki á gæðum og lætur ekki ginnast af massaframleiðslu vínheimsins.

Hann á skilið að fá alla hvatningu sem hægt er að veita til að halda áfram á þeirri braut og það sérstaklega á erfiðum tímum því við þurfum öll að fá smá hlutdeild í hans hugsjón og jákvæðni.

Hann heitir Arnar Bjarnason og þekktur sem Arnar í Vín og Mat“.

Lestu fréttina á vef Vínþjónasamtakanna

Undirritaður leit í kringum sig til að kanna hvort það væri ekki örugglega einhver annar Arnar Bjarnason á staðnum en svo var ekki og rölti hálf vandræðalegur upp að púltinu og tók við verðlaununum Honum leið eins og fegurðardrottningnu nema að fegurðardrottning hefði haft eitthvað að segja en það hafði undirritaður alls ekki og lét sig hverfa aftur út í salinn (honum datt síðan margt sniðugt í hug á leiðinni heim).

Þetta hefði hann viljað segja:

Vín og matur er samstarfsverkefni okkar Rakelar og allra þeirra sem hafa tekið þátt í því sem við erum að gera, með því að fjalla um vínin okkar, með því að lesa Vínpóstinn okkar, með því að setja vínin okkar á vínlistinn sinn, með því að spyrja um vínin okkar í Vínbúðunum, með því að senda okkur ábendingar og hvatningu, og svo mætti lengi telja. Við þökkum ykkur öllum og ekki síst Vínþjónasamtökum Íslands fyrir svo hugulsöm orð og hvatninguna.

Takk, takk, takk.

Kiss og knús.

5 athugasemdir

Filed under fréttir, Vínþjónasamtökin

Og fyrsti vinningshafinn í póstlistaáskoruninni er…

… Tryggvi Blöndal!

Innilega til hamingu með vinninginn Tryggvi.

Tryggvi var númer 654 á póstlistanum og hlýtur að launum vínsmökkun fyrir sig og sína ásamt fyrsta flokks ítölsku fingurfæði frá veitingastaðinum La Primavera.

Við Tryggvi erum þegar farnir að skipuleggja vínsmökkun fyrir hann og hans fólk á næstu vikum.

Nú er gott að vera vinur Tryggva.

Við minnum á að póstlistaáskorunin er í fullum gangi ennþá, næst verður dreginn út sambærilegur vinningur þegar fjöldi áskrifenda að Vínpóstinum verður 800 manns. Þá verður einn áskrifandi dreginn út úr þeim sem bættust við frá 701 til 800.

Vinningslíkur eru því 1 á móti 100 fyrir hvern nýjan áskrifanda.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, happdrætti, la primavera, vínpósturinn, vínsmökkun

Útsalan vekur sterk viðbrögð

Það er varla hægt að tala um að útsalan sé ennþá í gangi því aðeins ein tegund er eftir af þeim 8 sem lagt var upp með. Það er samt ennþá hægt að panta hana á meðan birgðir endast.

Og nú ætla ég ekki að vera eins og Ríkisstjórn Íslands og gefa sem minnst upp heldur upplýsi hér með að seldar voru um 1.200 flöskur á útsölunni.

Við græddum ekkert á þessu nema ánægjuna með þessi góðu viðbrögð.

Eitt skrítið gerðist. Nýtt nnkaupakerfi ÁTVR var ekki tilbúið til þess að skrá eitt og sama vínið á mismunandi verðum og fengu því allir 5% aukaafslátt sem auglýstur var eingöngu til handa þeim sem keyptu vín í kassavís. Líklegast náum við samt að laga það fyrir næstu útsölu.

2 athugasemdir

Filed under útsala, fréttir, tilboð

Franskar þverstæður í auglýsingum og umfjöllun á áfengi

Það virðist undarlegt að á meðan sífellt fleiri rannsóknir benda til góðra áhrifa léttvínsneyslu í hófi, bæði á sál og líkama, þá eru viðurlög gegn vínneyslu víða að herðast.

Frakkar af öllum þjóðum ákváðu ekki fyrir löngu að banna áfengisauglýsingar í sjónvarpi. Þegar bannið var lagt fram lögðust franskir víngerðarmenn ekki nægilega vel gegn því þar sem að þeir töldu sig of litla yfir höfuð til að stunda slíka auglýsingamennsku og að bannið myndi hins vegar gera erlendum risakeppinautum þeirra erfiðara fyrir að herja á þeirra heimamarkað með auglýsingarherferðum í sjónvarpi. M.ö.o. þeir töldu sig vera að vernda sinn hag.

Áfengisauglýsingar í dagblöðum og tímaritum eru hins vegar leyfðar svo framarlega sem þeim fylgi texti um skaðsemi áfengis.

Nú renna hins vegar á þá tvær grímur í kjölfar dómsúrskurðar þar sem ANPAA (Franska áfengis- og vímuefnaforvarna-ráðið) hefur sigrað í máli sem það höfðaði á hendur dagblaðsins Le Parisien þar sem fjallað var um kampavín í blaðinu og birtur listi í því sambandi yfir ákveðin vín, verð og hvar þau væru fáanleg. Le Parisien var sektað um 5.000 Evrur.

Dómurinn mun hugsanlega hafa fordæmisgildi þannig að allar víntengdar skriftir í frönskum dagblöðum þurfa að hafa viðvörunartexta um skaðsemi áfengis.

Þverstæðurnar birtast svo best í því að frönsk yfirvöld eru á einn veginn að hamla útbreiðslu franskrar vínframleiðslu í sínu landi í gegnum ANPAA en breiða hana út til annarra landa í gegnum hin ýmsu samtök sem vinna að markaðssetningu franskar vínmenningar.

Denis Saverot, ritstjóri franska víntímaritsins La Revue du Vin de France, skrifar í nýjasta Decanter að þarna sé vegið að franskri vínmeningu og snúið baki við yfir 1000 ára sögu. Hann bendir líka á áhugaverða staðreynd að á meðan neysla hins náttúrulega hamingjudrykks, léttvíns, í Frakklandi hefur hrunið eru Frakkar í dag orðnir að þeirri þjóð sem neytir mest af þunglyndislyfjum. Hann bendir líka á að í þeim tveimur héruðum Frakklands þar sem áfengisvandi er mestur, Pas de Calais og Bretagne, eigi sér stað engin vínrækt.

3 athugasemdir

Filed under decanter, frakkland, fréttir, vangaveltur

Hrein? Ítölsk? Ólífuolía?

Olio d’Oliva Extra Vergine. Ítölsk jómfrúarólífuolía.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að slík „ítölsk“ ólífuolía er oftar en ekki alls ekki ítölsk yfir höfuð.

Það er nóg að ólífurnar komi frá einhverju Evrópusambandsríkjanna, aðallega Spáni og Grikklandi, og þá má kalla hana „ítalska“.

Gæðastimpillinn „made in Italy“ fer að verða æði loðinn í þessu samhengi.

Evrópusambandið setur meira að segja ekkert út á þetta og styrkir allar ólífuolíur sem framleiddar eru undir ítölsku flaggi jafnt og greiðir fyrir hvern unnin líter. Það sem er þó ólöglegt er að flytja inn olíu frá öðrum löndum eins og þeim sem liggja hinu megin við Miðjarðarhafið í N-Afríku og reyna að svindla út styrki á hana.

Menn eru hins vegar grunaðir um slíkan innflutning til að verða sér úti um ódýra ólífuolíu og Evrópusambandsstyrkina í leiðinni.

Það er samt ekki nóg að „ítalska“ ólífuolían í súpermarkaðinum sé kannski ekki ítölsk, og hugsanlega afrísk, heldur er möguleiki að hún sé bara alls ekki úr ólífum skv. frétt í The New Yorker í ágúst stl. (lestu fréttina). Slíkt brugg er náttúrulega bannað en sýnt hefur verið fram á stórfellt svindl á Ítalíu þar sem olía úr fræjum, heslihnetum og öðrum óæðri hráefnum hefur verið smyglað í ítalskar ólífuolíustöðvar og þar blandað við ólífuolíu eða jafnvel runnið óblönduð í flöskur risaólífuolífyrirtækjanna ítölsku sem „hrein“, „ítölsk“, „ólífuolía“.

Hvað er til ráða?

Kaupa ólífuolíu frá litlum gæðaframleiðanda sem hægt er að treysta eins og frá vínframleiðendunum Caprai og Fontodi. Caprai fæst í Kokku á Laugaveginum og Fontodi fæst í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut. Þær eru bara ekki yndislega góðar heldur hreinar, ítalskar og örugglega ólífuolíur.

Kíktu á allan matseðilinn til að sjá allt góðgætið sem við flytjum inn

Færðu inn athugasemd

Filed under ólífuolía, caprai, fontodi, fréttir, the new yorker

Tvær bíómyndir um 1976 vínsmakkið í París

Tvær bandarískar bíómyndir eru í bígerð þar sem byggt er á sama efni, nefnilega Paríssmökkuninni 1976 þar sem vín frá Kalíforníu höfðu betur í blindsmakki gegn vínum frá Frakklandi (lestu þetta blogg þar sem ég fjalla um endurtekningu smökkunarinnar 2006).

Þetta kemur fram á vef Dr. Vino

Önnur, The Judgment of Paris, er svokölluð „official“ útgáfa í samræmi við óskir breska smakkarans Steven Spurrier sem tók þátt í 1976 atburðinum. Þar hafa verið nefndir ekki síðri leikarar en Hugh Grant eða Jude Law í hlutverk Spurriers.

Hin er sett þessari til höfuðs (eða öfugt) og heitir Bottle Shock. Þar mun hinn stórgóði Alan Rickman fara með hlutverk Spurriers.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessar myndir ætla að ná dramatískri spennu út úr vínsmakki en samkvæmt San Francisco Chronicle er að finna m.a. þessa mögnuðu setningu í handriti síðari myndarinnar:

„I’d leave my wife in the gutter for another taste of that voluptuous noble fluid with subtle hints of magnificent licorice and cooked ripe black currant.“

Þarna er alvörukrítík á ferðinni, ekkert létt hjal.

Færðu inn athugasemd

Filed under bandaríkin, frakkland, fréttir, kvikmyndir, vínsmökkun

Hvað er þetta með ríkiseinokun á drykkjarvöru?

Samkeppniseftirlitið gerði í dag húsleit hjá Mjólkursamsölunni til að kanna hvort fyrirtækið hafi hugsanlega misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína (sjá frétt á mbl.is).

Það er slæmt ef satt er og ennþá verra að fyrirtækið skuli vera í eigu ríkisins.

Manni verður ósjálfrátt hugsað til annars slíks fyrirtækis sem er nágranni Mjólkursamsölunnar og selur annars konar drykkjarvöru, öllu áfengari. Nú er ég að sjálfsögðu ekki að segja að Mjólkursamsalan hafi brotið af sér, það á eftir að koma í ljós, og hvað þá síður að nágranni þess ÁTVR sé líklegt til nokkur slíks. ÁTVR er líka einokunarfyrirtæki og getur því ekki brotið á neinum hefðbundnum samkeppnisaðilum.

Það að ríkið skuli yfir höfuð vera að fást við þessa tegund af atvinnurekstri er náttúrulega löngu úrelt hugmynafræði.

En að annarri frétt, svolítið skyldri:

Áfengiseinokunin í Svíþjóð hefur tapað máli á hendur nokkrum þarlendum einstaklingum sem keypt höfðu vín gegnum netið og flutt inn til landsins (sjá frétt á mbl.is). Sömu einstaklingar ætla nú að kæra einokunina fyrir að leggja á áfengistolla.

Ég skal viðurkenna að ég fagna svoítið óförum þessarar sænsku ríkiseinokunarrisaeðlu svo framarlega sem það geti stuðlað óbeint að því að áfengissmásala verði gefin frjáls á Íslandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, morgunblaðið, vangaveltur

Alba er Vínþjónn ársins

.

Elísabet Alba er Vínþjónn Ársins 2006 eins og kemur fram í þessari frétt á freisting.is.

Alba er vínþjónn á VOX þar sem nokkur af okkar vínum prýða vínlistann.

Ég var með vínsmakk ekki fyrir löngu á Vox til að leyfa þeim að kynnast nokkrum af okkar vínum. Það var sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með einbeittri Ölbu og hlusta á hana buna út úr sér skrautlegum orðaforða og lýsingum sem hittu beint í mark.

Alba hefur greinilega mikla þekkingu og ástríðu. Hún er vel að heiðrinum komin.

Til hamingju Alba!

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, vínlisti, veitingastaðir, vox

Súkkulaði betra en koss

„There is no doubt that chocolate beats kissing hands down when it comes to providing a long-lasting body and brain buzz“ segir Dr. Lewis á vef BBC í dag.

Lestu alla fréttina þeirra

Það er vitnað í fréttina á mbl.is í dag.

Þau hafa væntanlega notað Amedei súkkulaði.

2 athugasemdir

Filed under amedei, fréttir, rannsóknir, súkkulaði

Metsala á Rioja

.

Vín frá Rioja héraðinu á Spáni náðu metsölu 2006 skv. þessari frétt. Heimssala á vínum frá héraðinu jókst um 4.3% frá árinu áður og náði 261 milljón lítra sölu.

Þrír stæstu markaðirnir utan Spánar eru Bretland, Þýskaland og Bandaríkin.

Skrítið, Orobio Rioja 2004 frá Artadi sem við flytjum inn selst eiginleg ekki neitt.

En eins og ég benti Artadi á þá vantar víninu betri miða þar sem nafnið „Rioja“ er meira áberandi og miðinn sjálfur skrautlegri sbr. marga aðra framleiðendur frá héraðinu.

Ég hef ekki heyrt í Artadi síðan ég sendi þeim þessar vinsamlegu ábendingar.

Vonandi hef ég ekki stígið á neinar tær því mig langar endilega að kaupa El Pison 2004 vínið þeirra sem var að fá 100 stig hjá Robert Parker.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, fréttir, rioja, spánn, vangaveltur

Vínblogglistar – það var helst í fréttum

Winebloglist er dálítið sniðug vefsíða.

Hún sýnir lista af nokkrum helstu vínbloggsíðunum og vínfréttasíðunum. Fyrirsagnir af tveimur nýjustu færslum hverrar síðu eru birtar þannig að það er hægt að skanna hratt yfir hvað er þar helst í umræðunni og smella á það sem vekur áhuga manns til að lesa nánar á viðkomandi vefsíðu.

Wineblogwatch er aðeins öðruvísi. Hún sýnir nánast endalausan lista af vínbloggurum (fleiri hundruð!) en birtir ekki helstu fyrirsagnir.

Svo má líka bara láta sér nægja að lesa vín og matur bloggið.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, Vínblogg, vefsíður

Rioja hvítvín fá að hafa Chardonnay og Sauvignon Blanc

Í þessari frétt á Decanter er fjallað um breytingu á vínlögum í Rioja sem gerir framleiðendum þar kleyft að bæta m.a. þrúgunum Chardonnay og Sauvignon Blanc í hvítvínin.

Einhverjar deilur eru um lagabreytinguna þar sem togast á hugsjónir þeirra sem vilja umfram allt viðhalda hefðinni og þar með útiloka aljþóðaþrúgur eins og Chardonnay og Sauvignon Blanc úr framleiðslu Rioja hvítvína – og þeirra sem finnst hefðin þrengja að sér og vilja því aukið frelsi til að framleiða hvítvín að sínu skapi.

Athugasemdir við fréttina á Decanter eru á báða bóga eins og við mátti búast. Ég sendi sjálfur mína skoðun á þessari frétt og birtist hún vonandi á Decanter eftir helgi. Ég er meira sammála skoðunum frjálshyggjumanna í þessum efnum eins og hans Alders (sem heldur úti Vinography vínblogginu) sem kallar á þessa breytingu „progress“ frekar en „evil globalization“.

Rauðvínin frá Rioja geta verið frábær en man einhver eftir eftiminnilegu hvítvíni frá Rioja sem hann hefur smakkað?

Svarið er örugglega nei. Ekki það að það sé ekki til einhvers staðar eitt og eitt gott hvítvín frá Rioja en líkurnar á að finna það eru hverfandi. Breytingin á lögunum verður líkleg til þess að bæta ímynd hvítvínanna. Hvort Chardonnay og Sauvignon Blanc séu endilega töfraþrúgurnar til að galdra fram góð Rioja hvítvín í framtíðinni skal látið ósagt (mér finnst reyndar Sauvignon Blanc meira spennandi kostur en Chardonnay í þessu sambandi) en aukiið svigrúm og skilningur fyrir viðleitni framleiðenda til þess að betrumbæta hefðina er skref í rétta átt. Verdejo, spánska þrúgan, er líka ný viðbót í þennan kokteil og lofar sú góðu þar sem hún er uppistaðan í prýðilegum hvítvínum frá Rueda.

Fram að þessu hefur Viura (einnig kölluð Macabeo) verið uppistaðan í Rioja hvítvínum, þrúga sem Oz Clarke kallað í bók sinni Grapes and Wines: „a grape which obstinately defies nearly all attempts to turn it into world-class wine.“ Hann nefnir á endanum nokka framleiðendur sem gera bestu vínin úr þrúgunni og er okkar framleiðandi í Rioja, Artadi, þar á meðal.

Við smökkuðum þetta Rioja hvítvín frá Artadi víngerðinni sem ber sama nafn og rauðvínið sem nú fæst í Vínbúðunum, Orobio. Það var prýðilegt en ekki eftiminnilegt og miðað við frábæra flóru rauðvína frá framleiðandanum olli það vonbrigðum. Kannski að Artadi nýti sér nýjar reglur til að endurskoða þetta vín – ég þarf að spyrja hann.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, þrúgur, decanter, fréttir, rioja, spánn, víngerð

5 bestu vínbloggin: 2006 Food Blog Awards

.

2006 Food Blog Awards tilnefningarnar eru komnar.

Þær eru heitari en Golden Globe.

Af tæknilegum ástæðum einum (skrifum ekki á ensku) er Vín og matur bloggið ekki í hópi 5 tilnefndra bloggara í flokkinu Best Drinks Blog en þessir eru það hins vegar.

Færðu inn athugasemd

Filed under blogg, fréttir

Bloggarinn er maður ársins skv. Time

.

Bloggarinn er maður ársins skv. Time eins og fram kemur á blogginu hans Denna.

Það er verið að tala um mig kæru vinir.

Upp með kampavínið!

Það er reyndar líka verið að tala um Denna. Og alla aðra bloggara í heimi.

Samt góð ástæða til að taka fram kampavínið.

Valdið er að færast úr höndum fjölmiðla til fólksins. Það er ekki langt síðan ég bloggaði um enskan bloggara (bloggara elska að blogga um aðra bloggara) þar sem kom fram að bloggsíðan hans fékk álíka margar heimsóknir og vefsíða eins mest lesna víntímarits í heimi, Decanter.

Færðu inn athugasemd

Filed under blogg, fréttir, time

Robert Parker hrósar Falesco í viðtali við Business Week

.

Falesco víngerðin sendi mér viðtal við Robert Parker sem birtist í Business Week í fyrradag.

Hann lofar víngerðina hástert og gefur Vitiano vínunum okkar, rauða og hvíta, 89 stig.

Lestu viðtalið

Þeir sem hafa lesið þetta blogg, eru áskrifendur af póstlistanum eða hafa einhvers staðar hlustað á boðorð undirritaðs ættu að hafa tekið eftir því að þessi víngerð hefur verið að hrúga inn viðurkenningum. Þá meina ég viðurkenningum sem skipta máli. T.d. að Vitiano Rosso var kosið Bestu rauðvínskaup Ítalíu í bæði Gambero Rosso og Wine Spectator, vín mánaðarins í Gestgjafanum og fékk 18 af 20 í Mbl. á meðan Vitiano Bianco fékk ein 19 af 20 í Mbl.

Jamm.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, business week, dómar, falesco, fréttir, robert parker, tímarit, viðtal

50 vín sem hafa breytt Ítalíu

Gambero Rosso útgáfan er allt í senn, vefsíða, tímarit og bók. Gefin út af Slow Food samtökunum sem eiga sér fulltrúa hér á Íslandi.

Bókin er gefin út einu sinni á ári og fjallar um nánast öll vín eru skipta máli á Ítalíu. Hún er án nokkurs vafa áhrifamesta heimildin um vín þar í landi og áhrifanna gætir um allan heim.

Vínin sem þeir gefa hæstu einkunn, svokölluð þrjú glös eða  „Tre Bicchieri“,  á hverju ári eru um 300 talsins. Það þykir afar eftirsóknarvert að hljóta þann heiður. Sum vín fá þessa einkunn á næstum hverju ári, önnur endrum og eins.

En að velja 50 vín sem hafa breytt og mótað landslagið í ítalskri vínmenningu er önnur ella, öllu marktækari.

Gambero Rosso finnst 50 vín hafa gert betur en önnur í gegnum tíðina. Af þeim 50 eigum flytjum við inn 7. Þau eru Montevetrano, St. Valentin Sauvignon Blanc, Barolo Cannubi Boschis, Granato, Sagrantino di Montefalco 25 Anni, Montiano og Flaccianello della Pieve.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, fréttir, gambero rosso, vín

Flugleiðir velja Vín og mat á Business Class vínlistann

Ég er nokkuð ánægður akkúrat núna. Svona næstum eins ánægður og krakkarnir í Langholtsskóla sem unnu Skrekk í gær.

Inn um lúguna kom bréf frá Flugleiðum með pöntun fyrir Business Class vínlistann árið 2007.

Það eru 8 vín á vínlistanum, fjögur fyrir Evrópu Business Class (187ml flöskur) og fjögur fyrir Bandaríkja Business Class (750ml flöskur).

Af 8 eigum við 3 sem við erum eiginlega mjög ánægð með.

Þetta er þriðja árið sem við störfum með Flugleiðum. Frá stofnum Víns og matar hafa vínin okkar verið á Business Class vínlistum Flugleiða, 2007 verður fjórða árið í röð.

Hvernig fer valið fram? Birgjar senda 2-3 sýnishorn af hverju víni sem er síðan smakkað af nokkrum helstu vínsérfræðingum landsins og stóru vínteymi af hinum og þessum að auki til að gefa sem breiðasta mynd af vínunum sem eru smökkuð.

Og að vínunum þremur. Fyrst ber að nefna Pinot Noir rauðvín (750ml Business Class USA) frá San Michele Appiano, okkar framleiðanda í Alto Adige á norðurhjara Ítalíu, síðan Grecante hvítvín (750ml Business Class USA) frá Arnaldo Caprai á Mið-Ítalíu og loks sérsmíðuð hvítvínsbland (187ml Business Class Evrópa) fyrir Vín og mat frá nýjum framleiðanda, Sandhofer í Austurríki.

Þess má geta að báðir ítölsku framleiðendurnir hafa verið valdir framleiðendur ársins hjá Gambero Rosso/Slow Food.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, caprai, ferðalög, flug, fréttir, gambero rosso, hvítvín, rauðvín, sandhofer, vín

Winespectator Top 100: Torbreck The Struie 2004

Wine Spectator Top 100 listinn var að koma út, fyrir árið sem er senn á enda.

Við eigum eitt vín á listanum, The Struie 2004 frá Torbreck. Það fær 94 stig og er í 38. sæti listans.

Vínið var líka valið á listann fyrir tveimur árum síðan, þá 2002 árgangur, og merkilegt nokk í nákvæmlega sama sæti. Við keyptum hins vegar 2003 árganginn og verður hann væntanlega fáanlegur í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni innan skamms.

Ég mun leggja inn pöntun af þessu víni fljótlega — í næstu sendingu frá Ástralíu en hvort það verður 2004 eða 2005 er ég ekki alveg viss um.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, dómar, fréttir, rauðvín, torbreck, wine spectator

Robert Parker bætir Breta í safnið: Wine-Journal lagt niður

Robert Parker hefur verið iðinn við kolann undanfarið í mannaráðningum eins og ég minntist á í þessu bloggi fyrir skömmu.

Nú hefur hann bætt einum kraftinum enn í safnið og er sá sóttur úr heimi bloggsins. Bretinn Neil Martin byrjaði með wine-journal.com vefsíðuna í sama mánuði og Vín og matur hóf að selja vín sín í ÁTVR, júní 2003. Þá voru tvær heimsóknir eða svo á dag á vefsíðuna hans (önnur var mamma hans) en í október sl. voru heimsóknir alls 140.000 sem er álíka mikið og vefsíða eins áhrifamest víntímarits heims, Decanter, fær.

Þetta segir eitthvað um heim bloggsins.

Það að Neil skuli vera Breti er svo sem líklegast ekki tilviljun því það eru helst Bretarnir sem hafa gagnrýnt Parker undanfarið fyrir hans miklu áhrif og smekk.

Svo virðist sem að Parker ætli að leyfa Neil að leika svolítið lausum hala á vefsíðunni sinni eins og Neil segir sjálfur og að stemning og sjálfstæði Neils muni haldast. Þetta mun allt koma í ljós á nýuppfærðri síðu Parkers sem mun verða tilbúin innan skamms.

Færðu inn athugasemd

Filed under Blogg um vín og mat, decanter, fréttir, robert parker

Flugvellir í Evrópu aflétta banni á vökva í handfarangri

Undanfarið hefur verið bannað að taka með sér vökva í handfarangri um borð í flugvélar. Nú er verið að aflétta því banni svo framarlega sem ílátin séu ekki stærri en 100ml (barnamatur og lyf undanskilin) þar sem menn telja að fljótandi sprengiefni í svo smáum einingum geti ekki grandað flugvél á lofti.

Nú verða öll vín í veröldinni framvegis framleidd í 100ml flöskum. Orðtakið „Wine by the glass“ fær þannig alveg nýja merkingu.

Nei nei, bara að grínast. En — það verður ekki lengur hægt að kaupa vín hjá vínbændum erlendis eða í skemmtilegum vínbúðum og taka með sér um borð í vélarnir nema þá að setja góssið í ferðatöskurnar eða í trausta kassa sem hægt er að setja í almennar farangursgeymslur.

100ml hámarkið á aðeins við um vökvaílát er viðkomandi tekur með sér að heiman. Það verður ennþá hægt að kaupa stærri einingar á flugvöllunum sjálfum eftir að búið er að fara í gegnum skoðunarhliðin og taka með sér um borð í vélarnar. Það mun eflaust auka talsvert söluna í öllu er viðkemur vökva (vatn, vín, ilmvötn, tannkrem o.s.frv.) á fríhafnarsvæðinu.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, flug, fréttir