Category Archives: Gestgjafinn

Besta rósavínið í Vínbúðunum — „líklegast“

gourgonnier_rose_litilMas de Gourgonnier rósavínið er VÍN MÁNAÐARINS í nýjasta Gestgjafanum.

„Líklegast besta rósavínið sem fæst í Vínbúðunum“ stendur þar skrifað.

Því miður munu ekki margir þora að prófa þessa bleiku fegurð.

Rósavín eru einfaldlega bara ekki „inni“ en sú hugmyndafræði byggir á einhverri gamalli þjóðsögu sem er kominn tími á að endurskrifa.

Vertu öðruvísi, drekktu rósavín.

Tja, amk. eina (þessa) til að prófa.

Mas de Gourgonnier rósavín4 1/2 glas VÍN MÁNAÐARINS.
Mas de Gourgonnier er eina vínhúsið frá Provence í Vínbúðum og hefur verið nánast alla tíð. Þetta er þekkt fjölskylduhús í St. Rémy de Provence sem hefur verið með lífrænt síðan 1975 (þannig að jarðvegurinn er með besta móti næringarríku) og framleiðir hefðbundin rauð-, hvít- og rósavín þó í mismunandi AOC. Rósavínið er AOC Baux de Provence eins og rauðvínið og þrúgurnar eru grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvédre. Enda er vínið margslungið, með mikinn karakter, ilmandi af litlum, rauðum berjum, fíngert og virkilega aðlaðandi. Þetta er vandað vín, þurrt en ávaxtaríkt, alvöru matarvín sem hentar á sumrin með Miðjarðarhafsréttum en allt árið með austurlenskum mat eða grilluðum fiski og grænmeti. Rósavín er allt of vanmetið hér heima.
Okkar álit. Yndislegt, fágað og vandað matarvín – þar að auki lífrænt. Líklega besta rósavínið sem fæst í Vínbúðunum.
Verð: 2.980 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, mas de gourgonnier

Sumarvín með grillmat — Gestgjafinn velur Valpolicella Rio Albo VÍN MÁNAÐARINS

Í síðasta tölublaði Gestgjafans fékk rauðvínið Calamiac Terroir Minervois 2005 frá Domaine Combe Blanche titilinn Vín mánaðarins og það er því ekkert leiðinlegt að annað vín frá okkur skuli hljóta sama heiður í næsta tölublaði strax á eftir.

Það kemur í hlut Ca Rugate Valpolicella Rio Albo 2009 — VÍN MÁNAÐARINS með fjögur glös af fimm í hús.

Þau nefna víninu til ágætis ferskleika og fínleika þess sem rekja má til þess að vínið er aldrei sett á eikartunnur heldur eingöngu í stáltanka en það varðveitir hreinleika ávaxtarins frekar en dylja hann með eikarblæ. Þau nefna líka mikinn og góðan ilm vínsins og getum við tekið undir það því hann rýkur úr glasinu, áleitinn og lokkandi.

Það er eitthvað mjög svo „more-ish“ við þetta vín.

Ca Rugate Valpolicella Rio Albo 2009VÍN MÁNAÐARINS og 4 glös
Í Veneto héraðinu standa tvö vín upp úr: hvítvínið Soave úr garganega og rauðvínið Valpolicella úr corvina, rondinella og molinara. Við smökkuðum síðast Soave frá Ca Rugate og vorum mjög ánægð með það vín. Ca Rugate notar corvinone í staðinn fyrir molinara og geymir vínið á stáltönkum – ávöxturinn verður þá mjög ferskur og vínið fíngerðara. Í nefi er hellingur af kirsuberjum og jarðarberjum, allt mjög hreint og arómatískt, og það sama er í bragði: mjúkt, lítil og fíngerð tannín og yndislegur ávöxtur (sama og ilminum, kirsuber og jarðarber), aðeins vottur af tóbaki og nokkuð langt eftirbragð, einstakleg gott jafnvægi. Sumarvín með grillmat, sérstaklega kjúklingi, en allt árið með góðum pastaréttum og risotto – eða með ostabakkanum.
Okkar álit: Drekka aðeins kælt (gjörbreytir víninu til hins betra) og þá er það alveg frábært. Ljúffengt vín við flest tækifæri. Verð: 2.597 kr.

Domaine Combe Blanche Calamiac Terroir 2007 — 4 glös
Við völdum Combe Blanche-rauðvínið frá Minervois Vín mánaðarins síðast því það vín var svo dæmigert fyrir þetta skemmtilega hérað og vorum spennt fyrir hvítvíninu. Það er ekki undir Minervois AOC vegna þess að þrúgurnar sem eru notaðar í blönduninni eru óhefðbundnar: roussanne og viognier. En mikið er árangurinn flottur; vín með góða fyllingu, ríkt í nefi með mikið af gulum ávöxtum (ferskjum, apríkósum og melónum) sem tengjast báðum þrúgunum. Í munni er það nokkuð þétt og krafturinn í roussanne sameinast vel við léttleikann og fágun viognier. Þetta er virkilega fágað og afar skemmtilegt vín sem kallar á bragðmikinn fisk, skelfisk eða góðan sveitakjúkling.
Okkar álit: Afar ánægjulegt að fá Vin de Pays í þessum gæðaflokki, mikið vín og fágað. Verð 2.390 kr.

– Gestgjafinn 10. tbl. 2010

Ein athugasemd

Filed under ca rugate, combe blanche, dómar, Gestgjafinn

Vín mánaðarins í Gestgjafanum

Það var ánægjulegt þegar við vorum nýbúin að fjalla um dræma sölu góðvínanna þriggja frá Chateau Mourgeu du Gres í Vínbúðunum að Gestgjafinn tók eitt þeirra upp á arma sína. 

Litla rauðvínið Les Galets Rouges 2008 í hálfs líters flöskunni er Vín Mánaðarins með 4 1/2 glas. 

Góður dómur fyrir vín sem á allt gott skilið að okkar mati. „Ilmurinn er yndislegur“ segja þau en það eru engar ýkjur því fá vín í okkar herbúðum hafa eins mikinn og flottan ilm og ilmur er stór hluti góðs víns. 

Það er minnst á annað vín frá Vín og mat í blaðinu en Stump Jump Riesling fær sömuleiðis 4 1/2 glas en sá dómur miðast við hversu vel vínið paraðist með bláskel þar sem Riesling vín eru sérstaklega til umfjöllunar. 

Chateau Mourgues de Gres Les Galets Rouges 2008VÍN MÁNAÐARIKNS 4 1/2 glas
Í neðri hluta Rhone-dalsins er jarðvegurinn mjög grófur (þekktast í þeim efnum er Chateauneuf du Pape og nágrenni) og leirkenndur með sandsteini frá Ölpunum. Lofstslagið er oft mjög heitt þannig að vínviðurinn „þjáist“ en nær raka djúpt í berginu. Betri staðarþrúgurnar eins og syrah, grenache og mourvédre í góðum höndum gefa góð vín. AOC Costiéres de Nimes er á vesturbakka Rhone og tilheyrir Languedoc. Chateau Mourgues du Gres er lítið vínhús og leiðandi hvað varðar gæðaframleiðslu í þessu AOC og skorar alltaf mjög hátt hjá Robert Parker. Hér er syrah 75% og grenache, mourvédre og carignan 25% alls., vínið er geymt í ár á stáltanki til að varðveita ferskleikann. Þetta er ungt vín og þarf líklega að láta það bíða í glasinu í 10-15 mínútur en ilmurinn er yndislegur, afar hreinn ávöxtur (rauð og svört ber), hvítur pipar, kryddjurtir og engar ýkjur sem gefur strax til kynna að þetta margslungna vín sé í einstöku jafnvægi. Í munni er það fylgið sér, vínið er þétt, nokkuð af fíngerðum tannínum, mikið af ferskum, sólríkum, svörtum berjum, lakkrís og pipar – langt eftirragð. Matarvín, prófið með andarbringu, hreindýri, entrecote eða nautasteik með bearnaise.
Verð: 1.850 kr. (50cl)
Okkar álit: Frábært vín í einstaklega þægilegri flðskustærð fyrir 2 (50cl), margslungið og mikið matarvín. Ungt – betra eftir svolítinn tíma í glasinu.  “ (- Gestgjafinn 3. tbl. 2010)

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, mourgues du gres

Alslemma í Gestgjafanum — Beljan „bestu kaupin“ og Gourgonnier „vín mánaðarins“

Gleðilegt nýtt ár!

Við þökkum öllum góðum vinum og vínum viðskiptin á árinu sem var að líða!

Gamla árið endaði vel því rétt við árslok skaust út einn Gestgjafi með góðum dómum um okkar vín.

Líklegast er þetta í fyrsta sinn, ef minnið er ekki farið að förlast, sem við eigum bæði VÍN MÁNAÐARINS og BESTU KAUPIN í einu og sama blaðinu.

Alslemma.

Áður hafði Mas de Gourgonnier 2003 fengið mjög fína umfjöllun í Gestgjafanum og í Morgunblaðinu en nú er það aftur á móti 2006 árgangur sem er til umfjöllunar og bætir um betur með nafnbótinni VÍN MÁNAÐARINS.

Beljan rauða er síðan rígmontin þessa dagana yfir titlinum BESTU KAUPIN í sama tölublaði og er staðráðin í því að verða vín mánaðarins einn góðan dag. Beljan hefur reyndar hækkað í verði síðan dómur féll en það er líklegast í lagi þar sem sú hækkun gekk eins og alda yfir öll vínbúðarvínin 1. janúar þar sem um skattahækkun var að ræða og afleiðingar hennar en ekki okkar eigin smørelse. Hún hækkar því í hlutfalli við önnur vín.

Þrjú freyðivin fá líka glimrandi umfjöllun í þessum nýjasta Gestgjafa:

Þar fer fremst Val D’Oca Prosecco Valdobbiadene með 4 1/2 glas sem þeim finnst „glæsilegt freyðivín“, þá Lini Pinot Spumante með 4 glös og loks Lini Lambrusco Labrusca Rosato með 3 1/2 glas.

Einnig fá tvö rauðvín, Querceto Chianti 2006 og Arnaldo Caprai Montefalco 2006, 4 glös hvort í sérstakri umfjöllun blaðsins um rauðvín með hreindýraköti.

En svona lítur öll dýrðin út:

BELJAN Rauðvín Toscana Igt Rosso 2008BESTU KAUPIN 3 1/2 glas
Það er ekki á hverjum degi sem allar upplýsingar á kassavíni eru á íslensku því yfirleitt er það frekar vín sem stórir framleiðendur setja í handhægar umbúðir til að lækka verðið. Eftirgrennslan leiddi í ljós að þetta vín, sem gengur undir nafninu „Beljan“ eins og myndin á kassanum bendir til, er sérframleitt fyrir Ísland hjá Castello di Querceto og þá undir upprunavottun IGT Toskana en ekki Chianti eins og flöskuvínin hans. Gæðin fara líka eftir því, þetta er sannkallað Toskana-vín, ferskt, fullt af kirsuberjum og með keim af leðri og sveit, stendur vel fyrir sínu en þarf kannski að þroskast dálítið – eftir smástund í glasinu er það mýkra og sýran minnkar. Kjörið að setja á karöflu og hafa á borði með blönduðum réttum, með góðum pítsum og risotto.
Verð: 5.490 kr.
Okkar álit: „Beljan“ er bara fínasta kassavín, með karakter og góður fulltrúi Toskana, leyfið henni bara aðeins að ná andanum! 

Mas de Gourgonnier 2006VÍN MANAÐARINS 4 1/2 glas
Fyrir tveimur árum smökkuðum við 2003 árganginn og vorum einstaklega hrifin en urðum að leyfa víninu að jafna sig því árið á undan var það mjög lokað og næstum óaðgengilegt. Hér er Mas de Gourgonnier, eitt af þekktustu lífrænu víhúsum í Baux de Provence (heyrst hefur að það standi til að hafa heila AOC Baux de Provence lífrænt ræktaða sem væri einsdæmi), strax aðgengilegt og skemmtilega opið. Allar þrúgurnar sem leyfilegar eru finnast í vínnu: grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvédre en það eru sennilega syrah og grenache sem skila mest eftir enda eru þær samanlagt yfir 50% af blönduninni. Anganin er mjög aðlaðandi, það er eins og að anda Provence-héraði að sér úr einu vínglasi og það heldur áfram í munni: vel þroskuð rauð og dökk ber, kryddjurtir og milt krydd, skógarbotn, ferskt og margslungið og langt eftirbragð – munnvatnið fer strax af stað og biður um jurtakryddað lambakjöt (helst af nýslátruðu en annað dugar!) eða safaríka nautasteik. Yndislegt vín með mikinn karakter.
Verð: 2.790 kr.
Okkar álit: Meistarar að verki með þetta lífræna vín, flugeldasýning frá Provence-héraði sem elskar lambið okkar og nautakjöt. Flott vín.

Val D’Oca Prosecco Valdobbiadene4 1/2 glas
Prosecco er „alvöru“ freyðivín Ítala og kemur frá Veneto á norður Ítalíu, þrúgan er … prosecco. Nokkrar tegundir hafa farið inn og út af lista Vínbúðanna, líklega ekki nógu þekkt vín nema af þeim sem hafa búið þar í landi. Prosecco-heitið bætir fyir þetta flókna nafn sem vínið, sem komst að fyrir stuttu í Vínbúðunum, ber en flaskan er falleg líka og auðvelt að þekkja hana! Og innihaldið samsvarar útlitinu: afar elegant, fíngert, örlítil sæta frá vel þroskuðum þrúgum, fínar loftbólur og mikið af þeim. Glæsilegt freyðivín sem sómir sér við ýmislegt, sem fordrykkur, með eftirréttunum (prófið me Panetone frá Sandholt bakaríi!) eða sem áramótafreyðvín.
Verð 2.490 kr.

Lini Pinot Spumante4 glös
Öðruvísi vín frá Lini 910, þessum rúmlega aldargamla framleiðanda frá Correggio rétt hjá Modena – hvítt í þetta sinn og úr pinot noire-þrúgunni. Þetta er ekki lengur Lambrusco þar sem þrúgurnar sem eru notaðar í þeim vínum eru algjörlega staðbundnar (60 tegundir hafa verið skráðar!) en framleiðsluaðferðin er eins: annað hvort „méthode tradionnelle“ eða „Charmat“ sem hentar vel hér. Það er mikill persónuleiki í þessu víni, góð fylling, mikið af blómum og gulum ávöxtum, t.d. melónum og perum, og það freyðir einstaklega vel, lengi og fallega. Eftirbragðið er líka langt og þar kemur vottur af sætu sem fylgir ávöxtunum. Góð sýra heldur víninu lifandi alla leið, athyglisvert vín og góður fordrykkur.
Verð: 2.590 kr.
Okkar álit: Forvitnilegt en verulega skemmtilegt, sérstaklega í fordrykk eða til að skála í á áramótum.

Lini Lambrusco Labrusca Rosato3 1/2 glas
Lambrusco verður alltaf dálítið sérstakt vín, freyðandi rautt, rosato eða hvítt, það á sér langa hefð í ítalskri víngerð og gæðin geta verið gríðarlega mismunandi. Við höfum þegar smakkað Lini 910 rautt sem hefur vott af sætu og gaf tóninn varðandi gæði – þetta rosato-vín er önnur útgáfa frá þessum virta framleiðanda. Það er svolítið feimið í nefi en við öndun koma fram rauð ber (jarðar-, rifs- og hindber). Vínið hefur góða fyllingu í munni, er ferskt og með vott af sætu, lofbólurnar eru þéttar og fíngerðar, tannín finnst aðeins en er flauelsmjúkt. Heilt á litið er þetta þurrt vín með góðum berjum, kannski erfitt að finna mat á móti en heyrst hefur að það gæti gengið með hamborgarhrygg.
Verð: 2.190 kr.
Okkar álit: Ferskt og þurrt, freyðandi rósavín, forvitnilegt en skemmtilegt og vel gert.“ (- Gestgjafinn 17. tbl 2009)

Færðu inn athugasemd

Filed under beljan, caprai, castello di querceto, dómar, Gestgjafinn, lini, mas de gourgonnier, valdoca

Little James er Vín mánaðarins í Gestgjafanum

Bæði Little James vínin voru til umfjöllunar í nýjasta Gestgjafanum, Little James Blanc og Little James Rouge og bæði fá 4 glös af 5 auk þess sem hvítvínið hlýtur heiðursnafnbótina VÍN MÁNAÐARINS.

Engin spurning að þarna eru skemmtileg hvítvín á ferðinni með létt-flippuðum flöskumiðum, svona til að minna á að góðar víngerðir þurfa ekki alltaf að taka sig of alvarlega.

Um hvítvínið segja þau mæðgin, Dominique og Eymar, m.a. að þetta sé „frábær útkoma“ úr þeirri frumlegu þrúgnablöndu Sauvignon Blanc og Viognier.

Rauðvínið finnst þeim „smellpassa með grillkjöti“ svo nú er ekki eftir neinu að bíða en poppa einni upp með grillinu í kvöld.

Evran var 150 kr. þegar við keyptum vínin, þau eru því all góð kaup í því ljósi og til samanburðar við mörg önnur vín í hillum Vínbúðanna á svipuðu verðróli.

En gefum þeim mæðginum orðið:

„Little James Basket Press Blanc – 4 glös VÍN MÁNAÐARINS
Frá framleiðandanum Saine Cosme í Rónardalnum kemur þetta stórskemmtilega og forvitnilega hvítvín sem er blanda af sauvignon blanc – og viognier-þrúgum, hið fullkomna par og furðu vekur að reglur Rónardalsins leyfi ekki þessa blöndu. Vínið er opið og frísklegt í nefi með mikinn ávöxt viognier-þrúgunnar eins og t.d. sítrus, melónu, apríkósur og greipaldin sem blandast skemmtilega saman við grösuga og blómlega tóna sauvignon blanc. Í munni heldur það áfram á sömu braut með fínan ferskleika og suðrænan ávöxt. Gott jafnvægi er á milli ávaxtar og sýru, langt eftirbragð sem hangir á einkennum viognier-þrúgunnar og afskaplega matarvænt vín, mætti prófa það með alls konar skelfiski og laxi í sítrónukryddlegi.
Verð: 2.149 kr.
Okkar álit: Frumleg þrúgublanda en frábær útkoma. Árgangur kemur ekki fram en vínið er átappað 2008. Little James Basket Press Rouge – 4 glös
Rétt eins og hvítvínið (bestu kaupin) er þetta ansi forvitnilegt vín og í þetta skiptið er það blöndunin sem er forvitnileg. Árgangur vínsins er ekki tekinn fram, enda er þetta blanda af árgöngum og byggist blandan á hinu svokallaða solera-kerfi sem er notað aðallega í sérríframleiðslu. En vínið sjálft er með opinn og ávaxtaríkan ilm með slatta af svörtum og rauðum berjum, fjólum og steinefnum. Milt í munni með mikla fyllingu, þroskuð tannín og ferskleika til að halda jafnvæginu. Flott bygging og er að finna sömu þætti og var að finna í nefi. Langt eftirbragð sem einkennist aðallega af fjólum og dökkum berjum. Hörkuvín sem smallpassar með grillkjöti en einnig með villibráð.
Verð: 2.149 kr.
Okkar álit: Margslungið með mikinn karakter. Þétt og elegant. “ ( Gestgjafinn 9. tbl. 2009)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, saint cosme

Vín mánaðarins í Gestgjafanum — Chateau de Montfaucon Côtes du Rhône 2006

Grillblaðið góða frá Gestgjafanum var að detta inn um lúguna með góðar fréttir því rauðvínið okkar Côtes du Rhône 2006 frá Chateau de Montfaucon er valið Vín mánaðarins.

Þau mæðgin Dominique og Eymar hitta naglann á höfuðið þegar þau kalla vínið létt og kraftmikið því þetta er svona vín sem er all-bragðmikið en öllu er einhvern veginn pakkað í fágaðar umbúðir með áberandi mýkt.

Niðurstaðan er aðgengilegt vín sem enginn ætti að vera hræddur við að prófa.

montfaucon cdrhone á hlið 

Chateau de Montfaucon 2006 Côtes du Rhône4 glös VÍN MÁNAÐARINS
Chateau de Montfaucon stendur við versturbakka Rónarfljótsins nálægt bænum Chateauneuf-du-Pape sem þarf varla að kynna. Þetta vín er blanda af grenache, syrah, carignan og cinsault sem eru hinar klassísku Suður-Rónarþrúgur. Vínið er opið og ferskt með fínlegan kraft og er meðal annars að finna fjólu, krydd, kirsuber, bláber og vott af jarðvegi. Það er margslungið í munni með góðan ferskleika og fínleg tannín. Fullt af ávexti en þó ekki yfirgnæfandi, ásamt léttum kryddtónum. Frábært jafnvægi, langt eftirbragð og skemmtilega fínlegur en karfmikill karakter. Með öðrum orðum, afar skemmtilegt og aðengilegt vín. Drekkið með vönduðu grilkjöti eða sunnudagslambinu.
Verð: 2.190 kr.
Okkar álit: Léttur og þó kraftmikill Rónarbúi. Gott samspil mili þrúgnanna fjögurra og virkilega matarvænt. „  (- Gestgjafinn 6. tbl. 2009)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, vín

Chianti frá Querceto er BESTU KAUPIN í Gestgjafanum

Við vorum að fá nýjan árgang af Chianti frá Castello di Querceto.

Það er liður í yfirstandandi átaki að flytja inn meira af kostakaupum.

Okkur fannst þetta vín alltaf skrambi gott en 2007 árgangur en án nokkurs vafa sá besti sem við höfum smakkað af víninu. Þetta er ljúft og löðurmannlegt vín en með snerpu og kraft fyrir gott lamb eða naut.

Var einhver að tala um páskalamb?

Vínið birtist víða á síðum nýjasta Gestgjafans sem var að koma út, fjórum sinnum að því er okkur sýnist. Á bls. 31 er stungið upp á því með lambaskönkum í tómatkjötsósu, á bls. 58 er mælt með því sem mjúku og „alhliða“ matarvíni í útskriftaveisluna og á bls. 107 fær það mjög góð ummæli sem hentugt rauðvín með lambalæri.

En það er á bls. 104 sem það slær í gegn. Á vínsíðum Dominique og Eymars fær það titilinn BESTU KAUPIN og 4 glös þar að auki.

Það er bara gott.

Chianti Castello di Querceto 20074 glös BESTU KAUPIN
Þessi litli en frábæri framleiðandi er einn af okkar uppáhaldsframleiðendum í Chianti sökum gestrisni, yndislegheita og að sjálfsögðu góðra vína. Hér erum við með „grunn“ Chianti-vínið þeirra sem er blanda af sangiovese, cannaiolo og trebbiano – sígilda blandan. Opinn og dæmigerður chianti-ilmur með kirsuberjum, leðri, sveitasælu og tóbaki. Einfaldur en hreinn og afar góður ilmur. Í munni er vínið milt með góðan ferskleika og fínlega tannín. Mikill og góður ávöxtur í munni með sömu þáttum og var að finna í nefi. Fínlegt og fágað vín með því besta sem einföld chianti-vín hafa upp á að bjóða. Drekkið með nautakjöti í fínlegri sveppasósu en má einnig njóta með lambakjöti.
Verð: 1.790 kr.
Okkar álit: Vín í góðu jafnvægi með flottan karakter. Fínlegt vín og frábær kaup.“ (- Gestgjafinn 4. tbl. 2009 )

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, dómar, Gestgjafinn

St. Laurent Reserve í fleiri Vinbúðir yfir hátíðarnar

Þemadagar svokallaðir ríkja í Vínbúðunum í desember þar sem lögð er áhersla á vín með villibráð.

Vínin á þemadögunum eru pöruð með ákveðnum réttum sem innihalda villibráð og fá sérstaka merkingu í hillunum samkvæmt því.

Birgjar fá að tilnefna sjálfir hvaða vín veljast á þemadagana og með hvaða réttum þau skuli parast en vínráðgjafar vínbúðanna hafa yfirumsjón með verkefninu og sjá til þess að tilnefnd vín fari vel með viðkomandi réttum og geta breytt óskum birgjanna eftir sínu nefi og þekkingu. Það er gert svo að birgjar séu ekki að tilnefna vín sem eiga ekkert erindi með viðkomandi réttum heldur tilnefna þau bara til þess að auka sölu viðkomandi vína.

Þar sem Vín og matur er lítið fyrirtæki fáum við færri tilnefningar en stóru birgjarnir, þ.e.a.s. birgir þarf að eiga ákveðið mikið af vínum í svokölluðum kjarna til þess að eiga rétt á hámarksfjölda tilnefninga. Sömuleiðis eru aðgangur vína sem er í reynslusölu eða í svokölluðum sérflokki takmarkaður verulega en aðeins má tilnefna eitt vín úr þeirra röðum.

Hvort tveggja þýðir að okkur er þröngur stakkur skorinn hvað tilnefningar varðar og fór það svo þetta árið að við tilnefndum bara eitt vín, rauðvínið St. Laurent Reserve frá Sandhofer.

St. Laurent Reserve er að okkar mati frábært með t.d. önd eða gæs, á þemadögunum er það einmitt parað með uppskrift af villiandabringum. Það er úr þrúgu sem sjaldan sést í Vínbúðunum, St. Laurent heitir hún eins og vínið, og glæðir vínið því úrval Vínbúðanna að okkar mati sem á það til að verða á köflum einsleitt. Ilmurinn af víninu er afskaplega heillandi, vínið mjúkt í munni og fágað.

St. Laurent Reserve er reynsluvín, það fæst því eingöngu í Heiðrúnu og Kringlunni, en til viðbótar fær það dreifingu í Skútuvog, Smáralind, Eiðistorg og til Akureyrar yfir hátíðarnar.

150 flöskur af víninu fara í þessar Vínbúðir öðru hvoru megin við helgina. Meira eigum við ekki til, í bili a.m.k. og erfitt að sjá fyrir sér að verðið á því (2.695 kr.) verði svona hagstætt á næsta ári en þetta er sama verð og frá því í sumar.

Gestgjafinn valdi vínið á dögunum sem Vín mánaðarins. Lestu dóminn

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, sandhofer, vínbúðirnar

Tvö snertimörk í Gestgjafanum – The Footbolt og St. Laurent Reserve

Mitt í önnum og jafnvel almennri bloggleti gleymdist að færa það til bókar að rauðvínið St. Laurent Reserve 2006 frá Hubert Sandhofer hlaut hina eftirsóttu viðurkenningu Vín mánaðarins í nýlegum Gestgjafa.

Snertimark!

Þetta kórónar frábæra útkomu Sandhofer vínanna þriggja með íslenska flöskumiðanum því hvítvínið Gruner Veltliner 2007 og rósavínið Rosando 2006 höfðu áður fengið 4 glös af fimm í Gestgjafanum.

Þeim mæðginum Dominique og Eymari finnst St. Laurent Reserve 2006 „líkjast pinot noir grunsamlega mikið“ sem er ekki undarlegt því ilmur vínsins og ekki síst fáguð áferðin minnir á þá sómaþrúgu.

Síðan þessi góðí dómur birtist hafa ekki liðið nema tvö tölublöð þar til að vín frá okkur hlýtur aftur titilinn Vín mánaðarins í Gestgjafanum, í þetta skiptið The Footbolt 2004 frá d’Arenberg.

Annað snertimark!

Við förum eiginlega hjá okkur eftir alla þessa jákvæða gagnrýnu í garð okkar vína í Gestgjafanum en erum þó aðallega þakklát fyrir þessi góðu viðbrögð og hrósum þeim fyrir þann góða smekk sem ríkir í herbúðum tímaritsins :-)

The Foobolt 2004 fær eiginlega ennþá betri umfjöllun en St. Laurent því hún hittir svo vel í mark með lýsingum eins og „hvergi neitt úr hófi“, „laust við allar öfgar sem oft finnast í shiraz-vínum“, „alvöru matarvín“ og svo ekki sé minnst á hina mjög svo hógværu fullyrðingu „frábært vín“.

 

Þetta er annað vínið frá d’Arenberg sem er valið Vín mánaðarins í Gestgjafanum því áður hafði The Laughing Magpie hlotið þá viðurkenningu með fullt stig húsa, 5 glös.

Hér birtast dómarnir í heild sinnni.

 

d’Arenberg The Footbolt 2004VÍN MÁNAÐARINS 4 1/2 glas
Hér er endurkoma eins skemmtilegasta shiraz-vín frá Ástralíu sem Vínbúðirnar hafa haft í hillum sínum og fögnum við því vel. Fjölskyldufyrirtækið d’Arenberg er skemmtilegur og hugmyndaríkur en fyrst og fremst vandaður framleiðandi og sést það glöggt á vínum þeirra. Þessi fótbolta-shiraz hefur opinn, margslunginn og kraftmikinn ilm af kryddi, mentóli, lakkrís, fjólum, bláberjum, sveskjum og plómum og létta eik í bakgrunni. Í munni er það milt með ansi góða fyllingu og þægilegt tannín. Jafnvægið er flott og má hvergi finna neitt úr hófi. Dökkur ávöxtur, krydd, fjólur, lakkrís og létt eik einkenna vínið í munni og endar það á krydd- og mokkatónum. Frábært vín. Drekkið með villibráð s.s. gæs með kryddjurtum og skógarberjum.
Verð 1.979 kr.
Okkar álit: Virkilega verl gert og laust við allar öfgar sem oft finnast í shiraz-vínum. Alvöru matarvín.“ (Gestgjafinn 14. tbl.) 

 „Hubert Sandhofer St. Laurent Reserve 2006VÍN MÁNAÐARINS 4 – 4 1/2 glas
Sankt Laurent er merkileg þrúga og ekki eru allir á eitt sammála um uppruna hennar. Austurríkismenn vilja meina að þessa sé stökkbreytt pinot noir á meðan aðrir vilja meina að svo sé alls ekki. En ásamt blaufrankisch er St. Laurent foreldri zweigelt sem er vinsælasta þrúga Austurríkis. Vínið er með opinn og margslunginn ilm af rauðum berjum, léttri eik, kaffi, vanillu, sveppum og sedrusviði. Veit ekki um aðra en mér finnst þetta líkjast pinot noir grunsamlega mikið. Í munni er það ferskt og milt með lítið og gott tannín og fallega heild. Svipuð einkenni og í nefi með sama feitlega ávöxtinn ásamt kryddi og góðum skógarbotnstónum. Endar á ávextinum og eikinni. Skemmtilegt vín sem er vel skreytt. Smellpassar með önd eða góðri steik með villisveppasóu.
Verð 2.695 kr.
Okkar álit: Drekkið við u.þ.b. 16°C. Fágað vín með góða fyllingu og mikinn sjarma. Ekki langt frá því að vera gott pinot noir frá Búrgúndí. “ (Gestgjafinn 12. tbl. )

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, sandhofer

Lambrusco frá Lini — Bestu kaupin í Gestgjafanum

.

Við vissum það en við vorum ekki viss um að Gestgjafinn myndi vita það.

 

Vita hvað?

Lambrusco frá Lini væri ekki eins og flest þau vín sem Íslendingar hafa fengið að kynnast undir heitinu „lambrusco“ heldur eitthvað annað og meira. Þurrt, vel freyðandi og berjaríkt — alveg eins og gott, hefðbundið (þ.e.a.s. samkvæmt upprunalegu hefðinni) lambrusco á að vera, framleitt af bónda en ekki verksmiðju.

Jú annars, við hefðum átt að vita að Gestgjafinn myndi vita það því rýnar blaðsins fjalla um vín af smekkvísi og með opnun hug. Lambrusco frá Lini er valið þar Bestu kaupin og fær 4 glös.

Ég hef ekki gert könnun en það kæmi mér ekki á óvart að ofar hefði lambrusco ekki lent fyrr í einkunnaskala tímaritsins.

Síðan Lambrusco frá Lini kom til landsins í sumar hefur það hlotið þann „vafasama“ titil að vera mest drukkna vínið á okkar bæ. Við drekkum það skv. hefðinni með lasagna, tortellini, bolognese og þess háttar og að sjálfsögðu með parmaskinku eða heimlagaðri föstudagspizzu en okkur líst líka vel á meðmæli Gestgjafans; kálfakjötsrétt eða súkkulaðiköku.

Lini 910 Lambrusco Scuro — 4 glös Bestu kaupin
Það hafa eflaust margir smakkað Lambrusco og sumir drukkið ótæpilega af því. Fæstir hafa þó smakkað alvöru-Lambrusco, þar á meðal ég sjálfur, þar til núna. Mynd flestra af drykknum er sætur, hálffreyðandi rauðvínsvökvi en hér erum við að ræða um skraufþurrt rauðvín með mikinn ávöxt og fínlegar loftbólur, gert með „méthode champagnoise“, þ.e.a.s. þar sem seinni gerjun fer fram í flöskunni. Vínið er með opinn og ferskan kræki-, kirsu-, og bláberjailm ásamt tóbaki, kryddi og leðri. Í munni er það ferskt, hálffreyðandi og með vott af tanníni. Mikill ávöxtur, létt krydd, góð lengd og flottur karakter er í þessu víni. Matarvænt og má prófa með parmaskinku, kálfkjötspottréttum eða súkkulaðiköku, í tilraunaskyni!.
Verð 1.695 kr.
Okkar álit: Enn einu sinni fá fordómar að fjúka út um gluggann. Alvöru-Lambrusco sem er nauðsynlegt fyrir hvaða áhugamann sem er að smakka. Enn ein perlan frá Vín og Mat sem á hrós skilið fyrir að bjóða okkur upp á vín eins og þetta.“  (- Gestgjafinn 13. tbl. 2008)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, lini

Rósavín með bein í nefinu

.

Nýja Sandhofer þríeykið samanstendur af þremur vínum með myndlist Kristínar Gunnlaugsdóttir, hvítvíni, rósavíni og rauðvíni.

Í síðasta Gestgjafa fékk hvítvínið Gruner Veltliner 2007 frá Hubert Sandhofer 4 glös og fín meðmæli (lestu dóminn).

Í nýjasta Gestgjafanum er röðin komin að rósavíninu, Rosando.

Það fær líka 4 glös en ég man ekki eftir að rósavín hafi nokkri sinni fengið hærri einkunn en 4 glös í Gestgjafanum.

Ég hamra stundum á því hvað rósavín séu misskilin vín vegna þess að reynsla fólks af rósavínum byggist yfirleitt á ódýrum, hálfsætum og frekar ómerkilegum rósavínum. Fólk áttar sig t.d. oft ekki á því hversu frábært gott rósavín getur verið með mat þar sem það gengur oft í hlutverk bæði hvítvína og rauðvína. Fiskur af flestu tagi steinliggur með Rosando, salöt og léttari kjöttegundir eins og kjúklingur og svínakjöt auk þess að það er þægilegt eitt og sér.

Rósavín eins og Rosando eru vín til daglegs brúks, ef góð þá oft einlæg, aðgengileg og fjölhæf í eldhúsinu.

En að dóminum:

Sandhofer Rosando 20064 glös
Enn og aftur erum við að smakka vín Íslandsvinarins Huberts Sandhofer. Í þetta sinn er það rósavín sem er gert úr Cabernet Sauvignon og Blaufrankisch og er útkoman ansi skemmtileg. Mjög aðlaðandi og ilmríkt. Vínið hefur ansi góða byggingu og hressandi ferskleika þegar smakkað er á því og þar er að finna sömu einkenni og í ilminum. Þéttur ávaxtakeimurinn sameinast vel við ferskleikann og er fyllingin það sem setur punktinn yfir i-ið. Drekkið með risarækjum, jafnvel í asískum stíl.
Okkar álit: Virkilega skemmtilegt rósavín með bein í nefinu. Matarvænt en gengur einnig eitt og sér. “ (- Gestgjafinn 11. tbl. 2008)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, rósavín, sandhofer

Vín vikunnar — Torbreck Juveniles 2006

.

24 stundir fengu ekki alls fyrir löngu nýjan liðsmann til þess að fjalla um vín og er það hún Alba á VOX. Alba er snjöll og metnaðarfull og gaman að sjá hana í þessu aukahlutverki á dagblaðinu.

Vikulega birtir hún Vín vikunnar og hefur til dæmis Stump Jump hvítvínið hlotið þá nafnbót (sjá blogg). Hún mælir líka með hinum og þessum vínum, eða bjór, með uppskriftum sem birtar eru í dagblaðinu.

Þessa vikuna velur hún Juveniles 2006 frá Torbreck sem Vín vikunnar.

Torbreck Juveniles 2006Vín vikunnar
Aðlaðandi og opið í nefi, kröftugur ilmur af svörtum berjum, ferskum kryddjurtum, balsamik, leðri og steinefnum með vott af sætleika. Rúnnað í muni með áberandi skóbarberjasultu, hrásykri og tóbakslaufum. Þroskuð og feit tannín fylgja þéttri og tilkomumikilli fyllingu með safaríkum og heitum endi. 
Veigamikið rauðvín sem tilvalið er að para með lamba- og nautkjöti, grillmat eða hafa eitt og sér. Tilbúið til neyslu strax en má geyma í 6-7 ár.
Þrúgur: 60% Grenache, 20% Shiraz og 20% Mourvedre. Land: Ástralía. Hérað: Sourth Australia – Barossa. 2.394 kr. “ (24 Stundir 9. ágúst 2008) 

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, torbreck, vox

Matarvænt Grüner Veltliner 2007 í Gestgjafanum

Gestgjafinn fjallar um Grüner Veltliner 2007 í nýjasta tölublaðinu og gefur því flotta einkunn, 4 glös.

Í sama blaði er heilsíðugrein um Kristínu Gunnlaugsdóttur og Sandhofer-vínin (bls. 75) en það er einmitt myndlist Kristínar sem prýðir flöskurnar. Greinin klikkir skemtilega út með eftirfarandi setningu: „vínið er prýðilegt og greinilegt að hér eru á ferðinni tveir listamenn, hvor á sínu sviði.“

Þriðjudaginn 19. ágúst kl. 17.00 verður kynning á Sandhofer vínunum á Vínbarnum.

Hubert Sandhofer Grüner Veltliner 2007 – 4 glös
Hubert Sandhofer er mikill Íslandsvinur og hefur sú vinátta m.a. skilað sér í íslenskri list á flöskumiðunum hans. Einnig var þetta vín þróað, að hluta til, í samvinnu við íslenska vínnörda. Hubert kom með nokkrar útgáfur af Grüner Veltliner, fékk álit nördana og van svo vínið eftir athugasemdum. Hér erum við með niðurstöðuna. Vínið er svolítið lokað til að byrja með en fljótlega brjótast út blómlegir tónar í bland við hvíta ávexti, s.s. perur, og einnig mild krydd. Einfaldur og mjög þægilegur ilmur. Frískleg áferð sem er samt sæmilega kraftmikil, miðað við þrúguna, og létt fylling. Góður ávöxutr, hvítur pipar og grösugir tónar. Ansi langt eftirbragð og gott jafnvægi. Ætti að svínvirka með salati með austurlenskum blæ.
Verð. 1.794 kr.
Okkar álit: Kraftmeira og þéttara en önnur Grüner Veltliner-vín sem við höfum smakkað. Matarvænt og vel gert! “ (- Gestgjafinn 10. tbl. 2008 bls. 74)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, myndlist, sandhofer

Dominique og Eymar heimsækja Arnaldo Caprai

Í lok maí fóru blaðamenn og vínspekúlantar Gestgjafans, mæðginin Dominique og Eymar, í heimsókn til Arnaldo Caprai sem er staðsettur í Úmbría-héraði Ítalíu.

Í nýjasta Gestgjafanum er blaðsíðu-grein um framleiðandann („Arnaldo Caprai – frumkvöðull og hugsjónamaður'“ bls. 75, 9. tbl. 2008) og í blaðinu þar á undan fjallaði Dominique um matar-markað í Perugia, höfuðborg Úmbría héraðsins.

Frekar verður fjallað um heimsóknina í næsta tölublaði Gestgjafans en ég ætla að taka mér það bessaleyfi og hafa það eftir blaðamönnum að þeir voru alsælir með móttökur framleiðandans, vín, mat og menningu héraðsins.

Ævintýri líkast heyrðist mér.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir blaðamenn heimsækja einn af okkar framleiðendum með svo markvissum hætti síðan við stofnuðum fyrirtækið og er það ekki síst að þakka metnaði framleiðandans til að bjóða blaðamenn svo velkomna og miklum áhuga þeirra mæðgina til þess að kynna sér nýja og spennandi hluti sem eru ekki á allra vörum hér á Íslandi.

Ekki ennþá.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, ferðalög, Gestgjafinn

Lucien Le Moine og aðrir Búrgúndarar fá lofsamlega umsögn í Wine Spectator

.

Það má segja að Lucien Le Moine ríði feitum hesti frá einkunna-afhendingu Wine Spectator fyrir vín frá Búrgúndarhéraði af 2005 árgangi. 16 rauðvína framleiðandans af 2005 árgangi eru til umfjöllunar í blaðinu og fær ekkert þeirra undir 93 stigum. Hann endurtekur því leikinn frá því þegar 2004 árgangurinn frá Búrgúnd var til umfjöllunar þegar vín Lucien Le Moine voru líka fremst á meðal jafningja að mati blaðsins (lestu meira).

Annars staðar í blaðinu er svo fjallað um næsta árgang 2006, sem við flytjum hingað til Íslands í september, þar sem nokkrir framleiðendur eru valdir til sérstakrar umfjöllunar og teknir við þá viðtal og er Mounir Saouma, eigandi Lucien Le Moine, í þeirra hópi.

Það sem gerir Lucien Le Moine svo ennþá heitari er eins og lesa má úr upplýsingum Wine Spectator að hann framleiðir yfirleitt ekki meira en 50 kassa af hverri sort (600 flöskur) á meðan að sumir framleiðendur í Búrgúnd eru að senda fleiri þúsund flöskur af sambærilegum vínum bara á Bandaríkjamarkað.

Ég spái því að vínin frá Lucien Le Moine eigi eftir að auka hressilega við verðgildi sitt í framtíðinni sökum frábærra dóma, ekki síst í amerísku pressunni, og vegna þess hversu lítið er til af þeim.

Í sama tímariti fá vínin fá Jean Grivot sömuleiðis hörkudóma en ekki er langt síðan að það var bloggað um það hér þegar að blaðamaður Decanter valdi framleiðandann í efsta elítuhóp framleiðenda í Búrgúndarhéraði (lestu meira). Í Wine Spectator er hluti rauðvína Jean Grivot af 2005 árgangi til umfjöllunar og hljóta einkunnir á bilinu 89 til 94 stig.

Ekki verra að glæsileg mynd af Clos Vougeot vínekru Jean Grivot prýðir forsíðu tímaritsins.

Nokkur vín frá Vincent Girardin eru sömuleiðis til umfjöllunar í Wine Spectator og fá á bilinu 86 til 94 stig en þess verður að geta að lína framleiðandans er mjög breið og spannar allt frá ódýrustu vínflokkum svæðsins til þeirra bestu og í þetta skiptið vantaði flest betri vín framleiðandans í umfjöllun blaðsins.

Þegar öllu er á botninn hvolf — Glæsileg útkoma vína frá okkar framleiðendum í Búrgúndarhéraði í þessu nýjasta hefti bandaríska víntímaritsins Wine Spectator.

Svo verð ég að koma að þessari hlýju umfjöllun um okkur og vínin okkar frá Búrgúnd í Gestgjafanum. 

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, vincent girardin, wine spectator

Vín mánaðarins í Gestgjafanum: Chateau de Flaugergues 2006

.

Alltaf mikil ánægja á þessum bæ þegar að Gestgjafinn fjallar vel um vínin okkar.

Sérstaklega ef því fylgir heiðursnafnbót eins og sú sem Chateau de Flaugergues 2006 fær í nýjasta tölublaði, grillblaðinu:

— Vín mánaðarins —

Þeim Dominique og Eymari finnst Chateau de Flaugergues 2006 „þétt og ávataríkt vín“ og „mjög góð kaup líka“, enda vínið ennþá á gamla verðinu 1.790 kr.

Chateau de Flaugergues 20064 glös Vín mánaðarins
Chateau de Flaugergues 2006 er fallur herragarður, skrautvilla sem staðsett er í úthverfum Montpellier og eru þrúgurnar í þessu víni hinar klassísku grenache, syrah og mourvedre, sem sagt GSM-blanda. Víninu hefur gengið vel í Vínbúðunum og skal það engan undra því að hér er hörkuvín á ferðinni. Opinn ilmur af nammikenndum ávexti grenache-þrúgunnar ásamt kryddi, tóbaki og sveit. Í munni er það virkilega ávaxtaríkt með mátulegt tannín og með fallega byggingu ásamt mikilli fyllingu. Jafnvægið er til fyrirmyndar og endar vínið á leðurkrydd- og kirsuberjatónum. Alltaf jafn ánægjulegt að smakka þetta vín. Drekkið það með léttri, jurtakryddaðri villibráð með berjameðlæti. Mjög góð kaup líka. Verð 1.790 kr.
Okkar álit: Þétt og ávaxtaríkt vín sem er vel gert og má alveg geyma í nokkra mánuði eða þá umhella því.“ (Gestgjafinn 7. tbl. 2008)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, flaugergues, Gestgjafinn

Vernaccia di San Gimignano í Gestgjafanum

Vernaccia di San Gimignano er „eitt af þessum hvítvínum sem krydda upp á úrval hvítvína í Vínbúðunum“ segir í umfjöllun Gestgjafans frá því í apríl.  Hvítvíninu gefa þau Dominique og Eymar 3 1/2 glas sem er gott fyrir það sem við köllum fyrsta flokks hversdagsvín.

Fyrir neðan birtist öll umfjöllunin:

Querceto Vernaccia di San Gimignano 20063 1/2 glas
Vernaccia er enn ein þrúgan sem fæstir hafa heyrt um en kemur úr þessu þrúgnahafi sem Ítalía hefur að geyma. Staðbundnar þrúgur gefa vínunum gildi, sem ansi margir víða um heim kunna að meta, og víngerðamenn nostra við þær til að fá það besta úr þeim. Hún er mjög afmörkuð við Toskana n.t.t. við San Gimignano, „Turnaborgina“ fallegu. Ilmurinn er ljúfur með hunangi, sítrónum, gulum ávöxtum og blómum á meðan áferðin er frekar fersk með svolitla stemmu aftast. Vínið er frekar stutt en samt sem áður mjög skemmtilegt og í fínu jafnvægi. Drekkið með léttu sjávarréttapasta eða sjávarréttagratíni.
Verð 1.390 kr.
Okkar álit: Einfalt en skemmtilegt. Eitt af þessum vínum sem krydda upp á úrval hvítvína í Vínbúðunum. “ – Gestgjafinn 4. tbl. 2008 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, Gestgjafinn

Amedei súkkulaði vinnur Gullnu baunina á Chocolate Awards 2008 – aftur

Amedei súkkulaði er í sviðsljóðinu þessa dagana, bæði Gestgjafinn og Decanter fjalla um Amedei súkkulaði í nýjustu tölublöðunum.

Gestgjafinn er tileinkaður súkkulaði að þessu sinn. Þegar ég frétti að það stæði til lagði ég til við blaðið að haldið yrði smakk á dökku súkkulaði sem var tekið vel í. Amedei fær góða umsögn í blindsmakkinu (bls. 41, 4. tbl.) en ég skal viðurkenna að ég hefði viljið sjá það toppa þetta smakk.

Decanter fjallar aðallega um vín en í nýjast tölublaðinu (apríl) er tvær síður lagðar undir súkkulaði og er fókuserað sérstaklega á Amedei sem „model producer“. Þar kemur fram að síðan fyrirmyndarfyrirtæki eins og Amedei fór að framleiða súkkulaði í nánariasamstarfi við bændurna og greiða þeim hærra verð hefur gæðum fleygt fram. Greinarhöfundurinn, Fiona Beckett, endar greinina á að lýsa Chuao súkkulaði frá Amedei með „deep chocolatey aroma and flavour and an amazingly long finish.“ Í greininn er kakóekrum Amedei í Venezuela, Chuao og Porcelana, líkt við það besta sem gerist í heimi vínframleiðslu, eins og ofurvínið Petrus.

Helst ber að minnast á Chocolate Awards 2008 sem voru haldin í þriðja sinn í ár. Þar sigraði súkkulaði frá Amedei eina ferðina enn sem besta dökka súkkulaðið. Að þessu sinn kom það í hlut 63% súkkulaðisins frá Amedei að hljóta Gullnu baunina en jafnframt hlutu gullverðlaun Porcelana og Chuao auka þess sem silfur hlutu 66%, 70% og „9“ sem er með 75% kakó. Mjólkursúkkulaðið frá Amedei hlat silfur í sínum flokki.

Það er gott úrval af Amedei súkkulaði í Ostabúðinni á Skólavörðustíg og hjá Sandholt á Laugaveginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, decanter, Gestgjafinn, súkkulaði, verðlaun/viðurkenningar

Tilrauneldhúsið: Grecante og tveir réttir úr Gestgjafanum

Þar sem að Gestgjafinn var svo góður að mæla með hvítvíninu okkar Grecante með tveimur réttum í nýjasta blaðinu (sjá nánar um það hér) þá fannst okkur tilvalið að elda réttina fyrir gesti á laugardagskvöldið.

Annars var um að ræða „Smálúðurúllur með parmaskinku, basilíku og tómatsultu“ og hins vegar „Fenníkulegin lúða”.

Að sjálfsögðu smellpassaði vínið með enda…. [jada, jada, jada — hér á að standa mikill lofsöngur um vínið].

Þau kunna líka sitt fag, Dominique og Eymar, sem hafa umsjón með vínmálum í Gestgjafanum.

Það gleymdist reyndar að bera fram tómatasultu með öðrum réttinum sem undirritaður var 2 tíma að sjóða en hún datt inn síðar um kvöldið og var alveg sátt við það. Var líka góð ofan á brauð daginn eftir.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, Gestgjafinn, matur, uppskrift

Hlý orð í Gestgjafanum

Gestgjafinn birtir góð orð í okkar garð í nýjasta blaðinu (3. tbl. 2008).

Fyrst ber þar að nefna umfjöllun um Búrgúndarvínsmökkun sem við héldum á Vínbarnum og kynntum nokkur vín frá framleiðendum okkar þaðan.

Smelltu hér til að sjá myndir úr smakkinu
Smelltu hér til að lesa um heimsókn til Búrgúndarhéraðs síðasta haust

Takk fyrir hlýju orðin og hvatninguna.

„Frábær Búrgundí-vín hjá Arnari í Vín og mat

Arnar Bjarnason hjá Víni og mat er einn af hugsjónamönnum í vínheiminum á Íslandi. Hann flytur inn vín sem honum þykja góð og reynir að lifa af því. Hann hefur kynnt fyrir okkur mörg frábær vín frá Ítalíu, fór svo til Languedoc og fann þar afburða skemmtilega víngerðarmenn og nú er hann kominn til Búrgundí. Hann var með afraksturinn af leit sinni á Vínbarnum þar sem hann kynnti þessi vín. Vínin voru frá fjórum litlum en afar virtum framleiðendum, Lucien Le Moine, Jean Grivot og Vincent Girardin svo og frá Christian Moreau í Chablis (hann gerir eingöngu Premier Cru og Grand Cru-vín). Það er ekki á hverjum degi sem mönnum gefst færi á að smakka Premier og Grand Cru hér á landi, meðal annars Corton Charlemagne, Corton Bressandes, Charmes Chambertin, Chambolle Musigny og Clos des Vougeot. Arnar hefur fengið svolítinn kvóta af þeim vínum og ber að hrósa honum fyrir metnaðinum því þar sem menn stoppa og jafnvel snúa við og telja að markaðurinn sé ekki fyrir hendi heldur hann ótrauður áfram og færir okkur bestu vínin sem völ er á – og heldur okkur við efnið.“

Góð lýsing á Montefalco Rosso frá Arnaldo Caprai birtist siðan undir liðnum „Nýtt í reynslu“. Þau Dominique og Eymar gefa því 4 glös af 5.

Ég tek sérstaklega undir orð þeirra „mjög ítalskt“. Sum vín eru bara einhvern veginn þannig.

Montefalco Rosso 20054 glös
Þetta vín kemur úr smiðju Arnaldo Caprai sem er tvímælalaust sá framleiðandi í Umbria sem er að vekja hvað mesta athygli á heimsvísu. Vínið er blanda af sangiovese og sagrantino (þrúgan sem hann ræktaði úr gleymsku) þar sem sú fyrri er í miklum meirihluta. Það er opið í nefi með góðan ferskleika og er að finna kirsuber sangiovese-þrúgunnar ásamt kryddjurtum og kryddi. Áferðin er mjúk og þurr, tannín er vel þroskað og finna má margslungna tóna af kryddi, kirsuberjum, tóbaki og mold. Langt eftirbragð sem helst í kirsuberjunum og léttum eikartónum. Stórfínt vín með góða byggingu og í flottu jafnvægi. Drekkið með bragðmiklum og flóknum pastaréttum eða ekta ítölskum kjötréttum.
Verð 2.190 kr.
Okkar álit: Vín í háum gæðaflokki. Vel gert og mjög ítalskt en þarfnast umhellingar þar sem tannínið er ennþá svolítið þétt.“

Fleira gott um okkar vín kemur fram í blaðinu. T.d. eru fjögur ítölsk hvítvín pöruð með skemmtilegum rétti, „Smálúðurúllur með parmaskinku, basilíku og tómatsultu“ frá Jóa í Ostabúðinni og þeim gefnar einkunnir eftir því hversu vel þau eiga með réttinum. Við eigum þrjú af þessum hvítvínum, Grecante (4 1/2 glas), Casal di Serra (4 glös) og Vernaccia di San Gimignano (4 glös).

Svo mæla þau Dominique og Eymar með okkar vínum annars staðar í blaðinu. Með Frizzando frá Sandhofer mæla þau með „Túttí frúttí“ smárétti á bls. 40, Chateau du Flaugergues með „Lambalæri á la Provencal með ratatouille-grænmeti“ á bls. 45 og með Casal di Serra og Grecante með „Fenníkulegin lúða“ á bls. 65.

Ein athugasemd

Filed under búrgúnd, caprai, castello di querceto, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, sandhofer, ummæli, vín, vincent girardin

Áramótapartývín – freyðivínin okkar í Gestgjafanum

.

Góðan daginn, góðan daginn.

Hér var að berast Gestgjafi inn um lúgu með góðri umfjöllun um freyðivínin okkar tvö, Francois 1er frá Castello di Querceto sem fær 4 glös af 5 og Frizzando sem fær 3 1/2 glas.

Hið síðara er reyndar ekki fullgilt freyðivín þar sem það er svona léttfreyðandi hvítvín, en freyðandi er það vissulega og telst vera slíkt þar til annað er sannað.

Tvö vín til að njóta um áramótin, og næstu 364 daga þar á eftir.

Castello di Querceto Francois 1er Brut4 glös
Freyðivín úr chardonnay frá Toskana, mjög fágað, léttur og mildr ilmur með gulum eplum og steinefnum, aðeins smjörkennt í munni, freyðir mjög fallega og lengi. Verð: 1.990 kr

Frizzando d’Villa Vinera 3 1/2 glas
Austurrískt freyðivín frá Sandhofer úr gruner veltliner, muscat og chardonnay, ilmríkt, ferskt og milt, mjög fíngert sem virkar hálf sætt, afar ljúft freyðivín. Verð: 1.790 kr. “ (Gestgjafinn 16. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, Gestgjafinn, sandhofer

Caprai og Moreau eru flottir í Gestgjafanum og Morgunblaðinu

.

Fjallað er um Collepiano 2004 frá Arnaldo Caprai í nýjasta Gestgjafanum og líka í Morgunblaðinu sem kom út í gær.

Við eigum líka hvítvín í báðum þessum Útgáfum og bæði Chablis vín frá Domaine Christian Moreau, 1er Cru Vaillon 2006 í Morgunblaðinu og Grand Gru Les Clos 2004 í Gestgjafanum.

Í Gestgjafanum fá bæði vínin 4 1/2 glas. Í Morgunblaðinu fá þau 91 og 90 stig. Í báðum tilfellum er verið að fjalla sérstaklega um hátíðarvín.

Fínir dómar það.

Ég er að hugsa um að hafa vín frá þessum tveimur framleiðendum á borðum yfir hátíðarnar en er ekki viss. Get ekki ákveðið mig ennþá og veit reyndar ekki alveg hvaða skeppnu verður slátrað til að prýða hátíðarmatseðilinn. Fyrir utan hreyndýr sem ég fékk frá skotglöðum félaga.

Þetta segir Gestgjafinn:

Christian Moreau Grand Cru Les Clos 2004 4 1/2 glas
Lokað í upphafi, opnast á blóm, sítrus, steinefni og epli. Brakandi og margslunginn ilmur, frábært jafnvægi, kraftmikið í munni. Mikill karakter og afskaplega góð lengd. Drekkið með humri eða ostrum. Nammi namm.
Okkar álit: Ungt en frábært Chablis. Kraftmikið en fágað, þyrfti jafnvel að umhella.

Collepiano 2004 – 4 1/2 glas
Þétt og mikið vín með ákveðinn elegans. Margslungið bæði í nefi og munni með fjólum, kryddi, þroskuðum ávexti og möndlum. Kröftugt en gott tannín með frábæra lengd. Kallar á góðan og bragðmikinn mat eins og dádýr eða hreindýr. 4.300 kr.
Okkar álit: Frábært vín með góðan kraft. Best milli 2009 og 2014 en má umhella til að flýta fyrir. “ (- Gestgjafinn 15. tbl. 2007)

þetta segir Morgunblaðið:

Collepiano 2004 er rauðvín frá Úmbría úr heimaþrúgunni Sagrantino di Montefalco frá besta framleiðanda héraðsins, Arnaldo-Caprai. Þurrt birki, vanillusykur og áfengislegin svört kirsuber. Langur, þurr og tannískur endir Opnar sig með mat en mun batna næstu fimm árin það minnsta. Mjög athyglisverður Ítali. 4.300 krónur. 91/100

Domaine Christian Moreau Chablis 1er Cru Vaillon 2006 er klassískur og fágaður Chablis. Þurr og sýrumikill, steinefni og hnetur í nefi, þykkur sítrus í munni með löngum endi. Vín fyrir t.d. humarsúpuna. 2.890 krónur. 90/100“ (- Morgunblaðið, 15.12.2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, morgunblaðið

Góð umfjöllun í Gestgjafanum

.

Rauðvínið Cúmaro Riserva 2004 fær 4 1/2 glas í nýjasta Gestgjafanum (11. tbl. 2007) og hvítvínið Emporio Inzolia Grecanico 2006 fær 4 glös.

Góð umfjöllun það.

Cúmaro Riserva 20044 1/2 glas
Cúmaro Riserva er einnar ekru vín frá hinum virta og stórskemmtilega framleiðanda Umani Ronchi. Það er unnið úr montepulciano-þrúgunni sem oftar en ekki er talin gera gróf og óspennandi vín sem á ekki við í þessu tilfelli. Ilmurinn er opinn og margslunginn og er þar helst að finna kanil, negul, vanillu, dökkan ávöxt, eik, leður og súkkulaði. Áferðin er mild með þétt tannín og fyllingin er hrikalega mikil. Í munni má finna dökk ber, létta eik, krydd og dökkt súkkulaði. Cúmaro hlaut Riserva-viðbótina við nafnið fyrir ekki svo löngu sem þýðir að það er geymt í a.m.k. 14 mánuði á eikartunnum. Stórt, þétt og kraftmikið vín sem er í senn fágað og mjúkt. Hafið þetta með bragðmiklum ítölskum kjötréttum og verði ykkur að góðu.
Verð 2.590 kr.
Okkar álit: Vel kröftugt vín frá þrúgu sem er almennt ekki talin „eðal“ en Umani Ronchi nær framúrskarandi árangri með og úr verður fágað og flott vín.

Emporio Inzolia Grecanico 20064 glös
Hér er á ferðinni skemmtileg blanda af tveimur ítölskum þrúgum, inzolia og grecanico, sem eru upprunalega frá Sikiley og má segja að hér sé hreinræktað sikileyskt vín á ferð (þó að víngerðarmaðurinn Kym Milne sé ástralskur). Vínið er opið og ávaxtaríkt með ilm af gulum og hvítum blómum, apríkósum, ferskjum, perum, eplum og mildum kryddum. Virkilega líflegur og frískandi ilmur. Áferðin er fersk og ávaxtarík og einkennist bragðið, eins og ilmurinn, af gulum og hvítum blómum, apríkósum og ferskjum með vott af hunangi. Afar skemmtilegt og ilmríkt vín sem við skilgreindum sem evrópskt með Nýja heims-einkenni. Drekkist með sjávarréttapasta eða hráskinkusalati með melónubitum á síðustu sólardögum sumarsins (eða til minningar um frábært sumar!).
Verð 1.390 kr.
Okkar álit: Óvenjleg blanda af heimaþrúgum Sikileyjar, vel gert og yndislegt vín sem er auðvelt að para með mat.“ (- Gestgjafinn, 11. tbl. 2007) 

Í sama blaði er áhugaverð grein um pörun nokkurra sikileyskra rauðvína við kjarnmikla kjötréttinn Osso Bucco sem Gunni Palli á Vínbarnum gefur lesendum Gestgjafans (bls. 62-3). Þar er efst á blaði rauðvínið okkar Emporio 2004 og fær það 4 1/2 glas en sú einkunn miðast við hversu vel vínið passar með réttinum. Þeim finnst það smellpassa og vera „margslungið“.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, firriato, Gestgjafinn, umani ronchi

Emporio í Gestgjafanum

.

Sikileyska rauðvínið Emporio sem rennur undan rifjum Firriato víngerðarinnar (en er merkt VINARTE fyrirtækinu á flöskumiðanum) fær 3 1/2 glas í nýjasta Gestgjafanum.

Umfjöllunin er hluti af nýjum pistli sem heitir „Nýtt í reynslu“ og fjallar um vín sem eru nýbyrjuð í Vínbúðunum og fást þá einungis í Kringlunni og Heiðrúnu. Pistillinn sá er hluti af nýju útliti vínumfjöllunar í blaðinu þar sem gamla formið er brotið upp og lofar það góðu um framhaldið.

Um Emporio rauðvínið er það að segja að í því blandast tvær þrúgur sem ég man ekki eftir að ég hafi séð saman í nokkru víni áður. Það virðist virka vel að temja hina villtu þrúgu Nero d’Avola með hinni jarðbundnari Sangiovese. Það er einmitt þessi frumlega blanda sem vekur hvað helst áhuga þeirra mæðgina Dominique og Eymars.

EMPORIO NERO D’AVOLA SANGIOVESE 20043 1/2 glas
Þetta vín er samvinnuverkefnhi sikileyska framleiðandans Firriato og alþjóðlega víngerðarfyrirtækisins IWS. Þar er Ástralinn Kym Milne MW fremstur í fylkingu og hann er jafnframt einn fyrsti erlendi víngerðarmaðurinn til að vinna á Ítalíu. Þessi al-ítalska blanda er með opinn og flókinn ilm af kirsuberjum, tóbaki, kaffi, dökku súkkulaði, möndlum og kryddi. Á tungunni er það milt með þurrt tannín og finna má krydd, kirsuber, jarðarber og milda eik. Skemmtilegt bæði í nefi og munni og lýsir það einkennum beggja þrúgna virkilega vel. Drekkist með matarmiklu pasta, bragðmiklum pítsum eða Miðjarðarhafskjötréttum.
Verð 1.390 kr. (R)
Okkar álit: Afar athyglisvert og gott vín. Skemmtileg blanda beggja þrúgna sem kemur á óvart, mjög vel gert. “ (Gestgjafinn 9. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, firriato, Gestgjafinn

Nammi namm frá Ítalíu – Grecante 2005 frá Arnaldo Caprai í Gestgjafanum

.

Grecante 2005 frá Arnaldo Caprai fær 4 glös í nýjasta Gestgjafanum sem datt inn um lúguna í dag, „[g]imsteinn frá Ítalíu“ eins og þau kalla og „á þessu líka frábæra verði“

Þeim finnst það líka vera „nammi namm“.

Í sama blaði fær The Stump Jump rauðvínið frá d’Arenberg 3 1/2 glas. The Stump Jump hvítvínið var einmitt dæmt í síðasta Gestgjafa og fékk þá 4 glös (lestu dóminn)

ARNALDO CAPRAI GRECANTE 20054 glös
„Þrúgan grechetto er tiltölulega óþekkt þrúga sem einungis er ræktuð í Mið-Ítalíu og er hún þá oftast blönduð við malvasia, trebbiano og verdello. Hér er hins vegar á ferðinni 100% grechetto sem er sjaldséð og hvað þá hér á fróni. Það ilmar yndislega af blómum, perubrjóstsykri, sítrusi og hunangi – svona rétt í lokin. Það virkar svolítið feitlegt í munni en er samt sem áður ferskt og finna má sömu einkenni og í nefi. Virkilega aðlaðandi vín sem er ólíkt flestum hvítvínum og getum við verið þakklát fyrir að hafa aðgang að því og á þessu líka frábæra verði. Drekkið það með grilluðum fiski eða hreinlega humar-risotto, nammi namm.
Verð 1.790 kr. – mjög góð kaup
Okkar álit: Gimsteinn frá Ítalíu – kröftugt, glæsilegt og fágað með betri máltíðum í sumar (og í haust líka!).“

STUMP JUMP GSM 20053 1/2 glas
„Ástralar hafa komist upp á lag með að nota þessa algengu Miðjarðarhafsblöndu af grenache, mourvedre og shiraz og er útkoman nánast alltaf góð. Þetta eintak kemur frá hinum bráðskemmtilega (og sennilega sérvitra) framleiðanda d’Arenberg og er ilmurinn opinn með votti af blómum, kirsuberjum, kryddi og eik. Það er milt en líflegt á tungunni og þar er að finna jarðarber, hindber, blóm, krydd og létta eik. Skemmtilegt vín sem er ferskt en í senn bragðmikið og þægilegt. Prófið þetta með Miðjarðarhafsréttum, ætti að ganga vel.
Verð 1.490 kr. – góð kaup
Okkar álit: Bragðgott og þæilegt vín, líflegt og með góðan karakter. Fíngert og ferskt, gott matarvín í línu d’Arenberg.“ (Gestgjafinn 7. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, dómar, Gestgjafinn

Stump Jump er Bestu kaupin í Gestgjafanum

.

Stump Jump vínin frá d’Arenberg byrjuðu í Vínbúðunum fyrir nokkrum vikum síðan.

Stump Jump rautt og Stump Jump hvítt.

Hvítvínið er valið Bestu kaupin í nýjasta Gestgjafanum sem var að detta inn um lúguna.

Lýsingin er mjög góð, þeim finnst það m.a. „eitt af þessum vínum sem skera sig úr og hrífa mann því það er einfaldlega yndislegt“

D’ARENBERG STUMP JUMP 20054 glös Bestu kaupin
„Ástralski framleiðandinn d’Arenberg í McLaren Vale hefur verið mikið í sviðsljósinu af tveimur ástæðum. Nöfnin á vínunum hans hafa verið frekar frumleg (The Laughing Magpie, The Footbolt, The Hermit Crab o.fl.) og hann hefur farið ótroðnar slóðir með þrúgnablöndur og fikrað sig áfram með mjög góðum árangri. Vínin gefa ekkert eftir í gæðum og framleiðslan fer fram með hefðbundnum aðferðum til að varðveita „terroir“ og persónuleika. Og þau hafa hann. The Stump Jump (skýring nafnsins er á miðanum!) er þar engin undantekning: blanda af riesling, sauvignon blanc, marsanne (og roussanne) sem evrópskir víngerðarmenn myndu ekki láta sér detta í hug að blanda saman. Vínið er mjög ferskt og virkilega ilmríkt þar sem vel er hægt að greina einkenni allra þrúgnanna; steinefni, sítrónu, límónu og blóm frá riesling, mild stikilsber frá sauvignon blanc og ferskjur og hnetur frá marsanne. Í munni heldur þetta sama áfram og vínið hefur mjög góða fyllingu. Þetta er eitt af þessum vínum sem skera sig úr og hrífa mann því það er einfaldlega yndislegt. Verð 1.490 kr. – Mjög góð kaup.
Okkar álit: Notið það við öll tækifæri með grilluðum humar eða fiski (ekki of krydduðum), sítrónukjúlingi, laxi … eða einfaldlega sem fordrykk. Yndislegt vín með karakter.“ (– Gestgjafinn 6. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn

Tvö ítölsk rauðvín fá fína umfjöllun í Gestgjafanum

.

Við höfum verið dugleg að koma sýnishornum til Gestgjafans. Það virkar þannir að við gefum þeim eina flösku af hverri tegund sem fjalla á um. Af henni er tekin mynd og hún síðan smökkuð og dæmd af þeim góðu mæðginum Dominique og Eymari.

Í nýjasta Gestgjafanum fjalla þau um  tvö ítölsk rauðvín frá okkur, Vitiano 2005 frá Falesco og Pinot Nero 2004 frá San Michele Appiano (St. Michael Eppan á þýsku á miðanum því víngerðin er svo norðarlega á Ítalíu).

Svona lítur það út:

FALESCO VITIANO 20054 glös
Enn og aftur erum við með vín frá Falesco í Umbria á smökkunarborði okkar og er það alltaf sönn ánægja. Það er alveg á hreinu að Falesco er með skemmtilegri framleiðendum Ítalíu því að allt sem við höfum smakkað þaðan er einstaklega vel gert – og á góðu verði. Hér er blanda af sangiovese, merlot og cabernet sauvignon sem skilar sér í ilmríku víni með ilmi af kirsuberjum, blómum, súkkulaði og lakkrís. Þetta er bragðmikið vín og vottar fyrir kirsuberjum, tóbaki, svörtu súkkulaði og kryddi. Langt og gott eftirbragð en víninu þarf að umhella til að það njóti sín í botn. Prófið það með steiktu kjöti, ofnsteiktu lamba- eða nautakjöti eða pörusteik. Verð 1.590 kr. – Góð kaup.

Okkar álit: Vín sem kallar á mat, frá virtum framleiðanda – mjög ungt enn en lofar jafngóðu og 2004 sem var afar góður árgangur. Þarf að umhella.

ST. MICHAEL EPPAN [San Michele Appiano] PINOT NERO 20043 1/2 glas
Á Norður-Ítalíu er að finna svæði, Alto Adige, sem er enn mikið undir týrólskum áhrifum þar sem þýska og ítalska eru notaðar jöfnum höndum – til dæmis á flöskumiðunum. Þar er að finna ágæta vínrækt og er San Michele Appiano (eða Skt. Michael Eppan!) ein af þeim virtustu. Hérna erum við með pinot nero frá þeim sem er enn ungt að árum. Það er svolítið lokað í byrjun en opnast hægt og rólega á jarðarber, milt krydd, súkkulaði og skógarbotn. Eins og áður sagði er vínið enn svolítið ungt og kemur það best fram á tungunni. Frekar skörp tannín fela ávöxtinn svoítið en þar á bak við er samt að finna rauðan ávöxt, krydd og sveppi. Þetta er vín sem þarf greinilega að láta liggja í nokkur ár en þeir sem eru óþolinmóðir geta umhellt því. Hafið það með önd eða eðalkjúklingi með trufflum! Verð 1.890 kr. – Góð kaup

Okkar álit: Fíngert og ekta pinot nero frá mjög vönduðum framleiðanda . Þarf annaðhvort að umhella því eða láta það liggja en þetta er frábært vín með góðum, vönduðum kjötréttum.“ (Gestgjafinn 5. tbl. 2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, dómar, falesco, Gestgjafinn

Gestgjafinn velur Vitiano hvítvín Bestu kaupin

.

Við eigum þrjú hvítvín í brakandi nýjum Gestgjafanum. Þema vínumfjöllunarinnar að þessu sinni eru vín úr sjaldgæfum þrúgum og verður henni haldið áfram í næsta tölublaði.

Hvítvínin okkar þrjú fá afskaplega góða dóma með Vitiano Bianco 2005 frá Falesco í broddi fylkingar. Ég held bara að sé miðað við verð hafi ekkert vín frá okkur fengið eins góða umfjöllun og einkunn í Gestgjafanum og Vitiano hvítvínið fær núna. Bestu kaupin og 4 1/2 glas og fannst þeim mæðginum Eymari og Dominique það „unaðsleg upplifun“ og „frábær kaup“.

4 1/2 glas er bara „half a glass from greatness“ (fannst þetta hljóma svo flott að ég varð að hafa það á ensku) fyrir vín á aðeins 1.590 kr.

Hin hvítvínin tvö fá bæði 4 glös sem er frábær einkunn líka. Þau eru á sama róli, Casal di Serra 2005 frá Umani Ronchi kostar líka 1.590 kr og hið ástralska The Hermit Crab 2004 frá d’Arenberg kostar tíkalli meira eða 1.600 kr.

Casal di Serra er að birtast í annað sinn á síðum Gestgjafans, fyrir nokkrum árum hlaut það sömu einkunn og heiðurstitilinn Vín Mánaðarins.  Casal er okkar vinsælast vín frá upphafi og þessi nýi dómur staðfestir að gæðin hafa ekkert breyst.

VITIANO FALESCO BIANCO 20054 1/2 glas BESTU KAUPIN
Lazio [er reyndar frá Umbria héraði] er kannski ekki þekktast fyrir vínin sín og stendur að minnsta kosti í skugganum af nágranna sínum Toskana hvað vín varðar. Engu að síður er þar að finna nokkra gullmola og er vínframleiðandinn Falesco einn af þeim. Hér er á ferðinni mikið matarvín úr þrúgunum vermentino, viognier og verdicchio. Mjög opinn og margslunginn ilmur með vott af blómum (ef maður lokar augunum og þefar af því getur maður ímyndað sér að maður sé staddur í fallegum garði fullum af blómum), ferskju, nýslegnu grasi og sítrus. Í bragði er það margslungið og ferskt með steinefnum, kryddi og ferskjum og með skemmtilegan keim af fersku tóbaki í eftirbragði.
Verð 1.490 kr. [úps, 1.590] – Frábær kaup.
Okkar álit: Margslungið vín og líflegt frá Mið-Ítalíu, unaðsleg upplifun og þið verðið að þora að drekka það með pasta (sjávarréttapasta með sveppum og rjómasósu), kálfakjöti – og að sjálfsögðu með eðalfiski.CASAL DI SERRA 2005 4 glös
Casal di Serra ætti að vera flestum kunnugt því það hefur dvalið í þó nokkurn tíma í hillum vínbúðanna og alltaf er það jafnsjarmerandi. Það er gert úr verdicchio og er opið og ferskt með ilm af marsípani, eplum, sítrus og nýslegnu grasi. Í bragði er það ferskt og líflegt með góða fyllingu og vottar fyrir sítrus, grösugum tónum, blómum og perum. Það hefur góða byggingu og er bragðmikið en í senn einstaklega fágað. Hafið þetta með salati með parmaskinku og melónum eða sjávarréttasalat.
Verð 1.590 kr. – Mjög góð kaup.
Okkar álit: Fínlegt og elegant vín frá Umani Ronchi, mjög góð fylling og skerpa – Verdicchio gerist ekki betra.

D’ARENBERG THE HERMIT CRAB 2004 – 4 glös
Þessar tvær þrúgur, viognier og marsanne, eru báðar upprunnar frá Suður-Frakklandi og eru mikið ræktaðar í Rhone-dalnum. Það er samt ekki algengt að sjá þessar tvær þrúgur notaðar saman, hvað þá frá Ástralíu. Það hefur ferskan og líflegan ilm af sítrus, blómum, ferskjum og ananas. Mjög aðlaðandi í nefi. Það er álíka ferskt í bragði og heldur margslungið með vott af sítrus, blómum, greipávexti og þroskuðum ferskjum. Það hefur góða byggingu og gott jafnvægi þrátt fyrir hátt alkóhólmagn. Mjög fágað skemmtilegt vín sem er með þeim frumlegri í vínbúðunum. Prófið það með feitum fiski, til dæmis með mildu karríi (indversku), eða rækjum með lárperu og greipávexti í karríi.
Verð 1.600 kr. – Mjög góð kaup.
Okkar álit: Við fögnum þessari frumlegu og sérkennilegu blöndu (ekki bara nafnið sem er frumlegt), vínið er margslungið og yndislegt.“ – Gestgjafinn 2. tbl. 2007.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, d'arenberg, dómar, falesco, Gestgjafinn, umani ronchi

Lífræn vín í Gestgjafanum: Montpeyroux er Vín mánaðarins

.

Dominique og Eymar taka fyrir lífræn vín í splúnkunýju hefti Gestgjafans sem datt inn um lúguna í dag.

Þau fjalla m.a. um Mas du Gourgonnier 2003, lífræna vínið frá Provence héraði og Domaine d’Aupilhac Montpeyroux 2003, lífræna vínið hans Sylvain Fadat í næsta héraði við Provence, þ.e.a.s. Languedoc.

Fyrrnefnda fær fjögur glös og mjög skemmtilega umfjöllun eins og: „Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði“.

Hið síðarnefnda fær heil fjögur og hálft glas og heiðurstitilinn eftirsótta VÍN MÁNAÐARINS.

Við erum bara í skýjunum með þessa góðu umfjöllun.

MAS DU GOURGONNIER 20034 glös
Þau eru fá vínin frá Provence (Þetta er frá fallega þorpinu Baux de Provence) og merkilegt er að það eina sem lengi hefur verið til er úr lífrænni ræktun – það ber að hrósa þeim sem færa okkur þannig gullmola. Notaðar eru flestallar þrúgurnar sem má nota í þessu AOC, grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvèdre og árangurinn er margslungið vín, þétt, sem opnast smám saman. Það hefur fágaða og ljúfa angan af blómum, þroskuðum ávöxtum (alls kyns ber, rauð og svört), kryddi og ristuðum tónum. Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði, í hófi þó og á fínum nótum. Gott að drekka núna en verður enn betra daginn eftir, sem þýðir að enn má geyma það nokkuð lengi. Það er kjörið með kjötréttum í anda Miðjarðarhafslanda, með tómötum, eggaldini, kúrbít, ólífum, kryddjurtum og góðu kryddi.
Verð: 1690 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Fyrir ári var þetta vín lokað og gaf lítið frá sér nema hörku – en nú er það orðið mun opnara, mjúkt og afar skemmtilegt (okkur fannst það reyndar frá upphafi). Lífrænt sparivín.

DOMAINE D’AUPILHAC MONTPEYROUX 20034 1/2 glas
Domaine D’Aupilhac er lítill framleiðandi í Languedoc, stutt frá Montpellier. Hann stundar lífræna ræktun af hugsjón en hefur ekki lagt í að fá vottun (eins og margir aðrir, því það er jú kostnaðarsamt) og má segja að ræktun hans einkennist af virðingu fyrir landinu. Þetta vín er opið og margslungið með ferskum ávöxtum, pipar, tímíani, lakkrís og örlitlum ristuðum tópn. Í bragði er það svipað með yndislegum ávexti, kryddi, ögn af eik og góðum tannínum. Frábær bygging og góð fylling einkennir þetta vín sem er í einstaklega góðu jafnvægi. Prófið það með villibráð, önd og eiginlega öllu gæðakjöti. Frá sama framleiðanda. Lou Maset.
Verð: 2.200 kr. – Mjög góð kaup
Okkar álit: Flott vín sem hefur allt: flotta byggingu, gott jafnvægi, skemmtilegan ávöxt og er tilbúið núna. Matarvín.“ (Gestgjafinn 13. tbl. 2006, Dominique og Eymar)

Við tókum upp flösku af Mas du Gourgonnier 2003 á jóladag, ilmurinn er æsandi og var ég afar ánægður eins og þau mæðgin Dominique og Eymar hvernig vínið hefur þróast. Eiginlega get ég ekki beðið eftir að opna það aftur. Montpeyroux smakkaði ég síðast fyrir viku síðan, það er nokkuð þurrt og öskrar á gott kjöt t.d. blóðuga steik, hreindýr og aðra villibráð. 

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, dómar, Gestgjafinn, lífrænt, mas de gourgonnier, vín mánaðarins

Gestgjafinn fjallar um Pic Saint Loup 2004 og Orobio Rioja 2004

.

Í jólablaði Gestgjafans er að finna tvö vín frá okkur sem bæði fá 3 1/2 glas.

Í útskýringu á einkunnagjöf liggur þessi einkunn á milli þeirrar sem kallast „Gott“ (þ.e. 3 glös) og „Mjög gott“ (þ.e. 4 glös) en kallast sjálf „Ágætt, vantar herslumuninn“ (þ.e. 3 1/2 glas). Þessi útskýring „vantar“ finnst mér svolítið neikvæð. 3 1/2 glas er góð einkunn og vín sem hana fá þarf ekki að líta á að „vanti“ eitthvað sérstaklega upp á. Vanti upp á hvað?  Sum vín ná fullkomnun á sinn hátt, fyrir sitt svæði og verðflokk og vantar því alls ekki neitt upp á neitt þótt þau verðskuldi ekki hærri einkunn en 3 1/2 glas. Þessi neikvæða útskýring rýrir þennan annars ágæta einkunnaflokk.

Svona lítur þetta út í Gestgjafanum:

5 – „Framúrskarandi“
4 1/2 – „Frábært“
4 – „Mjög gott“
3 1/2 – „Ágætt, vantar herslumuninn“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Ég sting upp á þessu:

5 – „Einstakt“
4 1/2 – „Framúrskarandi“
4 – „Frábært“
3 1/2 – „Mjög gott“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Eða þessu:

5 – „Í stuði með guði“
4 1/2 – „Gekt gott, sko, ég meina’ða“
4 – „Mjög gott fyrir kynlífið“
3 1/2 – „All gott, mjög áhugavert, fallegur miði“
3 – „Jú jú, bara fínt, en hvað er þetta á botninum?“
2 – „Kassavín“
1 – „Þetta er eins og lýsi“

Hér er svo umfjöllunin um vínin tvö:

CHATEAU LASCAUX PIC SAINT LOUP 20043 1/2 glas
Frakkar í suðri hafa verið að sækja í sig veðrið, eftir nokkurra ára lægð, og hafa ólátabelgirnir í Languedoc gert mjög góða hluti. Þetta vín er gott dæmi um það. Ferskur ávöxtur, fjólur, krydd og lítillát eik í nefi sem skapar mjög aðlaðandi heild. Í munni er áferðin létt með þægileg tannín og góðan ávöxt (svolítið falinn) og vottar fyrir beiskju í eftirbragðinu. Þetta er vín sem er enn of ungt og má alveg geyma það í u.þ.b. 2 ár í viðbót. Ætti að fara mjög vel með grilluðu kjöti og ragout.
Verð 1.750 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Vel gert vín, fágað og fíngert. Það þarf að umhella því eða geyma það til að það njóti sín til fulls. Mjög aðlaðandi og margslungið – hörkumatarvín

OROBIO 20043 1/2
Það er alltaf gaman þegar framleiðendur, eins og Artadi, taka upp á því að brjóta upp hefðir og gera óhefðbundin Rioja-vín eins og þetta. Fullt af sólberjum í ilmi ásamt eukalyptus, kryddi, ferskleika og sætuvotti. Ekki beint hinn hefðbundni Spánverji úr tempranillo. Það er ferskt og milt í munni með vott af sólberjum, kirsuberjum og pipar; góð fylling. Sniðugt vín fyrir forvitna og reyndar ljómandi gott fyrir alla hina lílka. Prófið þetta með tapaskjötréttum.
Verð 1.600 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Skemmtilegt dæmi um mjög óvanalegt vín frá Rioja. Ekki kaupa það sem Rioja-vín, heldur nýmóðins Spánverja og það kemur ykkur á óvart. “ (Gestjafinn, 12. tbl. 2006)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, Chateau du Lascaux, dómar, Gestgjafinn, vangaveltur