Category Archives: grivot

Kvikmynd frá heimsókn til vínframleiðenda í Frakklandi

Þegar við fórum til Frakklands síðasta haust tókum við stutta kvikmynd af heimsóknum okkar til vínframleiðenda allt frá suðri (Languedoc, Rhone og Provence) norður til Búrgúndarhéraðs.

Uppskeran var í fullum gangi, veður var gott og við náðum nokkrum ágætum augnablikum úr lífi franskra víngerðarmanna.

C’est la vie.

Ykkar undirritaður fer með aðalhlutverk í myndinni auk þess að leikstýra og klippa en naut góðrar aðstoðar Rakelar. Nú þarf bara að semja tónlistina.

Við blogguðum ekkert um þetta ferðalag á sínum tíma, kvikmyndin kemur í staðinn fyrir það, en við tókum fullt af ljósmyndum.

Sannsöguleg mynd. Fæst á öllum betri myndbandaleigum.

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, ferðalög, flaugergues, frakkland, grivot, kvikmyndir, lucien le moine, mas de gourgonnier, mourgues du gres, sjónvarp, vincent girardin

Búrgúnd 2006 — rauðvín og hvítvín, verð og væntingar

.

Talsvert af Búrgúndarvínum koma til landsins í byrjun október.

Hér má sjá verðlistann í heild sinni

Framleiðendurnir eru fjórir sem fyrr; Lucien Le Moine, Jean Grivot, Vincent Girardin og Christian Moreau.

Vínin sem við höfum áður fengið frá Búrgúnd hafa flest pantast upp á skömmum tíma, jafnvel áður en þau hafa komið til landsins og því ástæða til þess að hvetja áhugasama um að senda okkur strax fyrirspurn.

2006 árgangur er þrælgóður. Ég smakkaði talsvert af honum þegar ég heimsótti svæðið síðasta haust (lestu um ferðina og skoðaðu myndir) og var yfir mig hrifinn af þeim rauðu sem voru svo opin og aðgengileg en um leið fáguð og flott. 2005 er almennt talið betra en þau vín munu frekar vilja láta bíða eftir sér til að sýna sínar bestu hliðar á meðan að 2006 vínin eru heillandi nú þegar en geta jafnframt geymst. Hvítvín af 2006 árgangi eru almennt talin gefa 2005 lítið eða ekkert eftir, stundum jafnvel betri.

Við Rakel sækjum Búrgúnd heim á næstu vikum til þess að smakka 2007 árganginn hjá framleiðendunum okkar og kíkjum jafnvel eitthvað sunnar á bóginn. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig 2007 kemur til með að verða.

Búrgúnd segja sumir að sé endastöðin, lengra verði ekki komist í upplifun á góðum vínum. Við látum það ósagt, það er svo margt gott, en vissulega bjóða vínin frá Búrgúnd upp á upplifun sem á sér enga líka.

Til að taka frá vín má senda okkur tölvupóst á vinogmatur@vinogmatur.is

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, frakkland, grivot, lucien le moine, vincent girardin

Lucien Le Moine og aðrir Búrgúndarar fá lofsamlega umsögn í Wine Spectator

.

Það má segja að Lucien Le Moine ríði feitum hesti frá einkunna-afhendingu Wine Spectator fyrir vín frá Búrgúndarhéraði af 2005 árgangi. 16 rauðvína framleiðandans af 2005 árgangi eru til umfjöllunar í blaðinu og fær ekkert þeirra undir 93 stigum. Hann endurtekur því leikinn frá því þegar 2004 árgangurinn frá Búrgúnd var til umfjöllunar þegar vín Lucien Le Moine voru líka fremst á meðal jafningja að mati blaðsins (lestu meira).

Annars staðar í blaðinu er svo fjallað um næsta árgang 2006, sem við flytjum hingað til Íslands í september, þar sem nokkrir framleiðendur eru valdir til sérstakrar umfjöllunar og teknir við þá viðtal og er Mounir Saouma, eigandi Lucien Le Moine, í þeirra hópi.

Það sem gerir Lucien Le Moine svo ennþá heitari er eins og lesa má úr upplýsingum Wine Spectator að hann framleiðir yfirleitt ekki meira en 50 kassa af hverri sort (600 flöskur) á meðan að sumir framleiðendur í Búrgúnd eru að senda fleiri þúsund flöskur af sambærilegum vínum bara á Bandaríkjamarkað.

Ég spái því að vínin frá Lucien Le Moine eigi eftir að auka hressilega við verðgildi sitt í framtíðinni sökum frábærra dóma, ekki síst í amerísku pressunni, og vegna þess hversu lítið er til af þeim.

Í sama tímariti fá vínin fá Jean Grivot sömuleiðis hörkudóma en ekki er langt síðan að það var bloggað um það hér þegar að blaðamaður Decanter valdi framleiðandann í efsta elítuhóp framleiðenda í Búrgúndarhéraði (lestu meira). Í Wine Spectator er hluti rauðvína Jean Grivot af 2005 árgangi til umfjöllunar og hljóta einkunnir á bilinu 89 til 94 stig.

Ekki verra að glæsileg mynd af Clos Vougeot vínekru Jean Grivot prýðir forsíðu tímaritsins.

Nokkur vín frá Vincent Girardin eru sömuleiðis til umfjöllunar í Wine Spectator og fá á bilinu 86 til 94 stig en þess verður að geta að lína framleiðandans er mjög breið og spannar allt frá ódýrustu vínflokkum svæðsins til þeirra bestu og í þetta skiptið vantaði flest betri vín framleiðandans í umfjöllun blaðsins.

Þegar öllu er á botninn hvolf — Glæsileg útkoma vína frá okkar framleiðendum í Búrgúndarhéraði í þessu nýjasta hefti bandaríska víntímaritsins Wine Spectator.

Svo verð ég að koma að þessari hlýju umfjöllun um okkur og vínin okkar frá Búrgúnd í Gestgjafanum. 

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, vincent girardin, wine spectator

Domaine Jean Grivot er ein af súperstjörnunum í Búrgúnd að mati Decanter

.

Fyrir 10 árum síðan gaf Búrgúndar-sérfræðingurinn Clive Coates út lista af framleiðendum sem hann taldi þá bestu í Búrgúnd. Af urmul framleiðenda voru aðeins fimm á listanum. Nú eru þeir orðnir 17.

Þökk sé framförum í víngerð í héraðinu undanfarin ár að vínin eru almennt orðin betri, segir Clive. Honum finnst menn sýna náttúrunni meiri virðingu (margir á svæðinu eru lífrænir eða bíódínamískir) fyrir utan að vanda sig betur og skilar það sér í hreinni og beinni umbreytingu frá vínvið í flösku.

Okkar maður Jean Grivot er einn af nýju súperstjörnunum í Búrgúnd að mati Clive Coates eða eins og Clive segir: „Etienne Grivot is one of my favourite winemakers in Burgundy, and one of the most thoughtful. […] [T]he star of the cave is the Richebourg, a wine of remarkable beauty, intensity, and ravishing fruit. There is nothing obvious or clumsy here, just sheer breed.“

Eins og sjá má á myndinni þá elskar Grivot berin sín.

Fyrir utan Grivot eru hinir 16 (fyrstu fimm eru þeir upprunalegu): Comtes Lafon, Leroy, Romanée-Conti, Armand Rousseau, De Vogüé, Denis Bachelet, Sylvain Cathiard, Anne Gros, Michel Gros, Bonneau du Martray, Michel Lafarge, D’Auvenay, Guy Roulot, Louis Carillon, Leflaive og Ramonet.

Nánari upplýsingar um þessa framleiðendur og aðra er að finna í bók Clive Coates, The Wines of Burgundy, sem er nýkomin út.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, decanter, frakkland, grivot

Hlý orð í Gestgjafanum

Gestgjafinn birtir góð orð í okkar garð í nýjasta blaðinu (3. tbl. 2008).

Fyrst ber þar að nefna umfjöllun um Búrgúndarvínsmökkun sem við héldum á Vínbarnum og kynntum nokkur vín frá framleiðendum okkar þaðan.

Smelltu hér til að sjá myndir úr smakkinu
Smelltu hér til að lesa um heimsókn til Búrgúndarhéraðs síðasta haust

Takk fyrir hlýju orðin og hvatninguna.

„Frábær Búrgundí-vín hjá Arnari í Vín og mat

Arnar Bjarnason hjá Víni og mat er einn af hugsjónamönnum í vínheiminum á Íslandi. Hann flytur inn vín sem honum þykja góð og reynir að lifa af því. Hann hefur kynnt fyrir okkur mörg frábær vín frá Ítalíu, fór svo til Languedoc og fann þar afburða skemmtilega víngerðarmenn og nú er hann kominn til Búrgundí. Hann var með afraksturinn af leit sinni á Vínbarnum þar sem hann kynnti þessi vín. Vínin voru frá fjórum litlum en afar virtum framleiðendum, Lucien Le Moine, Jean Grivot og Vincent Girardin svo og frá Christian Moreau í Chablis (hann gerir eingöngu Premier Cru og Grand Cru-vín). Það er ekki á hverjum degi sem mönnum gefst færi á að smakka Premier og Grand Cru hér á landi, meðal annars Corton Charlemagne, Corton Bressandes, Charmes Chambertin, Chambolle Musigny og Clos des Vougeot. Arnar hefur fengið svolítinn kvóta af þeim vínum og ber að hrósa honum fyrir metnaðinum því þar sem menn stoppa og jafnvel snúa við og telja að markaðurinn sé ekki fyrir hendi heldur hann ótrauður áfram og færir okkur bestu vínin sem völ er á – og heldur okkur við efnið.“

Góð lýsing á Montefalco Rosso frá Arnaldo Caprai birtist siðan undir liðnum „Nýtt í reynslu“. Þau Dominique og Eymar gefa því 4 glös af 5.

Ég tek sérstaklega undir orð þeirra „mjög ítalskt“. Sum vín eru bara einhvern veginn þannig.

Montefalco Rosso 20054 glös
Þetta vín kemur úr smiðju Arnaldo Caprai sem er tvímælalaust sá framleiðandi í Umbria sem er að vekja hvað mesta athygli á heimsvísu. Vínið er blanda af sangiovese og sagrantino (þrúgan sem hann ræktaði úr gleymsku) þar sem sú fyrri er í miklum meirihluta. Það er opið í nefi með góðan ferskleika og er að finna kirsuber sangiovese-þrúgunnar ásamt kryddjurtum og kryddi. Áferðin er mjúk og þurr, tannín er vel þroskað og finna má margslungna tóna af kryddi, kirsuberjum, tóbaki og mold. Langt eftirbragð sem helst í kirsuberjunum og léttum eikartónum. Stórfínt vín með góða byggingu og í flottu jafnvægi. Drekkið með bragðmiklum og flóknum pastaréttum eða ekta ítölskum kjötréttum.
Verð 2.190 kr.
Okkar álit: Vín í háum gæðaflokki. Vel gert og mjög ítalskt en þarfnast umhellingar þar sem tannínið er ennþá svolítið þétt.“

Fleira gott um okkar vín kemur fram í blaðinu. T.d. eru fjögur ítölsk hvítvín pöruð með skemmtilegum rétti, „Smálúðurúllur með parmaskinku, basilíku og tómatsultu“ frá Jóa í Ostabúðinni og þeim gefnar einkunnir eftir því hversu vel þau eiga með réttinum. Við eigum þrjú af þessum hvítvínum, Grecante (4 1/2 glas), Casal di Serra (4 glös) og Vernaccia di San Gimignano (4 glös).

Svo mæla þau Dominique og Eymar með okkar vínum annars staðar í blaðinu. Með Frizzando frá Sandhofer mæla þau með „Túttí frúttí“ smárétti á bls. 40, Chateau du Flaugergues með „Lambalæri á la Provencal með ratatouille-grænmeti“ á bls. 45 og með Casal di Serra og Grecante með „Fenníkulegin lúða“ á bls. 65.

Ein athugasemd

Filed under búrgúnd, caprai, castello di querceto, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, sandhofer, ummæli, vín, vincent girardin

Búrgúnd á Vínbarnum

Síðan síðasta sumar höfum við tekið inn tvo árganga af Búrgúndarvínum, 2004 og 2005. Framleiðendurnir eru nú orðnir fjórir, Lucien Le Moine, Jean Grivot, Christian Moreau og nú síðast Vincent Girardin.

2004 er að mestu upseldur en ennþá er til af 2005 enda upplagið af honum í heildina meira. Þau endast hins vegar ekki lengi. Aðallega hafa vínin farið til vínsafnara sem kunna að meta hin heillandi rauðvín Búrgúndar úr Pinot Noir þrúgunni og stórkostleg Chardonnay hvítvínin.

Það hafði alltaf staðið til að opna nokkur gler fyrir þessa viðskiptavini til að leyfa þeim að bera saman góða breidd úr röðum okkar framleiðenda, bera saman bækur, og fá góða aðila af veitingahúsum ásamt nokkrum sérfræðingum til að smakka með okkur.

Smakkið var hið skemmtilegasta og hér má sjá nokkrar myndir á flickr.com

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, grivot, myndir, vínbarinn, vínsmökkun, vincent girardin

Frakklandsferð – 20 stykki Lucien Le Moine og eitt stykki Romanée Conti

.

31.10.2007

Reis upp á þriðja degi.

Morgunmatur.

Stephan Brocard kom að sækja mig kl. 10.00. Hann er af Brocard fjölskyldunni sem framleiðir vín í Chablis en hefur ákveðið að fara eigin leiðir og stofna negociant fyrirtæki í Búrgúnd. Engin 1er Cru eða Grand Cru ennþá en mjög góð vín af lægri stigum og nokkuð góð kaup. Stephan er ungur og metnaðarfullur og af vínunum sem við smökkuðum að dæma er hann greinilega hæfileikaríkur. Breytir engu þótt hann eigi ekki vínekrurnar sjálfur því það er sterk hefð fyrir því í Búrgúnd að kaupa þrúgur af bændum sem ræktaðar hafa verið eftir tilmælum þess er kaupir (svokallaður negociant business) og stígur Stephan sterkur inn í þessa hefð. Kannski með smá forskot enda með reynslu úr fjölskyldufyrirtækinu. Enduðum á nýjum fúsjón/vínbar í Beaune og Stephan fræddi mig betur um stefnu sína í víngerð sem er mjög í takt við aðra metnaðarfulla framleiðendur sem ég hitti í þessari ferð.

Gott mál.

Síðla dags mælti ég mér mót við sjálfan Mounir, eiganda Lucien Le Moine. Víngerð hans er óvenjuleg. Hann er ekki staðsettur í einhverju þorpanna eins og flestir framleiðendur heldur í miðri Beaune. Lucien Le Moine er negociant fyrirtæki eins og fyrirtæki Brocards. Mounir kaupir tunnurnar fullar af víni af völdum framleiðendum en elur þær síðan sjálfur og setur á flöskur. Magnið er lítið, ein tunna eða tvær af hverri sort og er það í raun smæðin sem hefur gert Mounir kleyft að kaupa yfir höfuð vín af helstu vínekrum svæðisins – og það eingöngu 1er og Grand Cru.

Takk fyrir.

Í einni tunnu eru um 300 vínflöskur sem er ekki mikið fyrir eina tegund af víni. Og Mounir gerir 52 tegundir héðan og þaðan af Cote d’Or svæðinu, allar í svona litlum magni fyrir utan Bourgogne rautt og Bourgogne hvítt sem hann framleiðir aðeins meira af en þau tvö vín eru mun betri en óbreytt „bourgogne“ eru almennt því megnið sem fer í þessi vín er raun village og 1er cru.

Þá hófst hin ógleymanlega vínsmökkun.

Mounir leiddi mig í gegnum hverja tunnuna af fætur annarri, allt frá Chassagne Montrachet Les Grandes Ruchottes til Corton Charlemange og frá Pommard Les Grands Epenots til Richebourg. Allt saman 2006 árgangur. Tók ekki nema um hálftíma að snarast í gegnum 20 vín með tilheyrandi, lifandi lýsingum Mounirs sem voru ýmist „dýrslegt“, „kvenlegt“ og allt þar á milli og tilheyrandi misgáfulegum kommentum og hummi frá bloggaraanum sem aldrei hefur fengið eins ítarlega og skemmtilega yfirferð á eins mörgum, góðum vínum – fyrr eða síðar.

Og hananú.

Það sem gerði þessa vínsmökkun enn áhugaverðari er að ég vissi ekki hvar ég hafði vínin frá Lucien Le Moine fullkomnlega þótt tilfinning og fyrri smakkanir lofuðu góðu. Hann hefur verið að fá frábæra dóma í pressunni, ekki síst þeirri bandarísku en líka þeirri bresku þótt einn krítíker hafði lýst frati á hann og það enginn annar en Búrgúndarsérfræðingurinn Clive Coates (sem, merkilegt nokk, lýsir tvo aðra framleiðendur – Grivot og Moreau – sem við flytjum líka inn, sem tvo af 10 bestu í héraðinu). Clive hefr örugglega ekki kíkt á nýjstu árganga Lucien le Moine. Hér eru engir eikaðir kraftaboltar á ferðinni eða nútímaleg tískuvín heldur einstaklega fáguð og týpísk vín eins og þau sem bloggarinn sækist eftir frá hinu eina og sanna Búrgúndarhéraði. Mounir lýsti sjálfur yfir ánægju með 2006 árganginn því hann er aðgengilegur ungur en er jafnframt til geymslu sem að hans mati eru fýsilegri árgangar heldur en þeir sem vilja láta bíða, og bíða eftir sér.

Mounir á skemmtilegan feril að baki. Starfaði hjá munkum í Beaune við vínrækt áður en hann stofnaði fyrirtækið og notfærði sér síðan þau góðu sambönd til þess að vingast við og kaupa vín, til eigin framleiðslu, af framleiðendum í héraðinu. Hann aðhyllist náttúrulega víngerð, þyngdarlögmálsvíngerð, í raun gerir vínin eins og þau voru gerð fyrir 50 árum. Hann vill enga öfga á neinu sviði, uppskeran er t.d. ekki öfga-lág heldur í kringum 40hl per hektara. Eikartunnur eru sérsmíðaðar og framleiddar í eikarlundi sem hann á sjálfur.

Kvöldmatur.

Ég var svo upprifinn af þessari reynslu hjá Lucien Le Moine að ég ákvað að hálda áfram á sömu braut á einhverju af betri veitingahúsum Beaune og fyrir valinu varð Bernard-Loiseau sem er nýr staður í eigu samnefnds Michelin staðar (3 stjörnur) ekki langt frá borginni. Svona hálfgert Michelin útíbú og nokkuð ódýrara en frumgerðin. Það sem er merkilegt við þennað stað er að allur vínlistinn er til í glasi, nánar tiltekið er búið að setja allar tegundir af vínlistanum í Enomatic vélar sem spýta svo út úr sér tilheyrandi skammti eða hálfskammti.  Og þetta voru bara ansi hreint góð vín. Þarna sá bloggarinn sér leik á borði og pantaði Vosne-Romanée 1er Cru 2004 frá Romanée Conti en svo dýrt glas hafði hann aldrei verslað áður – 45 evrur fyrir glasið – aðallega til að geta sagst hafað drukkið Romanee Conte, og jú – vínið var ansi hreint gott. Frekar aumt samt að sötra drykkinn úr of litlu glasi (það er bara ein stærð af glösum á staðnum). Maturinn var til mikilliar fyrirmyndar á þessum stað en bloggarinn fékk samt næstum hjartaáfall af risastórum skammti af fois gras og svo sterkum ostum að á tímabili vissi hann ekki hver hann var eða hvað hann hét. Tomatsúpan í forrétt var ljómandi og dúfan var virkilega góð. Í lokin eitt stk. risavaxið soufflé og bloggarinn rúllaði saddur heim á hótel.

Smelltu hér til að skoða myndir úr ferðinni á flickr

Smelltu hér til að lesa fleiri blogg færslur úr ferðinni

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, ferðalög, frakkland, grivot, hótel, lucien le moine, veitingastaðir