Category Archives: ítalía

Melónur og fleira frá Sikiley

valdibella_baendurBlóðappelsínurnar sem við fluttum inn frá Sikiley í vetur slóu í gegn í Frú Laugu. Margir töluðu um bestu appelsínur sem þeir höfðu smakkað og flestir voru ánægðir að sjá loksins aftur blóðappelsínur á landinu.

Við vorum afskaplega ánægð með þau viðskipti og ekki spillti fyrir að uppruninn er þessi fallega vina-eyja okkar í suðrinu sem á það skylt við Íslandið góða að spúa eldi og ösku öðru hvoru yfir fólk og sveitir.

Blóðappelsínurnar verða hér aftur í kringum jólin.

En þessi póstur átti ekki að fjalla um þessar rauðu elskur heldur annan ávöxt og öllu stærri.

Melónur.

Eftir rúma viku kemur bretti af sikileyskum, gulum melónum í Frú Laugu sem við flytjum inn sjálf eins og appelsínurnar. Þær eru lífrænt vottaðar og koma frá samlagi nokkurra bænda í Camporeale u.þ.b. 35 kílómetra frá Palermo. Með í för verður ólífuolía frá bændunum, möndlur og þrjú vín sem fara í Vínbúðirnar 1. október. Allt lífrænt.

Nú verður spennandi að sjá hvort melónurnar standast væntingar og þá geta þær orðið fastur liður á ítalska ávaxtadagatalinu okkar.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, ólífuolía, frú lauga

Eplin frá Ekkidal

biomela_dalurVið höfum tvisvar sinnum ekið í gegnum Trentino hérað á N-Ítalíu, bæði skiptin í vínerindum. Héraðið dregur svip sinn af Ölpunum sem standa eins og varðturnar sitt hvoru megin við langan og breiðan dal með litlum útskotum og hjáreinum hér og þar. Þessi hluti Alpanna er sérstaklega fallegur og áhrifamikill með sína karaktermiklu Dólómíta í aðalhlutverki.

Það er okkur minnistætt þegar við ókum þarna í gegn hversu áberandi eplarunnarnir voru. Ekki furða því Trentino er hjarta eplaræktunar á ítalíu með alls 10.000 hektara.

Af þessum 10.000 hekturum á Bonetti fjölskyldan 10. M.ö.o. litlir bændur á eplaskalanum.

Anna Bonetti og fjölskylda ræktar eplin sín í þeim hluta sem kallast Val di Non („Ekki-dal“). Fyrir 25 árum hóf fjölskyldan samstarf við hina rómuðu San Michele landbúnaðarstofnun með það fyrir augum efla sjálfbærni akranna með nýtingu skordýra m.a. sem endaði á því að framleiðslan varð að öllu leyti lífræn og hefur svo verið í meira en 20 ár.

foradori_dalurÞað er skemmtileg tilviljun að Anna Bonetti og fjölskylda búa steinsnar frá annarri sterkri Alpakonu sem við þekkjum vel og reyndar heimsóttum. Sú heitir Elisabetta Foradori og höfum við flutt inn vínin hennar í mörg og stóð til, og stendur enn, að endurnýja sambandið við Elisabettu á þessu ári. Foradori vínin eru einmitt lífræn eins og eplin frá Bonetti svo það helst vel í hendur að tengjast þessum tveimur mögnuðu bændum og nágrönnum.

Eplin eru komin í Frú Laugu og eftir að vera búin að smakka okkur í gegnum þau erum við bjartsýn á að þeim verði eins vel tekið og hinum ljúffengu blóðappelsínum frá Sikiley. Þá munum við taka upp þráðinn næsta haust og flytja inn ný epli frá Trentino í nóvember með sikileyskum blóðappelsínum í kjölfarið í desember.

Eplin og appelsínurnar eru í „season“ út vorið en þó með þeim hætti að appelsínurnar eru týndar jafn óðum og þær eru sendar til okkar á meðan eplin eru týnd að hausti en geymd við sérstakar aðstæður sem halda þeim góðum í fleiri mánuði.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, frú lauga

Góð kaup, mjög góð kaup, frábær kaup og eitt hrikalega flott á Vínótekinu

ca_rugate_rio_albo_minniSteingrímur Sigurgeirsson hefur farið hamförum á vefsíðu sinni Vínótek frá því hún opnaði og skrifað hvern pistilinn á fætur öðrum: víndóma, girnilegar uppskriftir og ýmsan góðan fróðleik.

Bloggarinn laumaði til hans blandi í poka af nýjustu vínunum í haust og fyrstu dómarnir hafa fallið.

Þetta eru fjögur vín frá tveimur framleiðendum, ítalska Ca Rugate og franska Domaine Combe Blanche og þótt við séum ekki alveg alltaf sammála er eins og Steingrímur hafi lesið hugsanir okkar hvað karakter þessara fjögurra vína varðar.

San Michele Soave 2009 frá Ca Rugate fær 4 stjörnur af fimm mögulegum (lesa allan dóminn) og fína lýsingu eins og „virkilega gott matarvín“ og „mjög góð kaup“.

Rauðvínin tvö frá Ca Rugate fá enn betri dóma því bæði slaga í 4 og 1/2 stjörnur af fimm. Valpolicella Ripasso 2008 kallar Steingrímur „hrikalega flott“ (lesa allan dóminn) og Rio Alba Valpolicella 2009 kallar hann hreinlega „frábær kaup“ (lesa allan dóminn).

Calamiac Terroir Roussanne Viognier 2007 frá Combe Blanche fær síðan 4 stjörnur (lesa allan dóminn) með ummælum eins og „karaktermikið og heillandi“.

Allt voða jákvætt og skemmtilegt.

Fleiri dómar frá Steingrími verða birtir hér á blogginu þegar þeir koma í hús.

3 athugasemdir

Filed under ítalía, ca rugate, combe blanche, frakkland

Bragðlaukahátíð í Tórínó

beljan_mjolkBloggarinn og frú héldu til Tórínó á haustdögum til þess að heimsækja Salone del Gusto, hina miklu bragðlaukahátíð sem haldin er á vegum Slow Food samtakanna á hverju ári.

Skoðaðu myndirnar

Sýningin virkar í stuttu máli þannig að matvælaframleiðendur víðs vegar úr heiminum, aðallega Ítaliu þó, byggja sér bás á sýningarsvæðinu í 5 daga og bjóða vörur sína til kynningar og sölu. Þetta er því raunverulegur markaður þar sem sýningargestir geta gert matarinnkaupin auk þess að fræðast heilmikið.

Varan er öll það sem mætti kalla „slow food“, þeas. vönduð í víðum skilningi þess orðs.

Í fyrsta skipti var íslenskur framleiðandi með bás á sýningunni, Móðir Jörð í Vallanesi, auk þess sem hið virka samfélag Í ríki Vatnajökuls kynnti vörur undan jöklinum, brennivín og vestfirskan harðfisk á básnum við hliðina á Móðir Jörð. Básinn hjá Móðir Jörð var vel heppnaður og varan rauk út. Vonandi verður framhald hér á.

Mikil mannmergð var á sýningarsvæðinu svo þetta er ekki beint kósý markaður en gagnlegur til að skoða, fræðast og fá hugmyndir. Sérstaklega var erfitt að keyra barnakerru um svæðið en bloggarahjónin höfðu tekið yngsta krílið með í ferðina, sem fékk þó ekkert annað en móðurmjólkina og barnamat.

Stór þáttur sýningarinnar eru samkomur af ýmsu tagi og smakkaði bloggarinn sig í gegnum tvö mjög svo náttúrulega námskeið („Natural Wine“ og „Wine Additives“). Terra Madre samfélagið var auk þess með ýmsa fundi þar sem m.a. var rætt um stöðu matarmenningar á Norðurlöndum og margt fleira.

Íslenskir Slow Food-ingar áttu sinn hlut í samkomuhaldinu og héldu námskeið sem fjallaði um ýmis konar íslenskan mat og stórmathákarnir Óli og Gunnar á DILL héldu matarsýningu sem sló í gegn. Bravó!

Bloggarahjónin versluðu ekki ýkja mikið á sýningarsvæðinu enda svo margt í boði að maður vissi vart hvar ætti að byrja en versluðu aðeins meira afturámóti hjá góðum nágranna sýningarsvæðisins, EATALY, sem er risastór og dásamleg Slow Food matarbúð. Bloggarinn misskildi þetta reyndar aðeins í byrjun og hélt að nafnið væri EATALL en var stöðvaður rétt svo í tíma af frúnni. Alls voru gerðar fjórar innkaupaferðir í þennan draumaheim sem hlýtur að teljast Disneyland Slow Food smjattpatta og ýmislegt ítalskt góðgæti verslað til nánari glöggvunar — ó já, auk þriggja bretta af pasta sem koma til landsins 6. desember næstkomandi!

Gúlp!

Eitt var sérstaklega áhugavert í Eataly sem verður að benda á en það var BELJAN en sú var ekki þriggja lítra rauðvínskútur eins og Beljan okkar heldur þúsund lítra mjólkurtankur af ófitusprengdri og ógerilsneiddri mjólk (sjá mynd). Muuuuuu….!!! Síðan var bara skrifað „ath – best að sjóða fyrir notkun“ og fólki leyft að bera ábyrgð á lífi sínu sjálft.

Við gátum aðeins skoðað Tórínó og fær hún 3 stjörnur af 5 mögulegum. Miðborgin er flott, svolítið grand og Parísarleg með flottum klassískum arkítektúr víða, en þetta er mikil bílaborg því fyrir utan miðbæinn eru breiðar götur og bílar, bílar, bílar, með tilheyrandi mengun og skítugheitum. Þarna er líka eitthvað skrítið og yfirgefið Ólympíuþorp og það er eins og borgin geti ekki ákveðið sig hvort hún ætli að vera gamaldags sporvagnaborg eða nútíma neðanjarðarlestarborg. Nóg um það, vel var snætt og borgin nýtur þess að vera í hjarta víngerðarsvæðanna Barolo, Barbaresco, Barbera o.sfrv. og dramatískt Alpalandslagið er nú ekki slappur bakgrunnur fyrir stórborg.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, myndir

Tveir hljóta titilinn Winery of the Year

Tveir af okkar vínbændum eru svo heppnir að hafa verið bestaðir af bandarísku vínpressunni Wine and Spirits. Tímaritið veitir 100 framleiðendum titilinn BEST WINERY OF THE YEAR sem þeim hefur þótt skara framúr árið 2010.

Bestunina hljóta Castello di Querceto í Toskana og hinn ástralski d’Arenberg.

Þetta er flott viðurkenning sem þessir góðu vínbændur eiga vel skilið og óskum við þeim innilega til hamingju!

Vel á minnst, Beljan vill koma því að að hún er fædd og uppalin hjá Castello di Querceto (sjá nánar).

Til upprifjunar birtum við í gamni mynd sem átti að prýða utanverðan botn Beljunnar.

beljan_botn

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, d'arenberg, dómar, vín, wine and spirits

„Loksins, loksins“ — Terra Antiga Vinho Verde Bestu kaupin í Gestgjafanum

Terra_Antiga minniGestgjafinn hefur tekið til umfjöllunar nokkur af nýju vínunum okkar í síðustu tveimur tölublöðum og ekki annað að segja að útkoman sé góð.

Áströlsku stubbavínin The Stump Jump GSM og The Stump Jump Chardonnay fá bæði 4 glös og sömu sögu er að segja af Aglianico del Vulture frá Bisceglia. Hvítvínið Falanghina frá sama framleiðanda fær 3 1/2 glas.

Bestu dómana í þessum glaða hópi fær þó líklegast Vinho Verde Terra Antiga, 4 glös og nafnbótina „Bestu kaupin“.

Svona lítur þetta út:

Vinho Verde Terra Antiga 20084 glös BESTU KAUPIN
Loksins, loksins fáum við til okkar á smakkborðið Vinho Verde og það líka almennilegt eintak. Vinho Verde er merkilegt fyrirbæri sem væri hægt að gera góða grein um en í stuttu máli þá er þetta vín sem kemur frá norvesturhluta Portúgals og eru hvítvínin gerð úr þrúgunni albarino, eða alvarinho eins og hún kallast á portúgölsku. Vínið er brakandi ferskt og eru svo mikið sumar í því að liggur við að sólin fari að skína þegar maður opnar flöskuna. Ilmurinn er opinn og eins og áður sagði afar ferskur og er þar að finna græn epli peru, sítrus, vínber, greip og melónu. Einstaklega aðlaðandi ilmur svo ekki meira sé sagt. Í munni er það léttfreyðandi og ofboðslega ferskt. Létt fylling og sömu þættir og í nefi, jafnvægi er gott þó svo að ferskleikinn sé allsráðandi og einfaldleikinn er í fyrirrúmi. Drekkið með sjávarréttasalati eða með íslenskum kræklingi.
Verð: 1.789 kr.
Okkar álit: Brakandi ferskt, einfalt og algjör gullmoli. Synd að sumarið sé að enda því hér er á ferðinni 100% sumarvín. 

D’Arenberg Stump Jump Chardonay 20084 glös
Vínin frá d’Arenberg hafa alltaf vakið hrifningu hjá okkur sökum góðra vína og frumlegheita í víngerð og hugunarhætti og er þetta vín engin undantekning þar. Það ber nafnið á gamalli uppfinningu sem var notuð til að ryðja landið í kringum McLaren-dalinn og gat vélin „stokkið“ yfir trjástubbana á eucalyptus-trjánum sem krökkt var af á svæðinu. Vínið er létteikað og með því er átt við að um fjórðungur af safanum er geymdur í notuðum eikartunnum í einhvern tíma. Opinn, óvenju ferskur og nett-ristaður ilmur af vanillu og kryddi en eftir stutta öndun ryðst suðrænn og ljúffengur ávöxtur fram og tekur völdin. Í munni er það skemmtilega frísklegt, miðað við Chardonnay frá Nýja heiminum, með þéttan ávöxt og góða fyllingu. Jafnvægið er til fyrirmyndar og endingin sömuleiðis. Pottþétt í alla staði enda frábær framleiðandi á ferð. Drekkið með grilluðum fiski ásamt blaðlauks- og sítrónurjómasósu.
Verð: 2.120 kr.
Okkar álit: Hér blandast saman örlæti ástralskra vína við fágun Chardonnay og er útkoman stórskemmtilegt vín, laust við dæmigerðar ástralskar ýkjur.

Bisceglia Falanghina 2008 3 1/2 glas
Hér er á ferðinni enn ein ítalska þrúgan sem fáir, ef einhverjir, hafa heyrt um – falanghina. Það er kannski ekki furða að hún sé lítið þekkt hér á landi þar sem hana er aðallega að finna á vínekrum Suður-Ítalíu og hafa vínumboðin ekki verið að sækja vín þangað í miklum mæli. En það virðist vera að breytast. Vínið er opið og tekur þétt ávaxtaveisla á móti manni í fyrstu með melónu, ferskju, apríkósu, banana og mangó. Unaðslegur kokteill og hægt er að staldra lengi við með nefið í glasinu. Í munni er vínið milt og ferskt með góða fyllingu og með allt annan karakter en í nefi. Ávpxturinn er miklu minni og er ákveðinn biturleiki sem fylgir víninu alla leið. Krefst matar og þá helst grillaðs fiskspjóts.
Verð: 2.120 kr.
Okkar álit: Ljúft í nefi og athyglisvert í munni. Afar vel gert en með klofinn „persónuleika“ og er vínið sér á báti.

Bisceglia Aglianico del Vulture 20064 glös
Aglianico er lítt þekkt þrúga hérlendis og er svo víðar. Þessi þrúga hefur það sem þarf til að framleiða gæðavín og koma bestu dæmin frá ekrum sem liggja í kringum fjallið Vulture, þ.e.a.s. DOC Aglianico del Vulture. Vínið er pínu feimið í byrjun en mildur piparilmur er það fyrsta sem tekur á móti manni. Fljótlega koma blómlegir tónar í ljós ásamt mildum ávexti. Við þyrlun sprettur upp margslunginn blómailmur og ávöxturinn fer að njóta sín betur með kirsuber í aðalhlutverki. Skemmtilega öðruvísi ilmur. Vínið er ávataríkt í munni með kryddaða áferð, fínleg tannín og góðan ferskleika. Pipar, kirsuber, blóm, kryddjurtir og eiginlega allt sem var að finna í nefi. Flott fylling. Langt eftirbragð sem hangir á þessum milda og kryddaða karakter. Matarvín sem væri skemmtilegt með réttum í anda osso bucco.
Verð: 2.189 kr.
Okkar álit: Sérstaklega vandað vín sem dregur fram það besta hjá þrúgunni, margslungið og matarvænt.

d’Arenberg Stump Jump GSM 20074 glös
The Stump Jump GSM (Rhone-blandan) er okkur ekki ókunnugt og höfum við smakkað nokkra árganga í gegnum tíðina. Hér erum við með nýjan árgang og er blandan 50% grenache, 29% shiraz og 21% mourvedre og kemur ávöxturinn frá McLaren-dalnum í Suður-Ástralíu. Vínið er opið og gjafmilt með þéttan en ferskan ávöxt, blóm, eucalyptus og piparinn er á sínum stað en þó fínlegri en vill oft gerast í svipuðum vínum. Við öndum verður ávöxturinn þykkari og bakaðri. Einfaldur en aðlaðandi ilmur. Mild og ávaxtarík áferð með nægan ferskleika til að viðhalda jafnvægi. Flott fylling og virkilega djúsí ávöxtur í bland við blómlega tóna og nettan pipar sem heldur sig í bakgrunninum. Nokkuð langt eftirbragð sem hangir á ávextinum. Drekkið með léttri villibráð og þá helst fuglakjöti.
Verð: 2.189 kr.
Okkar álit: Skemmtilegt vín í alla staði. Vel gert með flotta byggingu og skemmtilegan karakter.“

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, bisceglia, d'arenberg, dómar, terra antiga

Vínótek — nýr vínvefur fjallar um Lambrusco frá Lini

Steingrímur Sigurgeirsson — blaðamaður, Harvard maður, stjórnamálaspekúlant, matgormur og vínkall með meiru, hefur opnað nýjan vef sem fjallar um vín og meðlæti.

Þetta er fagnaðarefni því fáir eru jafn vel að sér í þessum fræðum enda hefur Steingrímur drukkið, borðað og skrifað fyrir Morgunblaðið í 20 ár.

Nýja vefsíðan ber nafnið Vínótek og er jafnframt hægt að gerast vinur á facebook eða skrifast á póstlista til að fá nýjustu fréttir, uppskriftir og víndóma.

Vefsíðan var ekki búin að vera lengi í sambandi þegar einn af okkar dátum datt inn á radarinn, Lambrusco frá Lini.

Steingrímur gefur því 4 stjörnur af 5 og kallar það m.a. „allt að því unaðslegt“.

Lestu umfjöllun um Lambrusco frá Lini á Vínótekinu

Það verður spennandi að fylgjast með þessari nýju og skemmtilegu síðu í framtíðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, lini, vínótek