Category Archives: lífrænt

Hugs!

guignier_biovitisBloggarinn er hér enn þrátt fyrir mánaðar bloggbindi.

Hann hefur meira verið að hugsa en skrifa.

Hann er til dæmis ekki ennþá búinn að tilkynna hérna á blogginu þrjú ný vín frá Hubert Sandhofer.

Rauðvínið St. Laurent Eisner, ilmsprengjuna Gelber Muskateller og hugsleiðsluvínið með langa nafnið Trockenbeerenauslese.

Þau fást öll í Vínbúðunum Heiðrúnu, Skútuvogi og Kringlunni.

Verið er að uppfæra upplýsingar um þessi vín á http://www.vinogmatur.is en þangað til má lesa um þau hjá Vínbúðunum.

Bloggarinn er líka að hugsa um framtíðina og eins og alltaf eitthvað að vesenast með óþekkt og illa seljanleg vín.

Það er einhver Frakklandshugur í honum þessa dagana og nú frá svæði sem er landsþekkt en hefur ekki verið sinnt nægjanlega vel í langan tíma. Þegar ÁTVR óskaði síðan eftir lífrænum vínum slógum við tvær flugur í einu höggi því bæði vantaði vini okkar í ÁTVR lífræn vín og BEAUJOLAIS svo við fundum tvö rauðvín frá Beaujolais og annað þeirra lífrænt. Höfundur þeirra beggja er þó hinn sami, Michel Guignier hjá Domaine Les Amethystes – einn þessari nýju frumkvöðla á svæðinu sem upphefja sem náttúrulegastar framleiðsluaðferðir.

Þetta eru svokölluð Villages þorpsvín, annað frá þorpinu Brouilly og hitt frá Morgon. Ekki það sem kallast Beaujolais Nuoveau.

Annað títt er að ÚTSALAN góða verður endurtekin í byrjun nóvember og þar mun kenna ýmissa grasa. Meira um það síðar.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, útsala, frakkland, lífrænt, Michel Guignier, sandhofer, vínbúðirnar

Lífræn vín í Gestgjafanum: Montpeyroux er Vín mánaðarins

.

Dominique og Eymar taka fyrir lífræn vín í splúnkunýju hefti Gestgjafans sem datt inn um lúguna í dag.

Þau fjalla m.a. um Mas du Gourgonnier 2003, lífræna vínið frá Provence héraði og Domaine d’Aupilhac Montpeyroux 2003, lífræna vínið hans Sylvain Fadat í næsta héraði við Provence, þ.e.a.s. Languedoc.

Fyrrnefnda fær fjögur glös og mjög skemmtilega umfjöllun eins og: „Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði“.

Hið síðarnefnda fær heil fjögur og hálft glas og heiðurstitilinn eftirsótta VÍN MÁNAÐARINS.

Við erum bara í skýjunum með þessa góðu umfjöllun.

MAS DU GOURGONNIER 20034 glös
Þau eru fá vínin frá Provence (Þetta er frá fallega þorpinu Baux de Provence) og merkilegt er að það eina sem lengi hefur verið til er úr lífrænni ræktun – það ber að hrósa þeim sem færa okkur þannig gullmola. Notaðar eru flestallar þrúgurnar sem má nota í þessu AOC, grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvèdre og árangurinn er margslungið vín, þétt, sem opnast smám saman. Það hefur fágaða og ljúfa angan af blómum, þroskuðum ávöxtum (alls kyns ber, rauð og svört), kryddi og ristuðum tónum. Þetta er flugeldasýning sem heldur áfram í bragði, í hófi þó og á fínum nótum. Gott að drekka núna en verður enn betra daginn eftir, sem þýðir að enn má geyma það nokkuð lengi. Það er kjörið með kjötréttum í anda Miðjarðarhafslanda, með tómötum, eggaldini, kúrbít, ólífum, kryddjurtum og góðu kryddi.
Verð: 1690 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Fyrir ári var þetta vín lokað og gaf lítið frá sér nema hörku – en nú er það orðið mun opnara, mjúkt og afar skemmtilegt (okkur fannst það reyndar frá upphafi). Lífrænt sparivín.

DOMAINE D’AUPILHAC MONTPEYROUX 20034 1/2 glas
Domaine D’Aupilhac er lítill framleiðandi í Languedoc, stutt frá Montpellier. Hann stundar lífræna ræktun af hugsjón en hefur ekki lagt í að fá vottun (eins og margir aðrir, því það er jú kostnaðarsamt) og má segja að ræktun hans einkennist af virðingu fyrir landinu. Þetta vín er opið og margslungið með ferskum ávöxtum, pipar, tímíani, lakkrís og örlitlum ristuðum tópn. Í bragði er það svipað með yndislegum ávexti, kryddi, ögn af eik og góðum tannínum. Frábær bygging og góð fylling einkennir þetta vín sem er í einstaklega góðu jafnvægi. Prófið það með villibráð, önd og eiginlega öllu gæðakjöti. Frá sama framleiðanda. Lou Maset.
Verð: 2.200 kr. – Mjög góð kaup
Okkar álit: Flott vín sem hefur allt: flotta byggingu, gott jafnvægi, skemmtilegan ávöxt og er tilbúið núna. Matarvín.“ (Gestgjafinn 13. tbl. 2006, Dominique og Eymar)

Við tókum upp flösku af Mas du Gourgonnier 2003 á jóladag, ilmurinn er æsandi og var ég afar ánægður eins og þau mæðgin Dominique og Eymar hvernig vínið hefur þróast. Eiginlega get ég ekki beðið eftir að opna það aftur. Montpeyroux smakkaði ég síðast fyrir viku síðan, það er nokkuð þurrt og öskrar á gott kjöt t.d. blóðuga steik, hreindýr og aðra villibráð. 

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, dómar, Gestgjafinn, lífrænt, mas de gourgonnier, vín mánaðarins

Bíódýnamískir framleiðendur: Foradori og Domaine d’Aupilhac

Ég bloggaði stuttlega fyrr á þessu ári um bíódýnamísk vín.

Mér var hugsað til þeirra aftur eftir að lesa góða grein í Wine Spectator „Why I Buy Bio“ eftir Matt Kramer. Kramer segir frá því í greininni að í staðinn fyrir að vísa á ákveðna heildsala eða vínbúðir þegar fólk biður hann um góð ráð um vínkaup þá segir hann því einfaldlega að kaupa bíódýnamísk vín.

Bíódýnamísk víngerð byggir á kenningum Rudolphs nokkurs Steiners (1861-1925). Hún er ekki sama og lífræn víngerð en byggir á sömu virðingu fyrir náttúrunni. Á meðan sú lífræna gengur út á náttúrulegar ræktunaraðgerðir gengur sú bíódýnamíska t.d. út á það hvenær ársins eða dagsins á að framkvæma slíkar aðgerðir (t.d. út frá stöðu tunglsins). Bíódýnamísk víngerð tekur mið af jafnvægi náttúrunnar allt frá lífríki til himintungla og er sveipuð ákveðinni dulúð. Hún er sömuleiðis nátengd sjálfsþurftarbúskap.

Hvernig þessi hugsjón skilar sér síðan í glasinu er erfitt að útskýra. Kramer dregur skemmtilega líkingu við jazz píanistann Bill Evans sem lét fingur víbra á ákveðnum nótum jafnvel þótt allir vita sem þekkja að á píanói er ekki hægt að framkvæma vibrató (amk. ekki með þessari aðferð). Við þessu átti Bill Evans svar: „…but trying for it affects what comes before it in the phrase.“. Það getur verið ómögulegt að mæla áhrif bíódýnamískrar víngerðar á vínið sjálft en viðleitnin hefur áhrif á heildarútkomuna.

Eða eins og Matt Kramer orðar það: „You could do a lot worse choosing such wines.“

Við höfum tvo framleiðendur sem, að því er best verður komist, eru bíódýnamískir: Foradori á Ítalíu og Domaine d’Aupilhac í S-Frakklandi. Þótt að í þeirra tilfellum sé bíódýnamíkin vitnisburður um metnað þeirra og virðingu fyrir náttúrunni þá má ekki taka það svo að bíódýnamík sé sjálfgefinn gæðastimpill, það eru alltaf svartir sauðir. Sömuleiðis má ekki taka það sem svo að þeir framleiðendur sem ekki gefa sig út fyrir að vera bíódýnamískir séu þar af leiðandi síðri. Margir framleiðendur ganga ekki alla leið og sumir nálgast náttúruna af álíka virðingu þótt ekki stundi þeir kenningar Steiners. T.d. er Fontodi í Chianti Classico afskaplega náttúruvænn (stundar bæði lífrænan búskap og sjálfsþurftarbúskap ásamt þyngdarlögmálsvíngerð). Kíktu á þetta blogg til að lesa viðtal þar sem viðhorf hans til bíódýnamískrar víngerðar kemur fram.

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, bíódínamík, fontodi, foradori, jazz, lífrænt, wine spectator

Bíódýnamísk víngerð

Þótt bíódýnamísk víngerð sé það nýjasta og heitasta í náttúrulegasta geiranum þá á hugtakið sér í raun mun lengri sögu, lengri en t.d. hugtakið „lífrænt“. Hægt er að fá útskýringar á fyrirbærinu á vefsíðum Wineanorak, Wikipedia og Biodynamics eða í þessari grein úr N.Y. Times.

Færðu inn athugasemd

Filed under bíódínamík, fræðsla, lífrænt, víngerð

100% lífræn vín

Það er ekkert sérstakt keppikefli hjá mér að flytja inn vín sem eru lífræn. Góðir framleiðendur eru líka alltaf mjög meðvitaðir um heilsu plantanna og gæði jarðvegarins og nota því aldrei slæm efni nema af ítrustu varkárni og neyð. Vínin þeirra eru þó ekki 100% lífræn skv. ströngustu reglum. Engu að síður geta þau verið 100% lífræn, a.m.k. sum, í þeim árgöngum sem veðurfar er hagstætt og ávöxturinn heilbrigður af náttúrulegum ástæðum. Sem sagt, gæðaframleiðendur eru líklegir til að vera allt að því- eða fullkomnlega lífrænir jafnvel þótt það komi hvergi fram á flösku með opinberum stimpli.

„Lífrænt“ er að mörgu leyti ákveðinn gæðastimpill. Yfirleitt eru lífrænir framleiðendur ekki bara ástríðufullir áhugamenn um heilbrigði lífríkisins alls heldur er þeim annt um að meðhöndla afurðina sem minnst. T.d. er líklegt að lífrænn vínframleiðandi noti minna súlfat og bæti minni sykri (ef það er leyfilegt á annað borð) o.s.fr.v. en framleiðendur geta víða notað hvort tveggja og samt kallast lífrænir. Hugtakið er því hægt misnota, t.d. lífræn vara sem framleidd er einungis til að uppfylla það skilyrði án þess að vera annt um gæði hennar að öðru leyti.

Vín & matur flytur inn nokkur 100% lífræn vín, ekki út af því að þau eru lífræn heldur út af því að þau eru góð.

Fontodi Chianti Classico
Mas de Gourgonnier Les Baux de Provence
Casa de la Ermita Organic Crianza

Færðu inn athugasemd

Filed under fontodi, lífrænt, mas de gourgonnier