Category Archives: lucien le moine

Lucien Le Moine vínin á bestu veitingastöðum heims skv. Restaurant Magazine

Mounir, eigandi Lucien Le Moine sendi okkur póst í dag til að segja okkur með nokkru stolti að vínin þeirra hjóna hafa ratað á vínseðla bestu veitingastaða í heimi skv. tímaritinu Restaurant Magazine.

Restaurant Magazine var að gefa þennan árlega lista út og er jafnan beðið eftir honum með eftirvæntingu.

Af bestu 12 veitingastöðum í heimi eru 9 sem hafa vín frá Lucien Le Moine á vínseðlinum ( x=“Le“ Moine á listanum).

Meðmælin með vínunum geta því ekki verið mikið betri.

1 El Bulli, Spain (x)
2 The Fat Duck, U.K. (x)
3 Noma, Denmark
4 Mugaritz, Spain
5 El Celler de Can Roca, Spain (x)
6 Per Se, U.S. (x)
7 Bras, France (x)
8 Arzak, Spain (x)
9 Pierre Gagnaire, France (x)
10 Alinea, U.S.
11 L’Astrance, France (x)
12 The French Laundry U.S. (x)

Hér má sjá listann yfir 50 bestu veitingastaði í heimi að mati tímaritsins

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, lucien le moine, vínseðill, veitingastaðir

Kvikmynd frá heimsókn til vínframleiðenda í Frakklandi

Þegar við fórum til Frakklands síðasta haust tókum við stutta kvikmynd af heimsóknum okkar til vínframleiðenda allt frá suðri (Languedoc, Rhone og Provence) norður til Búrgúndarhéraðs.

Uppskeran var í fullum gangi, veður var gott og við náðum nokkrum ágætum augnablikum úr lífi franskra víngerðarmanna.

C’est la vie.

Ykkar undirritaður fer með aðalhlutverk í myndinni auk þess að leikstýra og klippa en naut góðrar aðstoðar Rakelar. Nú þarf bara að semja tónlistina.

Við blogguðum ekkert um þetta ferðalag á sínum tíma, kvikmyndin kemur í staðinn fyrir það, en við tókum fullt af ljósmyndum.

Sannsöguleg mynd. Fæst á öllum betri myndbandaleigum.

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, ferðalög, flaugergues, frakkland, grivot, kvikmyndir, lucien le moine, mas de gourgonnier, mourgues du gres, sjónvarp, vincent girardin

Búrgúnd 2006 — rauðvín og hvítvín, verð og væntingar

.

Talsvert af Búrgúndarvínum koma til landsins í byrjun október.

Hér má sjá verðlistann í heild sinni

Framleiðendurnir eru fjórir sem fyrr; Lucien Le Moine, Jean Grivot, Vincent Girardin og Christian Moreau.

Vínin sem við höfum áður fengið frá Búrgúnd hafa flest pantast upp á skömmum tíma, jafnvel áður en þau hafa komið til landsins og því ástæða til þess að hvetja áhugasama um að senda okkur strax fyrirspurn.

2006 árgangur er þrælgóður. Ég smakkaði talsvert af honum þegar ég heimsótti svæðið síðasta haust (lestu um ferðina og skoðaðu myndir) og var yfir mig hrifinn af þeim rauðu sem voru svo opin og aðgengileg en um leið fáguð og flott. 2005 er almennt talið betra en þau vín munu frekar vilja láta bíða eftir sér til að sýna sínar bestu hliðar á meðan að 2006 vínin eru heillandi nú þegar en geta jafnframt geymst. Hvítvín af 2006 árgangi eru almennt talin gefa 2005 lítið eða ekkert eftir, stundum jafnvel betri.

Við Rakel sækjum Búrgúnd heim á næstu vikum til þess að smakka 2007 árganginn hjá framleiðendunum okkar og kíkjum jafnvel eitthvað sunnar á bóginn. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig 2007 kemur til með að verða.

Búrgúnd segja sumir að sé endastöðin, lengra verði ekki komist í upplifun á góðum vínum. Við látum það ósagt, það er svo margt gott, en vissulega bjóða vínin frá Búrgúnd upp á upplifun sem á sér enga líka.

Til að taka frá vín má senda okkur tölvupóst á vinogmatur@vinogmatur.is

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, frakkland, grivot, lucien le moine, vincent girardin

Lucien Le Moine er Vínframleiðandi ársins 2008

Bandaríska víntímaritið Wine and Spirits hefur valið Lucien Le Moine sem „2008 Winery of the Year“.

Þetta er í annað sinn sem framleiðandinn hlýtur þessa viðurkenningu.

Tilkynningin mun þó ekki birtast lesendum tímaritsins fyrr en í tölublaðinu sem kemur út um miðjan október og samhliða því verður formleg afhending á viðurkenningunni afhent 14. október í San Fransisco. Þar mun Lucien Le Moine vera fremstur í fylkingu 100 framleiðenda sem tímaritið hefur valið þá bestu þetta árið.

Bestur af þeim bestu.

Nýr sending af Lucien Le Moine vínum kemur um svipað leyti til Íslands ásamt öðrum vínum frá Búrgúndarhéraði.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, frakkland, lucien le moine, verðlaun/viðurkenningar

Lucien Le Moine og aðrir Búrgúndarar fá lofsamlega umsögn í Wine Spectator

.

Það má segja að Lucien Le Moine ríði feitum hesti frá einkunna-afhendingu Wine Spectator fyrir vín frá Búrgúndarhéraði af 2005 árgangi. 16 rauðvína framleiðandans af 2005 árgangi eru til umfjöllunar í blaðinu og fær ekkert þeirra undir 93 stigum. Hann endurtekur því leikinn frá því þegar 2004 árgangurinn frá Búrgúnd var til umfjöllunar þegar vín Lucien Le Moine voru líka fremst á meðal jafningja að mati blaðsins (lestu meira).

Annars staðar í blaðinu er svo fjallað um næsta árgang 2006, sem við flytjum hingað til Íslands í september, þar sem nokkrir framleiðendur eru valdir til sérstakrar umfjöllunar og teknir við þá viðtal og er Mounir Saouma, eigandi Lucien Le Moine, í þeirra hópi.

Það sem gerir Lucien Le Moine svo ennþá heitari er eins og lesa má úr upplýsingum Wine Spectator að hann framleiðir yfirleitt ekki meira en 50 kassa af hverri sort (600 flöskur) á meðan að sumir framleiðendur í Búrgúnd eru að senda fleiri þúsund flöskur af sambærilegum vínum bara á Bandaríkjamarkað.

Ég spái því að vínin frá Lucien Le Moine eigi eftir að auka hressilega við verðgildi sitt í framtíðinni sökum frábærra dóma, ekki síst í amerísku pressunni, og vegna þess hversu lítið er til af þeim.

Í sama tímariti fá vínin fá Jean Grivot sömuleiðis hörkudóma en ekki er langt síðan að það var bloggað um það hér þegar að blaðamaður Decanter valdi framleiðandann í efsta elítuhóp framleiðenda í Búrgúndarhéraði (lestu meira). Í Wine Spectator er hluti rauðvína Jean Grivot af 2005 árgangi til umfjöllunar og hljóta einkunnir á bilinu 89 til 94 stig.

Ekki verra að glæsileg mynd af Clos Vougeot vínekru Jean Grivot prýðir forsíðu tímaritsins.

Nokkur vín frá Vincent Girardin eru sömuleiðis til umfjöllunar í Wine Spectator og fá á bilinu 86 til 94 stig en þess verður að geta að lína framleiðandans er mjög breið og spannar allt frá ódýrustu vínflokkum svæðsins til þeirra bestu og í þetta skiptið vantaði flest betri vín framleiðandans í umfjöllun blaðsins.

Þegar öllu er á botninn hvolf — Glæsileg útkoma vína frá okkar framleiðendum í Búrgúndarhéraði í þessu nýjasta hefti bandaríska víntímaritsins Wine Spectator.

Svo verð ég að koma að þessari hlýju umfjöllun um okkur og vínin okkar frá Búrgúnd í Gestgjafanum. 

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, vincent girardin, wine spectator

Hlý orð í Gestgjafanum

Gestgjafinn birtir góð orð í okkar garð í nýjasta blaðinu (3. tbl. 2008).

Fyrst ber þar að nefna umfjöllun um Búrgúndarvínsmökkun sem við héldum á Vínbarnum og kynntum nokkur vín frá framleiðendum okkar þaðan.

Smelltu hér til að sjá myndir úr smakkinu
Smelltu hér til að lesa um heimsókn til Búrgúndarhéraðs síðasta haust

Takk fyrir hlýju orðin og hvatninguna.

„Frábær Búrgundí-vín hjá Arnari í Vín og mat

Arnar Bjarnason hjá Víni og mat er einn af hugsjónamönnum í vínheiminum á Íslandi. Hann flytur inn vín sem honum þykja góð og reynir að lifa af því. Hann hefur kynnt fyrir okkur mörg frábær vín frá Ítalíu, fór svo til Languedoc og fann þar afburða skemmtilega víngerðarmenn og nú er hann kominn til Búrgundí. Hann var með afraksturinn af leit sinni á Vínbarnum þar sem hann kynnti þessi vín. Vínin voru frá fjórum litlum en afar virtum framleiðendum, Lucien Le Moine, Jean Grivot og Vincent Girardin svo og frá Christian Moreau í Chablis (hann gerir eingöngu Premier Cru og Grand Cru-vín). Það er ekki á hverjum degi sem mönnum gefst færi á að smakka Premier og Grand Cru hér á landi, meðal annars Corton Charlemagne, Corton Bressandes, Charmes Chambertin, Chambolle Musigny og Clos des Vougeot. Arnar hefur fengið svolítinn kvóta af þeim vínum og ber að hrósa honum fyrir metnaðinum því þar sem menn stoppa og jafnvel snúa við og telja að markaðurinn sé ekki fyrir hendi heldur hann ótrauður áfram og færir okkur bestu vínin sem völ er á – og heldur okkur við efnið.“

Góð lýsing á Montefalco Rosso frá Arnaldo Caprai birtist siðan undir liðnum „Nýtt í reynslu“. Þau Dominique og Eymar gefa því 4 glös af 5.

Ég tek sérstaklega undir orð þeirra „mjög ítalskt“. Sum vín eru bara einhvern veginn þannig.

Montefalco Rosso 20054 glös
Þetta vín kemur úr smiðju Arnaldo Caprai sem er tvímælalaust sá framleiðandi í Umbria sem er að vekja hvað mesta athygli á heimsvísu. Vínið er blanda af sangiovese og sagrantino (þrúgan sem hann ræktaði úr gleymsku) þar sem sú fyrri er í miklum meirihluta. Það er opið í nefi með góðan ferskleika og er að finna kirsuber sangiovese-þrúgunnar ásamt kryddjurtum og kryddi. Áferðin er mjúk og þurr, tannín er vel þroskað og finna má margslungna tóna af kryddi, kirsuberjum, tóbaki og mold. Langt eftirbragð sem helst í kirsuberjunum og léttum eikartónum. Stórfínt vín með góða byggingu og í flottu jafnvægi. Drekkið með bragðmiklum og flóknum pastaréttum eða ekta ítölskum kjötréttum.
Verð 2.190 kr.
Okkar álit: Vín í háum gæðaflokki. Vel gert og mjög ítalskt en þarfnast umhellingar þar sem tannínið er ennþá svolítið þétt.“

Fleira gott um okkar vín kemur fram í blaðinu. T.d. eru fjögur ítölsk hvítvín pöruð með skemmtilegum rétti, „Smálúðurúllur með parmaskinku, basilíku og tómatsultu“ frá Jóa í Ostabúðinni og þeim gefnar einkunnir eftir því hversu vel þau eiga með réttinum. Við eigum þrjú af þessum hvítvínum, Grecante (4 1/2 glas), Casal di Serra (4 glös) og Vernaccia di San Gimignano (4 glös).

Svo mæla þau Dominique og Eymar með okkar vínum annars staðar í blaðinu. Með Frizzando frá Sandhofer mæla þau með „Túttí frúttí“ smárétti á bls. 40, Chateau du Flaugergues með „Lambalæri á la Provencal með ratatouille-grænmeti“ á bls. 45 og með Casal di Serra og Grecante með „Fenníkulegin lúða“ á bls. 65.

Ein athugasemd

Filed under búrgúnd, caprai, castello di querceto, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, sandhofer, ummæli, vín, vincent girardin

Frakklandsferð — Mugison rokkar í Meursault

1.11.2007

Það var frídagur.

Öll franska þjóðin í fríi og þar af leiðandi ég líka.

Kærkomið tækifæri til þess að kanna betur þorp og vínekrur á rólegu tempói.

Það var því ekið af stað, suður af Beaune í þetta skiptið, þar sem hvert vínþorpið tók við af öðru með stuttu millibili við undirleik Mugison. Flottur diskur hjá kallinum sem afmeyjaði svolítið virðuleika þessara heimsþekktu vínþorpa.

Smeltu hér til að skoða gervihnattarmynd af þorpunum

Fyrsta þorpið var Pommard. Ég lét mér nægja að aka þar í gegn en stoppaði í því næsta og rölti um þröngar götur smábæjarins Volnay sem þekktur er fyrir sín fínlegu og kvenlegu rauðvín. Það var fallegt veður, logn, sól og ekkert of svalt. Kirkjuklukkur hljómuðu, kona gekk hjá með baguette og ég settist á bekk þar sem ég gat horft yfir sléttuna fyrir neðan bæinn. Skv. skilti sem stóð þar hjá yfir víngerðarmenn bæjarins viðast þeir flestir heita Rossignol (skoðaðu stækkaða mynd af þessu skilti í Volnay).

Ég beið eftir tækifæri til þess að segja „Góðan daginn herra Rossignol“ við næsta mann sem ég myndi hitta en það var ekki nokkur hræða. Bærinn var að slappa af.

Eftir það renndi ég í gegnum Monthélie og þaðan til Meursault.

Þegar hér var komið við sögu var Mugison kominn í þungarokksgírinn og ég bað hann um taka sér pásu.

Ég lagði bílnum og gekk upp og niður þröngar götur Meursault þar til ég rataði á stíg sem leiddi mig út á vínekrurnar. Þar tók við meira labb, myndatökur, þukl á steinum og vínvið en ég lét vera að bragða á jarðveginum – læt nægja að smakka hann óbeint í gegnum vínið sem þaðan kemur.

Svangur ók ég af stað til þorpanna Puligny Montrachet og Chassagne Montrachet þar sem meiningin var að snæða á veitingastaðinum Le Chassagne. Glætan. Ekki séns að fá þar borð svo nú voru góð ráð dýr enda hafði ég ekki tekið eftir mörgum veitingastöðum á leið minni um þorpin. Ég ákvað því að aka ekki lengra heldur rölta aðeins um vínekrurnar í Montrachet þaðan sem dýrustu hvítvín í heimi koma frá og skella mér síðan aftur til Beaune og finna mér bita þar.

Í kringum hótelið í Beaune var ekki að finna sjoppu sem var opin til að selja mér svo mikið sem baguette og salami þannig að ég endaði sársvangur inni á hóteli og þáði það eina æta sem þau gátu boðið mér sem var kaldur bjór.Takk, hann var góður.

Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég hélt á veitingastaðinn Le Gourmandin í miðbæ Beaune. Ég fór um leið og hann opnaði 19.00, fyrstur á staðinn. Svangari ferðalang höfðu þeir aldrei séð. Hér var ráðist í fjölbreyttan matseðil en sem fyrr lét ég vera að panta vín af stórglæsilegum vínseðli því það er takmarkað hvað einn maður getur drukkið. Ég tók mér því tvö glös af hvítu og tvö af rauðu af sæmilegu úrvali glasavína. Le Gourmandin valdi ég eftir meðmæli Lucien Le Moine sem á mörg vín á vínlistanum þar en fleiri höfðu mælt með honum og ég bætist hér með í þann hóp. Stemningin er svona „bistro“ og andrúmsloftið þægilega afslappað eftir því, maturinn til fyrirmyndar og úrval vína í fyrirrúmi. Ég táraðist næstum við að sjá flösku af Luciano Sandrone í einni hillunni.

Daginn eftir skyldi haldið til Champagne.

Smelltu hér til að skoða myndir frá ferðinni

Smelltu hér til að lesa aðrar bloggfærslur úr ferðinni

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, ferðalög, frakkland, lucien le moine, veitingastaðir