Category Archives: matur

Hollar og mikilvægar ólífur í Frú Laugu

Ólífur eru mikilvægar.

Að horfa á þennan litla, bitra ávöxt er eins og hafa sögu mannkyns í hendi sér.

Egyptar, Grikkir, Rómverjar; Hómer, Biblían, Kóraninn; Aþena, Múhammeð, Tutankhamen; viður, lauf, ávöxtur, olía – fáar plöntur eiga eins langa og jákvæða sögu sem lækningarmáttur, næring eða boðberi dýrðar, visku og friðar.

Ólífur eru líka hollar.

Þær eru sjaldnast borðaðar beint af trénu heldur verkaðar í saltlausn eða olíum sem kemur af stað náttúrulegri gerjun sem breytir eiginleikum ólífunnar svo hún verður betri og hollari. Hollar ólífur eru m.a. taldar styrkja ónæmiskerfi, vernda DNA, minnka líkur á hjartasjúkdómum og svo mætti lengi telja.

Til þess að hámarka ferskleika, bragð og ekki síst hollustu er hins vegar mikilvægt að ólífurnar séu einmitt framleiddar á þennan náttúrulega hátt en ferlinu ekki flýtt eins og gjarnan er gert með vítissóda í iðnaðarframleiddum ólífum og ýmsum óþarfa aukefnum bætt þar samanvið.

Ólífurnar í Frú Laugu eru „markaðsferskar“ sem þýðir að þegar við höfum sett þær í dollur endast þær eingöngu í 2 vikur svo það þarf að nálgast þær og meðhöndla eins og hvert annað grænmeti.

En þær eru góðar og þær eru hollar.

Það skiptir öllu máli.

Fimm tegundir eru fáanlegar í Frú Laugu:

Dökkar Kalamata frá Grikklandi og dökkar Gaeta frá samnefnu svæði á S-Ítalíu, grænar Nocellara del Belice frá Sikiley, miðjarðarhafsblanda af nokkrum grænum og dökkum tegundum með smávegis rósmarín og loks stórar grænar með fyllingu (hvítlauk, papriku og sítrónu). Þær eru verkaðar í saltvatni þar sem ýmist er bætt við sólblómaolíu, vínediki eða náttúrulegum sýrum (mjólkursýru, sítrus, c-vítamíni).

100 grömm af ólífum kosta 290 krónur og höfum við sett þær í 200g dollur til að byrja sem greiðast eftir vigt.

Ólífur Ragnar Grímsson munu fást með haustinu

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, heilsa, matur

Uppskrift: Síðusteik af Korngrís frá Laxárdal

Endurvöktum sunnudagsmatinn í gær með góðri hádegissteik, kartöflum, sultu og grænmeti og ís á eftir.

Svolítið léttvín flaut með svo ekkert minna þurfti en léttan blund til að núllstill kerfið á eftir.

Steikin var svokölluð síðusteik af Korngrís frá Laxárdal en korngrísirnir þar á bæ borða ekki bara nánast eingöngu íslenskt fóður heldur er fóðrið af hollustu sort. Bændurnir rækta bygg og kaupa af bændum í nágrenninu og gefa síðan grísunum sínum það að borða.

Heilbrigður lífsstíll svínanna skillar sér greinilega í gæðakjöti því síðusteikin sem við elduðum í gær var afar góð.

Kryddblandan er búin til svona:

Blönduð piparkorn léttristuð á pönnu og mulin. Bætt út í salti, sykri og fersku, fínskornu rósmarín. Kryddblöndunni nuddað á steikina og mikið af henni, kjötmegin (þ.e.a.s. ekki fitumegin þótt það væri eflaust í lagi) og meðfram hliðunum.

Ofninn hitaður í 250°C eða svo. Steikin sett í eldfast mót eða á litla plötu með fituhliðina upp og undir er sett skúffa með vatni. Þannig ristast hliðin sem snýr upp og verður brún og falleg en kjötið fyrir neðan verður mjúklega soðið og safaríkt. Líklegast dugir um klukkutími í steikingu.

Þegar steikin er tilbúin er hún látin bíða svolitla stund og allur safinn sem af henni lekur settur í skál og notaður sem sósa því ljúffeng kryddblandan er mestöll þar.

Steikingin heppnaðist mjög vel og kjötið hitti í mark meðal viðstaddra. Bárum fram með soðnum, lífrænum kartöflum frá Engi og grænkáli frá Engi sömuleiðis sem og frá Vallanesi (Móðir Jörð) sem við gufusuðum. Smjör og salt fór yfir kartöflurnar, salt, edik og ólífuolía (hóflega) yfir salatið. Rabarbíu-sultur frá Löngumýri.

Bingó!

Opnuðum lífrænt, hvítvín frá Provence í S-Frakklandi, Mas de Gourgonnier, sem passaði vel með enda steikin með sínum pipar og rósmarín í nokkuð s-frönskum anda.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, mas de gourgonnier, matur, uppskrift

Áhugaverð frétt á Sky um matvælaframleiðslu og öryggi

Bloggarinn sat í morgun með espressó bolla og fartölvu, svaraði tölvupósti og hlustaði lauslega á Sky fréttastöðina. Eins og alltaf þegar minnst er á mat sperrti hann eyrun þegar fjallað var um matvælaframleiðslu í Bretlandi og áskorun um að auka þyrfti þar í landi framleiðsluna, bæta gæðin og um leið minnka skaðlega áhrif hennar á umhverfið.

Áhyggjurnar stafa af því að eftir 40 ár mun eftirspurn eftir mat um heim allan hafa aukist um 70% að sögn fréttamanns.

Og þótt nægar birgðir séu í landinu tæki það ekki nema 20 daga fyrir eyjaskeggja að borða sig til síðasta brauðmola.

Fæðuöryggi er því áhyggjuefni þar í landi og efling nauðsynleg.

Matur, okkur nauðsynlegasta efni á eftir súrefni ætti að vera meira í forgrunni umræðu hér á Íslandi en hann gerir, í stjórnmálum, fjölmiðlum og meðal almennings.

Vonandi getum við séð Frú Laugu sem virkan þátttakanda í framtíðinni í að stuðla að og bæta gæði og framleiðslu íslensks hráefnis, aðgengi og eftirspurn. Það geta allir Íslendingar með því að velja gott, íslenskt hráefni.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga, matur

Uppskrift: Lasagna hússins

Hefðbundið lasagna inniheldur ýmislegt góðgæti eins og ítalska salsiccia pylsu og ricotta sem því miður er vandfundið í búðum eða á borðum Íslendinga. Þessi uppskrift af lasagna hentar vel íslensku heimili, er einföld og ljúffeng.

Á pönnu er kjötsósan undirbúin:

smávegis af góðri jómfrúarólífuolía
1 pk. nautahakk eða svínahakk (eða blandað) er steikt á pönnu.
2 dósir afhýddir tómatar
2 stórar gulrætur smátt skornar
2 sellerístilkar, smátt skornir
(má bæta öðru grænmeti í, s.s. blómkáli, spergilkáli, blaðlauk o.s.frv., jafnvel smátt skornu hvítkáli sem er svo afar hollt)
(Smátt skornir sólþurrkaðir tómatar gefa sósunni líka mjög góðan keim, ef þeir eru til í ísskápnum)
1 stór eða 2 litlir gulir laukar, smátt skornir
Góð handfylli af fersku garðablóðbergi (timian) eða góð matskeið til tvær af þurrkuðu
Sjávarsalt
Ferskur svartur pipar úr kvörn
(lífrænt grænmetissoð eftir smekk)
rauðvínsdreitill (skvett yfir)

Allt steikt saman á pönnu (kjötið fyrst og grænmeti, tómötum og kryddi bætt í), vatni bætt á pönnuna eftir þörfum. Láta malla í amk hálftíma.

Einföld útgáfa af bechamela sósu útbúin í potti:

50-70 g. íslenskt smjör eða smjörvi brætt í pottinum
Hveiti hrært saman við (2-3 msk, þannig að úr verði þykkur jafningur – hræra vel)
Nýmjólk er hellt yfir og hrært vel með þeytu (bætið nýmjólk í (gætið þess að hræra vel til að leysa upp kekki) þar til sósan er orðin eins og súrmjólk að þykkt og kekkjalaus)
A.m.k. hálf fersk múskathneta er rifin yfir með rifjárni (ég tók eftir því fyrir nokkru að múskathnetur fást á góðu verði, nokkur stykki saman í poka, í TIGER).
Passið að hafa ekki of mikinn hita á sósunni til að varna því að hún brenni við.

Fyrir samsetningu:

lasagna-plötur (þurrkaðar eða ferskar – við notumst nú barasta við þurrkaðar, nema við gerum þær fersku sjálf)
parmeggiano reggiano (eða grana padano) ostur (fæst stundum ódýrari í BÓNUS, þá kaupum við nokkur stykki)
ferskur svartur pipar úr kvörn.

Gott eldfast mót er tekið fram. Lasagna-plötur lagðar í botninn (brjótið plötur til að fylla í svæðið), kjötsósu er smurt yfir, bechamela sósa fer yfir kjötsósuna og yfir hana er rifinn parmeggiano eða grana og svörtum pipar dreift yfir. Þetta er endurtekið (lasagne, kjötsósa, bechamela, parmeggiano og svartur pipar) þar til eldfasta mótið er fullt – gætið þess að enda á góðri smurningu af bechamela sósunni efst en ekki setja parmeggiano yfir þar sem hann brennur auðveldlega.

Sett í 200°C heitan ofn (blástursofn) í 45-50 mín eða þar til sósan efst hefur dökknað og kraumar vel í réttinum.

Borið fram með fersku salati.

mmmmm… Buon appetito!

Best að drekka með Lambrusco því rétturinn og vínið koma frá sama svæði Ítalíu. Hvers vegna að breyta einhverju sem er fullkomið.

Færðu inn athugasemd

Filed under lini, matur, uppskrift

Nokkrir DVD sem er næstum hægt að borða

Um tíma þegar heimilið var með BBC Food í áskrift datt bloggarinn ítrekað inn í ákveðna tegund af sjónvarpsþáttum. Þessir þættir voru ekki hefðbundir uppskriftaþættir með prúðbúnum sjónvarpskokki í myndveri heldur lögðu þeir mikið upp úr hráefninu sjálfu. Þáttastjórnandinn (sem var kokkur) fór þannig út á ekrurnar, niður í fjöru, sigldi á bátum, rölti inn á markaðinn, kíkti í sláturhúsið – hvert sem gott, staðbundið hráefni var að finna.

Síðan hófst matreiðslan, alltaf í nýju umhverfi eftir því hvar þátturinn gerðist hverju sinni; heima í eldhúsi viðkomandi framleiðanda, í káetu lítils veiðibáts, stundum á veitingastöðum eða bara undir berum himni úti á engi og við lygna á.

Öllu þessu var miðlað af mikilli ástráðu og stundum slatta af breskum húmor hjá köppum eins og Keith Floyd sem yfirleitt eldar með vínglas í annarri hendinni og hinum stóískari Rick Stein. Keith er öllu hrárri en Rick fágaðri, hvor með sína kosti.

Við keyptum í dag loksins nokkra þætti með köppunum tveimur á amazon:

Rick Stein Food Heroes (mjög áhugaverð sería þar sem Rick ferðast um Bretland og notar staðbundið hráefni)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd Around The Med (miðjarðarhafs matargerð)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd On Italy (matur, vín og menning Ítalíu)
The Keith Floyd Cookery Collection – Floyd Uncorked (Keith ferðast um vínekrur Frakklands í þessari seríu)

Það má segja að þættirnir miðli í leiðinni heilbrigðari lífsstíl því staðbundið og hollt hráefni er það besta sem völ er á. Þeir fá mann til þess að langa til og njóta þess að borða (og drekka) betur í víðum skilningi þess orðs.

Frábært skemmtiefni ef maður er þannig innstilltur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, matur, sjónvarp, uppskrift

Uppskrift: Frönsk lauksúpa

Frönsk lauksúpa hefur ef til vill upphaflega verið álitin fátækrafæði en hún er svo ljúffeng að það er auðvelt að gleyma stund, stað og stöðu sinni þegar seyðið er sopið og smjattað á sætum lauknum. Laukur, aðaluppistaða súpunnar, er herramannsmatur ef marka má næringarfræði nútímans. Hann er mjög ríkur af sulfur og því m.a. afeitrandi. Svo veitir laukur að sögn vörn gegn myndun krabbameinsfruma í ristli og lifur og á víst einnig að lækka blóðsykur. Talað er um að 2-3 laukar á viku hafi afar jákvæð áhrif á heilsu manns. Því ekki að súpa seyðið af því?
Vidalia laukur er líklega ljúffengasti laukur í heimi, stór, sætur og safaríkur. Skáldið Pablo Neruda er líklega að gæða sér á slíkum lauk þegar hann sést borða hráan lauk eins og epli í kvikmyndinni ljúfu Il postino. Höfum því miður ekki fundið þetta góðgæti á Íslandi enn.

Frönsk lauksúpa:
C.a. 2 lítrar af vatni eru settir í stóran pott og suða látin koma upp.
Kjúklingasoð (heimatilbúið soð, teningar eða keypt soð) eftir smekk (byrjið á litlu magni og bætið við)

6-10 gulir laukar (eftir stærð – má líka blanda gulum og rauðum) eru skornir í sneiðar (hálfhringi).
2-3 beikonsneiðar eru steiktar létt á pönnu, beikonið svo fjarlægt en bragðmikil feitin notuð til að steikja laukana létt (rétt gylla, ekki brúna). (ATH nota má smávegis af jómfrúarólífuolíu í stað beikonfeiti).
Skvettu af Vin Santo bætt á pönnuna meðan steikt er (má sleppa, en myndi ekki gera það).

Léttsteiktir laukarnir eru settir í vatnið og látið malla í 2 tíma (eða þar til hungrið er að fara með þig).
Sjávarsalt og nýmalaður, svartur pipar eftir smekk.

Þegar súpan er tilbúin er henni skenkt í ofnheldar súpuskálar (ein á mann eða ein stór eftir því hvað til er á heimilinu). Passið að hella ekki alveg upp á brún.
Ein hrá eggjarauða fer í hverja skál (jafn margar og heimilismeðlimir ef ein stór skál) – þetta er þýskt innslag.
Ein brauðsneið (ljóst brauð, skerið af mjög harða skorpu) fer ofan á hverja skál
væn ostsneið (mozzarella eða brauðostur) fer ofan á hverja brauðsneið.

Súpuskálarnar eru settar í 200°C heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður og gullinn.

Farið varlega þegar skálarnar eru teknar út.
Byrið á að sprengja eggjarauðurnar (sem ættu ekki að vera alveg harðnaðar), þá verður súpan sæt og mjúk og ómótstæðileg.

Frönsku gæðavínin frá Saint Cosme sem koma í Vínbúðirnar 1. júní væru áskjósanleg með súpunni (þau eru komin til landsins og má sérpanta þau ef einhver getur ekki beðið).

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, uppskrift

Uppskrift: Heimalagaðir hamborgarar

Það má endalaust leika sér að hamborgaragerð.

Aðalatriðið er að kaupa gott nautahakk og fara síðan bara inn í ísskápinn og finna eitthvað skemmtilegt til að setja í hakkið áður en maður hnoðar borgarana.

Þessi tilraunmennska heppnast kannski misvel en í gærkvöld tókst það svo vel að jafnvel frúin sagði þetta vera bestu hamborgara sem hún hefði smakkað!

Það skal tekið fram að hún er ekki eins mikil borgaramanneskja og bloggarinn sem þetta skrifar svo þetta var mikið hól.

Keypt var ungnautahakk í Nóatúni. Úr ísskápnum greip bloggarinn einn ferskan chilipipar, ferskt rósmarín og nokkra sólþurrkaða tómata (í olíulegi) sem hann saxaði mjög smátt og setti út í kjöthakkið. Út í það fór síðan eitt egg í heilu lagi og eitthvað af salti og pipar og allt hnoðað vel saman að lokum með berum höndum.

Tilbúið.

Þá var þessu skipt niður í nokkra borgara og þeir flattir út og steikir á pönnu með osti.

Sósan:

Í sósuna var sömuleiðis gripið eitthvað sem var bara til þar fyrir svo sem majónes, sýrður rjómi, tómatsósa og dijon sinnep og út í það var hrærð matskeið af „Thai sweet chili pineapple“ sósu.

Ferskt kál fór síðan í brauðið og hrár laukur auk heimatilbúnu sósunnar.

Með þessu var drukkinn svolítill bjór en frúin bað um betri bíl og pantaði Lambrusco frá Lini.

4 athugasemdir

Filed under lini, matur, uppskrift