Category Archives: morgunblaðið

Lítið djásn frá Lini fjölskyldunni

Það er nokkuð síðan að vínin okkar fengu umfjöllun í Morgunblaðinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að opna sunnudagsmogga einn fyrir jól og lesa þesa fínu umfjöllun sem þar birtist um hvítvínin Pecorino 2007 frá Umani Ronchi (88 stig) og Grecante 2007 frá Arnaldo Caprai (91 stig) en þó sérstaklega um hið skemmtilega Lambrusco Scuro frá Lini (91 stig).

Steingrímur fangar mjög vel karakter þessara þriggja vína í lýsingum sínum á þeim.

Þannig finnst honum Pecorino anga m.a. af „fersku grasi“ og „steinefnum“ og Grecante einkennast af dæmigerðri ítalskri „lífsgleði“.

En Lambrusco Scuro virðist alveg hafa slegið í gegn hjá honum því ekki man ég eftir umfjöllun hér á landi um lambrusco vín sem fjallað er um svo lofsamlega — nema ef vera skyldi umfjöllun Gestgjafans um sama vín fyrir skömmu (lestu dóminn í Gestgjafanum sem velur vínið Bestu kaupin).

Honum finnst Lambrusco Scuro vera „lítið djásn“ og mælir með því „fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.“

Og ekki spillir fyrir hvað flaskan er flott.

Svona lítur öllu umfjöllun Steingríms um okkar vín út, eins og hún birtist undir fyrirsögninni „Getur vín verið sauðslegt?“:

„Ég myndi ekki halda því fram að það væri sauðslegt en Pecorino 2007 er engu að síður vín – eða öllu heldur þrúga – sem dregur nafn sitt af rollum. Á þessu eins og öllu öðru eru til skýringar, eftir að vínviðurinn og búsmalinn höfðu deilt rými um alda skeið ætti engum að koma á óvart að þau dragi dám hvort af öðru. Hagar Pecorino hafa verið við Adríahafsströnd Ítalíu en hún hefur löngum fyrst og fremst verið notuð til blöndunar, þ.e. að veita öðrum þrúgum smásýruskot þegar þurft hefur á að halda.

Vínhúsið Umani-Ronchi (sem íslenskir vínunnendur þekkja flestir í gegnum hvítvínið Casal di Serra) setti fyrir nokkrum árum í gang athyglisvert verkefni er miðar að því að endurvekja margar af óþekktari þrúgum austurstrandar Ítalíu. Kannski ekki ósvipað og Torres hefur gert með þrúgur Katalóníu.

Pecorino 2007 er ferskt í nefi með fersku grasi, hveiti og geri, gulum perum og steinefnum (hveravatni). Sýran gerir vínið létt og lipurt og það ætti að vera ágætis fylgifiskur með t.d. salati og bleikju. 88/100

Annað hvítvín frá Ítalíu er Grecante úr smiðju Arnaldo-Caprai, eins besta framleiðanda Úmbríu. Ef maður vill alhæfa má segja að gott franskt vín einkennist gjarnan af mikilli fágun. Gott ítalskt vín hins vegar af lífsgleði. Það á við hér. Aðlaðandi og ferskur, sætur ávöxtur. Granny Smith-epli og perur, ferskar fíkjur og blóm. Það hefur þægilegt og ferskt bit og góða lengd. Tilvalið með flestu. 1.889 krónur. 91/100

Lambrusco-vín þykir ekki fínn pappír hjá mörgum vínunnendum sem gretta sig og fetta þegar þeir heyra þetta orð nefnt. Ég skal fyrstur játa að Lambrusco-nafnið er ekki gæðastimpill í sjálfu sér en rétt eins og með t.d. Soave og Valpolicella er hættulegt að alhæfa. Lambrusco getur nefnilega verið afbragð. Ólíkt því sem flestir halda er Lambrusco ekki samheiti yfir lélegt, sætt rautt freyðivín heldur þrúga en vissulega er framleitt úr henni lélegt, sætt rautt freyðivín. Það er líka framleitt úr henni þurrt rautt freyðivín sem er allt að því unaðslegt, ekki síst með góðum hádegisverði einhvers staðar í sveitum Ítalíu.

Lini-fjölskyldan er ein þeirra sem framleiða Lambrusco samkvæmt gömlum hefðbundnum aðferðum, ekki ósvipuðum þeim sem notaðar eru við framleiðslu á kampavíni. Þetta er alvöru vín og valkostur fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.

Lini 910 Lambrusco Scuro er lítið djásn, berjaríkt og ferskt með ferskri sýru og allt að því tannískt. Það vinnur á við hvern sopa. Ég myndi jafnvel reyna það með hangikjöti. 1.695 krónur. 91/100„. (Mbl. Steingrímur)

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, dómar, lini, morgunblaðið, umani ronchi

Caprai og Moreau eru flottir í Gestgjafanum og Morgunblaðinu

.

Fjallað er um Collepiano 2004 frá Arnaldo Caprai í nýjasta Gestgjafanum og líka í Morgunblaðinu sem kom út í gær.

Við eigum líka hvítvín í báðum þessum Útgáfum og bæði Chablis vín frá Domaine Christian Moreau, 1er Cru Vaillon 2006 í Morgunblaðinu og Grand Gru Les Clos 2004 í Gestgjafanum.

Í Gestgjafanum fá bæði vínin 4 1/2 glas. Í Morgunblaðinu fá þau 91 og 90 stig. Í báðum tilfellum er verið að fjalla sérstaklega um hátíðarvín.

Fínir dómar það.

Ég er að hugsa um að hafa vín frá þessum tveimur framleiðendum á borðum yfir hátíðarnar en er ekki viss. Get ekki ákveðið mig ennþá og veit reyndar ekki alveg hvaða skeppnu verður slátrað til að prýða hátíðarmatseðilinn. Fyrir utan hreyndýr sem ég fékk frá skotglöðum félaga.

Þetta segir Gestgjafinn:

Christian Moreau Grand Cru Les Clos 2004 4 1/2 glas
Lokað í upphafi, opnast á blóm, sítrus, steinefni og epli. Brakandi og margslunginn ilmur, frábært jafnvægi, kraftmikið í munni. Mikill karakter og afskaplega góð lengd. Drekkið með humri eða ostrum. Nammi namm.
Okkar álit: Ungt en frábært Chablis. Kraftmikið en fágað, þyrfti jafnvel að umhella.

Collepiano 2004 – 4 1/2 glas
Þétt og mikið vín með ákveðinn elegans. Margslungið bæði í nefi og munni með fjólum, kryddi, þroskuðum ávexti og möndlum. Kröftugt en gott tannín með frábæra lengd. Kallar á góðan og bragðmikinn mat eins og dádýr eða hreindýr. 4.300 kr.
Okkar álit: Frábært vín með góðan kraft. Best milli 2009 og 2014 en má umhella til að flýta fyrir. “ (- Gestgjafinn 15. tbl. 2007)

þetta segir Morgunblaðið:

Collepiano 2004 er rauðvín frá Úmbría úr heimaþrúgunni Sagrantino di Montefalco frá besta framleiðanda héraðsins, Arnaldo-Caprai. Þurrt birki, vanillusykur og áfengislegin svört kirsuber. Langur, þurr og tannískur endir Opnar sig með mat en mun batna næstu fimm árin það minnsta. Mjög athyglisverður Ítali. 4.300 krónur. 91/100

Domaine Christian Moreau Chablis 1er Cru Vaillon 2006 er klassískur og fágaður Chablis. Þurr og sýrumikill, steinefni og hnetur í nefi, þykkur sítrus í munni með löngum endi. Vín fyrir t.d. humarsúpuna. 2.890 krónur. 90/100“ (- Morgunblaðið, 15.12.2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, christian moreau, dómar, Gestgjafinn, morgunblaðið

Ítalskir kraftaboltar í Morgunblaðinu

.

Ítölsk vín eru í fyrirúmi í grein Steingríms í Morgunblaðinu í dag.

„Kraftaboltar“, nánar tiltekið.

Kannski á hann þó ekki við hvítvínið Vernaccia di San Gimignano 2006 sem verður seint talið meðal kraftabolta og líklegast heldur ekki freyðivínið Francois 1er sem bæði eru frá Castello di Querceto. Heldur er um að ræða enn eitt vínið frá framleiðandanum sem fjallað er um í þessari grein, Chianti Classico Riserva 2003, og sömuleiðis Chianti Classico 2005 frá Fontodi sem eru all vel vaxin vín — kröftug. Ánægðastur, af okkar vínum, er hann með Riservuna og gefur henni 92 stig sem er hörkufín einkunn.

     „Querceto Vernaccia di San Gimignano 2006 er athyglisvert hvítvín frá Toskana. Querceto er þekktast fyrir hin dásamlegu Chianti-vín sín (ekki síst Casetello-vínin) en hér er á ferðinni einfalt, þurrt og þægilegt hvítvín. Peruávöxtur og hvít blóm í einfaldri, nokkuð sýruríkri uppbyggingu. 1.390 krónur. 84/100
     Og fyrst minnst er á Castello-vínið er full ástæða til að kíkja á Riserva-útgáfuna af því: Castello di Querceto Riserva 2003. Flottur, karaktermikill og nær fullþroskaður Chianti Classico í hæsta gæðaflokki. hann er töluvert eikaður og reykur og sviðinn viður renna saman við þurran ávöxtinn, svört og rauð ber. Vínið er tannískt, þykkt og langt, og hefur þessa „aukavídd“ sem bestu Chianti-vínin hafa stundum, þótt árgangurinn sé ekki sá mesti. 2.350 krónur. 92/100
     Það er líka framleitt freyðivín í Querceto-kastala. Francoi 1er Brut er framleitt með kampavínsaðferðinni og slagar hátt í kampavín að gæðum. Það er ávaxtaríkt með geri og nýbökuðu brauðu í nefi. Freyðir vel og þægilega. 1.990 krónur. 88/100 
     Fontodi Chianti Classico 2005 opnar stíft, þurrt og tannískt með dökkum kirsuberjaávexti. Það opnar sig með svörtum trufflum, kaffi, púðursykri og kryddi, fantagott og drykkjarhæft nú þegar en ætti að ná hámarki eftir þrjú ár eða svo. 90/100“ (Mbl. Steingímur, 7.12.2007)

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, fontodi, morgunblaðið

Vínín okkar standa fyrir sínu í Mogganum

.

Það var stórfín umfjöllun um okkar vín í Morgunblaðinu síðasta föstudag.

„Vín sem standa fyrir sínu“ er yfirskrift greinarinnar og fjallar Steingrímur eingöngu um okkar vín að þessu sinni.

Eftirtalin vín standa fyrir sínu.

d’Arenberg The Laughing Magpie 200592 stig
d’Arenberg The Footbolt 200490 stig
Umani Ronchi Casal di Serra 200690 stig
San Michele Appiano Riesling Montiggl 200688 stig
San Michele Appiano Pinot Nero 2004 87 stig

Við erum ánægð, eins og alltaf.

    „Það er margt sem skiptir máli við víngerð og sama vínið getur verið mjög ólíkt á milli ára. Það er því ávallt forvitnilegt að sjá hvernig nýr árgangur plumar sig. Heldur vínið sínu, veldur það vonbrigðum eða nær nýr árgangur að toppa fyrri árgang. Að þessu sinni skoðu við nokkur vín frá Ástralíu og Ítalíu sem sum hver hafa verið til umfjöllunar áður en koma nú fílefld til leiks á ný með nýjum árgangi
     St. Michael-Eppan Riesling Montiggl 2006 er hvítvín frá Alto-Adige eða Suður-Týról á Norður-Ítalíu. Þurrt og frekar þungt með sítruslímónu og greipaldin – ásamt þurrum heybagga og steinefnum. Mikil fylling og þykkt með langan endi. Matarvín, ekki spurning, með t.d. laxi eða bleikju ásamt nýjum íslenskum kartöflum, smjöri og kannski smá steinselju ætti þetta að smella vel. 2.160 krónur. 88/100
     Frá sama framleiðanda kemur rauðvín úr þrúgunni Pinot Noir. St. Michael Eppan Pinot Nero 2004. Farið að sýna þroska, rauð skógarber og mild angan af kryddum á borð við negul og kanil. Svolítið haustlegt, jafnvel Búrgundarlegt, tannín hafa enn smá bit. 1.980 krónur. 87/100
     Casal di Serra Verdicchio dei Castelli di Jesi 2006 er góðkunningi síðunnar og ég er ekki frá því að þessi nýi árgangur sé einn sá besti sem hingað hefur ratað. Ferskur, skarpur og ágengur ávöxtur, ferskjur, ástaraldin og gul epli í nefi, í munni þétt, samþjappað og mikið með möndlukeim í bland við ávöxtinn ásamt votti af eik í fjarska. Þetta er vín sem nær því að vera jafnt aðgengilegt fyrir alla, sem nægilega flókið og fínlegt fyrir þá sem vilja „alvöru“ vín. Eitt og sér, með grilluðum fiski eða jafnvel ostum. Heldur leikandi stöðu sinni sem eitt af bestu hvítvínskaupunum í vínbúðunum. 1.590 krónur. 90/100
     Einnig eru komnir nýir árgangar af hinum frábæru rauðvínum ástralska framleiðandans D’Arenberg: Footbolt og Laughing Magpie. D’Arenberg var stofnað á fyrri hluta síðustu aldar í McLaren Vale, einu besta víngerðarsvæði Ástralíu, rétt utan við borgina Adelaide í Suður-Ástralíu. Vín þessa litla fjölskyldufyrirtækis hafa allt frá 1959 verið auðþekkjanleg á rauðu strikinu sem dregið er skáhallt niður flösikumiðann. Hér á landi höfum við getað notið þeirra í rúm tvö ár eða svo.
     D’Arenberg The Footbolt Shiraz 2005 [reyndar 2004] er berjamikill og þykkur Shiraz, fantavel gerður. Þarna eru dökkir og þroskaðir ávextir, sultaðar plómur en einnig krydd og dökkt súkkulaði í nefi. Í mnunni feitt og langt með þroskuðum og mjúkum tannínum. Vín sem fellur vel að íslensku lambakjöti. 1.790 krónur. 90/100
     D’Arenberg The Laughinhg Magpie Shiraz-Viognier 2005 er Ástrali fyrir vínunnendur með evrópskan smekk. Þrúgublandan er í stíl frönsku Cote Rotie-vínanna, þ.e. örlitlu magni af hinni hvítu og arómatísku þrúgu Viognier er blandað saman við Syrah/Shiraz. Dökk ber, bláber og kirsuber í bland við fjólur, lakkrís og vanillu úr eikinni. Vín með mikinn og heillandi karakter, langt frá staðalímynd ástralskra shiraz-vína sem allt of mörg vín á markaðnum hér keppast við að byggja upp. 2.100 krónur. 92/100 “ (Morgunblaðið 5.10.2007)
     

     

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, d'arenberg, dómar, morgunblaðið, umani ronchi

Querceto Chianti 2005 í Mogganum

.

Querceto Chianti fær 86 stig í Mogganum um helgina.

„[U]ngur, matvænn Chianti“ segir Steingrímur.

Querceto Chianti 2005 er einfaldur og ódýr Chianti frá hinum stórgóða framleiðanda Castello di Querceto sem er þekktast fyrir Chianti Classico vín sín. Þrúgurnar í þetta vín koma þó ekki nema að hluta frá ekrum fyrirtækisins af ekrum þess í kringum Greve og hlýtur því hina einfaldari skilgreiningu „Chianti“ án viðbótarinnar „Classico“. Þetta er ungur, matvænn Chianti með kirsuberjum, smá glussa og kryddi í nefi. Ágætlega sýrumikið og mjúkt í munni. 1.390 krónur. 86/100.“ (Mbl.)

Vitlaust mynd birtist í greininni, í staðinn fyrir Chianti er mynd af Chianti Classico víni framleiðandans Castello di Querceto.

Querceto Chianti 2005 kostar 1.390 kr. og fæst í Heiðrúnu og Kringlunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, dómar, morgunblaðið

Einn af sumarsmellunum 2007 – Frizzando 2006

.

Undir fyrirsögninni „Hvítir sumarsmellir“ í Morgunblaðinu fjallar Steingrímur um nokkur góð hvítvín sem honum finnst sérstaklega sumarleg.

Hann byrjar á Frizzando 2006 frá Sandhofer, okkar manni í Austurríki.

„Það gerist ekki mikið sumarlegra“ eins og Steingrímur segir:

FRIZZANDO D’VILLA VINEA 2006 frá Sandhofer er einn af sumarsmellunum 2007. Þetta er tiltölulega lítið vínhús (15 hektarar) í Neusiedlersee sem hefur getið sér gott orð í Austurríki og er ánægjulegt að sjá með fulltrúa í vínbúðunum hér. Frizzando er vín sem freyðir en er samt ekki alveg freyðivín. Fersk vínber og gul þroskuð epli og gular perur í fersku, örlítið sætu og aðallega yndislegu léttfreyðandi víni. Austurríkismenn kalla vín sem þessi Perlwein, þau perla en freyða ekki. Það gerist ekki mikið sumarlegra.
1.790 kr. 88/100“ (Mbl. 13.7.2007)

Ég mæli með þessu víni beint úr ísskápnum, fyrir mat, með mat, eftir mat.

Undir mat, ofan á mat, út á mat.

Endurmat, greiðslumat, fasteignamat.

Eða bara eitt og sér.

Annars var ég hálfgerður klaufi að auglýsa vínið alls staðar á 1.790 kr. því það kostar víst óvart 1.850 kr. Það mætti reyna að biðja um 60 krónur endurgreitt við kassann í Vínbúðunum – nú eða bíða þangað til ég lækka vínið í rétt verð sem verður á næstu vikum.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, morgunblaðið, sandhofer

Skólabókardæmi um aðlaðandi vín frá Sikiley

.

Steingrímur fjallar um sikileysk vín í Morgunblaðinu í dag.

Við eigum þrjú vín þar á meðal. Nýju vínin tvö frá Firriato víngerðinni, Emporio hvítt og Emporio rautt, fá 87 og 86 stig. Firriato er á bak við þessi tvö vín þótt nafnið þeirra komi hvergi fram.

Santagostino frá Firriato fær 89 stig og finnst Steingrími það vera „skólabókardæmi um hvað það er sem gerir sikileysku vínin svo aðlaðandi og svo góð kaup.“ Þetta er í þriðja sinn sem Steingrímur fjallar um Santagostino og gaf hann því áður 18/20 í bæði skiptin — þá gaf hann einkunnir á 20 stiga skalanum en núna á 100 stiga skalanum.

Ný á markaðnum eru vín sem seld eru undir nafninu Emporio. Þessi vín eru framleidd í samstarfi sikileyska vínhússins Firriato (sem verið hefur á markaðnum hér um árabil) og fyrirtækisins International Wine Services, sem undir stjórn Ástralans Kym Milne hefur tekið þátt í margvíslegum samstarfsverkefnum víða um heim. Ágætt dæmi um svokallaða „fljúgandi“ víngerðarmenn sem hafa verið svo áhrifamiklir í að hleypa nýju blóði í víngerð hér og þar.

Hvítvínið EMPORIO INZOLIA-GRECANICO 2006 er skemmtilegt vín í stíl einhvers staðar á milli Evrópu og Nýja heimsins. Ferskju-, apríkósu- og kantalópuangan. Millilengd, einfalt og milt, bragðgott og ljúft. 1.390 krónur. 87/100

Ilmur rauðvínsins Vinarte EMPORIO ROSSO [Nero d’Avola-Sangiovese] 2006 [2004 er reyndar árgangurinn] er einfaldur en ljúfur, þarna er plómu- og sveskjuávöxtur, fremur létt vín, sumarlegt og þægilegt. 1.390 krónrur. 86/100

Og er þá ekki fínt að ljúka þessu með víni frá Firriato, nefnilega SANTAGOSTINO 2003: Þetta er vín sem er einmitt skólabókardæmi um hvað það er sem gerir sikileysku vínin svo aðlaðandi og svo góð kaup. Þykkur, kryddaður og heitur ávöxtur. Sólber, rósir og vindlavafningur, mjúkt, feitt og kryddað með flottri uppbyggingu. Afskaplega þéttriðið í munni, tannískt og öflugt. Og allt þetta fyrir bara 1.890 krónur. 89/100

– Morgunblaðið 8. júní 2007

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, firriato, morgunblaðið