Category Archives: mourgues du gres

Vín mánaðarins í Gestgjafanum

Það var ánægjulegt þegar við vorum nýbúin að fjalla um dræma sölu góðvínanna þriggja frá Chateau Mourgeu du Gres í Vínbúðunum að Gestgjafinn tók eitt þeirra upp á arma sína. 

Litla rauðvínið Les Galets Rouges 2008 í hálfs líters flöskunni er Vín Mánaðarins með 4 1/2 glas. 

Góður dómur fyrir vín sem á allt gott skilið að okkar mati. „Ilmurinn er yndislegur“ segja þau en það eru engar ýkjur því fá vín í okkar herbúðum hafa eins mikinn og flottan ilm og ilmur er stór hluti góðs víns. 

Það er minnst á annað vín frá Vín og mat í blaðinu en Stump Jump Riesling fær sömuleiðis 4 1/2 glas en sá dómur miðast við hversu vel vínið paraðist með bláskel þar sem Riesling vín eru sérstaklega til umfjöllunar. 

Chateau Mourgues de Gres Les Galets Rouges 2008VÍN MÁNAÐARIKNS 4 1/2 glas
Í neðri hluta Rhone-dalsins er jarðvegurinn mjög grófur (þekktast í þeim efnum er Chateauneuf du Pape og nágrenni) og leirkenndur með sandsteini frá Ölpunum. Lofstslagið er oft mjög heitt þannig að vínviðurinn „þjáist“ en nær raka djúpt í berginu. Betri staðarþrúgurnar eins og syrah, grenache og mourvédre í góðum höndum gefa góð vín. AOC Costiéres de Nimes er á vesturbakka Rhone og tilheyrir Languedoc. Chateau Mourgues du Gres er lítið vínhús og leiðandi hvað varðar gæðaframleiðslu í þessu AOC og skorar alltaf mjög hátt hjá Robert Parker. Hér er syrah 75% og grenache, mourvédre og carignan 25% alls., vínið er geymt í ár á stáltanki til að varðveita ferskleikann. Þetta er ungt vín og þarf líklega að láta það bíða í glasinu í 10-15 mínútur en ilmurinn er yndislegur, afar hreinn ávöxtur (rauð og svört ber), hvítur pipar, kryddjurtir og engar ýkjur sem gefur strax til kynna að þetta margslungna vín sé í einstöku jafnvægi. Í munni er það fylgið sér, vínið er þétt, nokkuð af fíngerðum tannínum, mikið af ferskum, sólríkum, svörtum berjum, lakkrís og pipar – langt eftirragð. Matarvín, prófið með andarbringu, hreindýri, entrecote eða nautasteik með bearnaise.
Verð: 1.850 kr. (50cl)
Okkar álit: Frábært vín í einstaklega þægilegri flðskustærð fyrir 2 (50cl), margslungið og mikið matarvín. Ungt – betra eftir svolítinn tíma í glasinu.  “ (- Gestgjafinn 3. tbl. 2010)

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, mourgues du gres

Eitt af þessum vonlausu vínum í Vínbúðunum

Við getum ekki hætt að flytja inn vín sem enginn kaupir.

Hverjum öðrum en okkur dytti í hug að flytja inn vín sem kemur frá óþekktum framleiðanda af óþekktu svæði eða með miða sem enginn tekur eftir, nú eða nafni sem enginn getur borið fram.

Og Chateau Mourgues de Gres Costieres de Nimes A.O.C. Les Galets Dóres 2007 uppfyllir allt þrennt!

Síðan 1. júlí 2009 hafa 16 flöskur af þessu víni verið keyptar í Vínbúðunum. Það gera tvær flöskur (rúmlega!) á mánuði.

Það flokkast því líklegast undir eitt af þessum vonlausu vínum í Vínbúðunum.

Bara ef einhver hefði getið sett mynd af kanínu á miðann og kallað það „Crazy Rabbit“ eða eitthvað svoleiðis, þá hefði það kannski mokast út.

En okkur þykir það gott, reyndar eiginlega frábært. T.d. með skelfisk-pasta eins og við fengum okkur um daginn. Suðrænt og seyðandi. 

Við höfum lent í þessu áður en lærum ekki af reynslunni. Við — aðallega þessi bloggari — verðum svo æst yfir einhverju svona góðu, getum ekki stillt okkur og er eiginlega sama þótt ekki mokist það út.

Ef við gætum selt 10.000 flöskur á einu ári myndum við frekar vilja selja lítið af mörgum en mikið af fáum.

Love before business.

Það er aðeins meiri vinna en mikið er það nú miklu skemmtilegra.

Eitt er því öruggt, við munum halda áfram að flytja inn svo „vonlaus“ vín.

8 athugasemdir

Filed under mourgues du gres, röfl, vínbúðirnar

Uppskrift: Spagettí með bláskel

Við höldum áfram að benda á það hversu bláskelin er gott hráefni á góðu verði.

Það er mikið spurt í Frú Laugu hvernig sé best að elda hana og við bendum yfirleitt á einföldustu leiðina; skella henni á heita pönnu, skutla fínsöxuðu kryddi og lauk (eða sellerí) og hvítvínsglasi, bíða þar til hún opnar sig (5 mín max) og þá er rétturinn tilbúinn á diskinn.

Við útfærðum þess uppskrift aðeins öðruvísi í upphafi nýja ársins og notuðum sem grunn uppskrift frá Mario Batali.

Hráefni:

1 kg bláskel
2 bollar ferskir, saxaðir konfekttómatar (eða aðrir vel þroskaðir tómatar)
1 laukur
1 sellerístöng
5 hvítlauksrif
4 matsk. ólífuolía (t.d. frá Bisceglia)
1/2 glas hvítvín
1/3 glas rauðvín
salt og pipar
300 gr. spagettí

Ólífuolían hituð á pönnu. Hvítlaukur skorinn í þunnar sneiðar og mýktur í olíunni á pönnunni í smá stund (1-2 mín.) þar til ljósgulur (alls ekki brúnn). Fínt söxuðum lauk og fínt sneiddu sellerí bætt út í og steikt í 2 mínútur til viðbótar. Helming hvítvíns bætt út í og steikt í aðrar 2 mínútur. Þá eru tómatar settir út í ásamt restinni af hvítvíninu og rauðvíninu (hægt að nota bara hvítvín) og soðið í 8 mínútur á meðalhita með lokinu á. Piprað og saltað. Skelinni skellt út í, lokið sett aftur á, og soðið í max 5 mínútur til viðbótar.

Spagettí soðið meðan á þessu stendur. Ef það er soðið síðar má láta sósuna standa með lokinu á og setja bláskelina síðan rétt í lokin u.þ.b. þegar spagettíið er að verða tilbúið.

Spagettí hellt yfir sósuna á pönnunni og blandað vandlega saman og ólífuolíu skvett yfir. Gott að nota súpudiska þar sem sósan er all fljótandi.

Við notuðum Beljuna í matargerðina en drukkum með ljómandi gott hvítvín Galets Dorés frá Chateau Mourgues du Gres sem smellpassaði með.

Bláskelin var náttúrulega úr Hrísey og fæst í Frú Laugu á 1.190 kr. kg.

Buon appetito!

Færðu inn athugasemd

Filed under beljan, bisceglia, frú lauga, mourgues du gres, uppskrift

Kvikmynd frá heimsókn til vínframleiðenda í Frakklandi

Þegar við fórum til Frakklands síðasta haust tókum við stutta kvikmynd af heimsóknum okkar til vínframleiðenda allt frá suðri (Languedoc, Rhone og Provence) norður til Búrgúndarhéraðs.

Uppskeran var í fullum gangi, veður var gott og við náðum nokkrum ágætum augnablikum úr lífi franskra víngerðarmanna.

C’est la vie.

Ykkar undirritaður fer með aðalhlutverk í myndinni auk þess að leikstýra og klippa en naut góðrar aðstoðar Rakelar. Nú þarf bara að semja tónlistina.

Við blogguðum ekkert um þetta ferðalag á sínum tíma, kvikmyndin kemur í staðinn fyrir það, en við tókum fullt af ljósmyndum.

Sannsöguleg mynd. Fæst á öllum betri myndbandaleigum.

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, ferðalög, flaugergues, frakkland, grivot, kvikmyndir, lucien le moine, mas de gourgonnier, mourgues du gres, sjónvarp, vincent girardin

Ný íslensk bloggsíða sem fjallar um vínin í Vínbúðunum

.

Steinar Þór Guðlaugsson fjallar um vínin í Vínbúðunum á nýrri bloggsíðu sinni.

Ég rakst á það rétt í þessu þegar ég var að þvælast eitthvað inni á Mbl.is og líst mjög vel á.

Meðal fyrstu færslanna eru þrjár vandaðar lýsingar um vín frá okkur og ekki spillir fyrir hversu jákvæðar þær eru í þeirra garð.

Lestu hvað Steinar Þór segir um The Hermit Crab 2004 frá d’Arenberg, Chianti Classico 2005 frá Castello di Querceto og Terre d’Argence 2004 frá Chateau Mourgues du Gres.

Færðu inn athugasemd

Filed under blogg, castello di querceto, d'arenberg, dómar, mourgues du gres, vín, vínbúðirnar

Top 11 söluhæstu vínin í desember

.

Hér eru 11 söluhæstu vínin okkar í Vínbúðunum í jólamánuðinum:

1. Fontodi Chianti Classico
2. d’Arenberg The Laughing Magpie
3. Castello di Querceto Chianti Classico Riserva
4. Castello di Querceto Chianti Classico
5. Falesco Vitiano Rosso
6. Umani Ronchi Casal di Serra
7. Firriato Santagostino Rosso
8. d’Arenberg The Hermit Crab
9. d’Arenberg The Footbolt
10. Chateau de Flaugergues Cuvee Sommeliere
11. Chateau de Mourgues du Gres Terre d’Argence

1-4, 6 og 8 fást öll í Kjarna (flestar vínbúðir) en hin fimm eru aðeins fáanleg í Heiðrúnu og Kringlunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, d'arenberg, falesco, flaugergues, fontodi, frakkland, mourgues du gres, umani ronchi, vínbúðirnar

Myndir frá Per og Britt: Chateau Mourgues du Gres og Mas de Gourgonnier

Ég hitti sænsku hjónin Per og Britt Karlsson á leiðina á Vinisud vínsýninguna í Montpellier snemma á þessu ári. Við vorum að reyna að finna rútuna úr miðbænum til sýningarsvæðisins, þau kunnu frönsku og ég hékk með þeim á meðan við rundum út úr strætóleiðum til að taka í stað rútunnar. Á leiðinni í strætó spjölluðum við heilmikið saman enda reyndumst við vera með marga af sömu framleiðendunum á heimsóknarlistanum fyrir vínsýninguna.

Per og Britt skrifa um vín, fara í vínferðir og eru þekkt í Svíþjóð á þeim vettvangi.

Á vefsíðunni þeirra rakst ég á þessar skemmtilegu myndir frá einum af okkar framleiðendum, Chateau Mourgues du Gres. Ennþá ítarlegri myndalista af Mourgues du Gres er að  finna hér (ath. birtist á fjórum síðum).

Einnig rakst á nokkrar myndir (ath. birtist á tveimur síðum) frá Mas de Gourgonnier.

Ch. Mourgues du Gres er í Rhone héraði en Mas de Gourgonnier í nágrannahéraðinu Provence. Vínstíllinn (rauðvín) hjá þessum tveimur er nokkuð ólíkur þar sem sá fyrrnefndi gerir mjög ávaxtarík vín en sá síðarnefndi gerir jarðbundnari vín og þurrari.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, mas de gourgonnier, mourgues du gres, myndir, vínsýning

Rósavín á uppleið

Rósavínsneysla í Bretlandi er 5-7% af heildarléttvínsneyslu skv. þessari grein í Beveragedaily.com.

Fyrir nokkrum árum var hún aðeins 1%.

Rósavín eru ekki bara í tísku heldur er fólk að átta sig á því hversu miklu betri rósavín eru miðað við gutlið sem það var vant að drekka þegar rósavín voru vinsæl hér í gamla daga.

Ég get ekki sagt að ég sé beinlínis að moka út rósavínum þessa dagana en það getur ekki verið tilviljun þegar tveir góðir veitingastaðir hér í borg hringja í mig að fyrra bragði og spyrjast sérstaklega fyrir um rósavín. Annar þeirra, Vox, býður gestum sínum upp á rósavínin Artazuri og Mourgues du Gres Les Capitelles.

Rósavín eru ekki bara sumarvín frekar en hvítvín. Þau eru jú gleðivín, björt, fersk og hressandi. En hver slær hendinni á móti slíkum eiginleikum í skammdeginu?

Rósavín eru sömuleiðis fjölhæf matarvín, feta stíginn milli hvítra og rauðra og geta gengið í hlutverk þeirra beggja þegar svo ber við.

Færðu inn athugasemd

Filed under artazuri, frakkland, fréttir, mourgues du gres, spánn, vín

Láttu sjá þig með rósavín

Það er þetta með rósavínin. Ímynd þeirra hefur verið svo lituð af slæmum fulltrúum að það hefur næstum gleymst að til eru þau sem eru virkileg góð – kannski ekki flókin, en ánægjuleg og frískleg. Þessi fáu, góðu rósavín hafa aðallega verið drukkin í föðurhúsunum fyrir utan nokkra nörda sem hafa næstum þurft að drekka þau í laumi af ótta við að vera staðnir af verki af vínþekkjurum.

Það getur verið stutt á milli nördisma og tísku. Þá vill sá síðari tímabundið verða það sem sá fyrri einfaldlega er.

Rósavín eru komin af hliðarlínunni. Þau eru í tísku.

Láttu sjá þig með rósavín.

Láttu sjá þig með rósavínskvartettinn okkar; Domaine TempierMas Nicot, Chateau Mourgues du Gres og Artazuri.

Færðu inn athugasemd

Filed under artazuri, frakkland, fréttir, mas nicot, mourgues du gres, spánn, tempier

Chateau de Flaugergues fær 19/20 í Mbl. + fleiri vín frá Languedoc

Ég var ekki fyrr búinn að tilkynna þá glæsilegu einkunn sem CFCLCS (Chateau de Flaugergues Coteaux du Languedoc Cuvée Sommeliere) fékk í Wine Spectator, 92 stig, þegar Mogginn góði datt inn um lúguna með volgum einkunnum frá Steingrími. Þar fjallar hann í Tímariti Morgunblaðsins um sex vín undir fyrirsögninni „Suður-frönsk fyrir sólríka daga (ef og þegar)“ og eru fjögur þeirra frá okkur.

Ég er ánægður með lýsingar Steingríms, þær fanga vel andann í vínunum og einkunnirnar góðar, ekki síst fyrir Chateau de Flaugergues sem fær 19 stig af 20 mögulegum.

Mér finnst gaman að Steingrímur skildi benda á, í gamansömum tóni, að L’Oncle Charles væri sérsniðið fyrir íslenska sólpalla þar sem vínið bæri eftirnafnið „Sur la Terrace“. Ef það verður fólki hvatning til að kaupa vínið, þótt ekki nema 10% pallaeigenda (sem er u.þ.b. 10% þjóðarinnar allrar) þá verð ég ríkur maður! Einkunnin fyrir vínið var reyndar ekki svo há þótt hún væri að mínu mati passleg fyrir þetta vín, 15/20, en lýsingin var svo skemmtileg að hver veit nema að fólk fylkist til að kaupa vínið enda er það „létt og ljúft“… pallavín! — í jákvæðri merkingu þess orðs.

Steingrímur bendir á að þessi suður-frönsku vín séu kjörin sumarvín nema það vanti bara sumarið á Íslandi, en við hjá Vín og mat viljum benda fólki á að hitinn og sólin í vínunum sé ekki síður kjörin til þess að hita kalda kroppa og naprar sálir en skjólveggir og gashitarar.

Nú er komið hér í búðirnar vín sem virðist sérsniðið að íslenskum þörfum, því það ber heitið Sur la Terrace eða „Á pallinum“. Sur la Terrace mætti raunar einnig útleggja sem „Á veröndinni“, sem borgaralega sinnuðum Frökkum þætti eflaust henta betur. L’ONCLE CHARLES SUR LA TERRACE [2005] Cabernet Sauvignon-Merlot er létt og ljúft suður-franskt vín með mildum sólberja- og kirsuberjaávexti í nefi, sæmilegri lengd í munni og þurrt. 1.350 krónur. 15/20.CHATEAU MOURGUES DU GRES LES GALETTES ROUGE 2004 er vín frá franska Miðjarðarhafssvæðinu Costieres de Nimes á milli borganna Nimes og Arles. Mourgues du Gres er talið vera eitt besta — ef ekki hið besta — vínhús svæðisins og í þessu víni má finna flestar helstu þrúgur Suður-Frakklands, Syrah og Grenache ásamt Carignan og Mourvèdre. Kryddað og heitt í nefi með lakkrís, smjördeigi, vanillu, bleki, rabarbarasultu og svörtum berjum. Skarpt og kryddað í munni, langt, þurrt og þykkt. 1.600 krónur. 17/20
Annað vín frá sama framleiðanda er CHATEAU MOURGUES DU GRES TERRE D’ARGENCE 2004 og kemur það einnig frá Costieres de Nimes-svæðinu. Dæmigert suður-franskt vín með ríkjandi Syrah í þrúgublöndunni. Dökkur og heitur rauður berjaávöxtur ásamt þroskuðum plómum, ólívum og ferskum kryddjurtum. Þykkt og feitt í munni með góðri lengd. 1.900 krónur. 18/20

CHATEAU DE FLAUGERGUES COTEAUX DE LANGUEDOC [CUVEE SOMMELIERE 2003] er suður-franskt vín í hæsta gæðaflokki. Þetta vínhús er staðsett skammt frá Montpellier — einungis þremur kílómetrum frá miðbænum — og þrúgublandan er dæmigerð fyrir Miðjarðarhafssvæðið, Mourvèdre og Syrah með 40% hvor og Grenache loks 20%. Dökk sæt ber, ilmolíur/reykelsi, lavender. Vín til að smjatta á, yndislegt frá fyrsta sopa, þykkt, mjúkt og djúpt með sætum og óneitanlega nokkuð áfengum ávexti. Vín til að bera fram með grilluðu nautakjöti, krydduðu með engu öðru en sjávarsalti og nýmuldum pipar, eða grilluðu lambalæri. 1.750 krónur. 19/20

Morgunblaðið 16.7.2006 — Tímarit Morgunblaðsins bls. 20, höf: Steingrímur Sigurgeirsson

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, flaugergues, morgunblaðið, mourgues du gres

Hörpuskelfiskspagettí og Chateau Mourgues du Gres

Fersk tómatsósa hússins er af einföldustu sort. Teknir eru þroskaðir tómatar, skornir í fernt og settir á heita, þurra pönnu ásamt lauk sem líka hefur verið skorinn í fernt. Þetta mallar í svona 10-15 mínútur þar til tómatarnir eru vel linir. Þá er lauknum fleygt (eða notaður í eitthvað annað), hýðið og fræin tekin úr tómötunum og þeir síðan maukaðir í sósu. Við notum sérstakt apparat sem við keyptum á Ítalíu sem skilur hýðið og fræin frá safanum en hugsanlega er hægt að setja þetta í mixer (án hýðis samt) og síðan sigta fræin frá. Þessi sósa er líka fyrirtak á pizzur.

Sósan sem úr verður (fyrir þessari uppskrift duga 6-7 tómatar) er sett aftur á pönnu við vægan hita og bætt út í 2 msk. ostrusósa, ½ saxaður chilipipar (rauður), salt og hvítvínsskvetta. Stór hörpuskelfiskur (u.þ.b. 400 gr.) er skorinn í teninga (eða lítill hörpuskelfiskur notaður) og soðinn í sósunni í 2-3 mínútur. Þá er pannan tekin af hellunni og bætt út í 1 tsk. af fersku, rifnu engiferi, 2-3 pressuðum hvítlauksrifjum og pipar og salti eftir smekk. Sósunni er þá hellt út í soðið spagettíið (u.þ.b. 400 gr.) og bætt við fersku kryddi að vild (við notuðum salvíu, rósmarín og tímjan).

Rétturinn er dálítið sterkur þar sem í honum er chilipipar og duga þá engin of þurr eða flókin rauðvín eða hvítvín. Hinn sultukenndi ávöxtur rauðvínanna frá Chateau Mourgues du Gres gerir þau alveg prýðileg með þessum rétti. Þau hafa ákveðinn ferskleika, ekki síst ef borinn fram við 15-16°C. Spagettí er jú líka soðið í Frakklandi. Af hvítvínum þarf ilmrík og dálítið sæt vín eins og Gewurztraminer frá San Michele Appiano, Keller Riesling Von der Fels (þarf að sérpanta) eða bara freyðandi og hálfsætt Moscato d’Asti frá La Spinetta.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, keller, la spinetta, mourgues du gres, pasta, uppskrift