Category Archives: ólífuolía

Melónur og fleira frá Sikiley

valdibella_baendurBlóðappelsínurnar sem við fluttum inn frá Sikiley í vetur slóu í gegn í Frú Laugu. Margir töluðu um bestu appelsínur sem þeir höfðu smakkað og flestir voru ánægðir að sjá loksins aftur blóðappelsínur á landinu.

Við vorum afskaplega ánægð með þau viðskipti og ekki spillti fyrir að uppruninn er þessi fallega vina-eyja okkar í suðrinu sem á það skylt við Íslandið góða að spúa eldi og ösku öðru hvoru yfir fólk og sveitir.

Blóðappelsínurnar verða hér aftur í kringum jólin.

En þessi póstur átti ekki að fjalla um þessar rauðu elskur heldur annan ávöxt og öllu stærri.

Melónur.

Eftir rúma viku kemur bretti af sikileyskum, gulum melónum í Frú Laugu sem við flytjum inn sjálf eins og appelsínurnar. Þær eru lífrænt vottaðar og koma frá samlagi nokkurra bænda í Camporeale u.þ.b. 35 kílómetra frá Palermo. Með í för verður ólífuolía frá bændunum, möndlur og þrjú vín sem fara í Vínbúðirnar 1. október. Allt lífrænt.

Nú verður spennandi að sjá hvort melónurnar standast væntingar og þá geta þær orðið fastur liður á ítalska ávaxtadagatalinu okkar.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, ólífuolía, frú lauga

Hrein? Ítölsk? Ólífuolía?

Olio d’Oliva Extra Vergine. Ítölsk jómfrúarólífuolía.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að slík „ítölsk“ ólífuolía er oftar en ekki alls ekki ítölsk yfir höfuð.

Það er nóg að ólífurnar komi frá einhverju Evrópusambandsríkjanna, aðallega Spáni og Grikklandi, og þá má kalla hana „ítalska“.

Gæðastimpillinn „made in Italy“ fer að verða æði loðinn í þessu samhengi.

Evrópusambandið setur meira að segja ekkert út á þetta og styrkir allar ólífuolíur sem framleiddar eru undir ítölsku flaggi jafnt og greiðir fyrir hvern unnin líter. Það sem er þó ólöglegt er að flytja inn olíu frá öðrum löndum eins og þeim sem liggja hinu megin við Miðjarðarhafið í N-Afríku og reyna að svindla út styrki á hana.

Menn eru hins vegar grunaðir um slíkan innflutning til að verða sér úti um ódýra ólífuolíu og Evrópusambandsstyrkina í leiðinni.

Það er samt ekki nóg að „ítalska“ ólífuolían í súpermarkaðinum sé kannski ekki ítölsk, og hugsanlega afrísk, heldur er möguleiki að hún sé bara alls ekki úr ólífum skv. frétt í The New Yorker í ágúst stl. (lestu fréttina). Slíkt brugg er náttúrulega bannað en sýnt hefur verið fram á stórfellt svindl á Ítalíu þar sem olía úr fræjum, heslihnetum og öðrum óæðri hráefnum hefur verið smyglað í ítalskar ólífuolíustöðvar og þar blandað við ólífuolíu eða jafnvel runnið óblönduð í flöskur risaólífuolífyrirtækjanna ítölsku sem „hrein“, „ítölsk“, „ólífuolía“.

Hvað er til ráða?

Kaupa ólífuolíu frá litlum gæðaframleiðanda sem hægt er að treysta eins og frá vínframleiðendunum Caprai og Fontodi. Caprai fæst í Kokku á Laugaveginum og Fontodi fæst í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut. Þær eru bara ekki yndislega góðar heldur hreinar, ítalskar og örugglega ólífuolíur.

Kíktu á allan matseðilinn til að sjá allt góðgætið sem við flytjum inn

Færðu inn athugasemd

Filed under ólífuolía, caprai, fontodi, fréttir, the new yorker