Category Archives: sandhofer

Tvö snertimörk í Gestgjafanum – The Footbolt og St. Laurent Reserve

Mitt í önnum og jafnvel almennri bloggleti gleymdist að færa það til bókar að rauðvínið St. Laurent Reserve 2006 frá Hubert Sandhofer hlaut hina eftirsóttu viðurkenningu Vín mánaðarins í nýlegum Gestgjafa.

Snertimark!

Þetta kórónar frábæra útkomu Sandhofer vínanna þriggja með íslenska flöskumiðanum því hvítvínið Gruner Veltliner 2007 og rósavínið Rosando 2006 höfðu áður fengið 4 glös af fimm í Gestgjafanum.

Þeim mæðginum Dominique og Eymari finnst St. Laurent Reserve 2006 „líkjast pinot noir grunsamlega mikið“ sem er ekki undarlegt því ilmur vínsins og ekki síst fáguð áferðin minnir á þá sómaþrúgu.

Síðan þessi góðí dómur birtist hafa ekki liðið nema tvö tölublöð þar til að vín frá okkur hlýtur aftur titilinn Vín mánaðarins í Gestgjafanum, í þetta skiptið The Footbolt 2004 frá d’Arenberg.

Annað snertimark!

Við förum eiginlega hjá okkur eftir alla þessa jákvæða gagnrýnu í garð okkar vína í Gestgjafanum en erum þó aðallega þakklát fyrir þessi góðu viðbrögð og hrósum þeim fyrir þann góða smekk sem ríkir í herbúðum tímaritsins :-)

The Foobolt 2004 fær eiginlega ennþá betri umfjöllun en St. Laurent því hún hittir svo vel í mark með lýsingum eins og „hvergi neitt úr hófi“, „laust við allar öfgar sem oft finnast í shiraz-vínum“, „alvöru matarvín“ og svo ekki sé minnst á hina mjög svo hógværu fullyrðingu „frábært vín“.

 

Þetta er annað vínið frá d’Arenberg sem er valið Vín mánaðarins í Gestgjafanum því áður hafði The Laughing Magpie hlotið þá viðurkenningu með fullt stig húsa, 5 glös.

Hér birtast dómarnir í heild sinnni.

 

d’Arenberg The Footbolt 2004VÍN MÁNAÐARINS 4 1/2 glas
Hér er endurkoma eins skemmtilegasta shiraz-vín frá Ástralíu sem Vínbúðirnar hafa haft í hillum sínum og fögnum við því vel. Fjölskyldufyrirtækið d’Arenberg er skemmtilegur og hugmyndaríkur en fyrst og fremst vandaður framleiðandi og sést það glöggt á vínum þeirra. Þessi fótbolta-shiraz hefur opinn, margslunginn og kraftmikinn ilm af kryddi, mentóli, lakkrís, fjólum, bláberjum, sveskjum og plómum og létta eik í bakgrunni. Í munni er það milt með ansi góða fyllingu og þægilegt tannín. Jafnvægið er flott og má hvergi finna neitt úr hófi. Dökkur ávöxtur, krydd, fjólur, lakkrís og létt eik einkenna vínið í munni og endar það á krydd- og mokkatónum. Frábært vín. Drekkið með villibráð s.s. gæs með kryddjurtum og skógarberjum.
Verð 1.979 kr.
Okkar álit: Virkilega verl gert og laust við allar öfgar sem oft finnast í shiraz-vínum. Alvöru matarvín.“ (Gestgjafinn 14. tbl.) 

 „Hubert Sandhofer St. Laurent Reserve 2006VÍN MÁNAÐARINS 4 – 4 1/2 glas
Sankt Laurent er merkileg þrúga og ekki eru allir á eitt sammála um uppruna hennar. Austurríkismenn vilja meina að þessa sé stökkbreytt pinot noir á meðan aðrir vilja meina að svo sé alls ekki. En ásamt blaufrankisch er St. Laurent foreldri zweigelt sem er vinsælasta þrúga Austurríkis. Vínið er með opinn og margslunginn ilm af rauðum berjum, léttri eik, kaffi, vanillu, sveppum og sedrusviði. Veit ekki um aðra en mér finnst þetta líkjast pinot noir grunsamlega mikið. Í munni er það ferskt og milt með lítið og gott tannín og fallega heild. Svipuð einkenni og í nefi með sama feitlega ávöxtinn ásamt kryddi og góðum skógarbotnstónum. Endar á ávextinum og eikinni. Skemmtilegt vín sem er vel skreytt. Smellpassar með önd eða góðri steik með villisveppasóu.
Verð 2.695 kr.
Okkar álit: Drekkið við u.þ.b. 16°C. Fágað vín með góða fyllingu og mikinn sjarma. Ekki langt frá því að vera gott pinot noir frá Búrgúndí. “ (Gestgjafinn 12. tbl. )

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, dómar, Gestgjafinn, sandhofer

Rósavín með bein í nefinu

.

Nýja Sandhofer þríeykið samanstendur af þremur vínum með myndlist Kristínar Gunnlaugsdóttir, hvítvíni, rósavíni og rauðvíni.

Í síðasta Gestgjafa fékk hvítvínið Gruner Veltliner 2007 frá Hubert Sandhofer 4 glös og fín meðmæli (lestu dóminn).

Í nýjasta Gestgjafanum er röðin komin að rósavíninu, Rosando.

Það fær líka 4 glös en ég man ekki eftir að rósavín hafi nokkri sinni fengið hærri einkunn en 4 glös í Gestgjafanum.

Ég hamra stundum á því hvað rósavín séu misskilin vín vegna þess að reynsla fólks af rósavínum byggist yfirleitt á ódýrum, hálfsætum og frekar ómerkilegum rósavínum. Fólk áttar sig t.d. oft ekki á því hversu frábært gott rósavín getur verið með mat þar sem það gengur oft í hlutverk bæði hvítvína og rauðvína. Fiskur af flestu tagi steinliggur með Rosando, salöt og léttari kjöttegundir eins og kjúklingur og svínakjöt auk þess að það er þægilegt eitt og sér.

Rósavín eins og Rosando eru vín til daglegs brúks, ef góð þá oft einlæg, aðgengileg og fjölhæf í eldhúsinu.

En að dóminum:

Sandhofer Rosando 20064 glös
Enn og aftur erum við að smakka vín Íslandsvinarins Huberts Sandhofer. Í þetta sinn er það rósavín sem er gert úr Cabernet Sauvignon og Blaufrankisch og er útkoman ansi skemmtileg. Mjög aðlaðandi og ilmríkt. Vínið hefur ansi góða byggingu og hressandi ferskleika þegar smakkað er á því og þar er að finna sömu einkenni og í ilminum. Þéttur ávaxtakeimurinn sameinast vel við ferskleikann og er fyllingin það sem setur punktinn yfir i-ið. Drekkið með risarækjum, jafnvel í asískum stíl.
Okkar álit: Virkilega skemmtilegt rósavín með bein í nefinu. Matarvænt en gengur einnig eitt og sér. “ (- Gestgjafinn 11. tbl. 2008)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, rósavín, sandhofer

Ísland í dag — viðtal við Hubert Sandhofer

Ísland í dag tók viðtal við Hubert Sandhofer í gær.

Hér má skoða viðtalið

Viðtalið var tekið daginn áður enda vorum við Hubert uppteknir við að gefa fólki að smakka vín á Vínbarnum þegar það fór í loftið í gær.

Smakkið gekk annars ljómandi vel, Vínbarinn fylltist af gestum og gangandi og ekki annað að segja en að góð stemning sé fyrir vínunum þremur sem komu á markað í sumar með myndlist eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur.

Vínin hafa gengið vel í Vínbúðunum en þau fást sem stendur eingöngu í Kringlunni og Heiðrúnu.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, sandhofer, vínbarinn, viðtal

Land der Berge, Land am Strome — vínkynning á Vínbarnum í dag

.

Hubert Sandhofer er mættur til landsins og getur ekki beðið eftir því að leyfa þér og öllum hinum að smakka vínin sín á Vínbarnum í dag kl. 17.00.

Vonandi hefur það ekki farið framhjá neinum að um er að ræða þrjú vín með myndlist eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem við, Hubert, Kristín og nokkrir góðir aðilar völdum í sameiningu snemma á vor-dögum.

Þar sem smökkunin á eftir er kynning en ekki námsskeið er ekki nauðsynlegt að koma á slaginu 17.00 heldur er hægt að detta inn hvenær sem er á milli 17.00 og 19.00 til að kynnast vínunum nánar.

Sem fyrr eru vínin þrjú: hvítvínið Grüner Veltliner 2007, rósavínið Rosando 2006 og rauðvínið St. Laurent Reserve 2006.

„Land der Berge, Land am Strome“hér má hlusta á þjóðsöng Austurríkis til að koma sér í stemninguna.

Og ef þú ert ekki búinn að sjá og hlusta á Hubert sjálfan lýsa verkefninu og víngerðinni má gera það hér.

Vínbarinn er á Kirkjutorgi 4, við hliðina á Dómkirkjunni. Við hlökkum til að sjá þig og endilega kipptu einhverjum með.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, sandhofer, vínbarinn, vínsmökkun

Matarvænt Grüner Veltliner 2007 í Gestgjafanum

Gestgjafinn fjallar um Grüner Veltliner 2007 í nýjasta tölublaðinu og gefur því flotta einkunn, 4 glös.

Í sama blaði er heilsíðugrein um Kristínu Gunnlaugsdóttur og Sandhofer-vínin (bls. 75) en það er einmitt myndlist Kristínar sem prýðir flöskurnar. Greinin klikkir skemtilega út með eftirfarandi setningu: „vínið er prýðilegt og greinilegt að hér eru á ferðinni tveir listamenn, hvor á sínu sviði.“

Þriðjudaginn 19. ágúst kl. 17.00 verður kynning á Sandhofer vínunum á Vínbarnum.

Hubert Sandhofer Grüner Veltliner 2007 – 4 glös
Hubert Sandhofer er mikill Íslandsvinur og hefur sú vinátta m.a. skilað sér í íslenskri list á flöskumiðunum hans. Einnig var þetta vín þróað, að hluta til, í samvinnu við íslenska vínnörda. Hubert kom með nokkrar útgáfur af Grüner Veltliner, fékk álit nördana og van svo vínið eftir athugasemdum. Hér erum við með niðurstöðuna. Vínið er svolítið lokað til að byrja með en fljótlega brjótast út blómlegir tónar í bland við hvíta ávexti, s.s. perur, og einnig mild krydd. Einfaldur og mjög þægilegur ilmur. Frískleg áferð sem er samt sæmilega kraftmikil, miðað við þrúguna, og létt fylling. Góður ávöxutr, hvítur pipar og grösugir tónar. Ansi langt eftirbragð og gott jafnvægi. Ætti að svínvirka með salati með austurlenskum blæ.
Verð. 1.794 kr.
Okkar álit: Kraftmeira og þéttara en önnur Grüner Veltliner-vín sem við höfum smakkað. Matarvænt og vel gert! “ (- Gestgjafinn 10. tbl. 2008 bls. 74)

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, myndlist, sandhofer

Viðtal í 24 Stundum í dag vegna íslenskrar myndlistar á vínum frá Sandhofer

.

Bloggarinn og Kristín Gunnlaugsdóttir eru í viðtali í dagblaðinu 24 Stundum í dag vegna vínanna frá okkar manni í Austurríki Hubert Sandhofer.

Eins og hér hefur áður komið fram eru flöskurnar prýddar myndlist Kristínar og hefur hún áritað fyrstu flöskurnar sem fóru í Vínbúðirnar.

Þarna eru myndir af öllum miðunum, ein af bloggararnum og Kristínu og ein til af Kristínu einni en einhverra hluta vegna hafði ljósmyndari blaðsins ekki áhuga á að taka myndir af bloggaranum einum og sér í öllu hans veldi.

Við veltum því aðeins fyrir okkur af hverju blaðið notar vín alltaf í eintölu frekar en fleirtölu en sjálf höfum við vanið okkur á fleirtöluna þegar um er að ræða flöskur og tegundir, þ.e.a.s. „þessi vín“ frekar en að líta á vöruna eins og hvert annað „hveiti“. s.br. „þetta hveiti“. Þó fallbeygjum við nafn fyrirtækisins í eintölu, „til víns og matar“.

Annars er greinin ljómandi góð og þökkum við 24 Stundum kærlega fyrir okkur.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, sandhofer, viðtal

Biluð strikamerki – St. Laurent Reserve frá Sandhofer komið aftur í Vínbúðirnar

.

Það var einhver óheppni að strikamerkin á St. Laurent Reserve frá Sandhofer fóru illa í lesarana í Vínbúðunum og þurftum við að sækja allt saman og setja ný strikamerki á flöskurnar.

Okkur þykir miður ef einhver fór fýluferð í Vínbúðirnar og var stoppaður við kassann vegna grunsemda um að hafa undir höndum illlæsilegt strikamerki en viðkomandi getur tekið gleði sína aftur því vínið er komið aftur í hillur Vínbúðanna og bíður eftir því að fara til nýs eiganda.

Færðu inn athugasemd

Filed under sandhofer, vínbúðirnar