Category Archives: umani ronchi

Uppskrift: Risotto og risottobollur

Risotto er einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar, matarmikill og bragðmikill, en samt léttur og góður í maga.

Hér er grunnuppskrift af risotto en hægt er að bæta hverju því sem hugurinn girnist við í uppskriftina undir lokin, svo sem humri, rækjum, sveppum af ýmsu tagi, eða jafnvel léttsteiktum rauðrófum (sem gera fallega bleikt risotto) eða kampavínssoðnum jarðarberjum fyrir sumarlegt jarðarberjarisotto.

3-500 g Arborio hrísgrjón (þetta eru hin einu sönnu risottogrjón og ekki viðeigandi að nota staðgengla)
Einn góður gulur laukur, smátt saxaður
Góð ólífuolía (kaldpressuð jómfrúarolía – maður þarf nú varla að taka það fram í dag)
Kjúklingasoð (nóg af því – heimagert er best en hægt að notast við keypt, athugið að gott er að nota dagsgamla súpuafganga sem soð, sér í lagi kjötsúpu eða kjúklingasúpu eða tæra grænmetissúpu (stærri bitar eru síaðir frá súpunni)).
Um 1 dl. nýrifinn parmeggiano reggiano eða grana padano ostur
Ferskur svartur pipar úr kvörn

Best er að nota góðan, þungan pott. Ólífuolíu er skvett vel yfir botninn á pottinum og smátt söxuðum lauknum skellt út í. Laukurinn er látinn gyllast (alls ekki brúnast eða brenna).
Þá er arborio grjónum bætt í og þau rétt látin gyllast í olíunni og lauknum (ekki of lengi).
Þá er soðinu bætt í, um hálfu glasi í einu og hrært vel (athugið að hafa ekki of mikinn hita). Haldið er áfram að bæta soðinu í af og til þar til grjónin eru soðin (þá eru þau mjúk að utan með örlítið stökkari kjarna innst – besti mælikvarðinn er að smakka af og til þar til þessu stigi er náð).
Nú er potturinn tekinn að af hellunni og rifinn parmeggiano/grana hrærður saman við. Þá er ferskur svartur pipar mulinn yfir (vel af honum).

Risotto er einnig mjög gott daginn eftir. Það má vel borða kalt sem meðlæti með öðrum mat, eða búa til úr því bollur og steikja á pönnu:

Risottobollur daginn eftir:
Kalt risotto
Mozzarella ostur (ef vill)
Hvítt hveiti
3 hrærð egg
Brauðmylsna

Mótaðar eru risottobollur utan um litlar mozzarellakúlur,  svo kældar í ísskáp í nokkra stund (einnig má búa til gegnheilar risottobollur).
Bollunum er svo velt upp úr hveiti, síðan upp úr eggjahræru og síðast upp úr brauðmylsnu og þær steiktar á pönnu í ólífuolíu þar til þær eru gylltar að lit.

Buon appetito

Val á víni fer eftir því hverju er bætt til viðbótur við uppskriftina út í risotto-ið. Ef uppskriftin er einföld eins og hér fyrir ofan þá gengur bæði rautt og hvítt, eitthvað einfalt og gott eins og Montepulciano d’Abruzzo eða Verdicchio frá Umani Ronchi.

Ein athugasemd

Filed under umani ronchi, uppskrift

Framboðstilkynning

… djók!

Undirritaður er ekki á leið í framboð.

Hann ætlar ekki í framboð heldur að auka framboð, á ódýru víni.

Smjattpattar fyrirtækisins hafa hist undanfarið á leynilegum stöðum víðsvegar í höfuðborginni við að skoða og smakka á sýnishornum frá hinum og þessum framleiðendum, aðallega nýjum framleiðendum.

Að sjálfsögðu mætum við kreppunni með mátulega kæruleysislegu brosi á vör (svona eins og James Bond er með þegar hann mætir erkióvini sínum) þ.e.a.s. við vanmetum hana ekki en erum viss um að sigrast á henni.

Við erum heppin að vera með lítið fyrirtæki sem getur verið sveigjanlegt eftir þörfum. Við blásum því til sóknar því stundum er sókn besta vörnin.

Ný vín væntanleg í framboð á okkar lista eru flest ódýr en uppfylla öll okkar skilyrði um að vera góð og spennandi. Nokkur hafa fengist hér áður, t.d. Chianti frá Castello di Querceto og Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi sem bæði hefja sölu 1. apríl og einnig nýtt og ódýrt Verdicchio hvítvín frá Umani Ronchi. Svo eru nýir framleiðendur frá Rhone í S-Frakklandi á sjóndeildarhringnum, Chateau de Montfaucon og stórskemmtileg „Little James“ vín frá Domaine Saint Cosme. Ýmislegt fleira, freyðandi, s-ítalskt, jafnvel portúgalskt er á sjóndeildarhringnum.

Að ógleymdum kassavínsbeljum sem munu baula í fyrska skipti á okkar vegum með hækkandi sól, með rassinn upp í vindinn.

Munið svo að kjósa rétt.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, umani ronchi, vangaveltur

Lítið djásn frá Lini fjölskyldunni

Það er nokkuð síðan að vínin okkar fengu umfjöllun í Morgunblaðinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að opna sunnudagsmogga einn fyrir jól og lesa þesa fínu umfjöllun sem þar birtist um hvítvínin Pecorino 2007 frá Umani Ronchi (88 stig) og Grecante 2007 frá Arnaldo Caprai (91 stig) en þó sérstaklega um hið skemmtilega Lambrusco Scuro frá Lini (91 stig).

Steingrímur fangar mjög vel karakter þessara þriggja vína í lýsingum sínum á þeim.

Þannig finnst honum Pecorino anga m.a. af „fersku grasi“ og „steinefnum“ og Grecante einkennast af dæmigerðri ítalskri „lífsgleði“.

En Lambrusco Scuro virðist alveg hafa slegið í gegn hjá honum því ekki man ég eftir umfjöllun hér á landi um lambrusco vín sem fjallað er um svo lofsamlega — nema ef vera skyldi umfjöllun Gestgjafans um sama vín fyrir skömmu (lestu dóminn í Gestgjafanum sem velur vínið Bestu kaupin).

Honum finnst Lambrusco Scuro vera „lítið djásn“ og mælir með því „fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.“

Og ekki spillir fyrir hvað flaskan er flott.

Svona lítur öllu umfjöllun Steingríms um okkar vín út, eins og hún birtist undir fyrirsögninni „Getur vín verið sauðslegt?“:

„Ég myndi ekki halda því fram að það væri sauðslegt en Pecorino 2007 er engu að síður vín – eða öllu heldur þrúga – sem dregur nafn sitt af rollum. Á þessu eins og öllu öðru eru til skýringar, eftir að vínviðurinn og búsmalinn höfðu deilt rými um alda skeið ætti engum að koma á óvart að þau dragi dám hvort af öðru. Hagar Pecorino hafa verið við Adríahafsströnd Ítalíu en hún hefur löngum fyrst og fremst verið notuð til blöndunar, þ.e. að veita öðrum þrúgum smásýruskot þegar þurft hefur á að halda.

Vínhúsið Umani-Ronchi (sem íslenskir vínunnendur þekkja flestir í gegnum hvítvínið Casal di Serra) setti fyrir nokkrum árum í gang athyglisvert verkefni er miðar að því að endurvekja margar af óþekktari þrúgum austurstrandar Ítalíu. Kannski ekki ósvipað og Torres hefur gert með þrúgur Katalóníu.

Pecorino 2007 er ferskt í nefi með fersku grasi, hveiti og geri, gulum perum og steinefnum (hveravatni). Sýran gerir vínið létt og lipurt og það ætti að vera ágætis fylgifiskur með t.d. salati og bleikju. 88/100

Annað hvítvín frá Ítalíu er Grecante úr smiðju Arnaldo-Caprai, eins besta framleiðanda Úmbríu. Ef maður vill alhæfa má segja að gott franskt vín einkennist gjarnan af mikilli fágun. Gott ítalskt vín hins vegar af lífsgleði. Það á við hér. Aðlaðandi og ferskur, sætur ávöxtur. Granny Smith-epli og perur, ferskar fíkjur og blóm. Það hefur þægilegt og ferskt bit og góða lengd. Tilvalið með flestu. 1.889 krónur. 91/100

Lambrusco-vín þykir ekki fínn pappír hjá mörgum vínunnendum sem gretta sig og fetta þegar þeir heyra þetta orð nefnt. Ég skal fyrstur játa að Lambrusco-nafnið er ekki gæðastimpill í sjálfu sér en rétt eins og með t.d. Soave og Valpolicella er hættulegt að alhæfa. Lambrusco getur nefnilega verið afbragð. Ólíkt því sem flestir halda er Lambrusco ekki samheiti yfir lélegt, sætt rautt freyðivín heldur þrúga en vissulega er framleitt úr henni lélegt, sætt rautt freyðivín. Það er líka framleitt úr henni þurrt rautt freyðivín sem er allt að því unaðslegt, ekki síst með góðum hádegisverði einhvers staðar í sveitum Ítalíu.

Lini-fjölskyldan er ein þeirra sem framleiða Lambrusco samkvæmt gömlum hefðbundnum aðferðum, ekki ósvipuðum þeim sem notaðar eru við framleiðslu á kampavíni. Þetta er alvöru vín og valkostur fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.

Lini 910 Lambrusco Scuro er lítið djásn, berjaríkt og ferskt með ferskri sýru og allt að því tannískt. Það vinnur á við hvern sopa. Ég myndi jafnvel reyna það með hangikjöti. 1.695 krónur. 91/100„. (Mbl. Steingrímur)

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, dómar, lini, morgunblaðið, umani ronchi

Nokkrir framleiðendur með nýjar vefsíður

Nokkrir af framleiðendunum okkar hafa verið að endurnýja vefsíðurnar sínar. Þær eru ansi flottar sumar og greinilegt að metnaður og tækni við hönnun vefsíða fer almennt fram.

Það er varla tilviljun að fjórir af fimm framleiðendum sem hafa nýlegast endurnýjað vefsíðurnar sínar eru einmitt í hópi þeirra stærstu sem við flytjum inn. Þeir geta einfaldlega sett meiri pening í verkefnið.

Á meðan eru vefsíður sumra ennþá frekar sveitalegar, sérstaklega hjá þeim smærri, og sumir hafa alls enga.

Fjórir Ítalír er með nýjar vefsíður, FalescoArnaldo Caprai, Umani Ronchi, og Montevetrano. Arnaldo Caprai er líklegast tæknilegast framleiðandinn okkar og er alltaf skrefi á undan öðrum á sviði markaðssetningar og ýmissa sniðugheita.

Nýjasta endurnýjunin gekk svo í garð í þessari viku hjá d’Arenberg í Ástralíu en eins og Arnaldo Caprai er d’Arenberg með skemmtilegar hugmyndir í ímyndarvinnu fyrirtækisins.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, d'arenberg, falesco, montevetrano, umani ronchi, vefsíður

Átta ný vín frá Ítalíu fara í Vínbúðirnar í dag

Lítil bylting í gangi hér.

Ekki á hverjum degi sem við sendum átta ný vín í Vínbúðirnar. Þessi hersing er afleiðing af heimsókn bloggarans á Vinitaly vínsýninguna í vor (lestu meira um heimsóknina).

Frá Arnaldo Caprai eru tvö ný vín með sama nafni, Anima Umbra rautt og Anima Umbra hvítt, sem ætlað er að fanga anda Úmbría héraðsins eins og nafnið „anima umbra“ gefur til kynna. Þau eru með sniðugum flipa aftan á flöskunni með nafni vínsins sem hægt er að fjarlægja. Umani Ronchi er sömuleiðis að spreyta sig á nýju víni, Pecorino Vellodoro, sem kemur frá vínekrum framleiðandans í Abruzzo héraði. Hvítt og rautt frá Falesco eru með í för, Poggio dei Gelsi og Tellus, bæði frá Lazio héraði. Síðan er það alveg nýr framleiðandi, Lini í Emilia Romagna héraðinu, og koma frá honum tvö freyðandi vín, rautt Lambrusco og hvítt Moscato, en frá Lini höfum við einnig fengið Balsamik edik. Að lokum er það Chianti Classico frá Fontodi sem er nú tæplega alveg nýtt en það er að byrja aftur í vikunni eftir nokkurt hlé frá Vínbúðunum.

Fimm framleiðendur frá fimm mismunandi héruðum á Ítalíu. Tilviljun eiginlega að öll þessi héruð liggja gott sem upp að hvert öðru á miðju stígvélinu.

Vínin átta fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni frá og með morgundeginum.

4 athugasemdir

Filed under ítalía, caprai, falesco, fontodi, lini, umani ronchi, vínbúðirnar

Fiskiveisla í Vínbúðunum

.

Það er fiskiveisla í Vínbúðunum í apríl.

Þar verður ekki boðið upp á úrval fiskirétta beint af grillinu, gestakokka og ferskan krækling ásamt úrvali hvítvína sem hægt er að smakka á staðnum.

En þar er hægt að nálgast þennan bækling með fiskiuppskriftum ásamt lista af góðum hvítvínum til að drekka með, heima hjá sér, eins og The Stump Jump og Casal di Serra.

Við drögum upp gamlan límmiða af því tilefni hér til hægri. 

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, matur, umani ronchi, vínbúðirnar

Cùmaro með kjötrétti nr. 1 á Vox — Food and Fun

.

Við fórum á Vox um daginn og fengum okkur árstíðarmatseðil ásamt vínum. Allavegana fékk ég mér vínin með en Rakel fékk þann skemmtilega kost að smakka örlítið af hverju víni án þess að fá fullt glas. Var það vel boðin hugmynd af þjóninum okkar honum Gunnlaugi þar sem Rakel er með lítið kríli í fullu fæði og vildi ekki allan vínpakkann en gat með þessum hætti bragðað á öllu og fylgt mér eftir.

Maturinn var fyrirtaksgóður og súper-sommelierinn Alba sá til þess að vínin pössuðu afskaplega vel með.

Eitt þessara vína var rauðvínið okkar Cùmaro Riserva 2004 frá Umani Ronchi, parað með einhverju sem ég skrifaði ekki niður og man ekki hvað hét og kalla því bara kjötrétt nr. 1. Jú það var víst gæs allavegana. Small vel með og var unun að drekka vínið í sínu besta umhverfi.

Svo vel rann Cùmaro með árstíðarseðlinum að Alba ákvað að halda því með Food and Fun matseðlinum sem þessa dagana er í fullum gangi á Vox. Með hverju það er borið fram þar er ég ekki viss en ég treysti því fullkomnlega að Alba hefur parað það af kostgæfni.

Það er óhætt að mæla með ferð á Vox.

Smelltu hér til að sjá hvaða vín við eigum á föstum vínlista Vox

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, umani ronchi, vínseðill, veitingastaðir, vox