Category Archives: vangaveltur

Hvernig gengur? Dagur í lífi sprúttsala.

Hvaða spurning brennur helst á vörum fólks þessa dagana þegar efasemdir, áhyggjur og óöryggi einkenna þjóðfélagið?

Líklegast sú klassíska „Hvernig gengur?“ — spurning.

Þýðingin er aðeins þrungnari en hér áður. Nú má búast við á að sá sem svarar sé í alvarlegum fjárhagskröggum, atvinnulaus eða jafnvel gjaldþrota.

Við fáum þessa spurningu oft þessa dagana, mun oftar en áður. Hvernig gengur? Er fólk ennþá að kaupa vín?

Svarið  — jú, líklegast gengur bara vel. Allavegana höldum við að víninnflutningur sé í betri málum en margur annar innflutningurinn. Fólk er ennþá að drekka vín. Kunnum ekki almennilega skýringu á því en kannski vegna þess að fólk eyðir meira í gæða heimavið frekar en erlend ferðalög og spreðerí. Neyslan virðist ekki minni en hefur færst niður á við í verðflokkum þótt millidýr vín séu að seljast ágætlega ennþá.

Svo er ekki til neitt sem heitir „notuð vín“ eða „íslensk vín“ !

Nauðsynlegasta fararteskið þessa dagana sem endranær — tvöfaldur espresso —  nei ég meina, bjartsýni, skynsemi og gott skap.

Hvernig við bregðumst við lægðinni á ennþá eftir að koma í ljós. Dýrari vín eru færri hjá okkur en áður þótt eitthvað slæðist með. Átak í ódýrari vínum (þ.e.a.s. undir 2.000 kr !!!) hefur verið í gangi en var næstum rústað af tollahækkunum stjórnarinnar. Þá má alveg eins búast við nánari naflaskoðun á ennþá ódýrari vínum en Vín og matur verður að viðurkenna — okkur finnast bara svo góð vínin sem kosta aðeins lítið meira en gefa okkur mikið meira.

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Framboðstilkynning

… djók!

Undirritaður er ekki á leið í framboð.

Hann ætlar ekki í framboð heldur að auka framboð, á ódýru víni.

Smjattpattar fyrirtækisins hafa hist undanfarið á leynilegum stöðum víðsvegar í höfuðborginni við að skoða og smakka á sýnishornum frá hinum og þessum framleiðendum, aðallega nýjum framleiðendum.

Að sjálfsögðu mætum við kreppunni með mátulega kæruleysislegu brosi á vör (svona eins og James Bond er með þegar hann mætir erkióvini sínum) þ.e.a.s. við vanmetum hana ekki en erum viss um að sigrast á henni.

Við erum heppin að vera með lítið fyrirtæki sem getur verið sveigjanlegt eftir þörfum. Við blásum því til sóknar því stundum er sókn besta vörnin.

Ný vín væntanleg í framboð á okkar lista eru flest ódýr en uppfylla öll okkar skilyrði um að vera góð og spennandi. Nokkur hafa fengist hér áður, t.d. Chianti frá Castello di Querceto og Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi sem bæði hefja sölu 1. apríl og einnig nýtt og ódýrt Verdicchio hvítvín frá Umani Ronchi. Svo eru nýir framleiðendur frá Rhone í S-Frakklandi á sjóndeildarhringnum, Chateau de Montfaucon og stórskemmtileg „Little James“ vín frá Domaine Saint Cosme. Ýmislegt fleira, freyðandi, s-ítalskt, jafnvel portúgalskt er á sjóndeildarhringnum.

Að ógleymdum kassavínsbeljum sem munu baula í fyrska skipti á okkar vegum með hækkandi sól, með rassinn upp í vindinn.

Munið svo að kjósa rétt.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, umani ronchi, vangaveltur

Skoðanakönnun um miðana á flöskunum okkar

Miðarnir hafa nú verið á flöskunum okkar í meira en tvö ár.

Fyrst voru dýramyndir sem þá prýddu, síðan kom nýtt módel þar sem stílað var inn á einfaldleikann.

Enn á ný hugsum við okkur til hreyfings með nýja seríu af miðum og þætti okkur vænt um að heyra skoðanir sem flestra um notagildi miðanna:

Finnst þér miðinn yfir höfuð eiga að vera?

Notar þú þá til að þekkja flöskurnar í hillunum?

Heldur þú að þeir vekja jákvæða forvitni þeirra sem þekktu miðana ekki áður?

Fannst þér miðinn betri nú (stílhreinn) eða áður (dýr o.fl.)?

Hefur þú hugmyndir sem þú vilt deila með okkur um hvernig þeir gætu litið út og hvað fram mætti koma á þeim þegar ráðist verður í gerð nýrrar seríu?

Þín skoðun skiptir öllu máli.

Takk fyrir að taka þátt.

Smelltu hér til að skoða gömlu seríuna með dýramyndunum 

Smelltu hér til að skoða úrval miða sem notuðum til að velja nýjasta miðann úr

Færðu inn athugasemd

Filed under límmiðar, vangaveltur

Búin að uppfæra verðin á vefsíðunni, eina ferðina enn!

Oftast hefur okkur gengið vel að halda vefsíðunni vel uppfærðri. Hvað varðar upplýsingar um vínin sjálf þurfti lítið að gera því verð höfðu ekki verið að breytast svo mikið, helst voru upplýsingar um nýja árganga sem þurfti að uppfæra.

Í ruglinu sem hefur gengið á síðustu mánuði hafa verðin hins vegar breyst hraðar en síðust 5 ár samanlagt og uppfærslan því setið á hakanum.

Nú er undirritaður búinn að bretta upp ermar og setja réttar upplýsingar (þar til annað kemur í ljós) um hvað vínin kosta og hvaða árgangur eru fáanlegir.

Náttúrulega eru ýmis vín og framleiðendur á vefsíðunni sem eru hér um bil óvirkir því við höfum ekki flutt inn frá þeim í nokkurn tíma og eigum jafnvel ekkert til. Við höfum samt látið þá halda sér inni á vefsíðunni áfram í flestum tilfellum því ekki er loku skotið fyrir að margir þeirra muni snúa aftur til landsins. Tveir spánskir framleiðendur voru samt fjarlægðir og nokkur vín voru tekin út sömuleiðis til að snyrta aðeins til.

Hér má sjá alla framleiðendur og vínin frá þeim

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Vín í vanda

Það hefur ekki farið framhjá neinum að innflutningur til Íslands liggur gott sem niðri.

Við erum ágætlega birg af þeim vínum sem fást í Vínbúðunum þessa stundina en þetta kemur hugsanlega til með að hafa áhrif á innkomu nýju vínanna sem sérfræðingar Vínbúðanna völdu nýlega í svokallaðan Sérflokk. Vín og matur fékk þar tæplega 20 fulltrúa sem fæstir hafa fengist áður í Vínbúðunum.

Sérflokkur er flokkur vína í Vínbúðunum sem byggist á smakki sérfræðinganna og er ætlað að gera vínum kleyft að fást í Vínbúðunum sem annars ættu erfitt uppdráttar. Þ.e.a.s. flokkurinn bætir upp og breikkar flóruna með vínum frá t.d. sjaldgæfari vínræktarsvæðum eða úr ákveðnum þrúgum, lífrænum vínum, dýrari vínum o.s.frv.

Fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar sem fæst einmitt talsvert við slík vín þá er Sérflokkurinn mikilvæg og góð leið til að tryggja okkar vínum betri sess í hillum Vínbúðanna en ella, bæði með tilliti til fjölda tegunda og dreifingar því sérflokksvínum er dreift í margar Vínbúðir.

Gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt undanfarið en veikt og því höfum við haldið að okkur höndum með von um að það styrktist en svo virðist ekki ætla að gerast í bráð. Sérflokksvínin eru því enn í biðstöðu en við lifum í voninni að einhver þeirra a.m.k. verði fáanleg fyrir jól. Hvort maður fær svo að kaupa gjaldeyri til að flytja þau inn yfir höfuð höfum við ekki hugmynd um því ekki hefur reynt á það ennþá síðan núverandi ástand skapaðast.

En það verður til vín, já, já, það verður til vín.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur, vínbúðirnar

Fjárfest í víni — Wine Investment 2008

Það hefur löngum loðað við vín sú míta að í því væri góð fjárfesting.

Eitthvað sem héti að kaupa „á réttum tíma“ sem yfirleitt þýðir að kaupa vín um leið og það kemur á markað meðan verð er tiltölulega lágt eða jafnvel að kaupa vín áður en það kemur á markað, svokallað „future“ eða „en premieur“ eins og það heitir á frönsku. Slík framtíðarvín eru oft greidd að hluta jafnvel tveimur árum áður en þau mæta síðan sjálf á svæðið.

Hvað felst í góðri fjárfestingu er svo aftur á móti matsatriði. Ætli maður að selja vínið aftur og græða pening á mismuninum er þessi fjárfesting bundin við ákveðin ofur-vín sem eiga rætur sínar að rekja til Búrgúndar og Bordeaux en einnig til ákveðinna svæða eða stakra framleiðenda á Spáni, Ítalíu og víðar í gamla heiminum. Í nýja heiminum er það helst Kalífornía sem framleiðir vín sem hægt er að græða á með endursölu eða Ástralía.

Árgangar og einkunnir frægra vínspekúlanta skipta miklu máli og enginn vafi leikur á því að Robert Parker er áhrifamestur allra þegar kemur að einkunnagjöf.

Það sem spennir upp verð víns er fyrst og fremst fágæti þess, fyrir utan gæðin að sjálfsögðu. Því sjaldgæfara, þeim mun betra og í góðum árgöngum eða eftir háa einkunn Parkers getur verið nánast ómögulegt að nálgast ákveðin vín. Í slíkum aðstæðum er gott að hafa keypt snemma ef maður yfir höfuð kemst í tæri við slík vín og selja síðan með álagningu sem getur verið margfalt innkaupsvirði vínsins ef eftirspurnin er næg.

Fjárfesting felst líka í ánægju, að kaupa vín á sanngjörnu verði miðað við gæði og framboð og njóta í góðum félagsskap með góðum mat. Slíka ánægju er erfitt að mæla í peningum.

En að efni póstsins.

Okkur barst góð ábending um ráðstefnu í London 2. desember. Þar verða þessi mál rædd sem viðruð eru hér fyrir ofan undir yfirskriftinni Wine Investment 2008.

Ef ég ætti að reyna meta hvaða vín sem við höfum flutt inn hefur ávaxtast best, mælt í peningum, myndi ég segja Atlantis rauðvínin tvö frá Sine Qua Non og eitthvert Búrgúndarvínanna af 2005 árgangi sem komu í janúar á þessu ári. Miðað við upplýsingar á vefnum hafa vínin frá Sine Qua Non nú þegar þrefaldast miðað við hvað þau voru seld á hér hjá okkur.

Ný vín frá Búrgúnd eru væntanleg eftir fáeinar vikur og ný vín frá Sine Qua Non koma vorið 2009.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, london, ráðstefnur, robert parker, sine qua non, vangaveltur

Litla ljóta Krónan

Þetta er sagan af litlu ljótu Krónunni.

Krónan er fallegur svanur, háfleygur og vængbreiður, sem hefur sig á loft frá tjörninni en flýgur á Seðlabankann, vængbrotnar og fellur til jarðar. Illa útleikin og óþekkjanleg vafrar hún um Borgartúnið þar sem enginn trúir að hún sé í raun svanur, hvað þá að hún hafi einu sinni flogið.

Sagan af litlu ljótu Krónunni er ekki ennþá búin. Enginn veit hvort hún fari á sjálfstyrkingarnámsskeið og hefji sig aftur til flugs eða hvort hún verður endanlega útskúfuð, dragi sig inn í skel og komi aldrei aftur út.

Ég hef verið spurður að því hvort fall krónunnar muni hafa áhrif á sölu vína og hef þá svarað í bjartsýni að nei, líklegast ekki nema hvað hugsanlega færist neyslan tímabundið enn meira í ódýrari verðflokka því þar mun áhrifa gengisfallsins gæta síst. Ástæðan er sú að á öllum vínum er áfengisskattur sem getur verið tvöfalt eða þrefalt hærri en raunverlegt innkaupsverð ódýrs víns og þar sem að gengisfallið hefur bara áhrif á innkaupsverð munu ódýrari vínin hækka minna. Því dýrara sem vínið verður hækkar hlutfall innkaupsverðs og því mun meiri áhrif hefur gengisfallið þar.

Skammtímagengissveiflur hafa haft frekar lítil áhrif á verð okkar vína hingað til enda ómögulegt að vera að hækka vín nokkra tíkalla upp bara til að lækka aftur nokkrum vikum eða mánuðum síðar. Frekar tekur maður eitthvað meðalgengi og námundar síðan svo verð haldist sem stöðugast. Öðru máli gildir um breytingar á gengi til lengri tíma eða þá ýktar sveiflur eins og fallið sem við erum að horfa á núna.

Því miður er ekki hægt að námunda niður á við þegar krónan fellur um 30%. Það eru því hækkanir framundan. Sem betur fer vorum við búin að greiða flesta reikninga og mun hækkana ekki gæta alveg strax en eftir fáeina mánuði verður landslagið töluvert breytt.

Það er því margt vitlausara en að fara ú í Vínbúð til að kaupa sér lager á gamla genginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur

Franskar þverstæður í auglýsingum og umfjöllun á áfengi

Það virðist undarlegt að á meðan sífellt fleiri rannsóknir benda til góðra áhrifa léttvínsneyslu í hófi, bæði á sál og líkama, þá eru viðurlög gegn vínneyslu víða að herðast.

Frakkar af öllum þjóðum ákváðu ekki fyrir löngu að banna áfengisauglýsingar í sjónvarpi. Þegar bannið var lagt fram lögðust franskir víngerðarmenn ekki nægilega vel gegn því þar sem að þeir töldu sig of litla yfir höfuð til að stunda slíka auglýsingamennsku og að bannið myndi hins vegar gera erlendum risakeppinautum þeirra erfiðara fyrir að herja á þeirra heimamarkað með auglýsingarherferðum í sjónvarpi. M.ö.o. þeir töldu sig vera að vernda sinn hag.

Áfengisauglýsingar í dagblöðum og tímaritum eru hins vegar leyfðar svo framarlega sem þeim fylgi texti um skaðsemi áfengis.

Nú renna hins vegar á þá tvær grímur í kjölfar dómsúrskurðar þar sem ANPAA (Franska áfengis- og vímuefnaforvarna-ráðið) hefur sigrað í máli sem það höfðaði á hendur dagblaðsins Le Parisien þar sem fjallað var um kampavín í blaðinu og birtur listi í því sambandi yfir ákveðin vín, verð og hvar þau væru fáanleg. Le Parisien var sektað um 5.000 Evrur.

Dómurinn mun hugsanlega hafa fordæmisgildi þannig að allar víntengdar skriftir í frönskum dagblöðum þurfa að hafa viðvörunartexta um skaðsemi áfengis.

Þverstæðurnar birtast svo best í því að frönsk yfirvöld eru á einn veginn að hamla útbreiðslu franskrar vínframleiðslu í sínu landi í gegnum ANPAA en breiða hana út til annarra landa í gegnum hin ýmsu samtök sem vinna að markaðssetningu franskar vínmenningar.

Denis Saverot, ritstjóri franska víntímaritsins La Revue du Vin de France, skrifar í nýjasta Decanter að þarna sé vegið að franskri vínmeningu og snúið baki við yfir 1000 ára sögu. Hann bendir líka á áhugaverða staðreynd að á meðan neysla hins náttúrulega hamingjudrykks, léttvíns, í Frakklandi hefur hrunið eru Frakkar í dag orðnir að þeirri þjóð sem neytir mest af þunglyndislyfjum. Hann bendir líka á að í þeim tveimur héruðum Frakklands þar sem áfengisvandi er mestur, Pas de Calais og Bretagne, eigi sér stað engin vínrækt.

3 athugasemdir

Filed under decanter, frakkland, fréttir, vangaveltur

Decanter: „Er ekki tími til kominn að taka áströlsk vín alvarlega?“

Við höfum flutt inn vínin frá Kay Brothers nokkuð lengi. Upplagið er lítið og þau svona fljóta með stærri pöntunum frá Torbreck og ekki síst d’Arenberg en d’Arenberg og Kay Brothers eru nágrannar í McLaren Vale héraði  í S-Ástralíu.

Við tökum bara tvö rauðvín frá Kay Brothers og eru þau bæði úr shiraz þrúgunni, Hillside Shiraz og Block 6.

Robert Parker nokkur hefur lengi verið örlátur á stigin sín þegar kemur að þessum tveimur vínum og gefið hinu fyrrnefnda hæst 95 stig og því síðarnefnda 98 stig. Að öðru leyti hef ég ekki séð Kay bræðurnar dúkka svo oft upp í vínpressunni yfir höfuð, það virðist fara lítið fyrir þeim. Líklegast vegna þess að fyrirtækið er lítið og virðist ekki stunda mikla markaðssetningu.

Kay Brothers er m.ö.o. gott dæmi um þá framleiðendur sem eru til umfjöllunar í desember hefti breska víntímaritsins Decanter. Þeir eru ekki allir litlir framleiðendur en að mati tímaritsins eru þeir dæmi um þá grósku sem á sér stað í ástralskri víngerð um þessar mundir og sér ekki fyrir endann á.

Greinarhöfundurinn Matthew Jukes lofar áströlsku vínin hástert, ekki síst fyrir gott verð og gæði og mikla fjölbreidd sé álfan skoðuð í heild sinni. Hann varar þó við því að áströlsk vín séu fyrst og fremst metin fyrir sín góðu kaup þótt sú ímynd hafi verið þeim mikill styrkur í kröftugri markaðssetningu síðustu ár því hún skyggi á hið raunverulega gildi ástralskra vína – gæðin.

„Er ekki tími til kominn að taka áströlsk vín alvarlega?“ er fyrirsögn greinarinnar.

Greinarhöfundur gengur nokkuð langt í þá átt að lýsa Ástralíu sem framleiðanda bestu vína á jörðu þegar hann ber vín álfurnnar saman við vín frá nýja eða gamla heiminum, og skýtur kannski aðeins yfir strikið með stórkostlegar yfirlýsingar. Það er samt full ástæða til þess að benda á gæði og margbreytileika ástralskrar vínframleiðslu og hvetja fólk til þess að sjá í gegnum vegg af ódýrum súpermarkaðsvínum sem þaðan streyma og prófa eitthvað sem sýnir betur hversu álfan er megnug þótt það kosti að jafnaði aðeins meira.

Hér eru þrjú vín sem ég legg til:

HIllside frá Kay Brothers
Juveniles frá Torbreck
The Laughing Magpie frá d’Arenberg

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, d'arenberg, decanter, kay brothers, torbreck, vangaveltur

Samkeppni við erlenda vínsala

Það er grein um vínsöfnun í viðskiptahluta Fréttablaðsins i morgun, Markaðnum, og rætt við nafnana Arnar og Arnar.

Undirritaður gengst við öðru þessara nafna.

Sá Arnar, víninnflytjarinn, vill meina að vínsöfnun hafi aukist til muna á Íslandi og nafni hans, vínsafnarinn,  minnist á það hvernig vínsafnarar stundi kaup á erlendum mörkuðum til að fylla í vínsöfn sín.

Það eru nefnilega kannski ekki margir sem átta sig á því að hver sem er getur keypt vín frá t.d. Bretlandi og flutt inn til eigin nota svo framarlega sem hann greiðir af því flutning, tolla og virðisaukaskatt. Slík kaup borga sig jafnan ekki nema magnið sé talsvert, t.d. heilt bretti. Þeir sem stunda þetta eru þó helst að leita að vínum sem yfir höfuð fást ekki á Íslandinu góða.

Það skýtur því skökku við, eins og nafni minn bendir á, að vínsafnarar og aðrir vínunnendur á Íslandi geti ekki keypt beint af íslenskum fyrirtækjum eins og Víni og mat en geti frjálslega gert það ef vínfyrirtækið er staðsett utan landsteinanna.

Þetta er svona svipað og að banna áfengisauglýsingar í íslenskum miðlum þótt þær streymi til landsins gegnum erlend tímarit og sjónvarpsstöðvar.

Nú er nýtt frumvarp á þingi um afnám einokunar ÁTVR á smásölu. Það eru aðeins breyttar áherslur frá því áður og verður spennandi að fylgjast með hvort það fáist samþykkt í þetta sinn. Meira um það síðar.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttablaðið, vangaveltur

Vertíðarfréttir – Languedoc kveður og Búrgúnd heilsar

Svalt loft. Rigning, sól, regnbogar. Gustur. Fullur strætó, fullar bókabúðir. Eftirvænting.

Það er komið haust.

Eins og víða fylgja árstíðaskiptinum breytingar hér hjá Víni og mat. Fyrir rúmi ári síðan fluttum við inn helling af vínum frá Languedoc héraði S-Frakklands og er það í fyrsta sinn sem við lögðum til atlögu við aðeins eitt hérað af svo miklum krafti. Þetta var tilraun m.a. til að sjá hver þessara vína myndu plumma sig í Vínbúðunum og hver ekki og nota þannig markaðinn til að ákveða hvaða framleiðendum við myndum sinna áfram og hverfjir myndu taka pokann sinn. Ég las mér til, fór til S-Frakklands og sigtaði út framleiðendur, allir í fremsta flokki síns svæðis innan Languedoc héraðsins.

Nú er reynsluárið í Vínbúðunum liðið og niðurstaðan liggur fyrir. Margir hafa verið mjög ánægðir með þessa miklu flóru vína frá Languedoc héraðinu enda einstaklega karaktermkil og fjörleg vín. Við höfum selt um 2.500 flöskur frá héraðinu á rúmu ári. Það er all gott held ég en þar sem salan dreifist á svo margar tegundir þá þýðir það að engin þeirra nær að halda velli í Vínbúðunum og hér með fást þær ekki lengur þar. Næstu misserin kembi ég kollinn hvern þessari framleiðanda ég haldi í því ekki er unnt að hafa svo marga af sama svæði og var það kannski aldrei meiningin að það yrði gert til lengri tíma.

Góðu fréttirnar eru þær að restina seljum við með góðum afslætti á útsölunni sem hefst bráðlega. En það er slatti eftir þannig að vonandi fáum við góð viðbrögð við útsölunni. 700 flöskur af Languedoc vínum verða í boði á útsölunni og eitthvað af öðrum vínum sem eru að hætta í Vínbúðunum.

Það er ein undantekning. Af þeim 12 vínum frá Languedoc sem byrjuðu fyrir ári síðan er eitt sem stendur eftir sem seldist lang mest. Chateau de Flaugergues hefur selst í um 1.000 flöskum af þessum 2.500 og stendur því óhaggað í hillum vínbúðanna og gerir svo vonandi um ókomna tíð. Ég vænti þess líka að þar sem það verður eitt eftir þá beinist áhuga fólks á héraðinu af enn meiri krafti að því víni. Vonandi kemst það í kjarna Vínbúðanna.

Búrgúnd.

Við höfum undanfarið verið að horfa norðar á Frakklandi, til Búrgundarhéraðs. Í sumar komu þaðan tveir glæsilegir framleiðendur, Lucien Le Moine og Domaine Jean Grivot, og innan tíðar bætist Chablis framleiðandi í hópinn. Meira er í vinnslu. Þetta ferli vinn ég allt öðruvísi heldur en Languedoc pakkann enda vín í allt öðrum verðflokki og af einu þekktasta vínsvæði veraldar – og eftirsóttasta því það er hægara sagt en gert að snapa upp flöskur í þeirri miklu eftirspurn sem ríkir eftir vínum héraðsins. Þessi vín verða líka að nokkru leyti ekki í hillum Vínbúðanna heldur auglýst eingöngu á póstlistanum því magnið af hverri sort er svo lítið. Við stefnum þó að því að finna líka vín á góðu verði frá héraðinu en í raun má segja að allt undir 2.000 kr. u.þ.b. sé tiltölulega „ódýrt“ frá Búrgúnd ef gæðin eru í lagi að sjálfsögðu.

Í október fer ég til Búrgundar og skoða málin frekar, hitti framleiðendur og smakka vín.

Lengra fram í tímann.

Plön fyrir árið 2008 eru komin af stað og stefnir í að tveir af mestu „cult“ framleiðendum sinna landa, Ítalíu og Bandaríkjanna, fljóti hingað á strendur. Það verður tilkynnt nánar síðar. Þar verða engin fínleg og rígmontin Búrgúndarvín á ferðinni heldur stór og mikil kraftavín, ef svo mætti að orða komast.

Þá er í farveginum að flytja inn framleiðanda frá Bordeaux sem framleiðir kostakaup að mínu mati og gæti það verið væntanlegt í Vínbúðirnar 1. desember á þessu ári ef allt gengur eftir.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, bandaríkin, búrgúnd, flaugergues, frakkland, grivot, languedoc, lucien le moine, vangaveltur

Hvað er þetta með ríkiseinokun á drykkjarvöru?

Samkeppniseftirlitið gerði í dag húsleit hjá Mjólkursamsölunni til að kanna hvort fyrirtækið hafi hugsanlega misnotað markaðsráðandi aðstöðu sína (sjá frétt á mbl.is).

Það er slæmt ef satt er og ennþá verra að fyrirtækið skuli vera í eigu ríkisins.

Manni verður ósjálfrátt hugsað til annars slíks fyrirtækis sem er nágranni Mjólkursamsölunnar og selur annars konar drykkjarvöru, öllu áfengari. Nú er ég að sjálfsögðu ekki að segja að Mjólkursamsalan hafi brotið af sér, það á eftir að koma í ljós, og hvað þá síður að nágranni þess ÁTVR sé líklegt til nokkur slíks. ÁTVR er líka einokunarfyrirtæki og getur því ekki brotið á neinum hefðbundnum samkeppnisaðilum.

Það að ríkið skuli yfir höfuð vera að fást við þessa tegund af atvinnurekstri er náttúrulega löngu úrelt hugmynafræði.

En að annarri frétt, svolítið skyldri:

Áfengiseinokunin í Svíþjóð hefur tapað máli á hendur nokkrum þarlendum einstaklingum sem keypt höfðu vín gegnum netið og flutt inn til landsins (sjá frétt á mbl.is). Sömu einstaklingar ætla nú að kæra einokunina fyrir að leggja á áfengistolla.

Ég skal viðurkenna að ég fagna svoítið óförum þessarar sænsku ríkiseinokunarrisaeðlu svo framarlega sem það geti stuðlað óbeint að því að áfengissmásala verði gefin frjáls á Íslandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, morgunblaðið, vangaveltur

Grillfiskur frá Sægreifanum

.

Rakel fór og keypti á grillið hjá Sægreifanum niðri í bæ. Ekkert vesen, enginn glamúr – bara góður fiskur í skemmu á hafnarbakkanum.

Þegar maður hugsar til þess er í raun ótrúlegt að það skuli ekki vera fleiri slíkir staðir í sjávarborginni Reykjavík. Ég sé t.d. fyrir mér veitingastað þar sem hægt er að fá góðan fisk í látlausu umhverfi við höfnina eða í fjörunni einhvers staðar. Einfaldur og ódýr matur og fullt af góðu hvítvíni til að slurpa í sig með.

Minnir mig á fiskistað í Le Marche héraðinu sem við Rakel fórum á fyrir nokkrum árum. Hann var í svona látlausu húsnæði á ströndinni og gott ef ekki að öldurnar flæddu nánast undir hann. Þarna var fiskurinn framreiddur á eins einfaldan hátt og hugsast gat og gott hvítvín drukkið með (sjá mynd af bloggaranum með mettan maga á umræddun veitingastað).

En aftur að Sægreifanum – Rakel keypti sem sagt grillpinna með hrefnukjöti, annan með steinbít og þann þriðja með hörpuskelfiski.

Tekur svona 10-15 mínútur að grilla. Einfalt og ljómandi gott.

Drukkum hvítvínið The Hermit Crab með og fór það afar vel. Skemmtilegt grillvín með mikinn karakter.

2 athugasemdir

Filed under ítalía, d'arenberg, matur, vangaveltur, veitingastaðir

Viltu flytja okkur inn?

Það rignir inn tölvupóstum frá vínframleiðendum.

Aðallega frá Ítalíu en líka töluvert frá Frakklandi. Þeir eru að leita eftir samstarfi og bjóða mér vínin sín til sölu.

Það eru eflaust einhverjir sauðir í þessum hópi en mest allt eru þetta fínir framleiðendur með góða vöru. Það er bara svo mikið til af slíkum framleiðendum og í augnablikinu er ég með hendur frekar fullar. Ég hef samt svarað öllum þessum póstum hingað til, skoðað verðlistann ef hann er sendur með og vefsíðuna þeirra ef hún er til, en undanfarið hafa þeir verið svo margir að það bara gengur ekki lengur nema í einstaka tilfellum sem líta betur út en önnur — t.d. þegar heimsþekktir framleiðendur hafa samband.

Í morgun barst mér einn slíkur. Hann kemur frá rómuðum framleiðanda á Ítalíu sem hefur fengist hér á Íslandi í all mörg ár en einhverra hluta vegna leitar hann að nýjum samstarfsaðila.

Ég er líka sérstaklega veikur fyrir öllu svona eins og kom fram í tölvupóstinum hans: „You have the finest portfolio of wines from Italy out of all the importers in Iceland“.

Meira svona takk.

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Skoðanakönnun á Umani Ronchi miðum

.

Ekki fyrir löngu síðan (lestu bloggið) lagði ég það til að Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi ætti að breyta um miða svo það yrði skiljanlegra, þekkjanlegra og auðseljanlegra. Ég lýsti því yfir að ég myndi stinga upp á þessu við framleiðandann þegar ég hitti hann á Vinitaly vínsýningunni.

Kom í ljós að Umani Ronchi var skrefi á undan mér. Þeir voru þegar búnir að endurhanna miðann á þetta vín og tvö önnur í sama verðflokki að auki, með sama hætti.

Hvað finnst þér um breytinguna?

 Fyrir                                                     Eftir

Montepulciano vínið okkar er lengst til hægri á báðum myndum (ath. á myndunum er vínið lengst til vinstri ekki það sama en af svipuðum toga hvað verð og stöðu varðar).

9 athugasemdir

Filed under ítalía, umani ronchi, vangaveltur

Tilboð í tölvupósti frá Bordeaux

Pierre nokkur frá Bordeaux sendi mér tölvupóst í gær þar sem hann var svo vænn að bjóða mér nokkur fágæt Bordeaux vín sem Robert Parker hafði gefið á bilinu 97 til 100 stig.

Frábært. Takk fyrir það Pierre.

Dýrasta vínið í þessum föngulega hópi var Chateau Lafite Rothschild 2000. Það kostaði ekki nema 953 Evrur, flaskan.

Nei, þetta er ekki 7500ml flaska ef þú kynnir að vera að velta þessu fyrir þér heldur óbreytt 750ml.

Þá á eftir að leggja á hana 19% álagningu Vínbúðanna og 24.5% VSK. Eftir það myndi hún kosta um 130.000 kr. — fyrir utan álagninu Víns og matar. Í þessu sambandi verður að segjast að 450 kr. í áfengisgjald fyrir flöskuna er ekki neitt.

Jæja Pierre minn, viltu ekki bara fara að slá grasið eða eitthvað?

Færðu inn athugasemd

Filed under bordeaux, frakkland, vangaveltur

Tillaga að flöskumiða

Ég var að velta því fyrir mér hérna á blogginu fyrir skömmu hvort Orobio Rioja frá Artadi myndi ekki seljast betur ef miðinn væri kaupvænlegri.

Ég velti þessu aftur fyrir mér þegar ég opnaði flösku af Montepulciano d’Abruzzo 2004 frá Umani Ronchi. Vínið kostar aðeins 1.300 kr. og hefur fengist í Vínbúðunum í bráðum ár en ekki selst sérlega vel. Það mun því detta úr sölu í lok maí. Þetta er verulega gott vín og frábær kaup. Það hefur góðan karakter en er um leið aðgengilegt og að mínu mati svo miklu áhugaverðara en fullt af dóti í svipuðum verðflokki í Vínbúðunum. Þetta er alvöru vín.

Munurinn á þessu víni og þeim sem kosta svipað t.d. frá Ástralíu er að hin síðarnefndu hafa miða sem auðvelt er að skilja og muna en sá ítalski er frekar venjulegur og illur viðureignar þegar kemur að því að festa hann í minni.

Hveru gott er að bera fram eða muna „Montepulciano d’Abruzzo“ – nú eða nafn framleiðandans „‘Umani Ronchi“ (er það borið fram Ronkí, Rontsjí…?).

Ég þori að veðja að vínið hefði selst mun betur ef eitthvað annað element sem auðveldara hefði verið að þekkja og bera fram hefði verið meira áberandi. Mér dettur í hug „UMANI“, það er auðvelt, flott og stílhreint. T.d. „UMANI“ stórum og skírum stöfum, „Rosso“ fyrir rautt og síðan bara einhvers staðar með smáu letri nafn framleiðandans ásamt raunverulegu heiti þess sem er um leið svæðis- og gæðaskilgreining „Montepulciano d’Abruzzo“ (Montepulciano er þrúgan, Abruzzo er héraðið þar sem vínið er ræktað). „UMANI“ minnir líka á „hendur“ (þ.e.a.s. „mani“) og ekki spillir fyrir hvað það líkist nafni á víni sem selst hefur í gámavís, A mano, auk þess að líkjast japanska bragðorðinu umami.

Ég ætla að leggja þetta til við Umani Ronchi þegar ég hitti þá á Vinitaly vínsýningunni á Verona í næstu viku.

Þeir gætu þá gert annað vín, hvítvín, og kallað það „UMANI“ og „Bianco“ fyrir hvítt, kannski úr Trebbiano þrúgunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under umani ronchi, vangaveltur

Metsala á Rioja

.

Vín frá Rioja héraðinu á Spáni náðu metsölu 2006 skv. þessari frétt. Heimssala á vínum frá héraðinu jókst um 4.3% frá árinu áður og náði 261 milljón lítra sölu.

Þrír stæstu markaðirnir utan Spánar eru Bretland, Þýskaland og Bandaríkin.

Skrítið, Orobio Rioja 2004 frá Artadi sem við flytjum inn selst eiginleg ekki neitt.

En eins og ég benti Artadi á þá vantar víninu betri miða þar sem nafnið „Rioja“ er meira áberandi og miðinn sjálfur skrautlegri sbr. marga aðra framleiðendur frá héraðinu.

Ég hef ekki heyrt í Artadi síðan ég sendi þeim þessar vinsamlegu ábendingar.

Vonandi hef ég ekki stígið á neinar tær því mig langar endilega að kaupa El Pison 2004 vínið þeirra sem var að fá 100 stig hjá Robert Parker.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, fréttir, rioja, spánn, vangaveltur

Jamie Goode fær ekki að spjalla um hlýnun jarðar á umræðuvef Parkers

Wineanorak er bresk vefsíða um vín sem ég kíki alltaf reglulega á. Jamie Goode heldur þar uppi ýmis konar fróðleik um vín ásamt því að blogga reglulega.

Tvímælalaust ein af betri vefsíðum um vín.

Nýlega stofnaði hann til spjalls á umræðuvef Roberts Parker þar sem hann spurði hvort mönnum þætti „the evidence that wine regions have got warmer, and will continue to do so, is a suitable topic for discussion [á svona vín forum], or whether they considered it to be political and out of bounds“?

Ástæðan er sú að öllum tilraunum manna til að fjalla um hlýnun jarðar á umræðuvefnum hafði verið eytt á þeim forsendum að umræðuefnið væri pólitískt en vefsíðan leyfir ekki pólitískar umræður.

Að banna pólítískar umræður/áróð á umræðuvef um vín er kannski eðlilegt en getur umræðuefnið virkilega talist pólítískt? Lestu bloggið hans Jamie um þetta mál ásamt tilheyrandi athugasemdum frá lesendum hans.

Mark Squires heldur reyndar uppi þessum umræðuvef inni á vefsíðu Parkers (sjá svar Marks á blogginu hans Jamie) en hvernig sem er, mér finnst ótrúlegt að þeir skuli ekki leyfa þessa umræðu enda þarf enginn að móðgast þar sem maður velur sjálfur með hvaða umræðu á vefnum maður vill fylgjast eða taka þátt í.

Hér er önnur færsla hjá Jamie um málefnið þar sem hann vitnar í nokkra vínframleiðendur um áhrif hlýnunnar jarðar á vínrækt.

Ég tek svo undir orð Jamies að hvort sem við teljum að hlýnun jarðar sé af mannavöldum eða ekki þá hljótum við að vilja hafa vaðið fyrir neðan okkur og einungis ef við erum 100% viss um að svo sé ekki getum við leyft okkur að aðhafast ekkert.

Hvað finnst þér?

Lestu líka eldra blogg um málefnið

Færðu inn athugasemd

Filed under loftslag, pólítík, robert parker, vangaveltur

Til að smjatta á

.

Steingrímur sendi mér póst eftir að ég setti umfjöllun hans í Morgunblaðinu á bloggið um 15 vín af þeim sem stóðu upp úr á síðasta ári.

Honum fannst fyndið að hann skuli hafa notað þetta „vín til að smjatta á“ hjá báðum okkar vínum, eins og ég hafði bent á, og hafði í gamni sínu flett því upp hversu oft hann hefði notað þetta orðatiltæki í umfjöllun sinni um vín síðasta áratuginn.

Hversu oft?

7 eða 8 sinnum c.a.

Of við eigum tvö þeirra (kannski fleiri, kannski öll!, ég þarf að gá) og um þau bæði fjallaði hann á síðasta ári eins og kom fram í greininni. Þau eru Chateau de Flaugergues og Fontodi Chianti Classico.

Hvað er það við þessi vín okkar sem er svona gott að smjatta á?

Það er erfitt að útskýra. Þetta eru svona „yummy“ vín eins og Steingrímur sagði mér í póstinum.

Safarík, er kannski rétta orðið.

En hvernig útskýrir maður safaríkt vín?

Það er eitthvað við þau sem tælir bragðlaukana, setur munnvatnskirtlana í viðbragðstöðu. Þau hafa ferskan ávöxt, heillandi angan af ferskum kryddum og ávexti, nokkuð þétt kannski en alls ekki of mikið, smá biturleika líklegast eins og súkkulaði, eru þægilega tannísk og sýrurík og aldrei of eikuð.

Einhvern veginn svoleiðis.

Færðu inn athugasemd

Filed under chianti classico, flaugergues, fontodi, morgunblaðið, vangaveltur

Alkinn og áfengisfrumvarpið

.

Á mánudaginn fer áfengisfrumvarpið fyrir þingið eina ferðina enn. Held að það sé í fjórða sinn. Þar er mælst til að matvöruverslanir selji létt vín (að 22% styrkleika) en að ÁTVR hafi áfram einkasölu á sterku áfengi.

Lestu frumvarpið hér

Ég sé fyrir mér allar hillur fullar af sterku áfengi í Vínbúðunum núverandi sem þurfa náttúrulega að skipta um nafn þar sem þær selja ekki lengur vín. Ég sting upp á „Spírinn“ en besta nafnið er náttúrulega „Alkinn“ nema hvað að það er frátekið – þeir í finnsku einokunarversluninni kalla nefnilega sínar verslanir „Alko“! enda eru vínbúðir náttúrulega stórhættulega búðir sem selja alkóhól fyrst og fremst – þú gengur inn og segir hátt „ég vil fá 15% alkóhól“ eða „ég er í stuði, gemmér 40% í dag“.

Hvað þýðingu hefði þetta fyrir markaðinn og hvað finnst okkur í Vín og mat um málið?

Við erum a.m.k. ekki í hópi þeirra birgja sem vilja halda fyrirkomulaginu óbreyttu. Við erum ekki í hópi þeirra birgja sem þráum öryggið sem felst í einokunarversluninni (úps, ég var búinn að gleyma að ÁTVR er ekki einokunarverslun skv. þeirra eigin skilgreiningu – nokkuð sem þeir minna mig reglulega á þegar ég missi það orð út úr mér). Stóru birgjunum er haldið uppi af núverandi kerfi og ef það hrundi kippir það fótunum gjörsamlega undan þeim og markaðurinn tekur við. Þeir gætu setið uppi með allt eða ekkert. Við erum jaðarfyrirtæki sem þráir frelsið og erum óhrædd að takast á við nýtt og spennandi umhverfi.

Súpermarkaðir verða einhæfir og þar kaupir landinn mest en eftirspurnin eftir fjölbreytni verður enn til staðar og munum við mæta henni. Við teljum að okkar vinalegu viðskiptavinir (fyrirtæki og einstaklingar) vilji halda áfram að kaupa vínin okkar og vitum að einungis góð vara og þjónusta vinnur slíkt traust.

Hvort frumvarpið sé lagt fram í sem ákjósanlegustri mynd treysti ég mér ekki alveg til að segja um. Það vita allir að ÁTVR kemur aldrei til með að þrífast á sölu einungis sterks áfengis. Reyndar er sú breyting lögð til frá fyrri útgáfu frumvarpsins að ÁTVR fái að selja léttvín samhliða einokuninni á sterku áfengi og hlýtur staða þeirra að breytast eitthvað en það hlýtur einungis að vera tímabundið ástand og á endanum verði ÁTVR selt á frjálsum markaði (… en síðan hugsa ég til Mjólkursamsölunnar…gúlp!). Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort betra væri að leggja til að ÁTVR væri lagt niður og að salan yrði færð í vínbúðir í einkaeigu en ekki súpermarkaði. Við erum reyndar fylgjandi því að það eigi að vera í súpermörkuðum en kannski væri frumvarpið líklegra til að skila árangri (takmarkið hlýtur fyrst og fremst hlýtur að vera að leggja niður ÁTVR) ef súpermörkuðum væri haldið fyrir utan til að byrja með því að hugsanlega er það stóra ástæðan fyrir því að svo margir þingmenn eru á móti breytingum og þar af leiðandi fæst frumvarpið aldrei samþykkt og einokunartak ÁTVR framlengist um ókomin ár.

Hvernig sem er, það verður spennandi að fylgjast með umræðunni þótt ég spái ekki bjarti útkomu frekar en áður. Reikna ég með að gömlu forvarnarrökin verði áberandi hjá andstæðingum. Vantraust, sú tilfinning að meðbræður okkar séu ekki valdir starfans, að þeir séu jafnvel með illt í hyggju – og þess vegna þurfi Ríkið að hafa vitið fyrir þeim – er móðgun öllum góðum þegnum í þessu landi.

Ég er a.m.k. stórmóðgaður.

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur, vínbúðirnar

Gestgjafinn fjallar um Pic Saint Loup 2004 og Orobio Rioja 2004

.

Í jólablaði Gestgjafans er að finna tvö vín frá okkur sem bæði fá 3 1/2 glas.

Í útskýringu á einkunnagjöf liggur þessi einkunn á milli þeirrar sem kallast „Gott“ (þ.e. 3 glös) og „Mjög gott“ (þ.e. 4 glös) en kallast sjálf „Ágætt, vantar herslumuninn“ (þ.e. 3 1/2 glas). Þessi útskýring „vantar“ finnst mér svolítið neikvæð. 3 1/2 glas er góð einkunn og vín sem hana fá þarf ekki að líta á að „vanti“ eitthvað sérstaklega upp á. Vanti upp á hvað?  Sum vín ná fullkomnun á sinn hátt, fyrir sitt svæði og verðflokk og vantar því alls ekki neitt upp á neitt þótt þau verðskuldi ekki hærri einkunn en 3 1/2 glas. Þessi neikvæða útskýring rýrir þennan annars ágæta einkunnaflokk.

Svona lítur þetta út í Gestgjafanum:

5 – „Framúrskarandi“
4 1/2 – „Frábært“
4 – „Mjög gott“
3 1/2 – „Ágætt, vantar herslumuninn“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Ég sting upp á þessu:

5 – „Einstakt“
4 1/2 – „Framúrskarandi“
4 – „Frábært“
3 1/2 – „Mjög gott“
3 – „Gott“
2 – „Sæmilegt“

Eða þessu:

5 – „Í stuði með guði“
4 1/2 – „Gekt gott, sko, ég meina’ða“
4 – „Mjög gott fyrir kynlífið“
3 1/2 – „All gott, mjög áhugavert, fallegur miði“
3 – „Jú jú, bara fínt, en hvað er þetta á botninum?“
2 – „Kassavín“
1 – „Þetta er eins og lýsi“

Hér er svo umfjöllunin um vínin tvö:

CHATEAU LASCAUX PIC SAINT LOUP 20043 1/2 glas
Frakkar í suðri hafa verið að sækja í sig veðrið, eftir nokkurra ára lægð, og hafa ólátabelgirnir í Languedoc gert mjög góða hluti. Þetta vín er gott dæmi um það. Ferskur ávöxtur, fjólur, krydd og lítillát eik í nefi sem skapar mjög aðlaðandi heild. Í munni er áferðin létt með þægileg tannín og góðan ávöxt (svolítið falinn) og vottar fyrir beiskju í eftirbragðinu. Þetta er vín sem er enn of ungt og má alveg geyma það í u.þ.b. 2 ár í viðbót. Ætti að fara mjög vel með grilluðu kjöti og ragout.
Verð 1.750 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Vel gert vín, fágað og fíngert. Það þarf að umhella því eða geyma það til að það njóti sín til fulls. Mjög aðlaðandi og margslungið – hörkumatarvín

OROBIO 20043 1/2
Það er alltaf gaman þegar framleiðendur, eins og Artadi, taka upp á því að brjóta upp hefðir og gera óhefðbundin Rioja-vín eins og þetta. Fullt af sólberjum í ilmi ásamt eukalyptus, kryddi, ferskleika og sætuvotti. Ekki beint hinn hefðbundni Spánverji úr tempranillo. Það er ferskt og milt í munni með vott af sólberjum, kirsuberjum og pipar; góð fylling. Sniðugt vín fyrir forvitna og reyndar ljómandi gott fyrir alla hina lílka. Prófið þetta með tapaskjötréttum.
Verð 1.600 kr. – Góð kaup.
Okkar álit: Skemmtilegt dæmi um mjög óvanalegt vín frá Rioja. Ekki kaupa það sem Rioja-vín, heldur nýmóðins Spánverja og það kemur ykkur á óvart. “ (Gestjafinn, 12. tbl. 2006)

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, Chateau du Lascaux, dómar, Gestgjafinn, vangaveltur

Ein matskeið af The Footbolt, tvær matskeiðar af Chianti Classico…

Ég veit það ekki, kannski var það þessi grein hans De Long sem ég bloggað um fyrir stuttu þar sem hann setti einfalt Chianti í andlitslyftingu — eða kannski var það einfaldlega vegna þess að ég var með ótal uppteknar flöskur í eldhúsinu eftir vínsmökk síðustu daga. Í fyrsta skipti síðan við byrjuðum að flytja inn vín fyrir rúmlega þremur árum síðan blandaði ég tveimur tegundum saman.

Já, ég játa. 

Samt ótrúlegt að ég hafi aldrei gert þetta fyrr. Í þágu vísindanna.

Fyrir valinu urðu rauðvínið ástralska The Footbolt og gott Chianti Classico frá Querceto. The Footbolt er eikað, sultað og berjaríkt vín en Chianti-inn er jarðbundinn, þurr. Þau gætu ekki verið ólíkari.

Útkoman var áhugaverð. Frekar en að bæta við hvort annað (þar sem ólíkir eiginleikar vínanna mættust í sama glasi) var þess húsblanda fremur hlutlaus. Þau skófu af karakter hvors annars frekar en bæta við. Ég get samt ekki leynt því að ég velti fyrir mér hvernig áströlsk vín myndu vera ef þau væru eilítið jarðbundnari og þurrari eins og þessi blanda var. En — við höfum nóg af öðrum vínum sem fylla í þann flokk og áströlsk vín eru líklegast best nákvæmlega eins og þau eru.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, chianti classico, d'arenberg, rannsóknir, vangaveltur

Hvaða vín verða á Wine Spectator Top 100?

Eftir nokkra daga mun Wine Spectator gefa út Top 100 listann sinn yfir vín ársins að þeirra mati. Það eru þau vín sem hafa hlotið bestu dóma blaðsins á liðnu ári.

Svona listar eru náttúrulega alltaf meingallaðir en engu að síður eru vínin 100 sem þar birtast all traust kaup.

Véfrétt Víns og matar hefur spáð því að Chateau de Flaugergues 2003 muni vera á þessum lista þar sem vínið hafi fengið 92 stig á árinu sem er sama einkunn og þegar 2000 árgangur vínsins skaust í 21. sæti listans hér um árið. Í októberhefti blaðsins var upptalning á vínum undir 25$ sem hafa fengið 88-94 stig á árinu og var Flaugergues ódýrasta vínið sem náði 92 stigum eða meira.

Annað vín sem véfréttin spáir að nái inn á þennan lista er hið ódýra Falesco Vitiano 2004 sem fékk 90 stig þrátt fyrir afar lágt verð.

Svo er það náttúrulega Castello di Querceto Chianti Classico Riserva 2003, en það hefur tvívegis áður náð inn á Top 100 lista Wine Spectator.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, falesco, flaugergues, vangaveltur, wine spectator

The Oxford Companion to Wine: Viðtal við Jancis Robinson í The New York Times

“If you can afford something above the basic $20 bottle, it’s probably the best of times… These represent wines made with more ambition and expertise than ever before.”, segir Jancis Robinson í viðtali við Eric Asimov í The New York Times.

Tilefnið er ný útgáfa af vínorðabókinni hennar, The Oxford Wine Companion, sem margir kalla mikilvægasta uppflettiritið um vín. Ég hef aldrei átt þessa bók en var að fá hana í póstkassann frá vinum okkar í Amazon á föstudaginn sl.

Í viðtalinu blæs Jancis Robinson á neikvæðni í garð víns í framtíðinni sem sumir, t.a.m. kollegi hennar Hugh Johnson, óttast að verði einsleitara en nokkru sinni áður undir sterkum áhrifum frá bandarískum smekk (neytendenda sem gagnrýnenda). Hún telur einmitt að gæðin fari vaxandi og hvarvetna séu spennandi hlutir að gerast svo framarlega sem fólk er tilbúið að eyða aðeins meira heldur en því sem einsleitu fjöldaframleiddu vínin kosta.

Jancis Robinson er með eigin vefsíðu jancisrobinson.com

Ég mæli líka með vínnámskeiðinu hennar sem fæst á DVD. Það er líka hægt að fá það lánað hjá okkur með því að senda póst á vinogmatur@internet.is.

Færðu inn athugasemd

Filed under bækur, fræðsla, jancis robinson, námskeið, new york times, vangaveltur, viðtal

Ansi gott vatn

Vínvörumerkjaslagurinn hefur farið sífellt harðnandi undanfarin ár með sífellt undarlegri nöfnum sem ætlað er að hrifsa athygli kaupandans ásamt tilheyrandi skraulega útfærðum flöskumiða. Líklegast var toppnum náð með s-franska vínmerkinu („brand“) Fat Bastard.

Hér er listi yfir nokkur ný merki, Mighty Good Water er eitt þeirra.

Þá geta menn líklegast sagt að vatn sé best, en samt meint vín – eða hvað? 

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Vín án matar

Craig Camp bloggar um vín á Winecamp.

Hann hefur flutt inn vín í Bandaríkjunum, búið á Ítalíu, skrifað blogg og framleiðir nú Pinot Noir í Kaliforníu. Honum er greinilega mjög annt um vín.

þessi setning sem hann fann á einum vinsælasta vín-umræðuvefnum fór fyrir brjóstið á honum:

“[A]nd to my palate even the best paired food gets in the way of a pure and unadulterated one-on-one experience with the wine”

Craig getur nefnilega vart hugsað sér vín án matar, eða mat án víns eins og fram kemur í þessu bloggi á vefsíðunni hans.

Einmitt, ekki vín án matar.

Heldur, vín og matur.

Færðu inn athugasemd

Filed under robert parker, spjallþræðir, vangaveltur, Vínblogg

Enskar ólífur í nýju loftslagi

Ég veit ekki hvar þessar loftslagsbreytingar enda en mér líst ekki alveg á það.

Eins og er erum við ein þeirra þjóða sem myndi ekki kvarta yfir nokkrum plúsgráðum til viðbótar. Hvar það gæti endað hins vegar er annað mál.

Ætli við getum einhvern tímann ræktað ólífur, vín og te eins og Bretarnir?

Færðu inn athugasemd

Filed under loftslag, vangaveltur

Casal di Serra í Atlasi barnanna

Ég var að fletta í Atlasi barnanna, bók sem Gréta dóttir mín á, þegar ég sá að á landakorti af Frakklandi voru m.a. tvær myndir af vínflöskum, önnur yfir Champagne héraði og hin yfir Bordeaux. Þegar ég gáði betur sá ég að þetta voru ekki bara einhverjar gerviflöskur heldur voru þetta þekkt vín frá þekktum framleiðendum með réttum miða.

Mér var hugsað til landakortsins af Ítalíu og get ekki leynt því að ég var svona með hugann við það að hugsanlega fyndi ég þar vín frá okkur hangandi yfir t.d. Toskana héraðinu. Ólíklegt samt þar sem hundruðir þúsunda af víntegundum finnast þar í landi.

Viti menn, leyndist ekki mynd af Casal di Serra, hvítvíninu okkar frá Umani Ronchi og okkar vinsælasta víni frá upphafi.

Þetta fannst mér fyndið. Ha ha ha. Miðinn á víninu var reyndar gamall, síðan áður en við byrjuðum að flytja inn vínið svo ekki var þetta nú vín úr hillum vínbúðanna sem myndin var tekin af enda útgáfan bresk (í ísl. þýðingu).

Menn eru að koma myndum í dagblöð og tímarit eftir krókaleiðum en barnabækur…!

Færðu inn athugasemd

Filed under umani ronchi, vangaveltur

Vín sem enda á -aia

Toskana-rauðvínin með endinguna „aia“ urðu tákngervingur fyrir ítölsku vínbyltinguna sem hófst fyrir um þremur áratugum síðan. Ornellaia, Sassicaia, Solaia o.sfrv. Þessi kvenlega ending hefur reyndar ekkert með gæði beinlínis að gera heldur réð tilviljun því að þau vín sem hlutu einhverja mestu athyglina og urðu eftirsóttust meðal vínsafnara höfðu sum þessa sömu endingu.

Solaia 1997 smakkaði ég í fyrsta sinn fyrir skömmu. Þessi árgangur fékk 96 stig hjá Robert Parker og 98 stig hjá Wine Spectator. Ég man hvað mig langaði að eignast þetta vín á sínum tíma en ég var ekki einn af þeim heppnu sem þá náðu að kaupa það í ÁTVR á fínu verði, um 3.000 kr. Ég sá það síðar í vínbúð á túristaslóðum í Flórens fyrir 30.000 krónur og veit af magnum flösku (1.5L) á bandarískum veitingastað sem kostar 1.200$.

Vínið var virkilega gott. Toskanauppruni vínsins var augljós og stíllinn var flottur. Hins vegar er ég feginn að hafa ekki reynt að kaupa það einhvers staðar fyrir uppskrúfað verð. Það er svo mikið af góðum vínum þarna úti, gæðavínum sem endurspegla uppruna sinn á ómótstæðilega hátt þótt kannski fái þau ekki þessar himinháu einkunnir sem stundum glepja mann og annan.

Það sem er svo skemmtilegt við Ísland er að erlend súpergagnrýni hefur engin áhrif á verðið. Birgjar og ÁTVR halda sinni venjulegu álagningu sem veldur því einmitt svo oft að hér kosta slík vín minna en í öðrum löndum.

Að lokum. Eitt annað vín kom upp í hugann minn þegar ég smakkaði Solaia 1997 sem mér fannst ekkert gefa hinu frægara eftir. Það er Il Sole di Alessandro 2000 frá Castello di Querceto sem kemur frá Toskana eins og Solaia og er úr sömu þrúgu, Cabernet Sauvignon (Il Sole er 100% Cab. en Solaia um 75%). Hægt er að sérpanta það á 4.400 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, fræðsla, vangaveltur