Category Archives: vangaveltur

Hvernig gengur? Dagur í lífi sprúttsala.

Hvaða spurning brennur helst á vörum fólks þessa dagana þegar efasemdir, áhyggjur og óöryggi einkenna þjóðfélagið?

Líklegast sú klassíska „Hvernig gengur?“ — spurning.

Þýðingin er aðeins þrungnari en hér áður. Nú má búast við á að sá sem svarar sé í alvarlegum fjárhagskröggum, atvinnulaus eða jafnvel gjaldþrota.

Við fáum þessa spurningu oft þessa dagana, mun oftar en áður. Hvernig gengur? Er fólk ennþá að kaupa vín?

Svarið  — jú, líklegast gengur bara vel. Allavegana höldum við að víninnflutningur sé í betri málum en margur annar innflutningurinn. Fólk er ennþá að drekka vín. Kunnum ekki almennilega skýringu á því en kannski vegna þess að fólk eyðir meira í gæða heimavið frekar en erlend ferðalög og spreðerí. Neyslan virðist ekki minni en hefur færst niður á við í verðflokkum þótt millidýr vín séu að seljast ágætlega ennþá.

Svo er ekki til neitt sem heitir „notuð vín“ eða „íslensk vín“ !

Nauðsynlegasta fararteskið þessa dagana sem endranær — tvöfaldur espresso —  nei ég meina, bjartsýni, skynsemi og gott skap.

Hvernig við bregðumst við lægðinni á ennþá eftir að koma í ljós. Dýrari vín eru færri hjá okkur en áður þótt eitthvað slæðist með. Átak í ódýrari vínum (þ.e.a.s. undir 2.000 kr !!!) hefur verið í gangi en var næstum rústað af tollahækkunum stjórnarinnar. Þá má alveg eins búast við nánari naflaskoðun á ennþá ódýrari vínum en Vín og matur verður að viðurkenna — okkur finnast bara svo góð vínin sem kosta aðeins lítið meira en gefa okkur mikið meira.

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Framboðstilkynning

… djók!

Undirritaður er ekki á leið í framboð.

Hann ætlar ekki í framboð heldur að auka framboð, á ódýru víni.

Smjattpattar fyrirtækisins hafa hist undanfarið á leynilegum stöðum víðsvegar í höfuðborginni við að skoða og smakka á sýnishornum frá hinum og þessum framleiðendum, aðallega nýjum framleiðendum.

Að sjálfsögðu mætum við kreppunni með mátulega kæruleysislegu brosi á vör (svona eins og James Bond er með þegar hann mætir erkióvini sínum) þ.e.a.s. við vanmetum hana ekki en erum viss um að sigrast á henni.

Við erum heppin að vera með lítið fyrirtæki sem getur verið sveigjanlegt eftir þörfum. Við blásum því til sóknar því stundum er sókn besta vörnin.

Ný vín væntanleg í framboð á okkar lista eru flest ódýr en uppfylla öll okkar skilyrði um að vera góð og spennandi. Nokkur hafa fengist hér áður, t.d. Chianti frá Castello di Querceto og Montepulciano d’Abruzzo frá Umani Ronchi sem bæði hefja sölu 1. apríl og einnig nýtt og ódýrt Verdicchio hvítvín frá Umani Ronchi. Svo eru nýir framleiðendur frá Rhone í S-Frakklandi á sjóndeildarhringnum, Chateau de Montfaucon og stórskemmtileg „Little James“ vín frá Domaine Saint Cosme. Ýmislegt fleira, freyðandi, s-ítalskt, jafnvel portúgalskt er á sjóndeildarhringnum.

Að ógleymdum kassavínsbeljum sem munu baula í fyrska skipti á okkar vegum með hækkandi sól, með rassinn upp í vindinn.

Munið svo að kjósa rétt.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, umani ronchi, vangaveltur

Skoðanakönnun um miðana á flöskunum okkar

Miðarnir hafa nú verið á flöskunum okkar í meira en tvö ár.

Fyrst voru dýramyndir sem þá prýddu, síðan kom nýtt módel þar sem stílað var inn á einfaldleikann.

Enn á ný hugsum við okkur til hreyfings með nýja seríu af miðum og þætti okkur vænt um að heyra skoðanir sem flestra um notagildi miðanna:

Finnst þér miðinn yfir höfuð eiga að vera?

Notar þú þá til að þekkja flöskurnar í hillunum?

Heldur þú að þeir vekja jákvæða forvitni þeirra sem þekktu miðana ekki áður?

Fannst þér miðinn betri nú (stílhreinn) eða áður (dýr o.fl.)?

Hefur þú hugmyndir sem þú vilt deila með okkur um hvernig þeir gætu litið út og hvað fram mætti koma á þeim þegar ráðist verður í gerð nýrrar seríu?

Þín skoðun skiptir öllu máli.

Takk fyrir að taka þátt.

Smelltu hér til að skoða gömlu seríuna með dýramyndunum 

Smelltu hér til að skoða úrval miða sem notuðum til að velja nýjasta miðann úr

Færðu inn athugasemd

Filed under límmiðar, vangaveltur

Búin að uppfæra verðin á vefsíðunni, eina ferðina enn!

Oftast hefur okkur gengið vel að halda vefsíðunni vel uppfærðri. Hvað varðar upplýsingar um vínin sjálf þurfti lítið að gera því verð höfðu ekki verið að breytast svo mikið, helst voru upplýsingar um nýja árganga sem þurfti að uppfæra.

Í ruglinu sem hefur gengið á síðustu mánuði hafa verðin hins vegar breyst hraðar en síðust 5 ár samanlagt og uppfærslan því setið á hakanum.

Nú er undirritaður búinn að bretta upp ermar og setja réttar upplýsingar (þar til annað kemur í ljós) um hvað vínin kosta og hvaða árgangur eru fáanlegir.

Náttúrulega eru ýmis vín og framleiðendur á vefsíðunni sem eru hér um bil óvirkir því við höfum ekki flutt inn frá þeim í nokkurn tíma og eigum jafnvel ekkert til. Við höfum samt látið þá halda sér inni á vefsíðunni áfram í flestum tilfellum því ekki er loku skotið fyrir að margir þeirra muni snúa aftur til landsins. Tveir spánskir framleiðendur voru samt fjarlægðir og nokkur vín voru tekin út sömuleiðis til að snyrta aðeins til.

Hér má sjá alla framleiðendur og vínin frá þeim

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur

Vín í vanda

Það hefur ekki farið framhjá neinum að innflutningur til Íslands liggur gott sem niðri.

Við erum ágætlega birg af þeim vínum sem fást í Vínbúðunum þessa stundina en þetta kemur hugsanlega til með að hafa áhrif á innkomu nýju vínanna sem sérfræðingar Vínbúðanna völdu nýlega í svokallaðan Sérflokk. Vín og matur fékk þar tæplega 20 fulltrúa sem fæstir hafa fengist áður í Vínbúðunum.

Sérflokkur er flokkur vína í Vínbúðunum sem byggist á smakki sérfræðinganna og er ætlað að gera vínum kleyft að fást í Vínbúðunum sem annars ættu erfitt uppdráttar. Þ.e.a.s. flokkurinn bætir upp og breikkar flóruna með vínum frá t.d. sjaldgæfari vínræktarsvæðum eða úr ákveðnum þrúgum, lífrænum vínum, dýrari vínum o.s.frv.

Fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar sem fæst einmitt talsvert við slík vín þá er Sérflokkurinn mikilvæg og góð leið til að tryggja okkar vínum betri sess í hillum Vínbúðanna en ella, bæði með tilliti til fjölda tegunda og dreifingar því sérflokksvínum er dreift í margar Vínbúðir.

Gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt undanfarið en veikt og því höfum við haldið að okkur höndum með von um að það styrktist en svo virðist ekki ætla að gerast í bráð. Sérflokksvínin eru því enn í biðstöðu en við lifum í voninni að einhver þeirra a.m.k. verði fáanleg fyrir jól. Hvort maður fær svo að kaupa gjaldeyri til að flytja þau inn yfir höfuð höfum við ekki hugmynd um því ekki hefur reynt á það ennþá síðan núverandi ástand skapaðast.

En það verður til vín, já, já, það verður til vín.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur, vínbúðirnar

Fjárfest í víni — Wine Investment 2008

Það hefur löngum loðað við vín sú míta að í því væri góð fjárfesting.

Eitthvað sem héti að kaupa „á réttum tíma“ sem yfirleitt þýðir að kaupa vín um leið og það kemur á markað meðan verð er tiltölulega lágt eða jafnvel að kaupa vín áður en það kemur á markað, svokallað „future“ eða „en premieur“ eins og það heitir á frönsku. Slík framtíðarvín eru oft greidd að hluta jafnvel tveimur árum áður en þau mæta síðan sjálf á svæðið.

Hvað felst í góðri fjárfestingu er svo aftur á móti matsatriði. Ætli maður að selja vínið aftur og græða pening á mismuninum er þessi fjárfesting bundin við ákveðin ofur-vín sem eiga rætur sínar að rekja til Búrgúndar og Bordeaux en einnig til ákveðinna svæða eða stakra framleiðenda á Spáni, Ítalíu og víðar í gamla heiminum. Í nýja heiminum er það helst Kalífornía sem framleiðir vín sem hægt er að græða á með endursölu eða Ástralía.

Árgangar og einkunnir frægra vínspekúlanta skipta miklu máli og enginn vafi leikur á því að Robert Parker er áhrifamestur allra þegar kemur að einkunnagjöf.

Það sem spennir upp verð víns er fyrst og fremst fágæti þess, fyrir utan gæðin að sjálfsögðu. Því sjaldgæfara, þeim mun betra og í góðum árgöngum eða eftir háa einkunn Parkers getur verið nánast ómögulegt að nálgast ákveðin vín. Í slíkum aðstæðum er gott að hafa keypt snemma ef maður yfir höfuð kemst í tæri við slík vín og selja síðan með álagningu sem getur verið margfalt innkaupsvirði vínsins ef eftirspurnin er næg.

Fjárfesting felst líka í ánægju, að kaupa vín á sanngjörnu verði miðað við gæði og framboð og njóta í góðum félagsskap með góðum mat. Slíka ánægju er erfitt að mæla í peningum.

En að efni póstsins.

Okkur barst góð ábending um ráðstefnu í London 2. desember. Þar verða þessi mál rædd sem viðruð eru hér fyrir ofan undir yfirskriftinni Wine Investment 2008.

Ef ég ætti að reyna meta hvaða vín sem við höfum flutt inn hefur ávaxtast best, mælt í peningum, myndi ég segja Atlantis rauðvínin tvö frá Sine Qua Non og eitthvert Búrgúndarvínanna af 2005 árgangi sem komu í janúar á þessu ári. Miðað við upplýsingar á vefnum hafa vínin frá Sine Qua Non nú þegar þrefaldast miðað við hvað þau voru seld á hér hjá okkur.

Ný vín frá Búrgúnd eru væntanleg eftir fáeinar vikur og ný vín frá Sine Qua Non koma vorið 2009.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, london, ráðstefnur, robert parker, sine qua non, vangaveltur

Litla ljóta Krónan

Þetta er sagan af litlu ljótu Krónunni.

Krónan er fallegur svanur, háfleygur og vængbreiður, sem hefur sig á loft frá tjörninni en flýgur á Seðlabankann, vængbrotnar og fellur til jarðar. Illa útleikin og óþekkjanleg vafrar hún um Borgartúnið þar sem enginn trúir að hún sé í raun svanur, hvað þá að hún hafi einu sinni flogið.

Sagan af litlu ljótu Krónunni er ekki ennþá búin. Enginn veit hvort hún fari á sjálfstyrkingarnámsskeið og hefji sig aftur til flugs eða hvort hún verður endanlega útskúfuð, dragi sig inn í skel og komi aldrei aftur út.

Ég hef verið spurður að því hvort fall krónunnar muni hafa áhrif á sölu vína og hef þá svarað í bjartsýni að nei, líklegast ekki nema hvað hugsanlega færist neyslan tímabundið enn meira í ódýrari verðflokka því þar mun áhrifa gengisfallsins gæta síst. Ástæðan er sú að á öllum vínum er áfengisskattur sem getur verið tvöfalt eða þrefalt hærri en raunverlegt innkaupsverð ódýrs víns og þar sem að gengisfallið hefur bara áhrif á innkaupsverð munu ódýrari vínin hækka minna. Því dýrara sem vínið verður hækkar hlutfall innkaupsverðs og því mun meiri áhrif hefur gengisfallið þar.

Skammtímagengissveiflur hafa haft frekar lítil áhrif á verð okkar vína hingað til enda ómögulegt að vera að hækka vín nokkra tíkalla upp bara til að lækka aftur nokkrum vikum eða mánuðum síðar. Frekar tekur maður eitthvað meðalgengi og námundar síðan svo verð haldist sem stöðugast. Öðru máli gildir um breytingar á gengi til lengri tíma eða þá ýktar sveiflur eins og fallið sem við erum að horfa á núna.

Því miður er ekki hægt að námunda niður á við þegar krónan fellur um 30%. Það eru því hækkanir framundan. Sem betur fer vorum við búin að greiða flesta reikninga og mun hækkana ekki gæta alveg strax en eftir fáeina mánuði verður landslagið töluvert breytt.

Það er því margt vitlausara en að fara ú í Vínbúð til að kaupa sér lager á gamla genginu.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur