Category Archives: veitingastaðir

Lucien Le Moine vínin á bestu veitingastöðum heims skv. Restaurant Magazine

Mounir, eigandi Lucien Le Moine sendi okkur póst í dag til að segja okkur með nokkru stolti að vínin þeirra hjóna hafa ratað á vínseðla bestu veitingastaða í heimi skv. tímaritinu Restaurant Magazine.

Restaurant Magazine var að gefa þennan árlega lista út og er jafnan beðið eftir honum með eftirvæntingu.

Af bestu 12 veitingastöðum í heimi eru 9 sem hafa vín frá Lucien Le Moine á vínseðlinum ( x=“Le“ Moine á listanum).

Meðmælin með vínunum geta því ekki verið mikið betri.

1 El Bulli, Spain (x)
2 The Fat Duck, U.K. (x)
3 Noma, Denmark
4 Mugaritz, Spain
5 El Celler de Can Roca, Spain (x)
6 Per Se, U.S. (x)
7 Bras, France (x)
8 Arzak, Spain (x)
9 Pierre Gagnaire, France (x)
10 Alinea, U.S.
11 L’Astrance, France (x)
12 The French Laundry U.S. (x)

Hér má sjá listann yfir 50 bestu veitingastaði í heimi að mati tímaritsins

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, lucien le moine, vínseðill, veitingastaðir

Ítalskur jólamatseðill á La Primavera

Veitingastaðurinn La Primavera er kominn í jólabúninginn.

Á sérstökum jólamatseðli sem tók í gildi í vikunni er sú nýbreytni að forréttur og eftirréttur samanstanda af fimm ólíkum smáréttum hvor sem gestir fá alla í einu, lítið smakk af hverjum. Svona mini-hlaðborð beint á diskinn þinn.

Þar inni á milli eru fjórir aðalréttir í boði sem gestir velja einn af eins og áður.

Það er hægt að fá sér bara einna aðalrétt eða taka allan pakkann (forréttablöndu, aðalrétt og eftirréttablöndu) á bilinu 6.710 til 7.600, breytilegt eftir því hvaða aðalréttur er valinn.

Skoðaðu girnilegan jólamatseðilinn

Það verða ítölsk jól á La Primavera.

Buon natale!

Færðu inn athugasemd

Filed under la primavera, veitingastaðir

Einar Ben velur d’Arenberg á vínlistann sinn

Alltaf alveg sérstaklega ánægjulegt þegar nýr veitingastaður bætist í lítinn en góðan hóp þeirra sem versla við okkur (skoðaðu hvar vínin okkar fást).

Þannig var hinn þjóðlegi og góði staður Einar Ben að ganga til okkar liðs.

Það var að frumkvæði vínþjónsins og vínsmakkarans Stefáns Guðjónssonar en við höfum lengi haft hann grunaðan um að vera hrifinn af vínunum frá d’Arenberg, alveg síðan hann fjallaði lofsamlega um framleiðandann hér um árið og valdi m.a. The Laughing Magpie sem Vín mánaðarins.

Það er því engin tilviljun að það er einmitt The Laughing Magpie sem hefur nú ratað á síður vínlistans á Einari Ben ásamt „stóra bró“ The Dead Arm.

Byltingin er hafin.

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, einar ben, smakkarinn, vínlisti, veitingastaðir

Vínað í London með TimeOut

Breska TimeOut-útgáfan er með fínar leiðbeiningar á vefsíðu sinni um það hvernig megi ná sem bestu víni út úr Lundúnum.

Þeir taka saman flóru af vínbörum, vínbúðum og veitingastöðum sem þeim finnst heimsóknar verðir og hafa merkt staðina inn á landakort.

Bloggarinn hefur einhverja reynslu í að labba á milli vínbúða í London og mælir með leigubíl.

Færðu inn athugasemd

Filed under london, vínbar, vínbúð, veitingastaðir

Gestablogg: Veröld Soffíu

Soffía skrifar frá Kaupmannahöfn.

Eftir að hafa búið hér í Kaupmannahöfn í 4 mánuði ákvað ég að taka saman alla veitingastaði og kaffihús sem ég hef heimsótt á þessum tíma. Listinn var orðinn ansi langur, svo ég ákvað að setja þessa þekkingu mína á netið, og deila með þeim sem eiga leið um Köben og eru í leit að góðum stöðum í mat og drykk. Hér ætla ég að nefna þá 5 staði sem mér finnst þess virði að kíkja á.

Bibendum er mjög sætur tapas bar. Maturinn er virkilega góður. Þetta er einnig vínbar og vínseðillinn er mjög flottur. Á heimasíðunni þeirra er hægt að skoða vínseðilinn.

Salon, kaffihús á Skt Peders Stræde. Þeir eru með bestu og fallegustu samlokurnar í bænum. Ég mæli með samloku sem nefnist King. Eldhúsið er á við fataskáp og maturinn frá þessu eflaust minnsta eldhúsi bæjarins er mjög góður. Stólar og borð eru fengin héðan og þaðan, og eru ansi sjúskuð, en þetta er mjög kósí. Staðurinn er mest sóttur af fólki á aldrinum 20-30 ára.
 
Era Ora. Þetta er ítalskur staður, með eina michelin stjörnu, og stendur alveg undir væntingum. Þetta er líka einn dýrasti staðurinn í kaupmannahöfn (við borguðum 4000 dkr fyrir 2 með vínum) en þess virði að kíkja ef maður vill gera sér verulega góðan dag. Matseðillinn samanstendur af 14-17 réttum, sem eru frekar litlir þannig að maður hefur pláss fyrir þá alla. 

Það eru held ég um 11 michelin stjörnu staðir í kaupmannahöfn, og því af nógu að taka, ég mæli með að fólk skoði matseðla og verð á netinu. Noma var að fá sína aðra stjörnu, og ég hef heyrt góða hluti um þann stað.

Wagamama er tælenskur staður staðsettur við Tívolíið, og inngangur bæði þaðan og frá götunni. Innréttingarnar eru hráar en virka vel.  Matarskammtar eru vel út látnir, og mjög góðir. Ég mæli með nr 41,44 og 49.  Hvítvínið Stravento bianco er mjög fínt og á góður verði, flaskan 149 kr. Ég hef alltaf fengið topp þjónustu á Wagamama. Matseðilinn má finna á netinu, bæði á dönsku og ensku.

Við Axeltorv er að finna ítalskan veitingarstað, Il peccato sem er með bestu pizzurnar í Köben. Þær eru eldbakaðar og mjög ítalskar. Ég mæli með Diavola, og fá svo extra disk af ferskum chili. Pizzurnar eru stórar, og ég og maðurinn minn deilum alltaf einni. Hvítvín og rauðvín hússins er mjög fínt.

Einnig gæti ég nefnt Lele na hang, Stick´s and sushi á Nanensgade, Il senso, Ricemarket og The de mente. En um þá staði má lesa betur á blogginu mínu

Við þökkum myndlistarmanninum Soffíu fyrir innslagið og bendum á að lesa má frekar um hernig gestabloggið virkar hér.

Færðu inn athugasemd

Filed under gestablogg, kaupmannahöfn, veitingastaðir

Léttklæddasti maðurinn í Veróna — bloggarinn skreppur á Vinitaly 2008

.

Hún er stór.

Vínsýningin sem skiptir mestu máli á Ítalíu fyrir seljendur og kaupendur er án efa hin árlega Vinitaly í Veróna, í byrjun apríl. Bloggarinn var einn af 45.000 erlendum gestum þetta árið en alls mættu 150.000 gestir á sýninguna fyrir utan vínframleiðendurna sjálfa.

Þetta er mikið af fólki. Þótt fjöldinn dreifist á þá 5 daga sem sýningin stendur yfir eru margir gestir sem mæta dag eftir dag og því ekki ólíklegt að giska að um 100.000 gestir hafi verið þarna saman komnir þegar mest lét. Bloggaranum fannst vægi sitt í þessari mannmergð full lítið en 185cm dugðu samt til að fölt andlit hans gægðist öðru hverju upp úr svartkollóttu mannhafinu.

Það var sól og hlýtt í Veróna, svona 17°C. Bloggarinn asnaðist út á skyrtunni fyrsta morguninn til að kaupa tannbursta og leið vel í loftslagi sem teldist jafnvel betra en íslenskt sumar en varð strax mjög vandræðalegur þegar hann uppgötvaði að hann var á þeirri stundu hugsanlega léttklæddasti maðurinn í allri Veróna, innan um kappklædda Ítalí, og lét vera að framkvæma þá tilhugsun sem hafði læðst að honum fyrr um morguninn að baða sig í gosbrunnum borgarinar.

En þetta hófst allt kvöldið áður. Þá var kvöldverður á Pompieri í boði Caprai þangað sem bloggarinn mætti seint og fékk í staðinn express útgáfu af herlegheitunum því ekki skyldi hann sleppa við neinn rétt. Hann var því ennþá að tyggja pylsur þegar settur var diskur af pasta fyrir framan hann og hálfnaður með pastað þegar kjötrétturinn kom en þar náði hann hinum gestunum og fylgdi þar á eftir í gegnum osta og síðan súkkulaðiköku. Var gerður góður rómur að matarlyst bloggarans. Öllu skolað niður með vínunum frá Arnaldo Caprai.

Þetta var ekki í síðasta skipti sem bloggarinn snæddi með Caprai og kompaníi því í hádeginu daginn eftir var boðið upp á margrétta fiskmáltíð inni á sýningarsvæðinu þar sem Caprai vínin voru smökkuð enn frekar. Saddur og glaður bloggari gekk út í sólina með fullan maga af kolkrabba, smokkfisk, skelfisk og ýmsum öðrum sjávardýrum ásamt einu stykki af Michelin stjörnu en bloggaranum er næstum sama hvað hann fær að borða ef það er Michelin stjarna í boði og þessi kom frá veitingastað í hafnarbænum Livorno í Toskana.

Ekki verður tíundað ítarlegar hvað bar á fund bloggarans á sjálfri sýningunni sem var svona „business as usual“. Nýir árgangar af öllum vínum sem Vín og matur flytur inn voru smakkaðir og er óhætt að segja að bloggarinn hafi verið ánægður með sína menn, „Complimenti!“ hrópaði bloggarinn hvað eftir annað. Sömuleiðis var leitað á ný mið eins og tími gafst og ekki ólíklegt að einhverjar nýjungar skili sér á næstunni.

Helst ber að nefna tvennt sem gerðist hins vegar utan sýningarsvæðisins. Annað var heimsókn í óperuhúsið sem var steinsnar frá hóteli bloggarans, 25 skref nánar tiltekið. Ein af fyrstu óperum Verdis var í boði, Attila, sem fjallar um Atla Húnakonung. Fín ópera sem ber þess merki að vera samin snemma á ferli tónskáldsins, nokkru áður en stórvirki eins og Rigoletto komu til sögunnar. Í sumar verður óperuhúsinu lokað og óperuflutningurinn færist út undir beran himinn, inn í rómverska hringleikahúsið Arena eins og frægt er orðið.

Hinn hápunkturinn í utandagskránni var heimsókn til Dal Forno Romano. Bloggarinn kom þangað fyrst fyrir nákvæmlega ári síðan og er árangurinn þeirrar ferðar þegar búinn að skila sér eins og auglýst var í Vínpóstinum ekki fyrir löngu. Hér voru kynnin endurnýjuð, smakkað úr tunnum, en eftirminnilegust er skoðunarferð um splúnkunýja víngerðina sem er reyndar enn í smiðum. Ef það er til nokkuð sem heitir hápunktur í víngerð þá er ekki ólíklegt að hann náist hér í húsakynnum Dal Forno fjölskyldunnar.

Smelltu til að skoða fleiri myndir frá heimsókninni á Vinitaly

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, matur, tónlist, vínsýning, veitingastaðir

Nýr matseðill á La Primavera

Það er vor á La Primavera.

Nýr matseðill byrjaði þar í vikunni með girnilegum réttum.

Unnendur Nautacarpaccio geta andað léttar því sá frægi forréttur situr sem fyrr sem fastast á matseðlinum fastagestum til mikillar ánægju.

Kílktu á nýja matseðilinn á La Primavera

Nýju réttunum má skola niður með vínunum okkar á La Primavera.

Færðu inn athugasemd

Filed under la primavera, matur, vínlisti, veitingastaðir