Category Archives: vínbúðirnar

Hin hérumbil árlega haustútsalalini-lambrusco-scuroÚtsalan er farin aftur af stað.

Svolítill afsláttur af tíu góðum vínum (þar af eitt grappa) sem væri ekki svo galið að næla sér í fyrir jólin.

Mikið neðar var ekki komist í verðum því restin fer að mestu til Skattmanns.

Vínin hafa hætt sölu í Vínbúðunum og því aðeins hægt að kaupa þau á útsölunni. Þau eru öll virkilega góð, hvert með sínum hætti.

Fyrirkomulagið er mjög einfalt. Þú velur vínin og magnið og gefur upp tilheyrandi upplýsingar og 5 dögum síðar eða svo sækir þú pöntunina í þá Vínbúð sem þú óskar eftir.

Smelltu hérna til að skoða útsölulistann og panta

Ekki hugsa þig tvisvar um og alls ekki þrisvar, tvö vínanna eru nú þegar næstum uppseld.

Færðu inn athugasemd

Filed under útsala, tilboð, vínbúðirnar

Hugs!

guignier_biovitisBloggarinn er hér enn þrátt fyrir mánaðar bloggbindi.

Hann hefur meira verið að hugsa en skrifa.

Hann er til dæmis ekki ennþá búinn að tilkynna hérna á blogginu þrjú ný vín frá Hubert Sandhofer.

Rauðvínið St. Laurent Eisner, ilmsprengjuna Gelber Muskateller og hugsleiðsluvínið með langa nafnið Trockenbeerenauslese.

Þau fást öll í Vínbúðunum Heiðrúnu, Skútuvogi og Kringlunni.

Verið er að uppfæra upplýsingar um þessi vín á http://www.vinogmatur.is en þangað til má lesa um þau hjá Vínbúðunum.

Bloggarinn er líka að hugsa um framtíðina og eins og alltaf eitthvað að vesenast með óþekkt og illa seljanleg vín.

Það er einhver Frakklandshugur í honum þessa dagana og nú frá svæði sem er landsþekkt en hefur ekki verið sinnt nægjanlega vel í langan tíma. Þegar ÁTVR óskaði síðan eftir lífrænum vínum slógum við tvær flugur í einu höggi því bæði vantaði vini okkar í ÁTVR lífræn vín og BEAUJOLAIS svo við fundum tvö rauðvín frá Beaujolais og annað þeirra lífrænt. Höfundur þeirra beggja er þó hinn sami, Michel Guignier hjá Domaine Les Amethystes – einn þessari nýju frumkvöðla á svæðinu sem upphefja sem náttúrulegastar framleiðsluaðferðir.

Þetta eru svokölluð Villages þorpsvín, annað frá þorpinu Brouilly og hitt frá Morgon. Ekki það sem kallast Beaujolais Nuoveau.

Annað títt er að ÚTSALAN góða verður endurtekin í byrjun nóvember og þar mun kenna ýmissa grasa. Meira um það síðar.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, útsala, frakkland, lífrænt, Michel Guignier, sandhofer, vínbúðirnar

Mitt á milli Soave og Valpolicella — Nýr framleiðandi í Vínbúðunum

Vínin frá Ca Rugate eru mætt í hillur Vínbúðanna.

Fjögur vín frá hinu þekkta Soave hvítvínssvæði og enn þekktara Valpolicella rauðvínssvæði í hjarta Veneto héraðsins.

Rauðvínin Valpolicella Rio Albo 2008 (2.597 kr.) og Ripasso Valpolicella 2007 (3.998 kr.) og hvítvínin Soave San Michele 2008 (2.597 kr.) og Bucciato 2008 (2.790 kr.).

Megi þau lengi lifa!

Einnig fæst ljómandi góð OLIO EXTRA VERGINE ólífuolía frá framleiðandanum í Frú Laugu (2.980 kr./500ml). Hún er í mjög flottum pakka og fylgir með hverri flösku olíustútur sem hægt er að geyma og nota áfram.

Ca Rugate er einn af þessum framleiðendum sem hafa verið á kortinu okkar í einhver ár (tja, þau eru amk. orðin tvö) og er því ánægjulegt að þetta sé orðið að veruleika.

Það er eitthvað heillandi og einlægt við þessi vín (þú skilur) sem gerir þau þess virði.

Færðu inn athugasemd

Filed under vínbúðirnar

Tvíburarnir vilja vera áfram í Vínbúðunum

Öll vín sem hefja REYNSLU í Vínbúðunum hafa eitt ár til að komast í KJARNA þar sem þeim er tryggður staður í a.m.k. ár til viðbótar. Í kjarna fær vínið meiri dreifingu í fleiri Vínbúðir og ef vínið selst virkilega vel endar það út um allt land. Vínin í kjarna eru líka staðgreidd að hálfu ÁTVR við hverja pöntun en ekki fengin „að láni“ og síðan greidd eftir því hvað selst í hverjum mánuði eins og reynsluvínin.

Sem dæmi: ef ÁTVR pantar 60 flöskur af ákveðnu víni frá okkur og eingöngu þrjár seljast í mánuðinum greiðir ÁTVR aðeins þessar þrjár flöskur. Ef sama magn yrði pantað af kjarnavíni yrði það staðgreitt innan tveggja vikna óháð sölu í Vínbúðunum.

Það er því eftir nokkru að sækjast.

Í hverjum mánuði fáum við framlegðarskýrslu frá ÁTVR þar sem við getum séð hvernig öll vörunúmer í Vínbúðunum eru að standa sig, okkar og annarra. Við sjáum m.a. hvaða vín fara í kjarna, getum séð hversu margir mánuðir eru eftir af reynslu-árinu og hveru mikið vantar upp á í „framlegð“ til þess að komast í kjarnann. Vín sem nær ekki í kjarnann dettur úr sölu og þarf þá að bíða utan Vínbúða í heilt ár eftir að eiga möguleika á endurkomu á reynslulistann ef viðkomandi vínkaupmaður kýs að reyna aftur.

Í augum ÁTVR setur vínkaupmaður vín í reynslusölu með það fyrir augum að koma því í kjarna og velur vín til landsins sem eiga þennan möguleika.

Við erum svolítið óþæg hvað þetta varðar og erum alltaf að setja þarna inn alls konar ósöluvænleg og skrítin vín sem eygja aldrei raunverulegan möguleika á þessari stöðuhækkun úr reynslu í kjarna. Þeir sem þetta lesa vita af hverju það er svo við sleppum langloku um tilgang og ástríður okkar að þessu sinni. Okkar vín eru því alltaf að detta úr sölu og dvelja því gjarnan ekki lengur en árið í Vínbúðunum – og á meðan finnum við einhver önnur ný og ómöguleg vín til að setja í staðinn.

Við getum bara ekkert að þessu gert.

Reyndar hefur svokallaður SÉRLISTI Vínbúðanna komið okkur til hjálpar því þar veljast inn vín til hliðar við þetta sjálfvirka kerfi sem við vorum að lýsa, vín sem er valin af fagmönnum Vínbúðanna. Þetta eru einu vínin í Vínbúðunum sem eru valin inn af gæðum og í þeim tilgangi að auka fjölbreyttni í hillum Vínbúðanna svo landinn drekki nú ekki bara Chardonnay og kassavín út í eitt. ÁTVR auglýsir eftir umsóknum á sérlistann u.þ.b. tvisvar á ári og er tekið tillit til gæða, verðs og þarfar m.a. og samkeppni um hvert sæti.

Nú er þessi póstur orðinn alltof langur og komið að raunverulegri ástæðu hans (ef einhver er ennþá að lesa).

Tvíburavínin Little James rautt og Little James hvítt, frá Chateau Saint Cosme í Rónarhéraði Frakklands, vantar ekki mikið upp á til að komast úr reynslu í kjarna. Reynsluárið rennur út 31. maí og þurfa viðskiptavinir Vínbúðanna að versla 25 flöskur af hvoru víni í hverri viku héðan í frá og út maí til að það takist. Hljómar ekkert svo rosalega mikið en þarf samt átak til.

Öll hjálp vel þegin.

Það er varla hægt að finna meira lifandi og hressileg vín í okkar röðum eins og flöskumiðinn gefur til kynna. Þau fara þó ekki út af sporinu í taumlausri gleði – þrátt fyrir allt þá eru þetta BARA venjuleg og góð frönsk léttvín með svona smá suðrænum samba.

Little James rautt og Little James hvítt kosta bæði 2.289 kr. í Vínbúðunum sem við leyfum okkur að kalla af mikilli hógværð ÞRUSUKAUP.

Takk fyrir hjálpina.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, saint cosme, vínbúðirnar

Nýtt á nýju ári

Það eru blikur á lofti.

Við erum ekki hætt að endurskoða vínportfólíuna þótt maður fari hægar í sakirnar og varlegar en oft áður.

Eins og alltaf munu einhver vín hætta í Vínbúðunum og jafnvel aldrei koma aftur en þá er bara leita í raðir okkar framleiðenda eftir nýjum vínum eða athuga hvort tími sé kominn á endurkomu einhverra sem hafa verið hér áður.

Kerti ÁTVR virkar nefnilega þannig að vín fær reynslu til árs en dettur þá út ef ekki selst nógu vel og má ekki koma aftur inn í annað ár á eftir eða svo. Sérflokkur vína er undanskilinn reyndar en við höfum verið að senda mörg ný vín beint þangað frekar en í „reynslu“ því þar er hugsanlegt að vín fái að dvelja lengur en fyrsta árið ef það er talið nauðsynlegt til að viðhalda framboði og fjölbreyttni vína í Vínbúðunum.

Mjög líklegt má telja að einn framleiðandi eigi þannig endurkomu fljótlega sem er okkur mikil  ánægja því við elskum hvítvínin hans, Christian Moreau í Chablis. Hann gerði eingöngu 1er Cru og Grand Cru hvítvín áður en hefur bætt við einfaldari Chablis Village víni sem hentar okkur vel og við stefnum á að taka inn.

Tveir splúnkunýir framleiðendur fara nú að teljast mjög líklegir hingað með vorinu.

Það eru Combe Blanche á Minervois svæðinu í Languedoc héraði S-Frakklands. Hann mun líklegast verða óþekktasti framleiðandinn okkar hvað varðar alþjóðlega frægð og frama en það er líka bara gott því vínin eru á frábærum verðum miðað við gæði og við stefnum á eitt hvítvín til að byrja með ásamt tveimur rauðvínum. Combe Blanche (sjá mynd af eigandanum Guy Vanlacker lengst til hægri og gott ef ekki bloggaranum þarna þriðja frá hægri í vínsmakki í Montpellier fyrir nokkrum árum) hefur verið í sigtinu hjá okkur í mörg ár svo það er sérstaklega ánægjulegt að fá hann til landsins. Í minningunni voru það einhver praktísk atriði eins og samskipta- og tungumálaörðugleikar (hann talar bara frönsku og átti bara fax ekki tölvu) sem olli því að upp úr samningaviðræðum slitnaði á sínum tíma.

Ca Rugate kynntumst við á Vinitaly vínsýninguni fyrir nokkrum árum. Það var hún Roberta hjá Arnaldo Caprai sem mælti með honum og þar sem við treystum henni svo vel þá létum við tilleiðast að heimsækja básinn hjá Ca Rugate þótt Valpolicella vín væru ekki ofarlega á stefnuskrá okkur yfir ný vín og framleiðendur á Ítalíu. Við höfum reyndar skoðað vín frá öðrum góðum framleiðendum á svæðinu í gegnum árin og ekki má gleyma stjörnuvínunum frá Dal Forno Romano en þau eru eiginlega í flokki út af fyrir sig.

Í stuttu máli heilluðu vínin okkur upp úr skónum, allt frá hvítu Soave til rauða Amarone, Valpolicella, freyðivína og sætvína. Sama hvaða vín voru borin fram þau einkenndust af stílfegurð og gæðum. Nú er hins vegar komið að því að gera eitthvað í þessu og má reikna með komu a.m.k. Soave hvítvíns, Valpolicella og Ripasso fyrst um sinn.

Þetta eru fyrstu drög að nýjum hlutum á nýju ári.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, christian moreau, frakkland, romano dal forno, vínbúðirnar, vínsýning

Eitt af þessum vonlausu vínum í Vínbúðunum

Við getum ekki hætt að flytja inn vín sem enginn kaupir.

Hverjum öðrum en okkur dytti í hug að flytja inn vín sem kemur frá óþekktum framleiðanda af óþekktu svæði eða með miða sem enginn tekur eftir, nú eða nafni sem enginn getur borið fram.

Og Chateau Mourgues de Gres Costieres de Nimes A.O.C. Les Galets Dóres 2007 uppfyllir allt þrennt!

Síðan 1. júlí 2009 hafa 16 flöskur af þessu víni verið keyptar í Vínbúðunum. Það gera tvær flöskur (rúmlega!) á mánuði.

Það flokkast því líklegast undir eitt af þessum vonlausu vínum í Vínbúðunum.

Bara ef einhver hefði getið sett mynd af kanínu á miðann og kallað það „Crazy Rabbit“ eða eitthvað svoleiðis, þá hefði það kannski mokast út.

En okkur þykir það gott, reyndar eiginlega frábært. T.d. með skelfisk-pasta eins og við fengum okkur um daginn. Suðrænt og seyðandi. 

Við höfum lent í þessu áður en lærum ekki af reynslunni. Við — aðallega þessi bloggari — verðum svo æst yfir einhverju svona góðu, getum ekki stillt okkur og er eiginlega sama þótt ekki mokist það út.

Ef við gætum selt 10.000 flöskur á einu ári myndum við frekar vilja selja lítið af mörgum en mikið af fáum.

Love before business.

Það er aðeins meiri vinna en mikið er það nú miklu skemmtilegra.

Eitt er því öruggt, við munum halda áfram að flytja inn svo „vonlaus“ vín.

8 athugasemdir

Filed under mourgues du gres, röfl, vínbúðirnar

Tveir nýir framleiðendur í Vínbúðunum

Vín frá tveimur nýjum framleiðendum eru nýkomin í Vínbúðirnar.

Fyrst ber að nefna Bisceglia sem hefur aðsetur í Basilicata-héraði á S-Ítalíu og gerir vín þaðan en einnig frá nágrannahéruðum. Þannig er Primitivo 2007 rauðvínið frá Puglia og Falanghina 2008 hvítvínið frá Campania á meðan rauðvínið Aglianico del Vulture 2006 kemur frá heimahögunum Basilicata.

Þessi vín eru tvímælalaust góð kaup og framleidd með lífrænum ræktunaraðferðum.

Þau fást í Vínbúðunum Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi.

Hinn framleiðandinn Quintas de Melgaço er staðsettur í Portúgal, okkar fyrsti þar í landi. Frá honum kemur Vinho Verde Terra Antiga hvítvín. Þetta frísklega hvítvín fæst í 10 stærstu Vínbúðunum á Reykjavíkursvæðinu.

Heilmikið af nýjum vínum hafa verið og munu bætast í sarpinn næstu vikur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, bisceglia, portúgal, Quintas de Melgaço, vínbúðirnar

Verðhækkanir í Vínbúðunum

Það hefur ekki farið framhjá neinum að verð á víni og öðru áfengi hefur hækkað. Ástæðan er margumrædd hækkun áfengisgjalds.

Þetta gerðist hratt. Við fengum föstudaginn til að breyta verðum til Vínbúðanna í samræmi við hækkunina og í dag tóku nýju verðin þegar gildi í búðunum.

Það var ekki hjá því komist að hækka verðin því að lagerinn okkar eins og hjá öðrum sprúttsölum er hýstur á frísvæði þar sem við greiðum áfengisgjöld og virðisauka jafnóðum og vara er leyst út og hún afgreidd til Vínbúðanna.

M.ö.o. frá og með fyrsta degi sem ríkisstjórnin ákvað að hækka gjaldið þurftum við að greiða meira en áður fyrir að leysa út af frísvæðinu.

Hækkun okkar vína er á bilinu 100 til 150 krónur á hverja flösku. Einhver vín hækka aðeins meira þar sem gengislækkun krónunnar er ennþá að skila sér í einstaka víni.

Ekki beint gleðifréttir.

Nú er bara að bíða og sjá hvað krónan gerir á næstunni. Vonandi styrkist hún og við getum farið að lækka einhver verð í staðinn fyrir að hækka.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, vínbúðirnar

Bráðum verður beljunni hleypt út á tún

Þessa dagana erum við með ermar uppbrettar að leggja lokahönd á fyrsta kassavínið sem við flytjum inn.

Vanalega leggjum við ekki okkar hendur eða lokahendur á hönnun eða útlit vöru sem við flytjum inn ef endanskilið er samvinnuverkefnið með austurríska vínframleiðandanum Hubert Sandhofer og myndlistarmanninum Kristínu Gunnlaugsdóttur sem lánaði myndefni á vínflöskurnar hans Huberts.

Kassavínshugmyndinni laust niður einhvern tímann á síðasta ári og með hjálp góðra vina var henni hrint í framkvæmd og hún fullmótuð. Vínið fundum við síðan hjá vinum okkar í Toscana, Alessandro og Antoniettu, eftir að hafa smakkað okkur í gegnum nokkra mögulega kandídata.

Ferlið var ekki alveg áfallalaust, fyrsta útgáfan hlaut ekki náð hjá yfirmönnum ÁTVR og var hafnað en það var kannski bara allt í lagi því við höldum að endurbætt útgáfa hafi jafnvel heppnast betur. Um ævintýri beljunnar verður fjallað meira síðar.

Á mánudaginn fer lokahönnun til vina okkar í Toskana sem prenta fyrir okkur og tappa víninu sínu á. Ef allt gengur upp verður beljan mætt í Vínbúðirnar 1. júlí.

Þær verða reyndar tvær þessar elskur, rauð og hvít.

Að sjálfsögðu komnar á Facebook eins og allar beljur sem vilja vera smart.

Hliðarnar á kassanum verða sýndar hér innan skamms þegar algjörlega, 100%, ekki nokkur vafi leikur á að hún sé fullkláruð og helst komin út úr prentsmiðjunni. 

En svona lítur toppurinn og botninn á rauðvínsbeljunni út:

 

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, vínbúðirnar

Hástökkvari mánaðarins í Vínbúðunum

Í hverjum mánuði fáum við sprúttsalar yfirlit frá ÁTVR yfir sölu með útreiknaðri framlegð fyrir hvert og eitt vín. Listinn skiptist í tvennt, yfir vöru sem er í kjarna annars vegar og hins vegar vöru sem er til reynslu.

Þarna sjáum við hvernig okkar vín koma út í samanburði við önnur og hvað vantar upp á til að reynsluvín komist í kjarna eða hversu mikil hætta er á því að kjarnavín dettur úr sölu. M.ö.o. mjög gagnlegur listi sem við getum skoðað í gegnum sérstakan birgjavef, sem og aðrar fréttir og skýrslur.

Í ný-útsendum lista yfir apríl mánuð síðastliðinn kom okkur skemmtilega á óvart að sjá að hástökkvari mánaðarins í flokki reynsluvína er Chianti frá Querceto sem tókst á einum mánuði að slengjast hálfa leiðina í kjarna.

Og fyrstu 10 dagana í maí virðist sem ekkert lát sé á vinsældum vínsins og það lítur vel út með framtíð þess sem stendur. Allavegana erum við nógu bjartsýn til að hafa bókað síðustu 600 flöskurnar sem framleiðandinn átti hjá sér og reiknum með að taka 600 til viðbótar í sömu sendinga af nýjum árgangi, 2008.

Sú sending kemur eftir mánuð eða svo. Hún ætti reyndar að vera ansi skemmtileg og óvenju myndarleg fyrir okkar litla fyrirtæki því þar með í för verður fyrsta kassavínið okkar, rautt og hvítt, en meira um það síðar.

 

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Nýr framleiðandi: Chateau de Montfaucon

Á mánudaginn koma til landsins ný vín frá Rónarhéraði Frakklands. Þetta verða fyrstu vínin sem við flytjum inn af svokölluðu Côtes du Rhône kyni. 

Framleiðandinn er Chateau de Montfaucon og komumst við í kynni við hann fyrir um tveimur árum síðan. Þá fengum við send sýnishorn sem við smökkuðum í góðum hópi við mikla ánægju (lestu fréttina um smakkið), síðan heimsóttum við hann í haust og þá var ekki aftur snúið.

Metnaður og ástríða framleiðandans heillaði okkur upp úr skónum en það er Rodolphe de Pins sem sér um framleiðsluna fyrir fjölskylduna.

Vínin hefja sölu 1. apríl og eru tvö, rauðvín Côtes du Rhône og hvítvínið Comtesse Madeleine.

Við vorum að enda við að uppfæra upplýsingar um framleiðandann og vínin á www.vinogmatur.is

Með í sendingu eru tvö önnur vín frá sama héraði en munu ekki hefja sölu fyrr en 1. júní úr þessu. Það eru hin stórskemmtilegu „Little James“ vín, rautt og hvítt, frá einum rómaðast framleiðanda Gigandas svæðis Rónarhéraðsins, Saint Cosme, sem er ekki síður dýnamísk víngerð. Einstaklega skemmtileg vín með skondin miða, vægast sagt.

1. apríl hefur líka sölu nýtt vín frá Castello di Querceto, Chianti 2007.

Án gríns.

Færðu inn athugasemd

Filed under vínbúðirnar

Og enn af verðbreytingum…

Það er ekki annað hægt að segja en að starfsmenn Vínbúðanna hafi haft nóg að gera í verðmerkingum síðusta misserið.

Fyrst var það hver hækkunin á fætur annarri sem skall á þegar gengið féll og féll og vínkaupmenn þurftu að hækka söluverð í kjölfarið, síðan hækkun á áfengisgjaldi og loks breytingar á lögum er varða álagningu ÁTVR.

Þessari síðustu verðbreytingu var dembt á starfsmenn Vínbúðanna og landsmenn alla 22. desember. Skemmtilegur jólaglaðningur það. Nú er álagning á öll léttvín 18% og það sem er merkilegt við það er að það er ekki munur gerður á því hvort léttvínið fæst í kjarna eða reynslu. Áður var álagningin 13% fyrir fyrrnefnda flokkinn en 19% fyrir þann síðari.

Við höfum alltaf verið með nánast öll vínin okkar í reynslu, þ.e.a.s. í 19% flokkinum, sem hafa þar af leiðandi þurfti að etja kappi við 13% vínin en nú eru öll vín jöfn og kvörtum við svo sem ekki yfir því (þótt betra hefði verið ef sameiginlega prósentan hefði farið niður en ekki upp). Við höfum bara átt tvö vín í kjarna undanfarið, Arnaldo Caprai Grecante og Castello di Querceto Chianti Classico Riserva og hækkuðu þau tvö svolítið á meðan öll hin vínin okkar í Vínbúðunum lækkuðu um þetta prósentustig.

Nú þarf ég að fara að breyta verðunum á www.vinogmatur.is því þau eru flest úreld.

Já það er fjör.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, fréttir, vínbúðirnar

Hækkun um hundað kall takk fyrir

Svona til að einfalda hlutina þá má segja að hækkun áfengisgjalds í vikunni hafi leitt til 100 kr. hækkunar (miðað við 750ml flösku af léttvíni með meðaláfengisprósentu).

Þetta ætla ég ekki að sýna fram á með dæmi. Það yrði frekar frekar leiðinlegt.

Okkar vín hækkuðu öll sem eitt um 100 kall fyrir utan eitt sem hækkaði meira (200 kr.) og annað sem hækkaði minna (60 kr.).

Þetta er náttúrulega nokkuð fúlt, að þurfa að hækka vínin ofan á gengisfallið, og spurning hvort þetta hafi þurft að gerast síðustu daga fyrir jól. Mætti halda að betra væri að halda aftur af útgjöldum ríkis en auka tekjur með þessum hætti þar sem það stuðlar að aukinni verðbólgu. Þrátt fyrir hagsmuni er samt ekki hægt að segja að manni þætti betra að skorið væri niður í menntun eða hjúkrun landsmanna heldur en klípa af vínneyslu landsmanna.

O jæja.

2 athugasemdir

Filed under fréttir, vínbúðirnar

St. Laurent Reserve í fleiri Vinbúðir yfir hátíðarnar

Þemadagar svokallaðir ríkja í Vínbúðunum í desember þar sem lögð er áhersla á vín með villibráð.

Vínin á þemadögunum eru pöruð með ákveðnum réttum sem innihalda villibráð og fá sérstaka merkingu í hillunum samkvæmt því.

Birgjar fá að tilnefna sjálfir hvaða vín veljast á þemadagana og með hvaða réttum þau skuli parast en vínráðgjafar vínbúðanna hafa yfirumsjón með verkefninu og sjá til þess að tilnefnd vín fari vel með viðkomandi réttum og geta breytt óskum birgjanna eftir sínu nefi og þekkingu. Það er gert svo að birgjar séu ekki að tilnefna vín sem eiga ekkert erindi með viðkomandi réttum heldur tilnefna þau bara til þess að auka sölu viðkomandi vína.

Þar sem Vín og matur er lítið fyrirtæki fáum við færri tilnefningar en stóru birgjarnir, þ.e.a.s. birgir þarf að eiga ákveðið mikið af vínum í svokölluðum kjarna til þess að eiga rétt á hámarksfjölda tilnefninga. Sömuleiðis eru aðgangur vína sem er í reynslusölu eða í svokölluðum sérflokki takmarkaður verulega en aðeins má tilnefna eitt vín úr þeirra röðum.

Hvort tveggja þýðir að okkur er þröngur stakkur skorinn hvað tilnefningar varðar og fór það svo þetta árið að við tilnefndum bara eitt vín, rauðvínið St. Laurent Reserve frá Sandhofer.

St. Laurent Reserve er að okkar mati frábært með t.d. önd eða gæs, á þemadögunum er það einmitt parað með uppskrift af villiandabringum. Það er úr þrúgu sem sjaldan sést í Vínbúðunum, St. Laurent heitir hún eins og vínið, og glæðir vínið því úrval Vínbúðanna að okkar mati sem á það til að verða á köflum einsleitt. Ilmurinn af víninu er afskaplega heillandi, vínið mjúkt í munni og fágað.

St. Laurent Reserve er reynsluvín, það fæst því eingöngu í Heiðrúnu og Kringlunni, en til viðbótar fær það dreifingu í Skútuvog, Smáralind, Eiðistorg og til Akureyrar yfir hátíðarnar.

150 flöskur af víninu fara í þessar Vínbúðir öðru hvoru megin við helgina. Meira eigum við ekki til, í bili a.m.k. og erfitt að sjá fyrir sér að verðið á því (2.695 kr.) verði svona hagstætt á næsta ári en þetta er sama verð og frá því í sumar.

Gestgjafinn valdi vínið á dögunum sem Vín mánaðarins. Lestu dóminn

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, sandhofer, vínbúðirnar

Flest okkar vín á óbreyttum verðum fram yfir jól

Við fengum margar hringingar á föstudaginn varðandi þá miklu hækkun 1. nóvember í Vínbúðunum sem fólk taldi að myndi gerast og hafði farið eins og eldur um sinu um samfélagið.

25% héldu flestir að hækkunin myndi verða og einn hafði heyrt 50%.

Þetta var mikill miskilningur því þótt mörg vín hafi hækkað í Vínbúðum þessi mánaðarmót var hækkunin ekki nema um 5% að meðaltali þegar uppi var staðið og var það ekki ÁTVR sem lagði hana á heldur vínheildsalar sem hafa þurft að glíma við lækkandi krónu undanfarið eins og aðrir sem flytja inn vöru.

Okkar vín stóðu hins vegar í stað fyrir utan eitt sem hækkaði nýlega um nokkur prósent og stefnir í að við þurfum ekki að hækka neitt einasta vín fram yfir jól, hvað gerist á nýju ári veltur á stöðu krónunnar að sjálfsögðu. Góðkunningjar frá Caprai, d’Arenberg, Fontodi, Sandhofer, Falesco og fleirum verða áfram á óbreyttu verði.

Skál fyrir því!

Nýju sérflokksvínin sem við erum enn með í biðstöðu varðandi innflutning munu hins vegar verða dýrari á endanum heldur en reiknað var með miðað við núverandi gengi en þar sem við höfum ekki keypt þau ennþá er ómögulegt að spá hvert lokaverðið verður eða hvort þau komi landsins yfir höfuð (sjá eldra blogg). Þessi nýju sérflokksvín hafa verið skráð á vefsíðu Vínbúðanna en þau verð byggjast á tilboðum sem gerð voru í ágúst þegar gengi var allt annað og því varla marktæk í stöðunni eins og hún er nú. Það er einfaldlega sú staðreynd sem blasir við.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vínbúðirnar

Vín í vanda

Það hefur ekki farið framhjá neinum að innflutningur til Íslands liggur gott sem niðri.

Við erum ágætlega birg af þeim vínum sem fást í Vínbúðunum þessa stundina en þetta kemur hugsanlega til með að hafa áhrif á innkomu nýju vínanna sem sérfræðingar Vínbúðanna völdu nýlega í svokallaðan Sérflokk. Vín og matur fékk þar tæplega 20 fulltrúa sem fæstir hafa fengist áður í Vínbúðunum.

Sérflokkur er flokkur vína í Vínbúðunum sem byggist á smakki sérfræðinganna og er ætlað að gera vínum kleyft að fást í Vínbúðunum sem annars ættu erfitt uppdráttar. Þ.e.a.s. flokkurinn bætir upp og breikkar flóruna með vínum frá t.d. sjaldgæfari vínræktarsvæðum eða úr ákveðnum þrúgum, lífrænum vínum, dýrari vínum o.s.frv.

Fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar sem fæst einmitt talsvert við slík vín þá er Sérflokkurinn mikilvæg og góð leið til að tryggja okkar vínum betri sess í hillum Vínbúðanna en ella, bæði með tilliti til fjölda tegunda og dreifingar því sérflokksvínum er dreift í margar Vínbúðir.

Gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt undanfarið en veikt og því höfum við haldið að okkur höndum með von um að það styrktist en svo virðist ekki ætla að gerast í bráð. Sérflokksvínin eru því enn í biðstöðu en við lifum í voninni að einhver þeirra a.m.k. verði fáanleg fyrir jól. Hvort maður fær svo að kaupa gjaldeyri til að flytja þau inn yfir höfuð höfum við ekki hugmynd um því ekki hefur reynt á það ennþá síðan núverandi ástand skapaðast.

En það verður til vín, já, já, það verður til vín.

Færðu inn athugasemd

Filed under innflutningur, vangaveltur, vínbúðirnar

Vinbudin.is

Talandi um nýjar vefsíður (sjá bloggið hér fyrir neðan).

Það er ástæða til þess að minnast á það að vínbúð allra landsmana, ÁTVR, er búin að opna nýjan vef og ástæða til þess að óska þeim til hamingju því hann er stílhreinn og flottur. Hvítur bakgrunnur, grátt letur og rauðar fyrirsagnir.

Hmmm…. kannast eitthvað við þá samsetningu.

Vefurinn hefur líka fengið nýtt nafn og heitir ekki lengur www.vinbud.is heldur www.vinbudin.is.

Svona til þess að taka af öll vafamæli um að það er aðeins ein vínbúð á íslandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under vínbúðirnar, vefsíður

Átta ný vín frá Ítalíu fara í Vínbúðirnar í dag

Lítil bylting í gangi hér.

Ekki á hverjum degi sem við sendum átta ný vín í Vínbúðirnar. Þessi hersing er afleiðing af heimsókn bloggarans á Vinitaly vínsýninguna í vor (lestu meira um heimsóknina).

Frá Arnaldo Caprai eru tvö ný vín með sama nafni, Anima Umbra rautt og Anima Umbra hvítt, sem ætlað er að fanga anda Úmbría héraðsins eins og nafnið „anima umbra“ gefur til kynna. Þau eru með sniðugum flipa aftan á flöskunni með nafni vínsins sem hægt er að fjarlægja. Umani Ronchi er sömuleiðis að spreyta sig á nýju víni, Pecorino Vellodoro, sem kemur frá vínekrum framleiðandans í Abruzzo héraði. Hvítt og rautt frá Falesco eru með í för, Poggio dei Gelsi og Tellus, bæði frá Lazio héraði. Síðan er það alveg nýr framleiðandi, Lini í Emilia Romagna héraðinu, og koma frá honum tvö freyðandi vín, rautt Lambrusco og hvítt Moscato, en frá Lini höfum við einnig fengið Balsamik edik. Að lokum er það Chianti Classico frá Fontodi sem er nú tæplega alveg nýtt en það er að byrja aftur í vikunni eftir nokkurt hlé frá Vínbúðunum.

Fimm framleiðendur frá fimm mismunandi héruðum á Ítalíu. Tilviljun eiginlega að öll þessi héruð liggja gott sem upp að hvert öðru á miðju stígvélinu.

Vínin átta fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni frá og með morgundeginum.

4 athugasemdir

Filed under ítalía, caprai, falesco, fontodi, lini, umani ronchi, vínbúðirnar

Biluð strikamerki – St. Laurent Reserve frá Sandhofer komið aftur í Vínbúðirnar

.

Það var einhver óheppni að strikamerkin á St. Laurent Reserve frá Sandhofer fóru illa í lesarana í Vínbúðunum og þurftum við að sækja allt saman og setja ný strikamerki á flöskurnar.

Okkur þykir miður ef einhver fór fýluferð í Vínbúðirnar og var stoppaður við kassann vegna grunsemda um að hafa undir höndum illlæsilegt strikamerki en viðkomandi getur tekið gleði sína aftur því vínið er komið aftur í hillur Vínbúðanna og bíður eftir því að fara til nýs eiganda.

Færðu inn athugasemd

Filed under sandhofer, vínbúðirnar

Fiskiveisla í Vínbúðunum

.

Það er fiskiveisla í Vínbúðunum í apríl.

Þar verður ekki boðið upp á úrval fiskirétta beint af grillinu, gestakokka og ferskan krækling ásamt úrvali hvítvína sem hægt er að smakka á staðnum.

En þar er hægt að nálgast þennan bækling með fiskiuppskriftum ásamt lista af góðum hvítvínum til að drekka með, heima hjá sér, eins og The Stump Jump og Casal di Serra.

Við drögum upp gamlan límmiða af því tilefni hér til hægri. 

Færðu inn athugasemd

Filed under d'arenberg, matur, umani ronchi, vínbúðirnar

Hinn eini sanni Hátíðarvínlisti Íslands 2007

.

Neyðarlína Víns og matar hefur verið rauðglóandi undanfarna daga til að svara spurningum um vín með hátíðarmatnum. Til að létta á starfsfólki í símaveri höfum við ákveðið að taka hann saman aftur — Hátíðarvínlista Íslands 2007 [varist eftirlíkingar]:

Manstu ekki neitt þegar þú kemur í Vínbúðina? Smelltu hér til að prenta listann (pdf) og taktu hann með

Rjúpa: Ert þú einn af þeim heppnu sem fær að borða rjúpur þessi jól og hlærð að okkur hinum? Þá mælum við með hinu ástralska rauðvíni The Laughing Magpie sem kostar 2.100 kr. í flestum stærri Vínbúðum. Sá hlær best sem síðast hlær. (innsk. ritstj: umfram rjúpur eru vel þegnar í síma 693 7165).

Hreindýr: Með kröftugum mat þarf kröftug vín og fá vín eru kröftugri en rauðvínin úr Sagrantino þrúgunni frá Arnaldo Caprai. Sagrantino di Montefalco Collepiano fæst á sérlista í flestum stærri Vínbúðum og kostar 4.300 kr. Svaðalegt vín í silkihanska.

Hamborgarhryggur/Hangikjöt: Selta og reykur kallar á ferskt og ávaxtaríkt vín sem er ekki of þurrt né of eikað. Rauðvínið ástralska The Stump Jump úr GSM þrúgnablöndu eða samnefnt hvítvínið The Stump Jump eru spriklandi skemmtileg. Hið fyrra kostar aðeins 1.490 kr. og hið síðara 1.390 kr. yfir hátiðarnar í flestum stærri Vínbúðum.

KalkúnChateau de Flaugergues úr GSM þrúgnablöndunni frá S-Frakklandi hefur aðlaðandi ilm og mjúka áferð. Það kostar 1.750 kr. og fæst í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Gæs/Önd: Þótt þessar fuglategundir séu ekki nákvæmlega eins (önnur segir „bra“ hin segir „kvak“) mælum við einu og sama víninu með þeim báðum. Litla „Barolo“-ið, Nebbiolo Langhe frá La Spinetta er þykkt og karaktermikið og fer lokkandi vel með fuglinum. Það kostar 2.690 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Lambakjöt: Lífræna sveitaprinsessan Les Baux de Provence frá hinu fallega Provence héraði Frakklands smellpassar með lambakjötinu. Það fæst á sérlista og má finna í stærstu Vínbúðunum á 1.790 kr.

Nautakjöt: Nýi árgangurinn (2003) af Castello di Querceto Chianti Classico Riserva er bragðmikill og þéttur og mun auðveldlega taka nautakjötið í bóndabeygju. Það kostar 2.360 kr. í flestum stærri Vínbúðunum.

Kjúklingur: Létt rauðvín frá Chianti er málið með kjúlla litla. Querceto Chianti kostar 1.390 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Lax: Casal di Serra frá Umani Ronchi er fjölhæft, ítalskt hvítvín og alls ekki bundið við laxinn þótt það falli einstaklega vel að honum. Það hefur þægilega angan og er aðgengilegt. Þroskað í bland við krydd og hvít blóm.- 1.590 kr. í flestum Vínbúðum.

Humar: Hvað með Chablis? Hvað með 1er Cru Chablis? Þá er málið að kippa Chablis 1er Cru Vaillon frá Domaine Christian Moreau sem fæst í Vínbúðunum Kringlunni og Heiðrúnu á 2.890 kr.

Aðrir forréttir og grænmetisréttir: Þessi flokkur er svolítið víður en að jafnaði hentar létt og brakandi ferskt hvítvín eins og Grecante í Úmbría á Ítalíu. Það er óeikað en hefur þroskaðan og þykkan ávöxt sem gælir við bragðlaukana. Kostar 1.690 kr. í flestum stærri Vínbúðunum yfir hátíðarnar. 

Fordrykkur: Það er ekki hægt að búa til hátíðarvínlista án freyðivíns. Frizzando frá Sandhofer er aðlaðandi, hálffreyðandi vín sem er unun að drekka fyrir mat – og jafnvel með honum líka. Það kostar 1.790 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Eftirréttir: Heilaga sætvínið Vin santo frá Toskana sér til þess að allar máltíðir endi á amen. Það kostar 2.100 kr. á sérlista og fæst í stærstu Vínbúðunum.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, christian moreau, d'arenberg, flaugergues, hátíðarvín, jól, la spinetta, mas de gourgonnier, matur, sandhofer, vínbúðirnar

Vín á tilboði yfir hátíðarnar

.

Eins og vanalega fengum við að tilnefna nokkur vín á sérstakan hátíðarvínlista Vínbúðanna sem gildir til áramóta.

Við tilnefndum 5 reynsluvín og fást þau þá ekki bara í Kringlunni og Heiðrúnu næstu vikurnar heldur líka í Smáralind, Eiðistorgi, Skeifunni, Hafnarfirði og á Akureyri.

Með svolitlum afslætti meira að segja.

Þetta eru vínin, tilboðsverðin og í sviga er matarflokkurinn sem þau þykja henta best með.

Castello di Querceto Chianti Classico Riserva – 2.350 kr. (m. lamba- og nautakjöti)
Arnaldo Caprai Belvedere – 1.590 kr. (m. ljósu kjöti)
Arnaldo Caprai Grecante – 1.690 kr. (m. fiski)
d’Arenberg The Stump Jump rautt – 1.490 kr. (m. ljósu kjöti)
d’Arenberg The Stump Jump hvítt – 1.390 kr. (m. fiski)

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, d'arenberg, tilboð, vínbúðirnar

Kjarnavínin okkar — uppfærður listi

.

Við eigum ennþá fimm vín í kjarna Vínbúðanna sem þýðir að þau fást víðar heldur en bara í Heiðrúnu og Kringlunni.

Dreifingin er þó mis mikil. Ég myndi ekki treysta á að þú fyndir þau á Djúpavogi.

Chianti Classico frá Fontodi hefur selst best okkar vína undanfarið en Casal di Serra, eina hvítvínið af þessum fimm, á sér tryggan aðdáendahóp. Annað Chianti Classico frá öðrum framleiðanda, Castello di Querceto, hefur gengið nokkuð vel og síðan eru tvö rauðvín frá hinum stórskemmtilega d’Arenberg, The Footbolt og The Laughing Magpie.

Að öðru leyti fást vínin okkar eingöngu í Heiðrúnu og Kringlunni.

Undantekningin eru stöku sérlistavín (skoðaðu listann) og ákveðin vín sem fá tímabundið aukna dreifingu á þemadögum Vínbúðanna.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, fontodi, umani ronchi, vínbúðirnar

Hjálp óskast við að koma Flaugergues í kjarna

.

Það þurfa aðeins að seljast nokkrir tugir flaska í Vínbúðunum af rauðvíninu Chateau de Flaugergues frá S-Frakklandi til þess að það komist í kjarna Vínbúðanna.

Ef það nær þeim áfanga er vera þessa í Vínbúðunum a.m.k. ár héðan í frá tryggð auk þess sem vínið fær dreyfingu í fleiri Vínbúðir.

Við getum það með þinni hjálp.

Ég get ekki drukkið svona mikið óstuddur.

Það væri gaman ef þeir sem hafa unað þessu víni fram að þessu og þeir sem vilja prófa eitt af skemmtilegri vínum sem hafa rekið hingað frá ströndum S-Frakklands hjálpi því að ná áfanganum góða með því að skunda í Vínbúðina í Kringlunni eða Heiðrúnu og kaupa flösku(r).

Chateau de Flaugergues [sjató dö flausjarg] kostar 1.750 kr.

Takk fyrir hjálpina.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, flaugergues, frakkland, vínbúðirnar

Sumarvín í Vínbúðunum

Það standa yfir sumarvíndagar í Vínbúðunum.

Við eigum 5 vín þar sem eru á tilboði fram yfir verslunarmannahelgi.

Casal di Serra (1.490 kr. í stað 1.590 kr.) er vinsælt hvítvín frá Umani Ronchi í Le Marche héraði á Ítalíu. Það er eingöngu framleitt úr Verdicchio þrúgunni og hefur verið eitt vinsælasta ítalska hvítvínið í Vínbúðunum síðustu ár.

The Footbolt (1.690 kr. í stað 1.790) er bragðmikið rauðvín frá d’Arenberg í McLaren Vale í S-Ástralíu og er hreint Shiraz. Við völdum það fyrsta keðjuvínið okkar.

Lou Maset (1.490 kr. í stað 1.600 kr.) er karaktermikið rauðvín frá Domaine d’Aupilhac í Languedoc héraði Frakklands. Það er samsett úr nokkrum þrúgum og er bæði lífrænt og bíódýnamískt.

Grecante (1.690 kr. í stað 1.790 kr.) er ofurljúft hvítvín frá Arnaldo Caprai í Umbria héraði á ítalíu. Það heitir í höfuðið á þrúgunni sem það er úr, þ.e.a.s „Grechetto“ og er mikið og gott matarvín, þykkt og aðlaðandi.

Chateau de Flaugergues (1.650 kr. í stað 1.750 kr.) er vel gert og heillandi rauðvín frá samnefndum framleiðanda í Languedoc héraði Frakklands sem hitti í mark þegar það kom fyrst á markað fyrir ári síðan. Þetta er svokallað GSM vín, þ.e.a.s. það er framleitt úr þrúgunum Grenache, Syrah og Mourvédre.

Þessi vín eru öll góð kaup. Mikið fyrir lítið.

Nú á enn betra verði.

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, caprai, d'arenberg, flaugergues, tilboð, umani ronchi, vínbúðirnar

Laderas á 14,30 krónur fyrir hvert Parker stig

.

Laderas de El Seque 2005 frá Artadi víngerðinni á Spáni fær 90 stig hjá Robert Parker.

Laderas de El Seque kostar 1.290 kr. á sérstöku tilboði í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni.

Það gera aðeins 14,30 krónur fyrir hvert stig sem Robert Parker gefur víninu sem er líklegast lægsta gjald per Parker stig fyrir vín sem við höfum flutt inn.

M.ö.o. miðað við verðið í Vínbúðunum eru þetta bestu kaup sem við höfum flutt inn að mati Robert Parker útgáfunnar.

Lýsingin er einhvern veginn svona:

LADERAS DE EL SEQUE 2005 90 stig
„The 2005 Vinedos de El Seque is composed of 80% Monastrell, 10% Syrah, and 10% Cabernet Sauvignon aged 4-6 months in French oak. Opaque purple-colored, it offers a superior nose of graphite, truffle, mocha, blueberry, and blackberry liqueur. Full-flavored and supple on the palate, its personality is formed by gobs of sweet, ripe fruit with all components in balance. There is enough structure to support several years of bottle age but who will be able to resist it now? It is a sensational value worth buying by the case.“ (www.erobertparker.com)

ATH! Vínið hættir í sölu í Vínbúðunum í byrjun júní en það verður hægt að sérpanta þetta gæðavín eftir þann tíma.

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, dómar, el bulli, robert parker, spánn, tilboð, vínbúðirnar

Ný íslensk bloggsíða sem fjallar um vínin í Vínbúðunum

.

Steinar Þór Guðlaugsson fjallar um vínin í Vínbúðunum á nýrri bloggsíðu sinni.

Ég rakst á það rétt í þessu þegar ég var að þvælast eitthvað inni á Mbl.is og líst mjög vel á.

Meðal fyrstu færslanna eru þrjár vandaðar lýsingar um vín frá okkur og ekki spillir fyrir hversu jákvæðar þær eru í þeirra garð.

Lestu hvað Steinar Þór segir um The Hermit Crab 2004 frá d’Arenberg, Chianti Classico 2005 frá Castello di Querceto og Terre d’Argence 2004 frá Chateau Mourgues du Gres.

Færðu inn athugasemd

Filed under blogg, castello di querceto, d'arenberg, dómar, mourgues du gres, vín, vínbúðirnar

Ítalskir dagar – tvö vín á tilboði

.

Í Vínbúðunum standa nú yfir ítalskir dagar.

Við erum með tvö vín á afslætti í Vínbúðunum á meðan á dögunum stendur út maí, Vitiano hvítvínið kostar 1.490 kr. í stað 1.590 og Querceto Chianti kostar 1.290 kr. í stað 1.390.

Vitiano hvítvínið var að fá þessa fínu umfjöllun í Morgunblaðinu á föstudaginn auk þess að vera valið Bestu Kaupin nýlega í Gestgjafanum.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, falesco, tilboð, vínbúðirnar

Alkinn og áfengisfrumvarpið

.

Á mánudaginn fer áfengisfrumvarpið fyrir þingið eina ferðina enn. Held að það sé í fjórða sinn. Þar er mælst til að matvöruverslanir selji létt vín (að 22% styrkleika) en að ÁTVR hafi áfram einkasölu á sterku áfengi.

Lestu frumvarpið hér

Ég sé fyrir mér allar hillur fullar af sterku áfengi í Vínbúðunum núverandi sem þurfa náttúrulega að skipta um nafn þar sem þær selja ekki lengur vín. Ég sting upp á „Spírinn“ en besta nafnið er náttúrulega „Alkinn“ nema hvað að það er frátekið – þeir í finnsku einokunarversluninni kalla nefnilega sínar verslanir „Alko“! enda eru vínbúðir náttúrulega stórhættulega búðir sem selja alkóhól fyrst og fremst – þú gengur inn og segir hátt „ég vil fá 15% alkóhól“ eða „ég er í stuði, gemmér 40% í dag“.

Hvað þýðingu hefði þetta fyrir markaðinn og hvað finnst okkur í Vín og mat um málið?

Við erum a.m.k. ekki í hópi þeirra birgja sem vilja halda fyrirkomulaginu óbreyttu. Við erum ekki í hópi þeirra birgja sem þráum öryggið sem felst í einokunarversluninni (úps, ég var búinn að gleyma að ÁTVR er ekki einokunarverslun skv. þeirra eigin skilgreiningu – nokkuð sem þeir minna mig reglulega á þegar ég missi það orð út úr mér). Stóru birgjunum er haldið uppi af núverandi kerfi og ef það hrundi kippir það fótunum gjörsamlega undan þeim og markaðurinn tekur við. Þeir gætu setið uppi með allt eða ekkert. Við erum jaðarfyrirtæki sem þráir frelsið og erum óhrædd að takast á við nýtt og spennandi umhverfi.

Súpermarkaðir verða einhæfir og þar kaupir landinn mest en eftirspurnin eftir fjölbreytni verður enn til staðar og munum við mæta henni. Við teljum að okkar vinalegu viðskiptavinir (fyrirtæki og einstaklingar) vilji halda áfram að kaupa vínin okkar og vitum að einungis góð vara og þjónusta vinnur slíkt traust.

Hvort frumvarpið sé lagt fram í sem ákjósanlegustri mynd treysti ég mér ekki alveg til að segja um. Það vita allir að ÁTVR kemur aldrei til með að þrífast á sölu einungis sterks áfengis. Reyndar er sú breyting lögð til frá fyrri útgáfu frumvarpsins að ÁTVR fái að selja léttvín samhliða einokuninni á sterku áfengi og hlýtur staða þeirra að breytast eitthvað en það hlýtur einungis að vera tímabundið ástand og á endanum verði ÁTVR selt á frjálsum markaði (… en síðan hugsa ég til Mjólkursamsölunnar…gúlp!). Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort betra væri að leggja til að ÁTVR væri lagt niður og að salan yrði færð í vínbúðir í einkaeigu en ekki súpermarkaði. Við erum reyndar fylgjandi því að það eigi að vera í súpermörkuðum en kannski væri frumvarpið líklegra til að skila árangri (takmarkið hlýtur fyrst og fremst hlýtur að vera að leggja niður ÁTVR) ef súpermörkuðum væri haldið fyrir utan til að byrja með því að hugsanlega er það stóra ástæðan fyrir því að svo margir þingmenn eru á móti breytingum og þar af leiðandi fæst frumvarpið aldrei samþykkt og einokunartak ÁTVR framlengist um ókomin ár.

Hvernig sem er, það verður spennandi að fylgjast með umræðunni þótt ég spái ekki bjarti útkomu frekar en áður. Reikna ég með að gömlu forvarnarrökin verði áberandi hjá andstæðingum. Vantraust, sú tilfinning að meðbræður okkar séu ekki valdir starfans, að þeir séu jafnvel með illt í hyggju – og þess vegna þurfi Ríkið að hafa vitið fyrir þeim – er móðgun öllum góðum þegnum í þessu landi.

Ég er a.m.k. stórmóðgaður.

Færðu inn athugasemd

Filed under vangaveltur, vínbúðirnar

Top 11 söluhæstu vínin í desember

.

Hér eru 11 söluhæstu vínin okkar í Vínbúðunum í jólamánuðinum:

1. Fontodi Chianti Classico
2. d’Arenberg The Laughing Magpie
3. Castello di Querceto Chianti Classico Riserva
4. Castello di Querceto Chianti Classico
5. Falesco Vitiano Rosso
6. Umani Ronchi Casal di Serra
7. Firriato Santagostino Rosso
8. d’Arenberg The Hermit Crab
9. d’Arenberg The Footbolt
10. Chateau de Flaugergues Cuvee Sommeliere
11. Chateau de Mourgues du Gres Terre d’Argence

1-4, 6 og 8 fást öll í Kjarna (flestar vínbúðir) en hin fimm eru aðeins fáanleg í Heiðrúnu og Kringlunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, d'arenberg, falesco, flaugergues, fontodi, frakkland, mourgues du gres, umani ronchi, vínbúðirnar