Category Archives: vínsmökkun

Hubert Sandhofer kíkir í heimsókn

Austurríski vínframleiðandinn Hubert Sandhofer var á Íslandi í síðustu viku og kíkti í heimsókn til okkar í höfuðstöðvarnar til að smakka nýjustu vínin.

Flest vínanna voru ekki komin á flöskur ennþá og þurfti Hubert að tappa þeim beint úr tanki eða tunnu á litlar smakkflöskur sem hann tók með sér til landsins.

Við höfum smakkað flest vína Huberts síðustu ár. Hann er vaxandi vínframleiðandi. Hann viðurkennir að hann sé alltaf að læra og uppgötva eitthvað nýtt og það er gaman að rabba við hann og fá innsýn í þær ákvarðanir sem víngerðarmaðurinn þarf að taka. Hann er forvitinn og ástríðufullur, metnaðarfullur svo við höfum alltaf haft á tilfinningunni að hann ætti ennþá inni. Að áhuginn og rannsóknarstarfið ætti eftir að bæta vínin hans enn frekar þótt góð væru þegar.

Það koma á daginn. Smakkið í ár var töluvert jafnara og nokkuð betra en smakkið í fyrra viðstöddum til mikillar ánægju. Hvert vínið á fætur öðru var áhugavert, heilsteypt og „austurrískt“ – alveg eins og við viljum hafa það.

Nú er bara spurning hvað við gerum á næstunni til að auka framboð þessara vína á Íslandi en vín frá Austurríki hafa átt svolítið erfitt uppdráttar á meðal söluvænlegri markaðsafurða.

Hubert er lítill framleiðandi´og vínin hafa karakter. Þau eru líka góð matarvín, sérstaklega hvítvínið og rósavínin.

Athugið að verðin á þeim Sandhofer vínunum sem nú fást eru frá því síðasta sumar þegar við keyptum slatta inn. Þau eru því ekki bara samkeppnishæf heldur dúndurhagstæð.

Færðu inn athugasemd

Filed under sandhofer, vínsmökkun

Og fyrsti vinningshafinn í póstlistaáskoruninni er…

… Tryggvi Blöndal!

Innilega til hamingu með vinninginn Tryggvi.

Tryggvi var númer 654 á póstlistanum og hlýtur að launum vínsmökkun fyrir sig og sína ásamt fyrsta flokks ítölsku fingurfæði frá veitingastaðinum La Primavera.

Við Tryggvi erum þegar farnir að skipuleggja vínsmökkun fyrir hann og hans fólk á næstu vikum.

Nú er gott að vera vinur Tryggva.

Við minnum á að póstlistaáskorunin er í fullum gangi ennþá, næst verður dreginn út sambærilegur vinningur þegar fjöldi áskrifenda að Vínpóstinum verður 800 manns. Þá verður einn áskrifandi dreginn út úr þeim sem bættust við frá 701 til 800.

Vinningslíkur eru því 1 á móti 100 fyrir hvern nýjan áskrifanda.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, happdrætti, la primavera, vínpósturinn, vínsmökkun

Land der Berge, Land am Strome — vínkynning á Vínbarnum í dag

.

Hubert Sandhofer er mættur til landsins og getur ekki beðið eftir því að leyfa þér og öllum hinum að smakka vínin sín á Vínbarnum í dag kl. 17.00.

Vonandi hefur það ekki farið framhjá neinum að um er að ræða þrjú vín með myndlist eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem við, Hubert, Kristín og nokkrir góðir aðilar völdum í sameiningu snemma á vor-dögum.

Þar sem smökkunin á eftir er kynning en ekki námsskeið er ekki nauðsynlegt að koma á slaginu 17.00 heldur er hægt að detta inn hvenær sem er á milli 17.00 og 19.00 til að kynnast vínunum nánar.

Sem fyrr eru vínin þrjú: hvítvínið Grüner Veltliner 2007, rósavínið Rosando 2006 og rauðvínið St. Laurent Reserve 2006.

„Land der Berge, Land am Strome“hér má hlusta á þjóðsöng Austurríkis til að koma sér í stemninguna.

Og ef þú ert ekki búinn að sjá og hlusta á Hubert sjálfan lýsa verkefninu og víngerðinni má gera það hér.

Vínbarinn er á Kirkjutorgi 4, við hliðina á Dómkirkjunni. Við hlökkum til að sjá þig og endilega kipptu einhverjum með.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, sandhofer, vínbarinn, vínsmökkun

Block 6 toppar í Syrah/Shiraz áskorun

Við höfum áður minnst á vínsmakkanir EWS í New York hér á blogginu.

Nýlega stefndu EWS smakkarar saman vínum úr „Síras“ þrúgunni sem ýmist er kölluð Syrah á franska vísu eða Shiraz á t.d. ástralska vísu en sú þrúga er líklegast að verða vinsælasta rauðvínsþrúgan á eftir Cabernet Sauvignon eftir að kvikmyndin Sideways rústaði orðspori Merlot þrúgunnar. Í smakkinu voru eingöngu rómuð vín úr þrúgunni frá Frakklandi, Ástralíu, Kafliforníu og Ítalíu.

Það var gaman að sjá að Block 6 2004 frá Kay Brothers skaut öllum hinum ref fyrir rass og hlaut vel flest atkvæði sem besta vín vínsmökkunarinnar með 97 stig og komment eins og þetta hér segir allt sem segja þarf „Make no mistake, this first place wine rocked our world and was easily the best Kay Brothers “Block 6” we’ve ever encountered“.

Vínið er víst uppselt hjá okkur þar til nýr árgangur lítur dagsins ljós.

En hérna eru öll vínin frá því efsta til þess neðsta:

2004 Kay Brothers Shiraz “Block 6”
2004 Pax Syrah “Castelli-Knight Ranch”
2004 Shirvington Shiraz
2002 Kongsgaard Syrah “Hudson Vineyard”
2003 Cote Rotie “Les Rochains” (Patrick & Christophe Bonnefond)
2004 Sine Qua Non Syrah “Poker Face”
2004 Colgin Syrah “IX Estate”
2003 Cote Rotie “La Landonne” (René Rostaing)
2004 Clarendon Hills Syrah “Astralis”
2001 Le Macchiole  “Scrio”
2003 Cote Rotie “Chateau d’Ampuis” (Guigal)
2002 E & E Shiraz “Black Pepper”
2003 Cote Rotie “La Landonne” (Delas Freres)

2 athugasemdir

Filed under dómar, kay brothers, vínsmökkun

Kökukonsert á Kjarvalsstöðum 21. maí kl. 20.00

Staður: Kjarvalsstaðir
Hvenær: 21. maí kl. 20.00
Miðaverð: 2.500 kr.

Þegar söngkonan Hallveig Rúnarsdóttir hringdi í mig til að athuga hvort við vildum taka þátt í Kökukonserti þá stóð ekki á svari enda skemmtilega uppákoma á ferðinni með einvalaliði listamanna og sjálfum Hafliða súkkulaðisnilling í Mosfellsbakaríi.

Við ætlum sem sagt að vera með þrátt fyrir að ég fái ekki að syngja kattardúettinn í þetta skiptið. Kannsi næst.

En við ætlum að sjá um vínið og verða það þrjár tegundir sem tónleikagestir fá að smakka sem borin verða fram með þremur réttum frá Hafliða. Þema tónleikanna er vetur, vor og sumar og munu réttirnir, vínin og söngprógrammið miðast við það — þrjár árstíðir, þrír réttir og þrjú vín.

Fyrir utan Hallveigu munu söngkonan Margrét Sigurðardóttir stíga á svið auk annarra listamanna sem munu leika á hljóðfæri og fremja gjörninga.

Miðinn kostar sem fyrr segir 2.500 kr. og er hægt að kaupa í 12 tónum eða með því að senda okkur tölvupóst á vinogmatur@vinogmatur.is.

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, tónlist, vínsmökkun

New York — vínsmakkanir og námskeið hjá EWS

Einhver á leiðinni til New York?

EWS er vínklúbbur í New York sem heldur glæsilegar vínsmakkanir með girnilegum þemum eins og Súpertoskani, 2005 Búrgúnd, 1998 Chateauneuf-du-Pape osfrv. Niðurstöður eru síðan birtar á vefnum hjá Robert Parker.

Kíktu á næstu smakkanir

Ég ætla einhvern tímann að fara. Þau kosta reyndar sitt en þess virði þar sem vínin eru undantekningalaust áhugaverð.

Færðu inn athugasemd

Filed under ferðalög, robert parker, vínsmökkun

Búrgúnd á Vínbarnum

Síðan síðasta sumar höfum við tekið inn tvo árganga af Búrgúndarvínum, 2004 og 2005. Framleiðendurnir eru nú orðnir fjórir, Lucien Le Moine, Jean Grivot, Christian Moreau og nú síðast Vincent Girardin.

2004 er að mestu upseldur en ennþá er til af 2005 enda upplagið af honum í heildina meira. Þau endast hins vegar ekki lengi. Aðallega hafa vínin farið til vínsafnara sem kunna að meta hin heillandi rauðvín Búrgúndar úr Pinot Noir þrúgunni og stórkostleg Chardonnay hvítvínin.

Það hafði alltaf staðið til að opna nokkur gler fyrir þessa viðskiptavini til að leyfa þeim að bera saman góða breidd úr röðum okkar framleiðenda, bera saman bækur, og fá góða aðila af veitingahúsum ásamt nokkrum sérfræðingum til að smakka með okkur.

Smakkið var hið skemmtilegasta og hér má sjá nokkrar myndir á flickr.com

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, christian moreau, grivot, myndir, vínbarinn, vínsmökkun, vincent girardin

Vespa og vínkynning í dag 18.00 í Saltfélaginu

Það verður kynning á Vespa hjólum í dag 18.00 til 20.00 í Saltfélaginu og ætlar undirritaður að vera með létta vínkynningu á meðan á því stendur.

Í boði verða Chianti Classico frá Castello di Querceto, Montefalco frá Arnaldo Caprai, Grecante frá Arnaldo Caprai og Vernaccia di San Gimignano frá Castello di Querceto.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, vínsmökkun

Tvær vínsmakkanir í dag

Bloggarinn verður að skenkja í glös við tvö tækifæri í dag.

Hið fyrra er við opnun myndlistarsýningar Kristínar Gunnlaugsdóttur í Turpentine galleríinu í Ingólfsstræti þar sem boðið verður upp á hið skemmtilega Frizzando frá Sandhofer.

Það síðara verður í hléi á tónleikum í Neskirkju undir yfirskriftinni „Vín og ljúfir tónar“. Bloggarinn mun ekki syngja við þetta tilefni. Það munu hins vegar Vernaccia di San Gimignano, Stump JumpBelvedere og Chateau de Flaugergues gera.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, castello di querceto, d'arenberg, flaugergues, myndlist, sandhofer, tónlist, vínsmökkun

Heimsókn frá Arnaldo Caprai tókst vel

.

Roberta og Gabriele fóru á laugardaginn eftir vel heppnaða heimsókn. Við Roberta kíktum á nokkra staði til að kynna vínin frá Arnaldo Caprai, héldum námskeið í samstarfi við Vínskólann og Gabriele sá síðan um að elda rétti frá Úmbría héraðinu handa gestum La Primavera.

Bestu þakkir til Dominique hjá Vínskólanum, Leifs, Jónínu og allra á La Primavera fyrir hjálpina og að sjálfsögðu Robertu og Gabriele.

Robertu fannst Ísland svona ansi fínt að hún ætlar að koma hingað aftur í frí. Fóru m.a. í Bláa Lónið þar sem hún náði sér í íslenskt kvef. Hún kvartaði helst undan því að hafa átt stundum erfitt með að finna góðanu kaffibolla og velti því fyrir sér ef Íslendingar væru svona ríkir í hvað eyddu þeir þá eiginlega peningunum – húsin voru amk. ekki beinlínis neinar hallir.

O jæja.

Fimmtudagskvöldið á La Primavera var sérstaklega skemmtilegt. Gabriele eldaði mat að hætti Úmbría-búa sem hófst á eggjahræru með trufflusveppum. Sveppirnir voru týndir vikunni áður í Úmbría og fluttir inn með DHL af þessu tilefni. Með þessum drukkum við Grecante hvítvínið frá Caprai. Þá var borin fram linsubaunasúpa en Castelluccio linsubaunirnar eru úr héraðinu sömuleiðis og þekktar sem bestu linsubaunir í bransanum ásamt einu svæði í Frakklandi. Í súpunni var svolítið af svínapylsu til að bæta bragð. Linsubaunasúpan var ferlega góð og drukkum við Montefalco rauðvínið með henni. Þar á eftir kom stringozzi pastað og var hráefnið í þann rétt nánast að öllu leyti innflutt, t.d. var pastað lagað á veitingastaðnum hans Gabriele og sent með hraðpósti. Uppskriftin er svolítið óvanaleg því á móti 1kg af hveiti fara 9 eggjahvítur og 1 eggjarauða. Rétturinn minnir svolítið á amatriciana pasta sem er í uppáhaldi hjá mér og var ég ekki svikinn af þessum bragðmikla og gómsæta rétti. Við drukkum með Collepiano sem sýndi að þetta mikla vín þarf ekki bara stórsteikur og villibráð heldur smellur ljómandi vel við góðan pastarétt. Í lokin var lamb með þistilhjarta og hafði lambið verið soðið í hvítvíni m.a. og var einstaklega bragðmikið. Gabriele hafði áhyggjur af því að það væri ofsoðið því íslenska lambið hefur aðra eiginleika en það ítalska en okkar fannst rétturinn við hæfi, vetrarlegur og kjarnríkur og nutum hans með glasi af 25 Anni sem ég hafði kippt með mér, 2000 árgangi.

Við erum strax farin að tala um aðra heimsókn frá Arnaldo Caprai, kannski að ári liðnu eða svo, og væri ekki verra ef karlinn sjálfur, Marco Caprai, væri með í för því metnaðarfyllri og dýnamískrari vínframleiðanda er erfitt að finna á Ítalíu.

Smelltu hér til að sjá myndir frá heimsókninni

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, la primavera, matur, námskeið, vínskólinn, vínsmökkun, veitingastaðir

Caprai vínsmökkun í Vínskólanum og gestakokkur á La Primavera

Á miðvikudaginn verður master class í Vínskólanum þar sem hún Roberta frá Arnaldo Caprai verður með vínsmökkun.

Námskeiðið byrjar 18.00, kostar 2.200 kr. og er haldið í salarkynnum Reykjavík Centrum Hótels í Aðalstræti.

Kvöldið eftir, 15. nóvember, verður sérstakur matseðill frá Úmbría héraði á La Primavera sem gestakokkurinn Gabriele hefur sett saman. Hráefnið er að hluta flutt inn af þessu tilefni.

Ég veit, vegna þess að ég er með nokkrar trufflur m.a. inni í ísskáp sem komu með DHL.

5 rétta matseðillinn á La Primavera kostar 5.900 kr. og gildir þetta sama kvöld en heldur síðan áfram fram til 18. nóvember. Vín frá Arnaldo Caprai verða að sjálfsögðu í öndvegi á meðan.

Smelltu hér til að lesa meira

Til að panta pláss í Vínskólanum 14 nóvember má senda póst á dominique@vinskolinn.is en fyrir borðapantanir á La Primavera sendist póstur á laprimavera@laprimavera.is

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, la primavera, matur, vínskólinn, vínsmökkun

Gary Vaynerchuk heldur vínsmökkun hjá Conan O’Brian

Það hefur heldur betur hlaupið á snærið hjá Gary Vaynerchuk sem heldur úti Wine Library TV vídeóblogginu (smelltu til að sjá hann vídeóblogga um The Hermit Crab).

Gary var gestur hjá Conan O’Brian síðasta miðvikudag og lét hann Conan smakka nokkur vín og jappla á alls kyns efnum sem menn finna gjarnan í víni eins og tóbaki, kirstuberjum, mold og grasi.

Og sveittum sokki.

Þetta er frekar fyndið.

Færðu inn athugasemd

Filed under grín og glens, sjónvarp, vínsmökkun, wine library tv

Tvær bíómyndir um 1976 vínsmakkið í París

Tvær bandarískar bíómyndir eru í bígerð þar sem byggt er á sama efni, nefnilega Paríssmökkuninni 1976 þar sem vín frá Kalíforníu höfðu betur í blindsmakki gegn vínum frá Frakklandi (lestu þetta blogg þar sem ég fjalla um endurtekningu smökkunarinnar 2006).

Þetta kemur fram á vef Dr. Vino

Önnur, The Judgment of Paris, er svokölluð „official“ útgáfa í samræmi við óskir breska smakkarans Steven Spurrier sem tók þátt í 1976 atburðinum. Þar hafa verið nefndir ekki síðri leikarar en Hugh Grant eða Jude Law í hlutverk Spurriers.

Hin er sett þessari til höfuðs (eða öfugt) og heitir Bottle Shock. Þar mun hinn stórgóði Alan Rickman fara með hlutverk Spurriers.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessar myndir ætla að ná dramatískri spennu út úr vínsmakki en samkvæmt San Francisco Chronicle er að finna m.a. þessa mögnuðu setningu í handriti síðari myndarinnar:

„I’d leave my wife in the gutter for another taste of that voluptuous noble fluid with subtle hints of magnificent licorice and cooked ripe black currant.“

Þarna er alvörukrítík á ferðinni, ekkert létt hjal.

Færðu inn athugasemd

Filed under bandaríkin, frakkland, fréttir, kvikmyndir, vínsmökkun

Heimsókn frá Castello di Querceto gekk vel

.

Þá eru Alessandro og Antonietta frá Castello di Queceto flogin heim í kastalann sinn.

Heimsóknin gekk afskaplega vel og voru hjónin hin ánægðustu. Þau komu í mat til okkar á fimmtudagskvöldið og grillaði ég m.a. humar og hrefnu sem fór vel ofan í mannskapinn. Eitthvað var drukkið af góðu víni og grappatár að sjálfsögðu að lokum. Dominique var líka með okkur, hún var ansi dugleg að safna góðum mannskap í vínsmakkið.

Hjónin skelltu sér í rútuferðir á gullna hringinn og Snæfellsnes og borðuðu vel á veitingahúsum borgarinnar.

Vínsmakkið á La Primavera á laugardeginum heppnaðist síðan mjög vel. 30 manns mættu sem er metþátttaka og það á einum besta sólardegi sumarsins. Það var létt yfir þessu og góður andi sem þakka má fyrst og fremst góðum hópi gesta.

Á sunnudeginum var farið í Bláa lónið — sem var reyndar grænt — og snarlað í hádeginu.

Hér má kíkja á myndir frá heimsókninni

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínskólinn, vínsmökkun

Heimsókn frá Castello di Querceto — Vínsmökkun á La Primavera

.

Alessandro og Antonietta, eigendur Castello di Querceto í Chianti Classico í Toskana, koma í heimsókn til Íslands í lok júní.

Við blásum til vínsmökkunar með þeim ljúfu hjónum á La Primavera laugardaginn 30. júní kl. 14.00.

8 tegundir verða smakkaðar og verða vínin sem fyrr borin fram með léttu nasli að hætti Leifs og Jónínu á La Primavera — í anda Toskana héraðsins.

Þáttökugjald er 3.500 kr.

Sendu okkur línu á vinogmatur@vinogmatur.is til að láta taka frá sæti.

Hlökkum til að sjá þig!

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, chianti classico, la primavera, vínsmökkun

Vinitaly 2007 – Ljósasjóv undir berum himni

.

Dagur 1, 26. mars.

Flug  í Keflavík 7.20, millilending í Frankfurt og þaðan til Veróna 18.00.

Vinitaly vínsýningin í Veróna er stærst og elst allra vínsýninga. Ekki hissa kannski að hún skuli vera elst enda liggja allar rætur á endanum til Móður Ítalíu (og reyndar þaðan til Grikklands og Asíu en gleymum því) en að hún sé stærst kom mér á óvart þar sem ég taldi Bordeaux vera umfangsmeiri. Nóg um það.

En áður en sýningin hófst fórum við Rakel í afmæli til San Michele Appiano sem kenndur er við þorpið Appiano. Þótt ég hafi vanið mig á að nota ítalska heitið (eins og Gambero Rosso gerir) þá væri eiginlega réttara að nota þýskuna því hún virðist vera ráðandi tunga innan fyrirtækisins enda reka fyrirtækið menn með nöfn eins og Günther, Anton og Hanz.

Þeir hjá Appiano voru svo elskulegir að bjóða okkur flug og gistingu enda ekki á hverju ári sem menn verða 100 ára (þegar leið á partýið og menn urðu hressir voru þeir byrjaðir að lofa svona partýi á 5 til 10 ára fresti en ég held að kannski hafi það verið í hita leiksins…- aldrei að lofa þegar maður er í slíku stuði). Grazie mille!

Við Rakel lentum sem sagt 18.00 á Veróna flugvelli sem var skemmtilega sveitalegur miðað við gímaldið í Frankfurt, og brunuðum til Appiano á bílaleigubíl. Partýið var byrjað þegar við mættum en við komum akkúrat í forréttinn. Ekki er hægt að segja að við Rakel létum lítið fara fyrir okkur þegar við gengum inn í salinn þar sem allir voru sestir til borðs því dyrnar sem við þurftum að opna til að ganga inn voru svona 300 fermetrar að flatarmáli og Rakel í skjannahvítri kápu með 5 mánaða bumbu út í loftið og ég í skjærgrænum jakka með 34 ára gamla bumbu út í loftið.

Okkar var vísað til borðs hjá frændum okkar Norðmönnum og Finnum. Norðmenn voru ung vinaleg hjón sem við ræddum svolítið við í ferðinni og Finnar voru fremur þöglir á hinum enda borðsins. Ég hefði hvort sem er ekki heyrt neitt í þeim því tónlistin var hávær – talandi um tónlistina, hún var prýðisgóð og flutt af áhugamönnum sem allir störfuðu sem fréttamenn hjá RAI sjónvarpsstöðinni. Öllu hressari voru tékknesku fulltrúarnir sem einnig sátu við borðið, svo hressir að það þurfti reglulega að sussa á þegar þurfti að fá þögn í salinn. Anton, sem ég held að sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sat síðan á milli okkar og Tékkanna.

Kvöldið leið þannig að hver rétturinn var reiddur fram af öðrum undir vaskri stjórn Michelin-stjörnu kokks sem ég náði ekki hvað heitir og með réttinum var borið fram vín frá víngerðinni sem víngerðarmaðurinn Hanz Terzer kynnti jafnóðum. Þetta voru eðalvín öll sem eitt, allt frá hinum ljúfa Riesling Montiggl 2006 til hins heillandi Pinot Nero St. Valentin 2004, nú eða sætvínsins Comtess í endann sem var eðal. Skemmtilegt var að smakka 1998 árgang af Pinot Grigio St. Valentin sem sýndi hversu vel vínið getur þroskast, verulega áhugavert, og ekki síður skemmtilegt var að smakka sérstakt hátíðarvín úr Chardonnay, Pinot Grigio og Pinot Bianco sem er hið fyrsta þar sem þeir blanda nokkrum þrúgum saman (aðeins framleiddar um 200 flöskur). Ótrúlegt miðaða við að víngerðin gerir um 30 ólík vín en þau eru öll sem eitt úr sinni þrúgu hvert.

Áður en rúllað var upp á hótel (Hótel Steigenberger er í 30km fjarlægð í bænum Merano) vorum öllum húrrað út í garð þar sem var framið ljósasjóv á stóran húsvegg víngerðarinnar. Það var gott veður, allir voru hressir – þetta var svona létt Cinema Paradiso stemning. Og borið var fram Gewurztraminer St. Valentin 2006 undir öllu saman. Ljósasjóvið sýndi upphaf víngerðarinnar en líka stutta senu frá landi hvers fulltrúa (gestir voru nær eingöngu innflutningsaðilar um allan heim) og fengum við að sjá Flugleiðavél, gamla báta, íslenska fánann og fleira undir söng Bjarkar þegar kom að Íslandi. Skemmtilegt nokk. Einna flottast fannst mér samt þegar orginal teikningnum víngerðarinnar var varpað á húsið í réttum hlutföllum, það var kúl.

Komið á hótel á miðnætti, framundan skíðadagur í Dólómítunum.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, matur, vínsýning, vínsmökkun

Myndir frá vínsmökkun á La Primavera

.

Vínsmökkunin á La Primavera í dag gekk vel. Vorum 17 alls.

Vínin voru 7 og stóð ekkert eitt þeirra afgerandi upp úr þótt ólík væru. Eitt þótti einum best og öðrum þótti annað.

Kannski vakti þó Barolo Cannubi Boschis 2001 frá Luciano Sandrone mestan áhuga og almennustu ánægjuna enda einstakt vín þar á ferðinni sem breiddi úr sér yfir vit manns eins og flauel.

Hér eru myndir úr smakkinu á flickr

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, la primavera, luciano sandrone, myndir, vínsmökkun, veitingastaðir

Vínsmökkun á La Primavera — 7 vín sem hafa breytt Ítalíu

.

Laugardaginn 10. mars kl. 14.00 ætlum við að hafa vínsmökkun á veitingastaðinum La Primavera.

Þemað eru 7 sem hafa breytt Ítalíu að mati Gambero Rosso.

Hérna er vínlistinn:

Appiano Sauvignon Blanc St. Valentin 2005
Montevetrano 2001
Falesco Montiano 2001
Foradori Granato 2001

Fontodi Flaccianello 2003
Arnaldo Caprai 25 Anni 2003
Luciano Sandrone Barolo Cannubi Boschis 2001

Létt snarl verður borið fram með vínunum. Auk þess verður smakkað sætvín frá Arnaldo Caprai með AMEDEI súkkulaðirétti sem Leifur ætlar að útbúa.

Verðið er 4.500 kr. fyrir hvert pláss.  Sendu okkar tölvupóst á vinogmatur@internet.is til að láta taka frá sæti.

Skoðaðu myndirnar frá vínsmökkuninni á La Primavera í fyrra

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, appiano, caprai, falesco, fontodi, foradori, gambero rosso, la primavera, luciano sandrone, montevetrano, myndir, vínsmökkun

Vín og matur með vínsmökkun út um allan bæ

.

Það er mikill áhugi fyrir vínsmökkunum þessa dagana.

Ég fór 5 sinnum á vinnustaði eða í heimahús í febrúar mánuði sem er met.

Það virkar þannig að viðkomandi hefur samband, óskar eftir smakki, og ég mæti með glösin og vínið. Kostnaður er svona 1.500 á manninn og upp úr, allt eftir fjölda og verði vína.

Þar fyrir utan var ein vínsmökkun sem ég skipulagði sjálfur fyrir veitingastaði, önnur fyrir Vínbúðina í Austurstræti og ekki má gleyma Amedei súkkulaðismökkuninni í Vínskólanum.

Smakk.

Færðu inn athugasemd

Filed under vínsmökkun

Leiðbeiningar um vínsmökkun í heimahúsum

Nei, ég hef ekki útbúið svona leiðbeiningar heldur er það breska víntímaritið Decanter sem hefur gefið út þessar leiðbeiningar um það hvernig þú getur skipulagt vínsmökkun heima hjá þér.

Þarna er ýmis konar ágætur fróðleikur, t.d. góðar lýsingar á einkennum helstu þrúganna.

Ef þú nennir ekki að lesa bæklinginn þá má alltaf senda mér póst (vinogmatur@internet.is) og ég mæti bara heim til þín með vínsmakkið í farteskinu.

Færðu inn athugasemd

Filed under þrúgur, decanter, fræðsla, námskeið, vínsmökkun

Amedei smakkið í Vínskólanum gekk vel — sjáið… myndina

Í gærkvöldi var Amedei súkkulaðinámskeið í Vínskólanum. Mér til aðstoðar voru Dominique sem rekur skólann og Ásgeir Sandholt, einn af okkar færustu bökurum.

Það tókst afar vel, svo vel reyndar að ég gleymdi alveg að taka myndir fyrir utan þessa einu mynd. Ég var meira að segja ekki hálfnaður að stilla upp á borðið þegar hún var tekin.

Og ef einhver er að velta því fyrir sér — jú það voru í alvörunni þátttakendur í námskeiðinu þótt þeir sjáist ekki á myndinni. 16 manns reyndar.

Ég sem ætlaði að setja fullt af flottum myndum á flickr og senda Amedei tengiliðnum mínum til að sýna hvað ég væri að gera í þeirra málum hér á landi.

Eiginlega er þessi gleymska mín mælikvarði hversu námskeiðið gekk vel, ég var með hugann við allt annað en myndatöku a.m.k. Þetta hefur gerst áður, t.d. á Prowein vínsýningunni þar sem myndavélin hringlaðist í vasanum í tvo daga án þess að ég myndi einu sinni eftir að taka hana upp og smella af framleiðendunum sem við vorum að tala við og smakka vín hjá.

Kemur vonandi næst. Á Vinitaly vínsýningunni sem við Rakel förum á eftir mánuð þarf ég a.m.k. eitthvað átak ef ég ætla að muna eftir þessu.

Færðu inn athugasemd

Filed under amedei, matur, námskeið, sandholt, súkkulaði, vínsýning, vínskólinn, vínsmökkun

Áfram Cheval Blanc 1964!

.

Áfram Ísland – tökum Þjóðverja í bóndabeygju á morgun!

En að öðru.

Eins og Cheval Blanc 1964.

Af rausnarskap vinar og vínsafnara áskotnaðist okkur flaska af þessu fágæta víni. Árgangurinn 1964 í Bordeaux var svona bland í poka þar sem vín úr Merlot gerðu það gott á meðan Cabernet Sauvignon fór illa. Framarlega meðal jafningja er Cheval Blanc 1964 (meirihluti Cabernet Franc og rest Merlot) sem Robert Parker gaf 96 stig, eitt besta vín þessa árgangar frá Bordeaux. Hann spáir því líftíma til 2025. Við vorum sjálf hlessa hversu unglegt og sprækt vínið var þótt erfitt sé að sjá fyrir sér frekar þroskun, hvað þá í næstum 20 ár til viðbótar – vínið er jú 42 ára!

Flaskan var vel fyllt upp í háls sem gaf til kynna að það hafði verið vel geymt þessa fjóra áratugi. Liturinn var appelsínubrúnn eins og við var að búast en all dökkur og líflegur. Við drukkum það með lambainnanlærisvöðva sem hafði verið nuddaður með rósmarín, oreganó, salti og pipar og ólífuolíu. Svona gamalt vín þolir ekki flóknari mat en það. Við vorum sátt við þetta vín vægast satt, það var ekki stórt í munni heldur elegant og nett, staldraði stutt við en skildi eftir langan hala. Frábært jafnvægi einfaldlega því aðeins nánast fullkomið vín er svona gott eftir svona langan tíma – ef fullkomið vín er til yfir höfuð. Skemmtileg sveitaelement eins og mold og tjara voru áberandi, nettur ávöxtur og sýra og tannín að sjálfsögðu samrunnin víninu eftir allan þennan tíma.

Á eftir smökkuðum við aðra Bordeaux blöndu en sú var frá Ítalíu. Cabernet Sauvignon og Merlot að hætti Bordeaux búa í bland við Aglianico – Montevetrano 2003. Bragðmikið vín og verulega flott sem malaði eins og köttur undir silkimjúkum hjúp. Nammi.

Síðan komu tveir árgangar af enn einni Bordeaux blöndunni, í þetta skiptið Cabernet Sauvignon, Merlot, Cabernet Franc og Petit Verdot frá d’Arenberg – nánar tiltekið Galvo Garage 2003 og 2004. 2004 var lokað með skrúftappa og þótti okkar það betra vín af tveimur verulega góðum. Verðið er sama og fyrir Laughing Magpie. Líklegast tökum við það inn í vor.

Arnaldo Caprai höfum við flutt inn í tvö ár en aldrei tekið sætvínið Sagrantino di Montefalco Passito enda fágætt vín sem okkur hefur einfaldlega ekki boðist fyrr. Það var svakalega ljúft, óvenju þurrt og létt miðað við sætvín og minnti að mörgu leyti frekar á þétt rauðvín. Frábært með súkkulaði (Amedei konfekt NOTA BENE).

Að lokum – tvær tegundir af grappa. Önnur vel kunnug, Rietine Grappa Chianti Classico, hin splúnkuný, Caprai Grappa Sagrantino di Montefalco. Rieitine er svona grappa hússins hjá okkur en Caprai er líklega álíka gott þótt það rífi aðeins meira í. En er það ekki einmitt það sem grappa á að gera?

Við byrjuðum reyndar á St. Valentin Sauvignon Blanc 2005 með hörpuskelfisk í kryddsmjöri. Um það er svo sem ekkert meira að segja en að þar er sígilt gæðahvítvín á ferðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, bordeaux, caprai, cheval blanc, d'arenberg, montevetrano, rietine, vínsmökkun

Vínsmökkun í höfuðstöðvunum

Síðbúin jólavínsmökkun var haldin í höfuðstöðvunum rétt áðan. Þar mætti nokkrir góðir samstarfsmenn Sigurjóns vinar okkar.

Á döfinni voru 6 ólík rauðvín og þótt ég sé nú farinn að þekkja þessi grey ansi vel er svona vínsmökkun alltaf lærdómsrík enda ekki á hverju degi sem ég smakka svona mörg góð vín úr okkar röðum.

Við byrjuðum á The Woodcutter´s Shiraz sem að mínu mati hefur yndislegan og ákafan ilm og hefur allt vínið reyndar raffínerast heldur í flösku síðan það barst hingað á land fyrst fyrir rúmu ári síðan. Þ.e.a.s. meiri fágun og betra jafnvægi. Fæst ekki lengur í Vínbúðunum en má sérpanta, nokkrar flöskur eftir af þessum góða 2004 árgangi frá einum heitasta framleiðanda Ástralíu, Torbreck.

Næst var á dagsskrá Montpeyroux 2004 frá Domaine d’Aupilhac í S-Frakklandi. Það vín inniheldur líka Shiraz en að vísu bara lítið því hinar þrúgurnar eru einar fjórar, Grenache, Mourvedre, Carignan og Cinsault. Það hefur afar skemmtilegan ilm eins og vínið sem kom á undan og ef til vill aðeins flóknari. Þurrasta vín kvöldsins en með góðri gæs eða hreindýri nýtur það sín til botns.

Santa Cruz 2003 frá Artazu í Navarra fær 95 stig hjá Robert Parker. Það er 100% úr Grenache þrúgunni. Það var almenn hrifning með þetta vín. Lokað vín sem þarfnast umhellingar en eftir smá stund (núna eru 4 tímar síðan það var opnað) koma fínlegri einkenni í ljós, sérstaklega er ilmurinn lúmskur og flottur og alls ekki ýktur á neinn hátt. Einfaldlega vel gert og flott vín sem hitti í mark hjá undirrituðum.

Barbera d’Asti Superiore Bionzo 2003 frá La Spinetta er nútímaleg útgáfa af Barbera þrúgunni. Eikað talsvert lengi í franskri eik, splúnkunýrri. Ef vín geta verið sexí þá er þetta eitt af þeim. Glycerín í nefi í bland við dökk ber og plómur og eikin í raun fullkomnlega integreruð. Bara, bara gott. Ekki furða þótt þetta sé eitt hæst skrifað Barberað í henni vínveröld.

Annar Ítali fylgdi á eftir. Il Sole di Alessandro 2000 frá Castello di Querceto var það vín sem ég kannski fyrirfram var spenntastur fyrir enda lýst því oft yfir (ég held reyndar að enginn hafi verið á hlusta) að það sé jafnoki frægari vína af súpertoskanakyni úr Cabernet Sauvignon þrúgunni. Ostar var það fyrsta sem menn funda í lyktinni og satt best að segja var þessi flaska aðeins ostaðri en aðrar sem ég hef smakkað. Í munni ómótstæðilegt. Sérlega vel gert vín og mjög Toskana-legt þrátt fyrir að vera úr Cabernet Sauvignon.

Að lokum var opnað megavínið með skrúftappanum, Block 6 Shiraz 2002 frá Kay Brothers. 95 stig hjá Parker (sem er eitt það lægsta reyndar sem vínið hefur fengið hjá honum, t.d. fær 2004 árg. 98 stig) og öll stigin vel til komin. 15% alkóhól, þykkt og safaríkt með áberandi sætu enda af hundgömlum vínviði. Jörð, sýra, krydd, sveit halda því hins vegar á jörðinni. Útkoman hlýtur að vera eitt af bestu vínum Ástralíu… og hananú!

Færðu inn athugasemd

Filed under artadi, artazuri, aupilhac, castello di querceto, kay brothers, la spinetta, torbreck, vínsmökkun

Veröldin í einni vínflösku — vínlýsingarorðabók í vasann

.

Bloggarinn Alder segir á Vinography vefsíðunni sinni: „[…] we can taste so much of the world in a bottle.“.

Hann á við hina miklu ilm- og bragðflóru sem menn geta fundið þegar þeir smakka vín en eiga oft í erfiðleikum með að koma orðum yfir. 

Alder hefur sett niður stutt orðasafn sem hægt er að nálgast hér, prenta út og stinga í vasann eða veskið. Svo þegar næsta vín er smakkað er hægt að kippa út listanum og finna réttu orðin.

Færðu inn athugasemd

Filed under bækur, Blogg um vín og mat, fræðsla, vínsmökkun

Vínsmökkun í MK

Þá er ég nýkominn úr vínsmakki fyrir nemendur í matvælaskóla MK. 20 manns og annað holl á morgun.

Smakkið fer fram á ensku, til að undirbúa nemendur sem koma til með að vinna við veitingageirann í því að þekkja og hugsa um vín og eiga um það hugsanleg samskipti við erlenda gesti sína.

Neil enskukennari á heiðurinn að þessu. Fyrir utan að læra enskuna finnst honum mikilvægt byggja snemma upp áhuga og metnað í stéttinni.

Ég var með svona í MK líka í fyrra og hefur gengið vel. Gaman að sjá 16-17 ára krakka velta þessu fyrir sér og smakka nokkur vín — með leyfi foreldra að sjálfsögðu.

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla, kennsla, vínsmökkun

Haustfundur hjá vínteyminu

Vínteymisfundur í höfuðstöðvunum síðastliðinn sunnudag.

Smökkuð voru 18 vín, þar af 10 sem við höfðum líka sent í business class vínsmökkun Flugleiða. Framleiðendurnir voru alls fjórir. Tvo flytjum við inn nú þegar, San Michele Appiano á Ítalíu og Artadi á Spáni. Sandhofer í Austurríki hef ég verið að smakka undanfarna 6 mánuði en Chateau de Montfaucon í Rhone í Frakklandi þekkt ég ekkert áður heldur höfðu þau samband með tölvupósti og sendu síðar sýnishorn þar sem mér leist vel á framleiðandann.

Hópurinn á vínteymisfundi hefur aldrei verið stærri, 10 smakkarar. Alltaf gaman en þessi fundur var sérstaklega góður.

Þetta var virkilega skemmtilegt og vínin voru yfir höfuð til fyrirmyndar. Upp úr stóðu líklegast Cabernet Sauvignon 2002  og Blaufrankisch 2004 frá Sandhofer, Pinot Nero 2004 frá San Michele Appiano og Cotes du Rhone Baron Louis 2003 frá Chateau du Montfaucon. Montefaucon línan var reyndar öll ótrúlega skemmtileg, t.d. hið venjulega Cotes du Rhone og hvítvínin tvö, ekki síst 100% Viognier.

Skoðaðu myndir frá smakkinu á flickr.com

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, artadi, myndir, vínsmökkun

Fréttablaðið fjallar um okkur

Fréttablaðið leitaði til okkar fyrir skömmu til að forvitnast um vínsmakkanir sem við stöndum fyrir. Úr varð þetta viðtal, myndasería og fróðleikskorn um það hvernig slíkar smakkanir fara fram. Greinin var birt gær, föstudaginn 25.8.2006.

Hægt er að smella hér til að skoða Fréttablaðið þennan föstudag, greinin okkar er á bls. 26.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttablaðið, vínsmökkun

1976 blindsmakkið í París endurtekið

Fyrir 30 árum síðan í París var vínum frá Kaliforníu teflt saman gegn nokkrum af bestu vínum Frakklands og blindsmökkuð af helstu vínspekúlöntum þar í landi. Útkoman var heldur betur óvænt og átti eftir að hafa mikil áhrif á vínheiminn; besta hvítvínið og besta rauðvínið voru bæði frá Kaliforníu.

Fyrir nokkrum dögum síðan voru þessi sömu vín smökkuð, sömu árgangar, til að kanna hvort Kaliforníuvínin hefðu haldið dampi öll þessi ár gegn þeim frönsku sem öll voru þekkt fyrir hæfileika sína að getað þroskast í áratugi.

Og niðurstaðan:

Kaliforníuvín þóttu ennþá best, bæti í rauðu og hvítu. Fimm efstu rauðvínin voru frá Kaliforníu.

Smelltu hér til að sjá hvaða vín þetta eru.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, vínsmökkun