Category Archives: vínsýning

Nýtt á nýju ári

Það eru blikur á lofti.

Við erum ekki hætt að endurskoða vínportfólíuna þótt maður fari hægar í sakirnar og varlegar en oft áður.

Eins og alltaf munu einhver vín hætta í Vínbúðunum og jafnvel aldrei koma aftur en þá er bara leita í raðir okkar framleiðenda eftir nýjum vínum eða athuga hvort tími sé kominn á endurkomu einhverra sem hafa verið hér áður.

Kerti ÁTVR virkar nefnilega þannig að vín fær reynslu til árs en dettur þá út ef ekki selst nógu vel og má ekki koma aftur inn í annað ár á eftir eða svo. Sérflokkur vína er undanskilinn reyndar en við höfum verið að senda mörg ný vín beint þangað frekar en í „reynslu“ því þar er hugsanlegt að vín fái að dvelja lengur en fyrsta árið ef það er talið nauðsynlegt til að viðhalda framboði og fjölbreyttni vína í Vínbúðunum.

Mjög líklegt má telja að einn framleiðandi eigi þannig endurkomu fljótlega sem er okkur mikil  ánægja því við elskum hvítvínin hans, Christian Moreau í Chablis. Hann gerði eingöngu 1er Cru og Grand Cru hvítvín áður en hefur bætt við einfaldari Chablis Village víni sem hentar okkur vel og við stefnum á að taka inn.

Tveir splúnkunýir framleiðendur fara nú að teljast mjög líklegir hingað með vorinu.

Það eru Combe Blanche á Minervois svæðinu í Languedoc héraði S-Frakklands. Hann mun líklegast verða óþekktasti framleiðandinn okkar hvað varðar alþjóðlega frægð og frama en það er líka bara gott því vínin eru á frábærum verðum miðað við gæði og við stefnum á eitt hvítvín til að byrja með ásamt tveimur rauðvínum. Combe Blanche (sjá mynd af eigandanum Guy Vanlacker lengst til hægri og gott ef ekki bloggaranum þarna þriðja frá hægri í vínsmakki í Montpellier fyrir nokkrum árum) hefur verið í sigtinu hjá okkur í mörg ár svo það er sérstaklega ánægjulegt að fá hann til landsins. Í minningunni voru það einhver praktísk atriði eins og samskipta- og tungumálaörðugleikar (hann talar bara frönsku og átti bara fax ekki tölvu) sem olli því að upp úr samningaviðræðum slitnaði á sínum tíma.

Ca Rugate kynntumst við á Vinitaly vínsýninguni fyrir nokkrum árum. Það var hún Roberta hjá Arnaldo Caprai sem mælti með honum og þar sem við treystum henni svo vel þá létum við tilleiðast að heimsækja básinn hjá Ca Rugate þótt Valpolicella vín væru ekki ofarlega á stefnuskrá okkur yfir ný vín og framleiðendur á Ítalíu. Við höfum reyndar skoðað vín frá öðrum góðum framleiðendum á svæðinu í gegnum árin og ekki má gleyma stjörnuvínunum frá Dal Forno Romano en þau eru eiginlega í flokki út af fyrir sig.

Í stuttu máli heilluðu vínin okkur upp úr skónum, allt frá hvítu Soave til rauða Amarone, Valpolicella, freyðivína og sætvína. Sama hvaða vín voru borin fram þau einkenndust af stílfegurð og gæðum. Nú er hins vegar komið að því að gera eitthvað í þessu og má reikna með komu a.m.k. Soave hvítvíns, Valpolicella og Ripasso fyrst um sinn.

Þetta eru fyrstu drög að nýjum hlutum á nýju ári.

Færðu inn athugasemd

Filed under caprai, christian moreau, frakkland, romano dal forno, vínbúðirnar, vínsýning

Léttklæddasti maðurinn í Veróna — bloggarinn skreppur á Vinitaly 2008

.

Hún er stór.

Vínsýningin sem skiptir mestu máli á Ítalíu fyrir seljendur og kaupendur er án efa hin árlega Vinitaly í Veróna, í byrjun apríl. Bloggarinn var einn af 45.000 erlendum gestum þetta árið en alls mættu 150.000 gestir á sýninguna fyrir utan vínframleiðendurna sjálfa.

Þetta er mikið af fólki. Þótt fjöldinn dreifist á þá 5 daga sem sýningin stendur yfir eru margir gestir sem mæta dag eftir dag og því ekki ólíklegt að giska að um 100.000 gestir hafi verið þarna saman komnir þegar mest lét. Bloggaranum fannst vægi sitt í þessari mannmergð full lítið en 185cm dugðu samt til að fölt andlit hans gægðist öðru hverju upp úr svartkollóttu mannhafinu.

Það var sól og hlýtt í Veróna, svona 17°C. Bloggarinn asnaðist út á skyrtunni fyrsta morguninn til að kaupa tannbursta og leið vel í loftslagi sem teldist jafnvel betra en íslenskt sumar en varð strax mjög vandræðalegur þegar hann uppgötvaði að hann var á þeirri stundu hugsanlega léttklæddasti maðurinn í allri Veróna, innan um kappklædda Ítalí, og lét vera að framkvæma þá tilhugsun sem hafði læðst að honum fyrr um morguninn að baða sig í gosbrunnum borgarinar.

En þetta hófst allt kvöldið áður. Þá var kvöldverður á Pompieri í boði Caprai þangað sem bloggarinn mætti seint og fékk í staðinn express útgáfu af herlegheitunum því ekki skyldi hann sleppa við neinn rétt. Hann var því ennþá að tyggja pylsur þegar settur var diskur af pasta fyrir framan hann og hálfnaður með pastað þegar kjötrétturinn kom en þar náði hann hinum gestunum og fylgdi þar á eftir í gegnum osta og síðan súkkulaðiköku. Var gerður góður rómur að matarlyst bloggarans. Öllu skolað niður með vínunum frá Arnaldo Caprai.

Þetta var ekki í síðasta skipti sem bloggarinn snæddi með Caprai og kompaníi því í hádeginu daginn eftir var boðið upp á margrétta fiskmáltíð inni á sýningarsvæðinu þar sem Caprai vínin voru smökkuð enn frekar. Saddur og glaður bloggari gekk út í sólina með fullan maga af kolkrabba, smokkfisk, skelfisk og ýmsum öðrum sjávardýrum ásamt einu stykki af Michelin stjörnu en bloggaranum er næstum sama hvað hann fær að borða ef það er Michelin stjarna í boði og þessi kom frá veitingastað í hafnarbænum Livorno í Toskana.

Ekki verður tíundað ítarlegar hvað bar á fund bloggarans á sjálfri sýningunni sem var svona „business as usual“. Nýir árgangar af öllum vínum sem Vín og matur flytur inn voru smakkaðir og er óhætt að segja að bloggarinn hafi verið ánægður með sína menn, „Complimenti!“ hrópaði bloggarinn hvað eftir annað. Sömuleiðis var leitað á ný mið eins og tími gafst og ekki ólíklegt að einhverjar nýjungar skili sér á næstunni.

Helst ber að nefna tvennt sem gerðist hins vegar utan sýningarsvæðisins. Annað var heimsókn í óperuhúsið sem var steinsnar frá hóteli bloggarans, 25 skref nánar tiltekið. Ein af fyrstu óperum Verdis var í boði, Attila, sem fjallar um Atla Húnakonung. Fín ópera sem ber þess merki að vera samin snemma á ferli tónskáldsins, nokkru áður en stórvirki eins og Rigoletto komu til sögunnar. Í sumar verður óperuhúsinu lokað og óperuflutningurinn færist út undir beran himinn, inn í rómverska hringleikahúsið Arena eins og frægt er orðið.

Hinn hápunkturinn í utandagskránni var heimsókn til Dal Forno Romano. Bloggarinn kom þangað fyrst fyrir nákvæmlega ári síðan og er árangurinn þeirrar ferðar þegar búinn að skila sér eins og auglýst var í Vínpóstinum ekki fyrir löngu. Hér voru kynnin endurnýjuð, smakkað úr tunnum, en eftirminnilegust er skoðunarferð um splúnkunýja víngerðina sem er reyndar enn í smiðum. Ef það er til nokkuð sem heitir hápunktur í víngerð þá er ekki ólíklegt að hann náist hér í húsakynnum Dal Forno fjölskyldunnar.

Smelltu til að skoða fleiri myndir frá heimsókninni á Vinitaly

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, matur, tónlist, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Brennd samloka og Toskanavindlar

Dagur 5, 30. mars.

Eftir að hafa keyrt Rakel á flugvöllinn í Veróna og lagt bílnum aftur í bílskúr hótelsins sem var svo þröngur að það var töluvert átak að koma honum þangað inn – þá hélt ég á sýningarsvæðið. Komst að því að það var hægt að taka rútu rétt við hótelið sem fór beint þangað og tók hana en lenti svo í því við hliðið að miðinn sem ég notaði daginn áður var útrunninn þannig að ég fór í leigubíl aftur á hótelið til að ná í nýjan miða, og til baka. Framleiðendur gefa manni svona aðgöngumiða og ég átti nokkra, þessi gilti alla dagana en ekki bara einn dag eins og hinn.

Nóg af samgöngu- og miðatali. Ég var allaveganna endurmættur um 10.00.

Fyrsti liður þennan dag var lóðrétt vínsmakk á stórvíninu Sagrantino di Montefalco 25 Anni frá Arnaldo Caprai sem var haldið í fundarsal á sýningarsvæðinu. Við miðborðið sátu Marco Caprai, vínráðgjafinn hans rómaði Attilo Pagli, Francesco víngerðarmaður fyrirtækisins og blaðamaður frá Gambero Rosso útgáfunni. Gestir virtust vera úr öllum áttum en við mitt borð sátu einn af dreifingaraðilum víngerðarinnar á Ítalíu (það eru margir út um alla Ítalíu, þeir eru ekki á launum hjá fyrirtækinu heldur starfa sjálfstætt) og eigandi vínbúðar í Rómaborg.

Við smökkuðum fimm árganga af 25 Anni, 1998, 1999, 2000, 2001 og 2003 en 2002 var vínið ekki framleitt sökum slæms árferðis. Þrír síðustu þessara árganga hafa ratað hingað til Íslands, 2003 er fáanlegur á La Primavera og á Argentínu lúra 6 flöskur af 2001 árgangi sem verða seldar þar eftir einhver ár þegar vínið hefur náð meiri þroska. Blaðamaðurinn lofaði mikið 1998 og skv. Caprai gekk allt upp það ár en persónulega fannst mér þessi árgangur svolítið ýktur og allt að því væminn og kunni betur við þá sem á eftir komu, jafnvel 2003 sem var sá heitasti af öllum en náði engu að síður góðu jafnvægi. 2001 er þó líklegast það vín sem skín skærast í þessum hópi. Mjög forvitnilegt smakk á þessu einstaka gæðavíni en helsti gallinn voru lítil og vond glös og hitinn á víninu sem var of hár til að vínin nytu sín sem best.

Þá var rölt af stað á fund við La Spinetta sem sýna á sér óformlega hlið og kjósa frekar að vera í sal á 2. hæð með gluggum yfir sýningarsvæðið frekar en hafa eiginlegan bás eins og allir aðrir. Þarna ríkti létt stemning og maður raðaði sér við eitt borðið og gat fengið alls konar snarl með vínunum. Ég hitti tengiliðinn minn, hana Önju, sem er af þýsku bergi brotin en sinnir markaðsmálum fyrir víngerðina. Anja gaf mér að smakka á öllum vínum víngerðarinnar en hún framleiðir líka nokkur rauð í Toskana. Þarna stóðu upp úr svínandi góð Barbaresco vín. Í lokin smakkaði ég á nýjum 2006 árgangi af Moscato d’Asti Bricco Quaglia (4.5%) sem var svo gott og ferskt eftir alla rauðvínsboltana að ég fer ekki ofan af því að þetta hafi verið besta vín sýningarinnar miðað við þá augnabliksupplifun. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann fengið vínflösku sem mig langaði bókstaflega að þamba í botn á staðnum.

Og bloggarinn spyr sig – skiptir einmitt upplifun augnabliksins ekki mestu þegar maður nýtur góðs víns? O jæja, ég skal reyndar ekki þora að fullyrða að vínið sé betra en bestu rauðvín víngerðarinnar en ómótstæðilegt var það, svo svalandi og gómsætt.

Ég heilsaði síðan stuttlega upp á Giorgio Rivetti, einna bræðranna þriggja sem eiga víngerðina, og hélt þaðan til næsta framleiðanda á dagsskrá, meistara Luciano Sandrone.

Á leiðinni gekk ég framhjá bási vindlafyrirtækisins sem framleiðir Sigari Toscani. Þessir ólögulegu Toskanavindlar er handgerðir eins og sjá má á myndinni þar sem stúlkan á básnum var á fullu við að rúlla þeim upp. Básinn var úti og það var frekar fyndið að sjá hóp manna sitja spekingslega í sal þar sem fór fram vindlasmakk.  

Luciano Sandrone nennti ekki að bása sig upp á sýningunni heldur leigði fundarherbergi á hóteli á jaðri svæðisins (lestu blogg um heimsókn okkar til Sandrone vorið 2005). Ég tékkaði mig því út og rölti þangað yfir þar sem ég hitti Luciano, Barböru dóttir hans og Cristiano nokkurn sem er einhvers konar markaðsráðgjafi þeirra. Cristiano ræddi við mig um hversu mikið ég mátti fá af Barolo vínum fyrirtækisins en þau eru skömmtuð við nögl. Hann hafði skammtað mér 18 flöskur dömur mínar og herrar af 2003 árgangi en ég umpaði honum aðeins svo að ég fékk 48fl af Le Vigne og 24 af Cannubi Boschis en Le Vigne fæst sem stendur á sérlista í Vínbúðunum. Luciano smakkaði svo með mér í gegnum nýju árgangana og voru 2003 Barolo vínin óvenju fersk miðað við hinn heita árgang.

Einhverjir skríbentar hafa sagt að 2003 Barolo Le Vigne sé betra en 2003 Barolo Cannubi Boschis þar sem Le Vigne er blanda af ólíkum vínekrum og því betur hægt að stilla þá strengi í sannfærandi samhljóm á meðan Cannubi Boschis sé af aðeins einni vínekru og því viðkvæmari fyrir erfiðu árferði eins og 2003 og tók Cristiano undir það. Mér fannst hins vegar Cannubi Boschis hafa einhvern kjarna djúpt, djúpt undir yfirborðinu sem var ekki alveg ennþá augljós – en betra? Þau eru bara jafngóð skulum við bara segja.

Hápunktur („not!“) heimsóknarinnar til Sandrone var hins vegar samloka með skinku og osti úr hóteleldhúsinu sem tók 15 mínútur að grilla og var hálfbrennd þegar hún kom. Ég var hins vegar svangur og nagaði í hana en ekki vildi ég vera í fullu fæði á hóteli þar sem að rista brauð er svona vandasamt verkefni. En ég gekk út ánægður, með vínin og það að ekki ófrægari maður en Luciano skyldi hafa gefið mér samloku yfir höfuð.

Um 14.30 hélt ég á hótelið, náði í bílinn og keyrði í klukkutíma heim til Romano dal Forno sem er „Kóngurinn í Valpolicella“. Bloggarinn hafði þess vegna beðið heimsóknarinnar með nokkurri eftirvæntingu. Sonur hans tók á móti mér í vínkjallaranum og leiddi mig í sannleikann um vínin og gaf mér síðan að smakka nokkur þeirra úr tunnu.

WOW!

Þetta eru ógurleg vín, boltar að sjálfsögðu enda framleidd að hluta úr þurrkuðum vínberjum og verða því einstaklega þroskuð og alkóhólrík en svo glæsileg og mögnuð. Valpolicella frá dal Forno er reyndar hálfgert Amarone því ólíkt öðrum Valpolicella vínum þá eru þrúgurnar þurrkaðar eins og í Amarone vínunum. Þá smakkaði ég sætvínið þeirra líka úr tunnu.

Í lokin rabbaði ég við kallinn og hann fræddi mig um hvernig þeir stunduðu sinn bisness og möguleikann á því að selja mér vín en aukning í framleiðslu hefur gert þeim kleyft að opna nýja markaði. Þetta er ein af þeim víngerðum sem ekkert þarf að hafa fyrir markaðssetningu (hafa ekki einu sinni vefsíðu) enda eftirspurn langt umfram framboð. Blessuð verðin eru líka eftir því.

Þess virði? Já!

Í lokin: 3 klukkutímar í umferð sem vanalega tók 45 mínútur, bíl skilað á flugvöll, rúta til Veróna og pizza með mozzarello di buffala ásamt nokkru sem maður fer að þrá eftir stíft vínsmakk… kaldan bjór.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, la spinetta, luciano sandrone, vínsýning

Vinitaly 2007 – Vínsýningin hefst

.

Dagur 4, 29. mars.

Vinitaly vínsýningin stendur í 5 daga, frá 9.00 til 19.00. Það þýðir 50 tíma af léttvínsþambi ef maður ætlar að nýta hverja mínútu. Ef einhver kynni að vera að velta því fyrir sér þá nennti ég nú ekki að hanga þarna allan tímann og … ég spýti hverjum dropa. Annars endist maður ekki mjög lengi.

Upp úr 9.00 var rölt af stað frá hóteli. Minni bloggarans var einhvern veginn á þá veg að það væri ekkert mál að rölta frá miðbænum yfir á sýningarsvæðið og skundaði af stað með ófríska eiginkonuna. Við rötuðum alveg en röltið var amk. 30 mínútur í gegnum svæði sem seint verður talið með hreinni og fallegri hlutum borgarinnar. Leigubílar notaðir hér eftir.

10.00 vorum við mætt á básinn hjá Chianti Classico framleiðandanum Castello di Querceto. Okkur eru minnistæðar þær hlýju móttökur sem við fengum hjá fjölskyldunni á heimili þeirra í Toskana fyrir tveimur árum (lestu bloggið um heimsóknina) og því var ráð að hefja sýninguna hjá þeim. Hjónin Alessandro og Antonietta voru í góðu formi og leyfðu okkur að smakka á nýju árgöngunum. Við fengum að heyra að 2006 árgangur væri einn sá besti fyrr og síðar, orð sem áttu eftir að enduróma á nánast öllum básum sem við heimsóttum þar eftir. 2006 rauðvínin eru reyndar yfirleitt ekki komin á markaðinn ennþá en þau hvítu eru það hins vegar í flestum tilfellum.

11.00 var skundað á splúnkunýjan bás Umani Ronchi víngerðarinnar en eins og hjá Castello di Querceto höfðum við átt ansi fína dvöl hjá Umani Ronchi á Ítalíuferðalagi okkar fyrir tveimur árum (lestu bloggið). Gianpiero og Laura tóku á móti okkur en þau sinna markaðsmálum fyrir fyrirtækið, Umani Ronchi er nefnilega stærra fyrirtæki en svo að fjölskyldan geti sinnt öllum helstu störfum. Við smökkuðum 2005 og 2006 af Casal di Serra og þótt mér ánægjulegt hvað 2006 lofar góðu, betri en 2005 sem nú fæst í Vínbúðunum. Nýi árgangurinn er framleiddur með aðeins öðrum áherslum en áður og verður því líst betur síðar. Við smökkuðum ýmis vín, m.a. nýja línu frá Abruzzo héraði sem koma frá nýrri landareign fyrirtækisins og einnig glæsilegt Cumaro sem mun snúa aftur í hillur Vínbúðanna innan skamms.

Gianpiero leyfði okkur líka að smakka af nýrri matarlínu sem unnin er í samvinnu við einhvern Michelin stjörnu kokk úr héraðinu. Þetta er niðursoðinn fiskur af ýmsu tagi og sultur. Mjög gott en flytur maður fisk inn til Íslands?

12.00 var síðasta stopp dagsins. Fontodi er einhver rómaðasti framleiðandi í Chianti Classico. Síðar á sýningunni þegar ég heimsótti einn rómaðasta Brunello di Montalcino framleiðandann þá lyftist á honum brúnin ég sagðist flytja inn Fontodi vín og hann sagði mér að það væru góð meðmæli fyrir Vín og mat þar sem sá taldi Fontodi þann besta í Chianti Classico og vildi líkja sjálfum sér við hann og hans aðferðir.

Við smökkuðum nýja árganga þar sem annars staðar en hér eru öll vín fyrsta flokks og það var sönn ánægja að velta þeim um munninn og … spýta! Giovanni Manetti, eigandi og víngerðarmaður hjá Fontodi (hann svarar líka öllum tölvupóstum, talandi um markaðsdeildir) settist aðeins niður með okkur. Vínin hans eru lífræn en hann segir að það sé ekki beinlínis þess vegna sem þau séu eins og þau eru, þau væru líklegast alveg jafn góð þótt ekki væru þau svo lífræn því það væri landið sjálft sem byggi yfir þessum einstökum gæðum. Þeir sem hafa staðið og horft yfir vínekrur Fontodi geta vel ímyndað sér kosti þessa lands, hinnar „Gullnu hlíðar“ við bæinn Panzano (lestu bloggið um heimsókn okkar til Fontodi árið 2005).

13.00 yfirgáfum við svæðið. Rakel ætlaði heim morguninn eftir og því vildum við rölta meira um borgina og njóta hennar saman. Við kíktum á kirkjur, röltum um þröngar götur og enduðum á Teatro Romano þar sem útsýni yfir borgina var einstakt. Staðurinn er áhugaverð blanda af rómversku leikhúsi og klaustri sem var reist þar nokkru síðar. Í klaustrinu er safn með alls kyns rómverskum minjum.

Um kvöldið fórum við svo út að borða á Osteria La Fontanina með Alessandro og Antoniettu, eigendum Castello di Querceto, tengdasyni þeirra og heildsala frá Mexíkó sem var með móður sína með sér. 8 réttir takk fyrir, 6 skv. matseðli (sjá matseðil) og 2 auka. Úff! Á milli rétta, og með réttum reyndar líka, fengum við að heyra af kvennaáhuga Mexíkóbúans sem lýsti því reglulega yfir að hann væri mikið karlmenni („macho“) sem væri nauðsynlegt að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Ég veit samt ekki alveg hvort móðir hans var sammála því.

Staðurinn er einstaklega skemmtilegur og svo þröngur að Alessandro gerði mikið grín að því að ameríkanar kæmust alls ekki þarna inn (og hló mikið af því sjálfur). Skraut og vínflöskur eru upp um alla veggi. Leifur á La Primavera hafði sérstaklega mælt með þessum stað og það var þess vegna skemmtileg tilviljun að okkur skildi einmitt hafa verið boðið þangað.

Fyrir utan mjög gott freyðivín, hvítvín og sætvín (I capitelli frá Anselmi) sem staðurinn mælti með þá voru dregnir fram tveir gamlir árgangar af vínum Castello di Querceto sem voru á vínlistanum, Cignale 1997 og La Corte 1997. Þau sýndu okkur hversu vel þau geta elst því þetta voru bara unglingar ennþá.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, ferðalög, fontodi, umani ronchi, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Kvöldverður með Caprai

Dagur 3, 28. mars.

Það hefði ekkert verið að því að hanga aðeins lengur á Hótel Steigenberger, skreppa í nudd eða í girnilega sundlaugina sem blasti við þegar við opnuðum gluggann um morguninn. Nú eða rölta um miðbæ Merano. En Veróna beið okkar þannig að við borðuðum morgunmatinn (reyndar eins seint og hægt var, rétt fyrir 11.00) og keyrðum af stað.

Veróna er 200km eða svo beint í suður frá Meranó og liggur hraðbrautin meðfram endilöngu Garda vatni þótt ekki sjáist í vatnið fyrir fjallgarðinum sem að skilur á milli. Það var ekki laust við að mér fannst ég ekki almennilega kominn til Ítalíu fyrr en við keyrðum út úr hálf-þýsku Alpasamfélaginu og nálguðumst Veróna.

Hótel Europa er svona lala en staðsetningin er splendido! á Via Roma um 100m frá Piazza Bra þar sem Arena er staðsett (sjá kort af Veróna). Öll hótel í Veróna og í sveitunum í kring voru uppbókuð enda koma aldrei eins margir gestir til borgarinnar og meðan á Vinitaly vínsýningunni stendur.

Allavegana, veðrið lék við okkur og við röltum um miðbæinn með smá pizzustoppi í hádeginu. Veróna er falleg borg, frekar lítil en mátulega óreiðukennd þannig að maður getur týnt sér í henni ef maður vill. Ég myndi samt ekki segja að hún væri meðal uppáhaldsborga minna á Ítalíu, til þess þyrfti ég að komast aðeins sunnar.

Um kvöldið var kvöldverður á Trattoria Ai Pompieri í boði Arnaldo Caprai. Það var ferlega skemmtilegt kvöld með góðum mat, vínum og félagsskap. Ekki spillti fyrir að Marco Caprai sat á móti mér og gat ég rakið garnirnar hans um eitt og annað. Það var heppilegt því fyrstu kynni mín af þessum rómaða vínframleiðanda voru heldur stuttaraleg (sjá þetta blogg um Ítalíuheimsókn 2005). Marco lék á alls oddi og ekki get ég sagt að hann sé kominn með á leið á vínunum sínum!

Við átum okkum sem sagt í gegnum 5 rétti en eins og nafnið „trattoria“ gefur til kynna er maturinn þarna einfaldur og staðbundinn með mikið úrval osta og pylsa í broddi fylkingar. Standardinn var samt hár, þjónusta góð og andrúmsloftið svo gott að ég hlakka til að koma hingað aftur í næstu ferð.

Fyrir utan Marco sjálfan og Robertu sem vinnur fyrir Caprai sátu okkur næst kanadískir heildsalar. Það var forvitnilegt að ræða við þá því í Kanada er ríkiseinokun eins og á Íslandi, bara miklu strangari! Í samanburði við Ísland voru þeir ennþá á steinöld. Þarna nálægt okkur var líka skemmtilegur heildsali frá San Fransisco sem er hámenntaður í hornleik og aðeins virkur sem slíkur ennþá.

Vínin voru að sjálfsögðu frá Caprai. Fyrst 2006 árgangur af Grecante sem er alveg jafn ferskur og góður og 2005, þá Montefalco Rosso 2004 sem er að mestu úr Sangiovese og er af svipuðum gæðum og verði og betri vín frá Chianti Classico og síðan komu Sagrantino di Montefalco Collepiano 2003 og Rosso Outsider 2004 en hið síðara er úr Cabernet Sauvignon og Merlot en gefur vínunum úr Sagrantino þrúgunni lítið eftir. Að lokum var drukkið Sagrantino di Montefalco 25 Anni 2003 sem er stjarna víngerðarinnar og dýrasta vínið. Í lokin var borðuð súkkulaðikaka með appelsínusósu sem var afbragð en full afgerandi kannski til að lokavín kvöldsins nyti sín sem best en það var Passito sætvín úr Sagrantino þrúgunni.

Takk fyrir okkur.

Úti tók svöl nóttin á móti okkur, kvöldið hafði dregist á langinn og við skiluðum okkur upp á hótel í kringum miðnættið.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, caprai, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Diskóbúlla í Dólómítunum

Dagur 2, 27. mars.

7.00 á fætur.

8.00 inn í rútu.

10.00 mætt á Sellaronda skíðasvæðið í Dólómítunum. Veðrið var rjómagott, færið var fyrirtak og umhverfið óviðjafnanlegt. Ekki svo mikið af fólki og því engin bið í lyftur. Eiginlega er ekki hægt að biðja um meira þótt bloggarinn hafði ekki stigið á skíði í 15 ár. Rakel fór hins vegar í hópgöngu á snjóblöðkum þar til við hittumst í hádeginu.

13.30 matur á Rifugio Comici sem af öllum ólíklegum veitingastöðum er Miðjarðarhafs-fiskistaður í miðri skíðabrekku. Fiskurinn er hins vegar veiddur af ættingja fjölskyldunnar sem á staðinn og sóttur daglega niður á strönd svo hann sé alltaf ferskur og góður. George Clooney er víst fastagestur þarna. O jæja, staðurinn var amk. virkilega góður, þrír fiskréttir og síðan eftiréttur og drukkin með rauðvínið Pinot Nero 2005 og hvítvínið Schulthauser Pinot Bianco 2006 frá afmælisbarninu að sjálfsögðu, San Michele Appiano.

Þá var skíðað niður að rútunum með fullan maga af mat og víni og ekið af stað. Við stoppuðum til að hitta hóp gesta sem höfðu valið erfiðari skíðaleið (svo erfiða að tveir ameríkanar týndust í dágóðan tíma) og allir fengu Alpahatta merkta víngerðinni. Þarna stigum við upp í skíðalyftu, 6-8 í hverja, og hífðumst upp í 2.200 metra hæð þar sem beið okkar heitt rauðvín, meiri matur og … diskódans!

Diskóbúllan Club Moritzino er furðulegur fjallakofi sem eldar frábæran mat og spilar síðan dúndrandi danstónlist á milli rétta þar sem gestir eru hvattir til að standa upp á stólum og sleppa af sér beislinu. Það gekk eitthvað illa að fá Íslendinginn til að gefa sig allan í fjörið en á endanum var hann þó farinn að smella fingrum, – og gott ef ekki stíga nokkur úthugsuð spor. Stjórnendur San Michele Appiano víngerðarinnar fóru hins vegar hamförum á dansgólfinu og eiginlega má segja að stuðið á mannskapnum hafi verið skrambi gott.

Þegar matnum og djamminu lauk um 23.00 fóru allir í snjóbíla sem keyrðu okkur niður brekkuna að rútunum. Á miðri leið þurfti að gera neyðarstopp þar sem var farið að renna af einhverjum og allir fengu síðasta sopann af St. Valentin Pinot Nero 2004.

Að lokum hlykktust rúturnar af stað eftir svo bugðóttum vegum að manni fannst þeir fara í hringi þar til við komum á hótelið í Meranó tveimur tímum síðar.

Afmælisprógrammi var formlega lokið. Takk fyrir okkur, þetta var virkilega vel skipulagt, flott og skemmtilegt.

Það staðfestist líka að San Michele Appiano gerir einhver best gerðu vín á norðurhveli Ítalíuskagans, hin stílhreinu og tæru hvítvín með hið margverðlaunaða (13 sinnum hlotið hæstu einkunn 3 glös í Gambero Rosso)  St. Valentin Sauvignon Blanc í broddi fylkingar ásamt karaktermiklum rauðvínum, ekki síst St. Valentin Pinot Nero sem hlýtur að teljast með bestu vínum Ítalíu úr Pinot Noir þrúgunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, hótel, vínsýning, veitingastaðir

Vinitaly 2007 – Ljósasjóv undir berum himni

.

Dagur 1, 26. mars.

Flug  í Keflavík 7.20, millilending í Frankfurt og þaðan til Veróna 18.00.

Vinitaly vínsýningin í Veróna er stærst og elst allra vínsýninga. Ekki hissa kannski að hún skuli vera elst enda liggja allar rætur á endanum til Móður Ítalíu (og reyndar þaðan til Grikklands og Asíu en gleymum því) en að hún sé stærst kom mér á óvart þar sem ég taldi Bordeaux vera umfangsmeiri. Nóg um það.

En áður en sýningin hófst fórum við Rakel í afmæli til San Michele Appiano sem kenndur er við þorpið Appiano. Þótt ég hafi vanið mig á að nota ítalska heitið (eins og Gambero Rosso gerir) þá væri eiginlega réttara að nota þýskuna því hún virðist vera ráðandi tunga innan fyrirtækisins enda reka fyrirtækið menn með nöfn eins og Günther, Anton og Hanz.

Þeir hjá Appiano voru svo elskulegir að bjóða okkur flug og gistingu enda ekki á hverju ári sem menn verða 100 ára (þegar leið á partýið og menn urðu hressir voru þeir byrjaðir að lofa svona partýi á 5 til 10 ára fresti en ég held að kannski hafi það verið í hita leiksins…- aldrei að lofa þegar maður er í slíku stuði). Grazie mille!

Við Rakel lentum sem sagt 18.00 á Veróna flugvelli sem var skemmtilega sveitalegur miðað við gímaldið í Frankfurt, og brunuðum til Appiano á bílaleigubíl. Partýið var byrjað þegar við mættum en við komum akkúrat í forréttinn. Ekki er hægt að segja að við Rakel létum lítið fara fyrir okkur þegar við gengum inn í salinn þar sem allir voru sestir til borðs því dyrnar sem við þurftum að opna til að ganga inn voru svona 300 fermetrar að flatarmáli og Rakel í skjannahvítri kápu með 5 mánaða bumbu út í loftið og ég í skjærgrænum jakka með 34 ára gamla bumbu út í loftið.

Okkar var vísað til borðs hjá frændum okkar Norðmönnum og Finnum. Norðmenn voru ung vinaleg hjón sem við ræddum svolítið við í ferðinni og Finnar voru fremur þöglir á hinum enda borðsins. Ég hefði hvort sem er ekki heyrt neitt í þeim því tónlistin var hávær – talandi um tónlistina, hún var prýðisgóð og flutt af áhugamönnum sem allir störfuðu sem fréttamenn hjá RAI sjónvarpsstöðinni. Öllu hressari voru tékknesku fulltrúarnir sem einnig sátu við borðið, svo hressir að það þurfti reglulega að sussa á þegar þurfti að fá þögn í salinn. Anton, sem ég held að sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sat síðan á milli okkar og Tékkanna.

Kvöldið leið þannig að hver rétturinn var reiddur fram af öðrum undir vaskri stjórn Michelin-stjörnu kokks sem ég náði ekki hvað heitir og með réttinum var borið fram vín frá víngerðinni sem víngerðarmaðurinn Hanz Terzer kynnti jafnóðum. Þetta voru eðalvín öll sem eitt, allt frá hinum ljúfa Riesling Montiggl 2006 til hins heillandi Pinot Nero St. Valentin 2004, nú eða sætvínsins Comtess í endann sem var eðal. Skemmtilegt var að smakka 1998 árgang af Pinot Grigio St. Valentin sem sýndi hversu vel vínið getur þroskast, verulega áhugavert, og ekki síður skemmtilegt var að smakka sérstakt hátíðarvín úr Chardonnay, Pinot Grigio og Pinot Bianco sem er hið fyrsta þar sem þeir blanda nokkrum þrúgum saman (aðeins framleiddar um 200 flöskur). Ótrúlegt miðaða við að víngerðin gerir um 30 ólík vín en þau eru öll sem eitt úr sinni þrúgu hvert.

Áður en rúllað var upp á hótel (Hótel Steigenberger er í 30km fjarlægð í bænum Merano) vorum öllum húrrað út í garð þar sem var framið ljósasjóv á stóran húsvegg víngerðarinnar. Það var gott veður, allir voru hressir – þetta var svona létt Cinema Paradiso stemning. Og borið var fram Gewurztraminer St. Valentin 2006 undir öllu saman. Ljósasjóvið sýndi upphaf víngerðarinnar en líka stutta senu frá landi hvers fulltrúa (gestir voru nær eingöngu innflutningsaðilar um allan heim) og fengum við að sjá Flugleiðavél, gamla báta, íslenska fánann og fleira undir söng Bjarkar þegar kom að Íslandi. Skemmtilegt nokk. Einna flottast fannst mér samt þegar orginal teikningnum víngerðarinnar var varpað á húsið í réttum hlutföllum, það var kúl.

Komið á hótel á miðnætti, framundan skíðadagur í Dólómítunum.

Smelltu hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni og hér til að lesa allt bloggið um hana

Færðu inn athugasemd

Filed under appiano, ítalía, ferðalög, matur, vínsýning, vínsmökkun