Category Archives: vox

Vín vikunnar — Torbreck Juveniles 2006

.

24 stundir fengu ekki alls fyrir löngu nýjan liðsmann til þess að fjalla um vín og er það hún Alba á VOX. Alba er snjöll og metnaðarfull og gaman að sjá hana í þessu aukahlutverki á dagblaðinu.

Vikulega birtir hún Vín vikunnar og hefur til dæmis Stump Jump hvítvínið hlotið þá nafnbót (sjá blogg). Hún mælir líka með hinum og þessum vínum, eða bjór, með uppskriftum sem birtar eru í dagblaðinu.

Þessa vikuna velur hún Juveniles 2006 frá Torbreck sem Vín vikunnar.

Torbreck Juveniles 2006Vín vikunnar
Aðlaðandi og opið í nefi, kröftugur ilmur af svörtum berjum, ferskum kryddjurtum, balsamik, leðri og steinefnum með vott af sætleika. Rúnnað í muni með áberandi skóbarberjasultu, hrásykri og tóbakslaufum. Þroskuð og feit tannín fylgja þéttri og tilkomumikilli fyllingu með safaríkum og heitum endi. 
Veigamikið rauðvín sem tilvalið er að para með lamba- og nautkjöti, grillmat eða hafa eitt og sér. Tilbúið til neyslu strax en má geyma í 6-7 ár.
Þrúgur: 60% Grenache, 20% Shiraz og 20% Mourvedre. Land: Ástralía. Hérað: Sourth Australia – Barossa. 2.394 kr. “ (24 Stundir 9. ágúst 2008) 
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, torbreck, vox

Fleiri vín á VOX

Vínin okkar hafa verið að sækja í sig veðrið á vínlista VOX undanfarið. Við áttum 8 vín þar inni í byrjun ársins en sá fjöldi tvöfaldaðist við nýjustu uppfærsluna sem átti sér stað í síðustu viku.

Súper-sommelierinn Alba velur vínin á vínlistann af sinni fagmennsku og ástríðu.

Það veitir okkur mikla ánægju að vinna með svo góðu fólki og ekki laust við að við séum svolítið montin af þessum árangri.

Smelltu hér til að skoða öll vínin okkar á VOX og á öðrum veitingastöðum

Færðu inn athugasemd

Filed under mont, vínlisti, veitingastaðir, vox

Cùmaro með kjötrétti nr. 1 á Vox — Food and Fun

.

Við fórum á Vox um daginn og fengum okkur árstíðarmatseðil ásamt vínum. Allavegana fékk ég mér vínin með en Rakel fékk þann skemmtilega kost að smakka örlítið af hverju víni án þess að fá fullt glas. Var það vel boðin hugmynd af þjóninum okkar honum Gunnlaugi þar sem Rakel er með lítið kríli í fullu fæði og vildi ekki allan vínpakkann en gat með þessum hætti bragðað á öllu og fylgt mér eftir.

Maturinn var fyrirtaksgóður og súper-sommelierinn Alba sá til þess að vínin pössuðu afskaplega vel með.

Eitt þessara vína var rauðvínið okkar Cùmaro Riserva 2004 frá Umani Ronchi, parað með einhverju sem ég skrifaði ekki niður og man ekki hvað hét og kalla því bara kjötrétt nr. 1. Jú það var víst gæs allavegana. Small vel með og var unun að drekka vínið í sínu besta umhverfi.

Svo vel rann Cùmaro með árstíðarseðlinum að Alba ákvað að halda því með Food and Fun matseðlinum sem þessa dagana er í fullum gangi á Vox. Með hverju það er borið fram þar er ég ekki viss en ég treysti því fullkomnlega að Alba hefur parað það af kostgæfni.

Það er óhætt að mæla með ferð á Vox.

Smelltu hér til að sjá hvaða vín við eigum á föstum vínlista Vox

Færðu inn athugasemd

Filed under matur, umani ronchi, vínseðill, veitingastaðir, vox

Alba er Vínþjónn ársins

.

Elísabet Alba er Vínþjónn Ársins 2006 eins og kemur fram í þessari frétt á freisting.is.

Alba er vínþjónn á VOX þar sem nokkur af okkar vínum prýða vínlistann.

Ég var með vínsmakk ekki fyrir löngu á Vox til að leyfa þeim að kynnast nokkrum af okkar vínum. Það var sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með einbeittri Ölbu og hlusta á hana buna út úr sér skrautlegum orðaforða og lýsingum sem hittu beint í mark.

Alba hefur greinilega mikla þekkingu og ástríðu. Hún er vel að heiðrinum komin.

Til hamingju Alba!

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, vínlisti, veitingastaðir, vox

Norræn máltíð á VOX: Gestakokkur René Redzepi

René Redzepi, yfirmatreiðslumaður á NOMA í Kaupmannahöfn, var gestakokkur á VOX um helgina. René þessi hefur starfað hjá ekki lakari stöðum en El Bulli, French Laundry og Jardin des Sense.

Vínlistinn á NOMA er evrópskur og einhver sá flottasti sem ég hef séð.

Tónninn í matreiðslunni á Vox var norrænn; ölbrauð, rækjur, kartöflur, rúgur, söl, villigæs, skyr og þess háttar — að ógleymdri öskunni! Öskuna framleiddu starfsmenn Vox með því að brenna hey.

Matseðillinn var fimm rétta og kostaði 7.950 kr. án vína, 13.450 kr. ef vínseðillinn var tekinn með. Fyrir utan réttina fimm voru boðnir 2 for-forréttir og einn for-eftirréttur, alls 8 réttir. Miðað við gæði var verðið sanngjarnt, á íslenskan mælikvarð a.m.k.

Svona leit 5 rétta matseðillinn út:

1) Hráar íslenskar rækjur með agúrkusafa og piparrótarsnjó (hvítvín: Riesling Steinmessel 2004 frá Brundlmayer sem mér fannst afbragðsgott, þurrt og glæsilegt)

2) Leturhumar og ostruemulsion, rúgur og söl (hvítvín: Sauvignon blanc 2006 frá Cloudy Bay sem angaði af kattahlandi og steinolíu og var afskaplega ljúft vín)

3) Litlar kartöflur og maltmjöður frá Fredriksberg (rauðvín: Aloxe Corton 1997 frá Louis Jadot sem ilmaði af hnakki og seltinni jörð og var áhugavert)

4) Íslensk villigæs með sultuðu selleríi, ösku og sykurbrúnuðum eplum (rauðvín: GSM 2002 frá Rosemount sem hafði skemmtilegan karamellu-ilm en á endanum fannst mér eikin bera það ofurliði)

5) Ölbrauð með skyrkrapís og freyðandi mjólk (styrkt sætvín: Maccabeu 2002 frá Mas Amiel sem hafði daufan ilm en skemmtilega áferð í munni og var bara fínt)

Án þess að fara of mikið í smáatriði var upplifunin mjög góð. Gúrkusósa var ferlega fersk og bragðgóð, ostruemulsion færði manni hafið á diskinn, mikil notkun á ýmis konar rúgi og malti var skemmtileg, askan var stórskemmtileg og ölbrauðið í eftirréttinum fékk mig til að hugsa um ömmu.

Sem sagt, mjög gott allt saman og þjónusta alveg til fyrirmyndar.

Færðu inn athugasemd

Filed under noma, vínlisti, veitingastaðir, vox