Category Archives: wine spectator

Wine Spectator Top 100 2010 — Flaccianello trompast aftur

ws100Bandaríska víntímaritið Wine Spectator var að gefa út hinn árlega TOP 100 lista yfir vín ársins 2010.

Listinn er ekki skipaður 100 einkunnahæstu eða „bestu“ vínum ársins heldur eru þáttaðir inn hlutir eins og verð og aðgengi víns.

M.ö.o. listi yfir framúrskarandi vín að mati blaðsins, hvernig sem á það er litið.

Í fyrra var eitt af okkar vínum í svokölluðum Top 10 hluta listans, Flaccianello 2006 frá Fontodi. Þær 120 flöskur sem við fengum af þessu víni voru fljótar að fara en eingöngu var hægt að kaupa það með sérpöntun í gegnum ÁTVR (þeas. vínið fékkst ekki í hillum Vínbúðanna).

Nú hefur hið merkilega gerst að 2007 árgangur af Flaccianello nær líka inn á listann í ár en ekki hefur það gerst oft að sama vínið geri það tvö ár í röð. Reyndar er þetta í þriðja sinn sem Flaccianello kemst á Top 10 listan tímaritsins síðasta áratug sem er einstakt. 2007 árgangur kemur hingað til lands á næsta ári.

Til hamingju Giovanni Manetti og fjölskylda!

Við eigum reyndar fleiri vín á Top 100 listanum eða framleiðendur sem við flytjum inn eða höfum flutt inn. Fyrir utan Flaccianello 2007, sem er í 8. sæti listans, má finna Chateau Flaugergues Cuvee Sommeliere 2007 í 50. sæti, Christian Moreau Chablis Les Clos 2008 í 59. sæti, d’Arenberg The Stump Jump 2008 í 63. sæti, Chateau de Lascaux Languedoc 2008 í 85. sæti, Chateau Saint Cosme Cotes de Rhone 2008 í 88. sæti og Domaine Tempier Bandol Rose 2009 í 99. sæti.

3 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, christian moreau, d'arenberg, fontodi, saint cosme, tempier, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Flaccianello 2006 er komið til landsins!

Eitt rómaðasta vín 2006 árgangs frá Toskana er án efa Flaccianello 2006 frá Fontodi víngerðinni.

Það hlýtur 99 stig í Wine Spectator og 8# sæti á TOP 100 listanum góða sem tímaritið gefur út.

Robert Parker gefur því 96 stig.

Aðrir dómar eru eftir því.

Það er því óhætt að segja að þetta hreinræktaða Sangiovese rauðvín sé svolítið merkilegt með sig þessa dagana. Fyrir okkur er það holdgervingur Toskana þar sem frábær víngerð og fegurð sveitarinnar sameinast í einhverju einstöku.

Giovanni Manetti, eigandi Fontodi víngerðarinnar, var svo elskulegur að leyfa okkur að fá rausnarlegan skammt af víninu þrátt fyrir hina miklu eftirspurn og þá staðreynd að það er uppselt víða um heim.

Vínið kom til landsins í síðustu viku og við eigum nóg til ennþá. Verð 8.900 kr.

Áhugasamir sendi okkur vinsamlegast póst á vinogmatur@vinogmatur.is til að kanna stöðuna áður en það er sérpantað hjá ÁTVR.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, fontodi, robert parker, wine spectator

The Stump Jump GSM eitt af TOP 100 vínum árið 2009 að mati Wine Spectator

Nýr TOP 100 listi er kominn út hjá bandarísku útgáfunni Wine Spectator, fyrir árið 2009.

Við eigum þrjú vín á listanum, Fontodi Flaccianello 2006 (99 stig í 8. sæti) sem er væntanlegt á nýju ári til landsins, San Michele Appiano Pinot Grigio 2008 (90 stig í 70. sæti) sem hefur fengist hér þó ekki þessi árgangur, og The Stump Jump GSM 2008 frá d’Arenberg (90 stig í 82. sæti, við erum með 2007 í gangi núna).

Það er mjög eftirsóknarvert að komast á listann því hann getur haft góð áhrif á sölu og orðspor viðkomandi víngerða um allan heim.

Eins og bloggarinn hefur áður bent á er þessi árlegi listi mjög markaðsvæddur og takmarkaður en þó verður ekki framhjá því litið að þau vín sem komast á hann eru áhugaverð og góð, sum jafnvel frábær kaup og önnur hugsanlega framúrskarandi.

2 athugasemdir

Filed under appiano, d'arenberg, dómar, fontodi, wine spectator

Lucien Le Moine og aðrir Búrgúndarar fá lofsamlega umsögn í Wine Spectator

.

Það má segja að Lucien Le Moine ríði feitum hesti frá einkunna-afhendingu Wine Spectator fyrir vín frá Búrgúndarhéraði af 2005 árgangi. 16 rauðvína framleiðandans af 2005 árgangi eru til umfjöllunar í blaðinu og fær ekkert þeirra undir 93 stigum. Hann endurtekur því leikinn frá því þegar 2004 árgangurinn frá Búrgúnd var til umfjöllunar þegar vín Lucien Le Moine voru líka fremst á meðal jafningja að mati blaðsins (lestu meira).

Annars staðar í blaðinu er svo fjallað um næsta árgang 2006, sem við flytjum hingað til Íslands í september, þar sem nokkrir framleiðendur eru valdir til sérstakrar umfjöllunar og teknir við þá viðtal og er Mounir Saouma, eigandi Lucien Le Moine, í þeirra hópi.

Það sem gerir Lucien Le Moine svo ennþá heitari er eins og lesa má úr upplýsingum Wine Spectator að hann framleiðir yfirleitt ekki meira en 50 kassa af hverri sort (600 flöskur) á meðan að sumir framleiðendur í Búrgúnd eru að senda fleiri þúsund flöskur af sambærilegum vínum bara á Bandaríkjamarkað.

Ég spái því að vínin frá Lucien Le Moine eigi eftir að auka hressilega við verðgildi sitt í framtíðinni sökum frábærra dóma, ekki síst í amerísku pressunni, og vegna þess hversu lítið er til af þeim.

Í sama tímariti fá vínin fá Jean Grivot sömuleiðis hörkudóma en ekki er langt síðan að það var bloggað um það hér þegar að blaðamaður Decanter valdi framleiðandann í efsta elítuhóp framleiðenda í Búrgúndarhéraði (lestu meira). Í Wine Spectator er hluti rauðvína Jean Grivot af 2005 árgangi til umfjöllunar og hljóta einkunnir á bilinu 89 til 94 stig.

Ekki verra að glæsileg mynd af Clos Vougeot vínekru Jean Grivot prýðir forsíðu tímaritsins.

Nokkur vín frá Vincent Girardin eru sömuleiðis til umfjöllunar í Wine Spectator og fá á bilinu 86 til 94 stig en þess verður að geta að lína framleiðandans er mjög breið og spannar allt frá ódýrustu vínflokkum svæðsins til þeirra bestu og í þetta skiptið vantaði flest betri vín framleiðandans í umfjöllun blaðsins.

Þegar öllu er á botninn hvolf — Glæsileg útkoma vína frá okkar framleiðendum í Búrgúndarhéraði í þessu nýjasta hefti bandaríska víntímaritsins Wine Spectator.

Svo verð ég að koma að þessari hlýju umfjöllun um okkur og vínin okkar frá Búrgúnd í Gestgjafanum. 

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, Gestgjafinn, grivot, lucien le moine, vincent girardin, wine spectator

Winespectator vídeóbloggar um Barolo Campe 2003

Á vefsíðu Wine Spectator fann ég ágætt úrval af ræmum þar sem skríbentar blaðsins vídeóblogga um hin ýmsu vín.

Þar fann ég m.a. þetta víedóblogg um Barolo Campe 2003 frá La Spinetta.

2003 árgangur var erfiður í Piemonte, heitur og erfitt að halda ferskleika vínanna og karakter. Það var þó ekki að sjá að 2003 Barolo Campe frá La Spinetta skorti mikið þegar ég smakkaði það fyrst fyrir tæpu ári.

James Suckling hjá Wine Spectator er sammála mér, hann gefur því 95 stig.

Við eigum nokkra kassa af 2003, flaskan er á 8.000 kr.

2004 verður um 20% dýrara því víngerðin hækkaði vínið hressilega í nýju verðskránni þeirra.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, la spinetta, sjónvarp, wine spectator

Wine Spectator Top 100 2007

.

Wine Spectator var að gefa út Top 100 listann sinn.

Við eigum þrjú vín á listanum, The Hermit Crab 2006, Flaccianello 2004 og Tempier Bandol Migua 2004 sem við höfum reyndar ekki flutt inn þótt við vinnum með framleiðandanum.

Við áttum eitt vín á listanum í fyrra, The Struie 2004 frá Torbreck (lestu bloggið).

Önnur vín sem við eigum og hafa náð nýlega á listann eru t.d.  Chateau de Flaugergues, Bandol frá Tempier (ekki Migua) og Chianti Classico Riserva frá Castello di Querceto (tvisvar).

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, d'arenberg, dómar, flaugergues, tempier, torbreck, wine spectator

Rósavín og Búrgúndarvín fá lofsamlega umfjöllun í Wine Spectator

.

Við Rakel röltum niður í Eymundsson í gær í veðurblíðunni og fengum okkur kaffisopa. Einn af þessum góðu dögum þar sem er virkilega hægt að labba meðfram sjávarsíðunni á skyrtunni.

Eins og svo oft þegar ég fer í bókabúðirnar gluggaði ég í Wine Spectator víntímaritið bandaríska. Stundum kaupi ég eintakið, sérstaklega þegar verið er að fjalla vel um okkar vín.

Það sem vakti athygli mína var forsíða blaðsins. Annars vegar forsíðumyndin sjálf og aðalgreinin um rósavín og hins vegar umfjöllun blaðsins um Búrgúndarvín — en við eigum fulltrúa í báðum þessum flokkum.

Kom á daginn að í báðum flokkum voru okkar fulltrúar í sviðljósinu og Rakel þurfti að hlusta á undirritaðan monta sig og þusa alla leiðina aftur heim — upptendraðan af tvöföldum macchiato sem virkaði eins og olía á eldinn.

Það virðist ekki vera hægt að fjalla um rósavín á faglegan hátt án þess að minnast á Domaine Tempier rósavínið og það verður líklegast ekki ofsagt að þetta sé hugsanlega virtasta rósavín sem framleitt er miðað við þá almennu og góðu umfjöllun sem það fær meðal vínskríbentanna. Í tímaritinu er fjallað um vínið undir fyrirsögninni „Rosé Comes to the Table – These Versatile Wines Prove a Serious Match for Food“ þar sem því er stillt fram með ákveðnum réttum ásamt tveimur öðrur rósavínum.  Tempier rósavínið er parað með ofngrilluðu kálfakjöti með gulrótarmús og baunum.

Í blaðinu er líka listi yfir „Recommended Sparkling and Still Rosés“ þar sem 2005 árgangur af Tempier rósavíninu er í 2-4 sæti yfir bestu rósavínin (þ.e. „Still Rosés“) með einkunnina 89 stig og eftirfarandi umfjöllun: „Offers a luscious aroma, concentrated dried cherry and raspberry flavors and hints of fig. Spice and smoke on the finish.“. Uppgefið verð er 32$ sem verður að teljast vel samkeppnishæft við okkar verð á 2.290 kr. (2004 árg.).

Í umfjöllun tímaritsins um 2004 árganginn frá Búrgúnd er Lucien Le Moine einfaldlega fremstur meðal jafningja. Á „Top-Scoring“ lista blaðsins yfir 21 bestu vínin að þeirra mati eru fjögur vín frá Lucien Le Moine. Tvö í 2.-4. sæti, tvö í 5.-7. sæti og eitt í 11. sæti. Enginn annar framleiðandi á fleiri en tvö vín á þessum lista en önnur fræg nöfn eru t.d. Roumier, Champy, Laurent, Jadot, Méo-Camuzet og fleiri.

Ekki slæmt það. Af vínunum frá Lucien le Moine er það að segja að þau koma til landsins í vikunni eftir smávegis seinkunn. Flutningurinn er hitastýrður. Á sama bretti eru vínin frá Ég hef ekki haft tíma til þess að setja þessa tvo góðu framleiðendur frá Búrgúnd á vefsíðuna — það er líka sól úti — en geri það fljótlega. Þangað til má lesa kannski lesa þennan tölvupóst. Listinn yfir vínin í tölvupóstinum er ekki alveg tæmandi því nokkur vínanna voru þegar upppöntuð þegar hann var gerður og nokkur hafa selst upp síðan.

Færðu inn athugasemd

Filed under búrgúnd, dómar, grivot, lucien le moine, wine spectator

Wine Spectator smakkar Chateau Flaugergues 2003 (vídeó)

.

Ég hef ekki farið eins mikið á Wine Spectator vefsíðuna eftir að þeir byrjuðu að rukka fyrir aðganginn en ein skemmtileg nýjung á síðunni kostar ekki neitt – vídeó af smökkunum, víngerð og fleiru.

Í vídeói sem kallast „Time to Shine in Southern France“ sýnir Kim Marcus fram á hversu góð víngerð er orðin í Languedoc héraðinu og smakkar þrjú vín , eitt rautt, eitt hvítt og eitt rósa, því til staðfestingar.

Rauðvínsfulltrúann könnumst við vel við, þar er okkar vín Chateau du Flaugergues 2003 á ferðinni en tímaritið gaf því 92 stig fyrir þann árgang. Greinlega verðugur fulltrúi héraðsins að þeirra mati.

Horfðu á Marcus smakka og lýsa víninu í vídeóinu.

Hann bendir m.a. á hversu vínið er fágað frekar en kröftugt.

Það á enn frekar við um 2004 árganginn sem er ekki eins sætur í nefi enda ekki eins heitt sumarið 2004 heldur vínið að sumu leyti jafnara. Litur og stíll minnir næstum á Pinot Noir frá Búrgúnd. Vínið er enn að opna sig og spái ég því að það gefa meira af sér í sumar heldur en nú. Það verður forvitnilegt að sjá hvað Wine Spectator segir um þennan árgang en ég spái því að hann nái ekki að jafna dóma þeirra um 2003 heldur hljóti svona 90 stig.

Færðu inn athugasemd

Filed under árgangar, dómar, flaugergues, frakkland, languedoc, sjónvarp, wine spectator

Lascaux 2004 er Smart Buy í nýjasta Wine Spectator

Febrúarhefti Wine Spectator víntímaritsins kemur út innan skamms.

Þar fær Chateau du Lascaux 2004 89 stig og titilinn „Smart Buy“.

Við flytjum líka inn hið mjög svo góða Pic Saint Loup 2003 frá sama framleiðanda. Það eru jafnvel enn smartari kaup því aðeins 150 krónur skilja vínin að í verði (1.600 vs. 1.750 kr.) en munurinn er meiri að gæðum. Pic Saint Loup er bæði bragðfyllra og heilsteyptara vín.

Bæði vínin eru óeikuð, þroskuð í sementstönkum til að viðhalda spriklandi karakter frekar en löðra hann í eik.

Mmmm… best að taka eina Lascaux 2004 upp í kveld, þ.e.a.s. núna. Er reyndar djúpsteiktur smokkfiskur í matinn og brakandi hvítvín hentaði kannski betur enda Lascaux þurrt í munni þótt það sé aðeins sætt í nefi. En það er 7 stiga gaddur úti og manni veitir ekki af allri þeirri hlýju sem næst í.

CHATEAU DU LASCAUX COTEAUX DU LANGUEDOC 200489/100 „Smart Buy“
There’s an intense rush of bright cherry and berry flavors in this crisp, well-structured, medium-bodied red. Asian spice and iron notes are well-focused on the tight, tannic finish. Drink now through 2010.“ (Wine Spectator) 

[… var að ljúka matnum og passaði vínið mun betur með smokkfisknum en ég hafði reiknað með, eiginlega smellpassaði það en þó mæli ég með því svölu, svona 13-14°C. Rauðvín eins og þetta er greinilega upplagt með svona feitum fiskrétti, það klýfur fituna og heldur máltíðinni ferskri …]

4 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, dómar, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Wine Spectator elskar líka Vitiano — efsta ítalska vínið á ‘Best Buy’ listanum

.

Já, Wine Spectator velur ekki bara 100 bestu vínin á hverju ári heldur líka þau sem þeim finnst skara fram úr fyrir góð kaup á árinu sem er að líða (90 stig eða yfir og 15 dollarar eða undir).

Dálítið súrt að efsta ítalska vínið á þeim lista skuli ekki komast hærra en í 21. sæti.

En gott að það skuli vera Vitiano rauðvínið frá Falesco.

Smelltu hér til að skoða listann

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, falesco, wine spectator

Ennio Morricone og Zafferano í London

.

Dreif mig á föstudaginn til London. Tilefnið voru tónleikar með Ennio Morricone, ítalska kvikmyndatónskáldinu sem ég eins og svo margir aðrir hef mikið dálæti á (einhver sem hefur komið til okkar Rakelar í heimsókn og lent í late-night Morricone tónlistarveislu myndi bæta fyrir aftan „vægast sagt!“). Morricone er maðurinn. Við vorum þarna fjórir bekkjarfélagar úr Verzló sem áttum góðar minningar úr menntaskólaferðalögum með Morricone á meðan aðrir höfðu hlustað á það sem mætti kalla hefðbundnari partítónlist. Sá okkar sem búsettur var í London (ekki ég) bauð okkur á tónleikana og út á borða á eftir – TAKK.

Við mættum snemma og fórum á Gordon’s vínbarinn í hádeginu. Gordon´s er sjarmerandi kjallarahola með langa sögu en enginn ætti að fara þangað til að upplifa góð vín heldur frekar ákveðna stemningu. Þeir segjast vera elsti vínbarinn í London og miðað við hina 86 ára Joan sem afgreiddi okkur gæti maður alveg trúað því. Hún bauð okkur í níræðisafmæli sitt eftir fjögur ár og kom með tvo umganga af rauðvíni í boði hússins. Þarna snæðir maður ólífur, osta, brauð og salami og öll vínin eru í borðvínagæðaflokkinum. Sem sagt, ekkert fuzz.

Þá tóku við neyðarinnkaupaaðgerðir þar sem kom í ljós að veitingastaðurinn sem við ætluðum á um kvöldið, Zafferano, leyfði ekki gallabuxur og hvíta strigaskó og einn okkar braut báðar þessar reglur (ekki ég). Það fékk farsælan endi og áður en við vissum af vorum við komnir í Apollo leikhúsið þar sem kom í ljós að tónleikarnir byrjuðu 8.15 en ekki 19.30. Veitingastað var því frestað til 22.00 og sötraður var bjór fram að tónleikum á næstu knæpu — þó ekki nema bara til þess að drepa tímann.

Tónleikarnir voru flottir. Morricone stjórnaði sjálfur lögum sínum úr myndum eins og The Mission, Once Upon a Time in America, spagettívestrunum o.fl. Ekkert hlé en vegna borðhaldsins framundan misstum við af uppklappsatriðum sem guð má vita hvað myndu standa lengi yfir því salurinn var fullur af aðdáendum goðsagnarinnar. Morricone var með næstum 150 hljóðfæraleikara og kórmeðlimi.

Zafferano er ítalskur veitingastaður með Michelin stjörnu. Hann er rétt suður af Harvey Nichols, svona 3 mínútna labb. Við Rakel höfum einu sinni farið þangað til að borða í hádeginu og var máltíðin nú alveg jafn eftirminnileg og þá. Staðurinn býður upp á einfalda ítalska matargerð þótt umgjörðin öll og þjónustan sé aðeins viðhafnarmeiri en ekki um of. Hráefnin eru af þeim toga að maður ímyndar sér að þau geti vart orðið betri og vínlistinn er frábær.

Ég fékk mér mozzarello di buffala (mozzarella ostur úr buffalamjólk) í forrétt með þistilhjörtum og vorlauk. Síðan fashanafyllt ravioli og loks kálfalifur á kartöflumús. Vínin voru Sauvignon Blanc frá okkar framleiðanda La Spinetta, Barolo Ciabot Mentin Ginestra 1998 frá Domenico Clerico sem fékk held ég 98 stig í Wine Spectator og var ofsalega flott en kannski ekki týpískt þar sem þetta er nokkuð eikaður bolti  (117 pund). Loks fengum við okkur sætvín úr Moscato þrúgunni frá eyjunni Pantelleria sem er langt suður í Miðjarðarhafi og álíka langt frá Túnis eins og frá Sikiley.  Við ætluðum ekki að fá okkur eftirrétt en listinn var einfaldlega of girnilegur og freistaðist ég til þess að fá mér vanilluís með 100 ára gömlu balsamik ediki og ferskum, hvítum trufflum. Trufflutíminn er nefnilega akkúrat núna og þessar komu frá Piemonte héraði alveg eins og vínin sem við drukkum, hvíta og rauða. Þjónninn okkar frá Puglia héraðinu var eitthvað ánægður með okkur og bauð okkur upp á sætvínið, grappa og kaffi.

Zafferano er staður sem ég get ekki beðið eftir að heimsækja aftur.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, þrúgur, ennio morricone, gordon´s, london, matur, tónlist, vínbar, vínlisti, veitingastaðir, wine spectator, zafferano

Winespectator Top 100: Torbreck The Struie 2004

Wine Spectator Top 100 listinn var að koma út, fyrir árið sem er senn á enda.

Við eigum eitt vín á listanum, The Struie 2004 frá Torbreck. Það fær 94 stig og er í 38. sæti listans.

Vínið var líka valið á listann fyrir tveimur árum síðan, þá 2002 árgangur, og merkilegt nokk í nákvæmlega sama sæti. Við keyptum hins vegar 2003 árganginn og verður hann væntanlega fáanlegur í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni innan skamms.

Ég mun leggja inn pöntun af þessu víni fljótlega — í næstu sendingu frá Ástralíu en hvort það verður 2004 eða 2005 er ég ekki alveg viss um.

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, dómar, fréttir, rauðvín, torbreck, wine spectator

Hvaða vín verða á Wine Spectator Top 100?

Eftir nokkra daga mun Wine Spectator gefa út Top 100 listann sinn yfir vín ársins að þeirra mati. Það eru þau vín sem hafa hlotið bestu dóma blaðsins á liðnu ári.

Svona listar eru náttúrulega alltaf meingallaðir en engu að síður eru vínin 100 sem þar birtast all traust kaup.

Véfrétt Víns og matar hefur spáð því að Chateau de Flaugergues 2003 muni vera á þessum lista þar sem vínið hafi fengið 92 stig á árinu sem er sama einkunn og þegar 2000 árgangur vínsins skaust í 21. sæti listans hér um árið. Í októberhefti blaðsins var upptalning á vínum undir 25$ sem hafa fengið 88-94 stig á árinu og var Flaugergues ódýrasta vínið sem náði 92 stigum eða meira.

Annað vín sem véfréttin spáir að nái inn á þennan lista er hið ódýra Falesco Vitiano 2004 sem fékk 90 stig þrátt fyrir afar lágt verð.

Svo er það náttúrulega Castello di Querceto Chianti Classico Riserva 2003, en það hefur tvívegis áður náð inn á Top 100 lista Wine Spectator.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, dómar, falesco, flaugergues, vangaveltur, wine spectator

Bíódýnamískir framleiðendur: Foradori og Domaine d’Aupilhac

Ég bloggaði stuttlega fyrr á þessu ári um bíódýnamísk vín.

Mér var hugsað til þeirra aftur eftir að lesa góða grein í Wine Spectator „Why I Buy Bio“ eftir Matt Kramer. Kramer segir frá því í greininni að í staðinn fyrir að vísa á ákveðna heildsala eða vínbúðir þegar fólk biður hann um góð ráð um vínkaup þá segir hann því einfaldlega að kaupa bíódýnamísk vín.

Bíódýnamísk víngerð byggir á kenningum Rudolphs nokkurs Steiners (1861-1925). Hún er ekki sama og lífræn víngerð en byggir á sömu virðingu fyrir náttúrunni. Á meðan sú lífræna gengur út á náttúrulegar ræktunaraðgerðir gengur sú bíódýnamíska t.d. út á það hvenær ársins eða dagsins á að framkvæma slíkar aðgerðir (t.d. út frá stöðu tunglsins). Bíódýnamísk víngerð tekur mið af jafnvægi náttúrunnar allt frá lífríki til himintungla og er sveipuð ákveðinni dulúð. Hún er sömuleiðis nátengd sjálfsþurftarbúskap.

Hvernig þessi hugsjón skilar sér síðan í glasinu er erfitt að útskýra. Kramer dregur skemmtilega líkingu við jazz píanistann Bill Evans sem lét fingur víbra á ákveðnum nótum jafnvel þótt allir vita sem þekkja að á píanói er ekki hægt að framkvæma vibrató (amk. ekki með þessari aðferð). Við þessu átti Bill Evans svar: „…but trying for it affects what comes before it in the phrase.“. Það getur verið ómögulegt að mæla áhrif bíódýnamískrar víngerðar á vínið sjálft en viðleitnin hefur áhrif á heildarútkomuna.

Eða eins og Matt Kramer orðar það: „You could do a lot worse choosing such wines.“

Við höfum tvo framleiðendur sem, að því er best verður komist, eru bíódýnamískir: Foradori á Ítalíu og Domaine d’Aupilhac í S-Frakklandi. Þótt að í þeirra tilfellum sé bíódýnamíkin vitnisburður um metnað þeirra og virðingu fyrir náttúrunni þá má ekki taka það svo að bíódýnamík sé sjálfgefinn gæðastimpill, það eru alltaf svartir sauðir. Sömuleiðis má ekki taka það sem svo að þeir framleiðendur sem ekki gefa sig út fyrir að vera bíódýnamískir séu þar af leiðandi síðri. Margir framleiðendur ganga ekki alla leið og sumir nálgast náttúruna af álíka virðingu þótt ekki stundi þeir kenningar Steiners. T.d. er Fontodi í Chianti Classico afskaplega náttúruvænn (stundar bæði lífrænan búskap og sjálfsþurftarbúskap ásamt þyngdarlögmálsvíngerð). Kíktu á þetta blogg til að lesa viðtal þar sem viðhorf hans til bíódýnamískrar víngerðar kemur fram.

Færðu inn athugasemd

Filed under aupilhac, bíódínamík, fontodi, foradori, jazz, lífrænt, wine spectator

Hlýnun jarðar breytir víngerð

Í októberhefti Wine Spectator er grein um það hvernig hlýnun jarðar er þegar farin að breyta hugarfari víngerðarmanna. Þekktur spænskur víngerðarmaður áformar t.d. að færa vínekrur sínar ofar í fjöllin ef hitastig heldur áfram að hækka.

Tímaritið dregur upp tvö kort af Bandaríkjunum með yfirliti yfir víngerðarsvæðin, hið fyrra frá því við lok 20. aldar og hið síðara við lok 21. aldar (heimild þeirra er rannsókn Purdue Háskóla sem gefin var út í Proceedings of the National Academy of Science). Ef verstu spár reynast sannar mun víngerð í Bandaríkjunum nánast leggjast af í Kaliforníu og Miðríkjunum eftir 100 ár og færast nánast alfarið á Norðaustur- og Norðvesturströndina.

Verður Boston höfuðborg víngerðar í Bandaríkjunum?

Ein leiðin til varnar hitan er að rækta hitaþolinn vínvið og þétta laufin til að skýla frá sólinni skv. Diffenbaugh prófessor.

Lestu um gróðurhúsaáhrifin á vísindavefnum.

Þessi vefsíða www.treehugger.com gæti verið áhugaverð fyrir þá sem vilja fylgjast með umræðu, nýjum vörum og fleiru er tengist breyttu hugarfari gagnvart náttúrunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, loftslag, víngerð, wine spectator

Chianti Classico vínin okkar fá flotta dóma í Wine Spectator

Toskana fær sérstaka umfjöllun í októberhefti bandaríska víntímaritsins Wine Spectator, með áherslu á Chianti Classico svæðið.

Okkar framleiðendur, Fontodi og Castello di Querceto, fá mjög góðar einkunnir fyrir sín Chianti Classico vín.

Ekki eru allir árgangarnir af þessum vínum komnir ennþá til Íslands fyrir utan 2004 árganginn af Querceto Chianti Classico og 2004 árgangurinn af Fontodi kemur í hillurnar í desember. Það breytir ekki öllu því þessi vín eru alltaf góð, þessar nýjustu einkunnir eru bara frekari staðfesting á því

FONTODI CHIANTI CLASSICO 2004 – 88/100
Juicy black currant, floral and light oak character. Medium- to full-bodied, with sturdy tannins. Ripe, meaty and almost earthy.
CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO 2004 – 88/100
Intense, with lovely ripe blackberry and oak that run through the full-bodied palate, picking up the firm, young tannins and providing a clean fruit and mineral finish. Nicely done. big improvement. Great price.
CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO RISERVA 2003 – 90/100
Wonderful perfumes of chocolate, berry and raspberry follow through to a full-bodied palate, with firm tannins and a long, refreshing aftertaste.
CASTELLO DI QUERCETO CHIANTI CLASSICO RISERVA IL PICCHIO 2003 – 91/100
Classy aromas of blackberry, mineral and licorice follow through to a full-bodied palate, with fine tannins and lots of berry and vanilla on the finish. “ (Wine Spectator)

Riservað frá Castello di Querceto fékk jafnframt heiðursnafnbótina „Smart Buy“.

Færðu inn athugasemd

Filed under castello di querceto, chianti classico, dómar, fontodi, wine spectator

Chateau de Flaugergues 2003 — 92 stig Wine Spectator

Jamm.

Pierre hjá Chateau de Flaugergues var að senda mér tölvupóst rétt í þessu til að segja mér frá því að vínið þeirra Chateau de Flaugergues Cuveé Sommeliere hefði verið að fá 92 stig hjá bandaríska ofurvíntímaritinu Wine Spectator. Við Pierre erum glaðir með þetta.

Ég héld að þú ættir að tékka á þessu víni.

Já ég held það.

„Gorgeous aroma of rose hips, currant and spice, with luscious flavors of dark plum, smoke and mocha. Plenty of baby fat in this, but powerful as well, with a long, structured finish of pepper, brick, and mineral. Drink now through 2012. 4,000 cases made. Score: 92.“-Wine Spectator 31. júlí 2006, Kim Marcus

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, flaugergues, frakkland, wine spectator

Vitiano 2004 — Polkagott rauðvín

Smelltu á þennan hlekk til að þessa að hlusta á, já hlusta, hvað þeir hjá Winexperience segja um Vitiano 2004 sem þeir völdu WOW – Wine Of the Week – í síðustu viku – dálítið fyndið.

Ég heiti Arnar Bjarnason, ég er hrifnæmur maður. 

Stundum finnst mér eitthvað vín svo gott að ég verð æstur og finnst eins og það sé ekki til nógu magnað lýsingarorð til að ná yfir upplifunina. Næst væri að bresta í söng en ég get aldrei lært neina texta utanað. Kannski næ ég í harmónikkuna sem Rakel gaf mér í jólagjöf næst þegar mér verður orðavant yfir ágæti víns, og spila polka.

Vitiano rauðvínið frá Falesco er eitt af þessum vínum sem mér finnst svona polkagott. Verðið er líka bara grín, 1.390 kr. Þetta var eitt af kjarnavínum okkar en féll þaðan út fyrir jól. Restarnar fást reyndar ennþá í hinum og þessum vínbúðum en þegar þær klárast sæki ég aftur formlega um fyrir vínið á reynslu og verður það þá bara fáanlegt í Heiðrúnu og Kringlunni nema það komist aftur í kjarna.

Ég er ekki sá eini sem finnst vínið svona gott. Vitiano er eitthvert mest viðurkennda vín sem við flytjum inn. Ekki furða þar sem Cotarella bræðurnir framleiða það, annar yfirmaður hjá Antinori en hinn frægasti vínráðgjafi Ítalíu. Robert Parker hefur kallað það „one of the greatest dry red wine bargains in the world“. Það eru kannski milljón ólík vín framleidd í heiminum og því er það nú bara dágott að vera talið ein bestu rauðvínskaupin af áhrifamesta vínspekúlanti veraldar – finnst mér. Ítalska vínbiblían, Gambero Rosso, valdi 2001 árganginn bestu rauðvínskaup Ítalíu. Síðan gaf Steingrímur í Morgunblaðinu því 18/20 og Þorri valdi það vín mánaðarins í Gestgjafanum. Eiginlega er ekki hægt að slá þetta. Og þó, bandaríska víntímaritið Wine Spectator sem kallaði 2003 árganginn bestu rauðvínskaup Ítalíu og gaf honum 88 stig var nú nýlega að gefa 2004 árganginum 90 stig sem hlýtur að tryggja þessu víni enn frekar sess sem ein bestu rauðvínskaup Ítalíu, eða heimsins alls eins og Parker segir á sinn hógværa hátt.

A wine with lovely balance and clean plum, berry and chocolate character, medium body and polished tannins. The perfect house wine—a great value. Sangiovese, Merlot and Cabernet Sauvignon. Drink now through 2010. 200,000 cases made. From Italy.  90/100 – Wine Spectator.

Einkunnir segja ekki allt. Lestu um vínið á vefsíðu okkar til að verða einhverju nær hvernig  það bragðast.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, falesco, gambero rosso, Gestgjafinn, morgunblaðið, robert parker, vangaveltur, wine spectator

94 stig handa Tiziano í Wine Spectator

Ekki bara einu sinni heldur tvisvar.

Tiziano frá Rietine í Chianti Classico er eitt best geymda leyndarmálið í Toscana ef marka má víndóma bandaríska tímaritsins Wine Spectator. Síðustu tveir árgangar, 1997 og 1999, fá báðir 94 stig hjá blaðinu. 1998 var ekki framleiddur því vínið er aðeins framleitt við bestu aðstæður.

Örfáar flöskur eigum við ennþá af 1997 sem er líklegast hæst skrifaði árgangur í Toscana í manna minnum. Mér finnst 1999 ekkert síðri, vínin sem ég hef drukkið frá þeim árgangi hafa einhverja ómótstæðilega mýkt og safaríkan kjarna.

Rietine Tiziano 1999 fæst í vínbúðunum frá og með 1. júní og kostar 2.900 kr.

1997 árg, 94 stig.
„Solid, muscular wine. Fantastic aromas of crushed berries, minerals, cigar tobacco and wood. Full-bodied and chewy, with big, juicy tannins and a long, ripe, smoky aftertaste. One of Tuscany’s sleepers, maybe one of Italy’s. „1999 árg, 94 stig.
„Wonderfully complex aromas of currants, berries and cigar box follow through to a full-bodied palate, with soft, velvety tannins and a long, caressing finish. This is a big, rich wine. Always excellent. “

– Wine Spectator

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, dómar, rietine, wine spectator

Wine Spectator Top 100 2004

Meira af Wine Spectator

Já ég veit… ég er búinn að vera að gagnrýna þennan „Top 100“ lista frá Wine Spectator – en get samt ekki látið það vera að benda þar á tvö vín sem Vín & Matur flytur inn.

Annað þeirra er hið ástralska Struie 2002 frá framleiðandanum Torbreck. Torbreck er einn allra heitasti framleiðandi Ástralíu og hefur t.d. eitt vína hans, Run Rig 2001, fengið hæstu einkunn sem ástralskt vín hefur hlotið í Wine Spectator. Tvö vína hans fengu nýverið 99 stig hjá Robert Parker. Öll eru þau flutt inn af Vín & Mat en fást aðeins í sérpöntun.

Hitt vínið á listanum er frá Toskana. Castello di Querceto – Chianti Classico Riserva 2000 kemur til með að fást í Vínbúðum 1. mars á þessu ári. Þetta er annað árið í röð sem þetta vín kemst á þennan eftirsóknarverða „Top 100“ lista.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, wine spectator