Category Archives: fræðsla

Framburður vínorða

Fann þessa vínorðabók hjá wine.com þar sem er ekki bara sýnt hvað orðin þýða heldur líka hvernig á að bera þau fram.

Chianti K’yahn-tee
Clos de Vougeot Klo duh Voo-zho
Pernand-Vergelesses Pair-nahng Vair-zhuh-less

Nú er bara að fá sér léttvínsglas og byrja að æfa sig.

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla, orðabók

Glös, umhellingar og hitastig

.

Ég fæ margar góðar spurningar þegar ég er með vínsmakkanir. Nokkrar sem ég fæ eiginlega alltaf varða umhellingu vína, hitastig vína og glösin sem við drekkum þau úr (ef ég fæ ekki spurninguna um glösin spyr ég hana sjálfur).

Byrjum á glösunum. Já, glösin skipta verulegu máli. Sama vín getur verið líltið spennandi í t.d. litlu glasi úr þykku gleri en aftur á móti virkað mjög heillandi í rétta glasinu. Rétta glasið fer náttúrulega eftir tegund vínsins en bestu glösin eru alltaf úr þunnum, óskornum kristal, létt og all rúmgóð. Ég þekki ekki almennilega vísindin á bak við þetta en segi þetta af reynslu. Lituð glös og skorin geta verið falleg og skapað góða stemningu og þess vegna upplögð en sé meiningin að njóta vínsins best er betra að hafa þau óskorin og glær – þannig sést litur og áferð vínsins betur. Þykk glös og lítil þrengja ilmprófíl vínsins niður í nánast ekki neitt á meðan stór og þunn glös leyfa hinum flóknustu ilmeiginleikum þess að koma fram. Ég mæli með Riedel glösunum sem fást í Kokku.

Það má lesa nánar um glasafræðin hér

Hitastig vína er annar mikilvægur þáttur. Hvítvín verða flöt ef þau fá að hitna of mikið, mismikið þó eftir tegund. Það er betra að byrja með þau of köld en of heit og leyfa þeim frekar að hitna niður í kjörhitastig. Bragðmeiri, þykkari, stundum eikaðri og betri hvítvín vilja aðeins hærra hitastig til að sem flestir eiginleikar þeirra komi í ljós. Rauðvín eru yfirleitt drukkin of heit, íslenskur stofuhiti er ekki kjörhiti. Sama hér, betra að byrja með þau aðeins í svalari kantinum og leyfa þeim að ná réttum hita smám saman frekar en að byrja með þau í 24°C (íslenskur stofuhiti). Of heit verða rauðvín oft römm og ýkt. Smekkur skiptir samt víst einhverju máli hér.

Það má lesa nánar um hitastig hér

Umhelling? Fyrir flesta er það ónauðsynlegt, sérstaklega hvað hvítvínin varðar, en ef þú drekkur bara ung gæðarauðvín skaltu splæsa í eitt stykki karöflu líka. Slík vín eru oft lokuð og þá hjálpar umhellingin að opna þau svolítið. Rúmgott vínglas gerir það sama, stundum er nóg að hella víninu tímanlega í glasið til að ná fram sömu áhrifum. Öndun getur gert mikið fyrir ungt rauðvín, ég hef  t.d. drukkið vín sem hefur verið talsvert betra daginn eftir (flaskan full að 2/3 og lokað aftur með korktappanum). Hefur líka gerst fyrir hvítvín sem hafa verið lokuð aftur með tappa og sett í ísskáp. Umhelling vína sem hafa botnfall og eldri árganga hefur annan tilgang en að opna vínið en þá þarf að hella varlega til að botnfallið sitji eftir í flöskunni.

Meira um umhellingar hér

Gleðilega páska!

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla

Leiðbeiningar um vínsmökkun í heimahúsum

Nei, ég hef ekki útbúið svona leiðbeiningar heldur er það breska víntímaritið Decanter sem hefur gefið út þessar leiðbeiningar um það hvernig þú getur skipulagt vínsmökkun heima hjá þér.

Þarna er ýmis konar ágætur fróðleikur, t.d. góðar lýsingar á einkennum helstu þrúganna.

Ef þú nennir ekki að lesa bæklinginn þá má alltaf senda mér póst (vinogmatur@internet.is) og ég mæti bara heim til þín með vínsmakkið í farteskinu.

Færðu inn athugasemd

Filed under þrúgur, decanter, fræðsla, námskeið, vínsmökkun

Veröldin í einni vínflösku — vínlýsingarorðabók í vasann

.

Bloggarinn Alder segir á Vinography vefsíðunni sinni: „[…] we can taste so much of the world in a bottle.“.

Hann á við hina miklu ilm- og bragðflóru sem menn geta fundið þegar þeir smakka vín en eiga oft í erfiðleikum með að koma orðum yfir. 

Alder hefur sett niður stutt orðasafn sem hægt er að nálgast hér, prenta út og stinga í vasann eða veskið. Svo þegar næsta vín er smakkað er hægt að kippa út listanum og finna réttu orðin.

Færðu inn athugasemd

Filed under bækur, Blogg um vín og mat, fræðsla, vínsmökkun

The Oxford Companion to Wine: Viðtal við Jancis Robinson í The New York Times

“If you can afford something above the basic $20 bottle, it’s probably the best of times… These represent wines made with more ambition and expertise than ever before.”, segir Jancis Robinson í viðtali við Eric Asimov í The New York Times.

Tilefnið er ný útgáfa af vínorðabókinni hennar, The Oxford Wine Companion, sem margir kalla mikilvægasta uppflettiritið um vín. Ég hef aldrei átt þessa bók en var að fá hana í póstkassann frá vinum okkar í Amazon á föstudaginn sl.

Í viðtalinu blæs Jancis Robinson á neikvæðni í garð víns í framtíðinni sem sumir, t.a.m. kollegi hennar Hugh Johnson, óttast að verði einsleitara en nokkru sinni áður undir sterkum áhrifum frá bandarískum smekk (neytendenda sem gagnrýnenda). Hún telur einmitt að gæðin fari vaxandi og hvarvetna séu spennandi hlutir að gerast svo framarlega sem fólk er tilbúið að eyða aðeins meira heldur en því sem einsleitu fjöldaframleiddu vínin kosta.

Jancis Robinson er með eigin vefsíðu jancisrobinson.com

Ég mæli líka með vínnámskeiðinu hennar sem fæst á DVD. Það er líka hægt að fá það lánað hjá okkur með því að senda póst á vinogmatur@internet.is.

Færðu inn athugasemd

Filed under bækur, fræðsla, jancis robinson, námskeið, new york times, vangaveltur, viðtal

Vínsmökkun í MK

Þá er ég nýkominn úr vínsmakki fyrir nemendur í matvælaskóla MK. 20 manns og annað holl á morgun.

Smakkið fer fram á ensku, til að undirbúa nemendur sem koma til með að vinna við veitingageirann í því að þekkja og hugsa um vín og eiga um það hugsanleg samskipti við erlenda gesti sína.

Neil enskukennari á heiðurinn að þessu. Fyrir utan að læra enskuna finnst honum mikilvægt byggja snemma upp áhuga og metnað í stéttinni.

Ég var með svona í MK líka í fyrra og hefur gengið vel. Gaman að sjá 16-17 ára krakka velta þessu fyrir sér og smakka nokkur vín — með leyfi foreldra að sjálfsögðu.

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla, kennsla, vínsmökkun

Uppskerufréttir frá Chateau de Lascaux

.

Chateau de Lascaux hefur tvö meðmæli sem eru betri en hvaða einkunn sem er, eða gott sem. Kermit Lynch, bandaríski heildsalinn sem ég hef mikið dálæti á, flytur þau inn og í öðru lagi þá framleiðir Lascaux vín hússins á einum skemmtilegasta veitingastað London, St. John, fyrir utan að eiga 3-4 önnur vín á vínlistanum þeirra.

Jean-Benoit Cavalier, eigandi og víngerðarmaður Chateau de Lascaux var að senda mér þessar fréttir af 2006 uppskerunni.

2006 árgangur verður „sublime vintage“ að mati Hr. Cavalier.

Á uppskerudögum í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni er hægt að kaupa Pic Saint Loup 2004 frá Lascaux á tilboð, 1.650 kr. í stað 1.750 kr. Þetta er flott vín, mjúkt með mikla fyllingu, barmafullt af s-frönsku kryddi og þroskuðum ávöxtum.

Færðu inn athugasemd

Filed under fræðsla, fréttir, rauðvín, tilboð

Fleiri plöntur, betra vín

Það kann að hljóma sem þverstæða en því fleiri plöntum sem plantað er per hektara þeim mun betri verða þrúgurnar.

Lestu tölvupóstinn hans David hjá Gordon´s í Boston þar sem hann fjallar um þetta.

David er góður penni. Hann er líka afkastamikill penni því skeytin hans berast næstum daglega. Ég var hjálpari í búðinni hans þegar ég lærði í Boston á sínum tíma og fékk þá tækifæri til að fylgjast með og læra af þessum metnaðarfulla vínsala.

Færðu inn athugasemd

Filed under þrúgur, fræðsla, víngerð

Vín sem enda á -aia

Toskana-rauðvínin með endinguna „aia“ urðu tákngervingur fyrir ítölsku vínbyltinguna sem hófst fyrir um þremur áratugum síðan. Ornellaia, Sassicaia, Solaia o.sfrv. Þessi kvenlega ending hefur reyndar ekkert með gæði beinlínis að gera heldur réð tilviljun því að þau vín sem hlutu einhverja mestu athyglina og urðu eftirsóttust meðal vínsafnara höfðu sum þessa sömu endingu.

Solaia 1997 smakkaði ég í fyrsta sinn fyrir skömmu. Þessi árgangur fékk 96 stig hjá Robert Parker og 98 stig hjá Wine Spectator. Ég man hvað mig langaði að eignast þetta vín á sínum tíma en ég var ekki einn af þeim heppnu sem þá náðu að kaupa það í ÁTVR á fínu verði, um 3.000 kr. Ég sá það síðar í vínbúð á túristaslóðum í Flórens fyrir 30.000 krónur og veit af magnum flösku (1.5L) á bandarískum veitingastað sem kostar 1.200$.

Vínið var virkilega gott. Toskanauppruni vínsins var augljós og stíllinn var flottur. Hins vegar er ég feginn að hafa ekki reynt að kaupa það einhvers staðar fyrir uppskrúfað verð. Það er svo mikið af góðum vínum þarna úti, gæðavínum sem endurspegla uppruna sinn á ómótstæðilega hátt þótt kannski fái þau ekki þessar himinháu einkunnir sem stundum glepja mann og annan.

Það sem er svo skemmtilegt við Ísland er að erlend súpergagnrýni hefur engin áhrif á verðið. Birgjar og ÁTVR halda sinni venjulegu álagningu sem veldur því einmitt svo oft að hér kosta slík vín minna en í öðrum löndum.

Að lokum. Eitt annað vín kom upp í hugann minn þegar ég smakkaði Solaia 1997 sem mér fannst ekkert gefa hinu frægara eftir. Það er Il Sole di Alessandro 2000 frá Castello di Querceto sem kemur frá Toskana eins og Solaia og er úr sömu þrúgu, Cabernet Sauvignon (Il Sole er 100% Cab. en Solaia um 75%). Hægt er að sérpanta það á 4.400 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, castello di querceto, fræðsla, vangaveltur

Languedoc flækja

Sumir segja að Frakkar hafi flóknasta vínsvæðakerfi veraldar. Þótt kerfið sé sett upp með því markmiði að skilgreina vín eftir staðsetningu og gæðum getur það reynst hið flóknasta mál fyrir óreynda að skilja út frá lestri miðans hvað er hvað.

Í Languedoc er ekkert „Grand“ eða „Premiere“ til að undirstrika hæstu mögulegu gæði heldur urmull vína sem eru flokkuð eftir svæðum innan héraðsins, síðan svæðum innan svæðanna og svæðum innan þeirra svæða — o.s.frv.

Þannig er A.O.C. Coteaux du Languedoc svæði innan Languedoc héraðsins. Pic Saint Loup og Montpeyroux eru síðan svæði innan A.O.C. Coteaux du Languedoc en hið fyrra er svokallað sub-zone á meðan hið fyrra er ennþá þrengra þ.e.a.s. svokallað „terroir“ innan sub-zone (í tilfelli Montpeyroux er það terroir innan Terrasses du Larzac sem er sub-zone innan Coteaux du Languedoc).

Ég rakst á þessar fínu vefsíður sem greiða aðeins úr þessari flækju. Önnur er fyrir Languedoc héraðið í  heild sinni en hin er sérstaklega fyrir Coteaux du Languedoc.

Færðu inn athugasemd

Filed under frakkland, fræðsla, languedoc

Bíódýnamísk víngerð

Þótt bíódýnamísk víngerð sé það nýjasta og heitasta í náttúrulegasta geiranum þá á hugtakið sér í raun mun lengri sögu, lengri en t.d. hugtakið „lífrænt“. Hægt er að fá útskýringar á fyrirbærinu á vefsíðum Wineanorak, Wikipedia og Biodynamics eða í þessari grein úr N.Y. Times.

Færðu inn athugasemd

Filed under bíódínamík, fræðsla, lífrænt, víngerð

Þrjár þrúgur úr þokunni — Nebbiolo

Hvert land hefur sitt Bordeaux eða Búrgúnd. Á Ítalíu eru það Toscana og Piemonte. Í Toscana er Sangiovese konungur en í Piemonte eru þrjár rauðvínsþrúgur sem deila með sér yfirráðum; Nebbiolo, Barbera og Dolcetto.

Nebbiolo heitir í höfuðið á „nebbia“ (ísl. þoka), þokunni sem umlykur vínekrurnar á uppskerutímanum. Þrúgan hefur þykk skinn og gerir tannísk vín. Hún er óumdeilanlega mikilvægasta þrúga Piemonte héraðsins og sú er hefur borið hróður þess víðast. Frægustu Nebbiolovínin eru kennd við tvö þorp, Barolo og Barbaresco. 

Barolo er kröftugra vínið þótt erfitt sé að alhæfa. Það þarf að þroskast í þrjú ár, þar af  24 mánuði í viðartunnum og hafa a.m.k. 13% alkóhól en Barbaresco í tvö ár, þar af 12 mánuði í viðartunnum og hafa a.m.k. 12.5% alkóhól. Um 1100 framleiðendur framleiða um 11 milljónir flaska samanlagt af Barolo og Barbaresco ( rúmlega 2/3 Barolo) af 1750 hekturum vínviðar. Bæði í Barolo og Barbaresco togast nýji og gamli tíminn á.  Einn munurinn er sá að gamaldagsvínin eru þroskuð í stórum slóvenskum eikartunnum en þau af nýja skólanum í frönskum eikartunnum, jafnvel amerískum. Flestir framleiðendur eru staðsettir einhvers staðar þarna og milli en hvort sem þeir eru, framsæknir eða íhaldssamir, er almennt fullyrt að vínin eru betri í dag en áður en jafnframt aðgengilegri. Það sem er einstakt við Barolo og Barbaresco er að þau er almennt nefnd eftir þeim vínekrum sem þau koma frá, þannig getur Barolo vín heitið Barolo Cannubi, Barolo Cannubi Boschis, Barolo Brunate, Barolo Cerequio o.s.frv. eftir því hver vínekran er. Það er ekki algilt þó því sum vínin eru blönduð af ýmsum vínekrum. Vínekrunafngiftin gerir vínunnandanum hins vegar kleyft að staðsetja vínið af mikilli nákvæmni. Hver vínekra hefur sína eiginleika. Barolo og Barbaresco eru þau rauðvín Ítalíu sem geta borið lengstan aldur. Þau eru ilmrík og minna m.a. á trufflur eða aðra villta sveppi, rósir, tjöru og lakkrís. Þau dekkstu hafa oft svarbláan lit en annars eru Barolo vín fremur ljós, dálítið eins og Búrgúndarvín, og verða fljótt rauðbrún. Það er mikilvægt að mínu mati að þessi vín fái aldrei of mikla eikarmeðferð (t.d. í nýrri amerískri eik) því hún truflar einstakan ilm þrúgunnar — nóg er til af öðrum eikarboltum. Við flytjum inn þrjú vín úr Nebbiolo þrúgunni, öll frá Luciano Sandrone. Barolo Cannubi Boschis kemur frá Cannubi Boschis vínekrunni og er eitt eftirsóttasta og virtasta Barolo sem til er. Barolo Le Vigne er blanda af ólíkum vínekrum. Nebbiolo d’Alba er kennt við bæinn Alba og ólíkt þeim Barolo og Barbaresco heitir jafnframt í höfuðið á sjálfri þrúgunni. Innan skammst flytjum við svo inn annan framleiðanda af svæðinu, La Spinetta, og hefur sá sérhæft sig í framleiðslu Barbarescovína þótt hann geri líka eitt Barolo.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, þrúgur, fræðsla