Hin hérumbil árlega ÚTSALA

Útsalan er hafin.

Eins og venjulega er hægt að panta útsöluvínin hér á síðunni okkar og fá síðan send í Vínbúð að eigin vali.

Lágmark 12 flöskur, bland í poka.

utsala

Ein athugasemd

Filed under útsala

Melónur og fleira frá Sikiley

valdibella_baendurBlóðappelsínurnar sem við fluttum inn frá Sikiley í vetur slóu í gegn í Frú Laugu. Margir töluðu um bestu appelsínur sem þeir höfðu smakkað og flestir voru ánægðir að sjá loksins aftur blóðappelsínur á landinu.

Við vorum afskaplega ánægð með þau viðskipti og ekki spillti fyrir að uppruninn er þessi fallega vina-eyja okkar í suðrinu sem á það skylt við Íslandið góða að spúa eldi og ösku öðru hvoru yfir fólk og sveitir.

Blóðappelsínurnar verða hér aftur í kringum jólin.

En þessi póstur átti ekki að fjalla um þessar rauðu elskur heldur annan ávöxt og öllu stærri.

Melónur.

Eftir rúma viku kemur bretti af sikileyskum, gulum melónum í Frú Laugu sem við flytjum inn sjálf eins og appelsínurnar. Þær eru lífrænt vottaðar og koma frá samlagi nokkurra bænda í Camporeale u.þ.b. 35 kílómetra frá Palermo. Með í för verður ólífuolía frá bændunum, möndlur og þrjú vín sem fara í Vínbúðirnar 1. október. Allt lífrænt.

Nú verður spennandi að sjá hvort melónurnar standast væntingar og þá geta þær orðið fastur liður á ítalska ávaxtadagatalinu okkar.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, ólífuolía, frú lauga

Besta rósavínið í Vínbúðunum — „líklegast“

gourgonnier_rose_litilMas de Gourgonnier rósavínið er VÍN MÁNAÐARINS í nýjasta Gestgjafanum.

„Líklegast besta rósavínið sem fæst í Vínbúðunum“ stendur þar skrifað.

Því miður munu ekki margir þora að prófa þessa bleiku fegurð.

Rósavín eru einfaldlega bara ekki „inni“ en sú hugmyndafræði byggir á einhverri gamalli þjóðsögu sem er kominn tími á að endurskrifa.

Vertu öðruvísi, drekktu rósavín.

Tja, amk. eina (þessa) til að prófa.

Mas de Gourgonnier rósavín4 1/2 glas VÍN MÁNAÐARINS.
Mas de Gourgonnier er eina vínhúsið frá Provence í Vínbúðum og hefur verið nánast alla tíð. Þetta er þekkt fjölskylduhús í St. Rémy de Provence sem hefur verið með lífrænt síðan 1975 (þannig að jarðvegurinn er með besta móti næringarríku) og framleiðir hefðbundin rauð-, hvít- og rósavín þó í mismunandi AOC. Rósavínið er AOC Baux de Provence eins og rauðvínið og þrúgurnar eru grenache, syrah, cinsault, carignan og mourvédre. Enda er vínið margslungið, með mikinn karakter, ilmandi af litlum, rauðum berjum, fíngert og virkilega aðlaðandi. Þetta er vandað vín, þurrt en ávaxtaríkt, alvöru matarvín sem hentar á sumrin með Miðjarðarhafsréttum en allt árið með austurlenskum mat eða grilluðum fiski og grænmeti. Rósavín er allt of vanmetið hér heima.
Okkar álit. Yndislegt, fágað og vandað matarvín – þar að auki lífrænt. Líklega besta rósavínið sem fæst í Vínbúðunum.
Verð: 2.980 kr.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, Gestgjafinn, mas de gourgonnier

Sandrone á sínum stað

Bloggarinn er nú búinn að vera að flytja inn vín í 8 ár. Hann hefur rekist á margt áhugavert á þeim tíma og hluti af því hefur skilað sér í Vínbúðirnar. Sumt staldrar stutt við og þá tekur eitthvað annað spennandi við. Bloggarinn á jú stundum erfitt með sig þegar hann finnur eitthvað nýtt og spennandi sem hann bara verður að flytja til landsins. Svo er reyndar önnur ástæða fyrir því að hlutir staldra ekki lengi við í Vínbúðunum þótt bloggarinn vildi en stefna hans og ÁTVR fara einhverra hluta vegna ekki alltaf saman í þeim málum.

sandrone_cannubi_boschis_minniEn svo eru vín sem hafa aldrei farið neitt. Vín sem bloggarinn flytur inn aftur og aftur jafnvel þótt sölutölur og markmið Vínbúðanna séu ekkert endilega í takt við þessa konar þrjósku.

Sum vín eiga einfaldlega erindi.

Ekki það að við gætum nokkurn tímann flutt inn vínin hans Luciano Sandrone í miklu magni. Við fáum bara árlegan skammt sem Sandrone fjölskyldan ákveður og við getum aðeins fínstillt hann á hverju ári.

Og …

Hinn árlegi skammtur Sandrone var að detta inn. Hann er svipaður og í fyrra, 300 flöskur sem skiptast í 30 fl. Barolo Cannubi Boschis 2006, 30 fl. Barolo Le Vigne 2006, 120 fl. Barbera d’Alba 2008 og 120 fl. Dolcetto d’Alba 2009.

Af þessum vínum fást aðeins Dolcetto og Barbera í Vínbúðunum (Heiðrúnu, Kringlunni og Skútuvogi + Dolcetto líka í Borgartúni). Barolo vínin fást þar ekki og reyndar hefur Cannubi Boschis aldrei fengist í Vínbúðunum heldur aðeins með sérpöntun eins og nú.

Hvað er það sem veldur þessari þrjósku bloggarans að halda áfram að flytja inn vínin þrátt fyrir brösótt gengi í Vínbúðunum?

Það fer ekki framhjá neinum sem rétt svo rekur nefið inn í dyragættina á vínheimi Piemonte héraðsins og hinna rómuðu Barolo-vína að Luciano Sandrone er einn sá allra hæst skrifaði. Mígrútur af víndómum liggja því til staðfestingar, eiginlega eru þeir orðnir svo fastur liður að bloggarinn nennir varla lengur að minnast á þá á hverju ári.

En þeir eru ekki sjálfsagður hlutur.

sandrone_barolo_le_vigne_minniLuciano Sandrone, bróðirinn Luca og dóttirin Barbara vinna hörðum höndum að því að búa til vín sem skara fram úr. Ekki bara fyrir stærð og kraft þótt þetta séu engir ræflar heldur vegna hinnar sérstöku fágunar og fegurðar sem einkennir stíl hússins, ár eftir ár.

Bloggarinn getur því ekki hætt að flytja þau inn.

En svona aðeins til að leyfa erlendu vínpressunni að botna þennan póst — hér eru nýjustu víndómarnir:

Barolo Cannubi Boschis 2006
Wine Advocate 97 stig „seductive, round and sweet“
aðrir dómar

Barolo Le Vigne 2006
Wine Advocate 96 stig „balance is impeccable“
aðrir dómar

Barbera d’Alba 2008
Wine Advocate 90 stig „beautifully pointed, focused wine“
aðrir dómar

Dolcetto d’Alba 2009
Wine Advocate 88 stig „powerful, structured wine“
aðrir dómar

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, luciano sandrone

Íslenska geitin leitar eftir stuðningi — Stofnfundur um Geitafjársetur Íslands á Háafelli

Í vetur fengum við fyrstu sendingu frá Jóhönnu á Háafelli, geitaís.Vonandi er það upphafið af frekara samstarfi því Frú lauga vill gjarnan bjóða upp á geitakjöt ofl. geitaafurðir frá Háafelli í framtíðinni.

Nú stendur til að blása til sóknar og stofna Geitafjársetur á Háafelli til að styðja við Jóhönnu og geiturnar hennar.

Fundurinn er á morgun, 19. apríl, kl. 17.30 í Friðarhúsinu á Njálsgötu 87.

Okkur barst þessi texti frá stuðningsaðila og birtum hann hér með leyfi:

„… Hið íslenska geitfjársetur. Það á að vera staðsett að Háafelli í Hvítársíðu og mun starfsemi þess einkum varða varðveislu og fjölbreyttni íslenska geitastofnsins. Hugmyndir eru uppi um að gera Háafell að búi þar sem fólk geti komið og skoðað íslensku geitina í mikilli nálægð sem og að koma þar fyrir aðstöðu til framleiðslu afurða. Þessi hugmynd hefur nú þegar fengið stuðning frá samtökunum Beint frá býli og munu þau samtök taka þátt í stofnun félagsins.

Í dag stendur vá fyrir dyrum þessa bús og ekki er langt í að Jóhanna missi það ef ekkert verður að gert. Áhugaleysi stjórnvalda í gegnum tíðina hefur gert það að verkum að samkeppni við aðrar afurðir sem njóta niðurgreiðslu eru nánast ómögulegar og því er illa fyrir stofninum komið.

Starfsemi félagsins mun ganga út á að ráðast í endurbætur á húsakostum og reisa við búið ferðamannaaðstöðu með eldhúsi til þess að möguleiki sé á því að það standi undir sér fjárhagslega og í leið að tryggja viðhald geitastofnsins til framtíðar.

Í dag eru um 600 geitur eftir á Íslandi og eru í kringum 150 staddar á Háafelli, þar af eru um 20 kollóttar en Jóhanna tók það upp á sitt einsdæmi fyrir nokkrum árum að bjarga þeirri grein stofnsins. Voru fjórar kollóttar geitur eftir þá. Jóhanna hefur einnig passað vel upp á ræktun stofnsins og notast hún við þónokkra hafra við sæðingu.

Aðferðir við fjáröflun og fleira: Geitfjársetur mun beita sér fyrir geitfjárrækt á nokkra vegu. Ein leiðin er þrýstingur á stjórnvöld, önnur er söfnun fjárs frá almenningi og fyrirtækjum og sú þriðja er rekstur geitfjárseturs.“

Allir áhugasamir geta tekið þátt.

Færðu inn athugasemd

Filed under vín

Eplin frá Ekkidal

biomela_dalurVið höfum tvisvar sinnum ekið í gegnum Trentino hérað á N-Ítalíu, bæði skiptin í vínerindum. Héraðið dregur svip sinn af Ölpunum sem standa eins og varðturnar sitt hvoru megin við langan og breiðan dal með litlum útskotum og hjáreinum hér og þar. Þessi hluti Alpanna er sérstaklega fallegur og áhrifamikill með sína karaktermiklu Dólómíta í aðalhlutverki.

Það er okkur minnistætt þegar við ókum þarna í gegn hversu áberandi eplarunnarnir voru. Ekki furða því Trentino er hjarta eplaræktunar á ítalíu með alls 10.000 hektara.

Af þessum 10.000 hekturum á Bonetti fjölskyldan 10. M.ö.o. litlir bændur á eplaskalanum.

Anna Bonetti og fjölskylda ræktar eplin sín í þeim hluta sem kallast Val di Non („Ekki-dal“). Fyrir 25 árum hóf fjölskyldan samstarf við hina rómuðu San Michele landbúnaðarstofnun með það fyrir augum efla sjálfbærni akranna með nýtingu skordýra m.a. sem endaði á því að framleiðslan varð að öllu leyti lífræn og hefur svo verið í meira en 20 ár.

foradori_dalurÞað er skemmtileg tilviljun að Anna Bonetti og fjölskylda búa steinsnar frá annarri sterkri Alpakonu sem við þekkjum vel og reyndar heimsóttum. Sú heitir Elisabetta Foradori og höfum við flutt inn vínin hennar í mörg og stóð til, og stendur enn, að endurnýja sambandið við Elisabettu á þessu ári. Foradori vínin eru einmitt lífræn eins og eplin frá Bonetti svo það helst vel í hendur að tengjast þessum tveimur mögnuðu bændum og nágrönnum.

Eplin eru komin í Frú Laugu og eftir að vera búin að smakka okkur í gegnum þau erum við bjartsýn á að þeim verði eins vel tekið og hinum ljúffengu blóðappelsínum frá Sikiley. Þá munum við taka upp þráðinn næsta haust og flytja inn ný epli frá Trentino í nóvember með sikileyskum blóðappelsínum í kjölfarið í desember.

Eplin og appelsínurnar eru í „season“ út vorið en þó með þeim hætti að appelsínurnar eru týndar jafn óðum og þær eru sendar til okkar á meðan eplin eru týnd að hausti en geymd við sérstakar aðstæður sem halda þeim góðum í fleiri mánuði.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, ítalía, frú lauga

Lífrænum uppfærslum lokið

Bloggarinn var að ljúka við að texta einn nýjasta framleiðandann, hinn franska Michel Guignier, og rauðvínin hans tvö Morgon Biovitis og Brouilly Les Amethystes.

guignier_morgon_midi

Færðu inn athugasemd

Filed under Michel Guignier

Frú Lauga fær nýja vefsíðu

Þeir sem hafa skoðað www.frulauga.is hafa eflaust rekið sig á ákveðið hreyfingarleysi frúarinnar þegar kemur að endurnýjun efnis á vefinn.

Nú stendur það allt til bóta.

Í smíðum er ný og betrumbætt síða þar sem upplýsingar um bændur og aðra góða framleiðendur verður í fyrirrúmi ásamt ljósmyndum. Bloggþátturinn verður sömuleiðis dreginn inn á síðuna sjálfa og á endanum verður www.vinogmatur.is settur í sama módel (og sérstök bloggsíða www.vinogmatur.wordpress.com hættir að vera til svona danglandi þarna út af fyrir sig). Ein stór fjölskylda, allir vinir.

Við erum með góða hugmyndahjálpara í þessari vinnu. Við gerum ekki ALLT sjálf. Ekki allt (kaupmaðurinn skúrar reyndar og þrífur Frú Laugu daglega svo hún verði hrein og ánægð með sig).

takkVinur okkar Valgeir Valdimarsson hjálpar okkur í hugmyndavinnu og útfærslum. Hann býr í París sem stendur og er sannkallaður kosmópólitan sem drekkur martini og reykir vindla. Valgeir rekur www.takktakk.is en fyrirtækið fékk nýlega (2011) verðlaun samtaka vefiðnaðarins fyrir herferðina www.icelandwantstobeyourfriend.com.

Annar vinur okkar kemur síðan að nánari fíníseringum í útliti og hugmyndavinnu. Sá heitir Einar og er nágranni okkar (m.ö.o. hann býr ekki París). Einar hannaði m.a. lógó Frú Laugu og á heiðurinn að því að setja „frúnna“ fyrir fram „Laugu“ þegar Frú lauga var bara Lauga á fyrstu hugmyndastigum. Hann er nýbúinn að stofna eigið fyrirtæki www.eogco.is sem er svo nýtt að það er ekki búið að vinna nein verðlaun ennþá.

Frú Lauga er í góðum höndum og býður spennt eftir endurkomunni á skjáinn.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga

Salatdressing Rakelar

klettasalatFrú Lauga skrapp í viðtal til Sillu á Rúv Rás 1 þar sem salatdressing Rakelar kom m.a. til tals.

Hér má hlusta á þáttinn hennar Sillu og viðtalið

Salat er borðað á þessum heimili á næstum hverjum degi. Við notum salatblönduna góðu frá Hveratúni um vetur en þegar hlýnar notum við salat frá Engi eða útiræktað salat frá Vallanesi og fleiri góðum aðilum. Við ræktum líka oftast klettasalat í garðinum eða úti á svölum.

Það er því gott að gera smávegis dressingu sem lyftir salatinu á hærra plan frekar en stela senunni.

6-8 msk góð kaldpressuð jómfrúar ólífuolía
1 msk gott balsamik edik
Kreistur hvítlaukur – 2 góð rif (eða eftir smekk)
1 væn tsk. gott hunang
svartur pipar úr kvörn eftir smekk
sjávarsalt eftir smekk

Hrært saman með skeið og gaffli (gaffallinn situr ofan í skeiðinni meðan hrært er) þar til sósan verður þykk og jöfn.

Uppskriftin að ofan er sérlega góð en einnig er hægt er að skipta út balsamic ediki fyrir vínedik eða sítrónu, hvítlauknum fyrir sinnep, hunanginu fyrir hlynssýróp eða agavesýróp og svarta piparnum fyrir hvítan,rósapipar eða blandaðan pipar. Einnig má skipta út sjávarsaltinu fyrr Himalaya salt sem er einnig mjög gott og heilnæmt. Og nú er hægt að nota íslenskt reykjanessalt frá Kryddveislunni.

Það er varla til sá réttur þar sem er ekki viðeigandi að hrista fram ferskt og gott salat.

2 athugasemdir

Filed under frú lauga, uppskrift, viðtal

2011 — Ár blóðappelsínunnar

blodappelsinaBloggarinn á tvær minningar um blóðappelsínur, báðar mjög góðar.

Hann man þegar hann var drengur og keyptar voru appelsínur á heimilið að öðru hvoru reyndust þær vera blóðappelsínur. Þetta var eins og að vinna í happdrætti því ekki aðeins virkuðu þessar framandi og blóðugu appelsínur spennandi heldur voru þær líka alltaf góðar.

Eða svo segir minningin. Hún lýgur ekki.

Styttra er síðan við upplifðum blóðappelsínur á Ítalíu. Þá birtust þær um miðjan vetur þar sem þær flæddu norðureftir landinu og fylltu búðir og bari sem pressuðu safa eins og óðir væru um hávetur. Við hömstruðum appelsínur á þessum tíma.

Það hefur því lengi blundað í okkur að flytja inn sikileyskar blóðappelsínur (tarocco og fleiri sortir) og núna þegar Frú Lauga er fædd höfum við stað til að bjóða þær til sölu. Tímabil blóðappelsínunnar á Sikiley er frá desember til apríl og stóð til að bjóða þær til sölu fyrir jól en tíminn rann frá okkur

En.

Pöntun er farin í loftið og ef allt gengur eftir mætir eitt bretti sikileyskar blóðappelsínur í Frú Laugu 27. janúar á því herrans ári 2011 —  ári blóðappelsínunnar.

Færðu inn athugasemd

Filed under ávextir, frú lauga

Góð kaup, mjög góð kaup, frábær kaup og eitt hrikalega flott á Vínótekinu

ca_rugate_rio_albo_minniSteingrímur Sigurgeirsson hefur farið hamförum á vefsíðu sinni Vínótek frá því hún opnaði og skrifað hvern pistilinn á fætur öðrum: víndóma, girnilegar uppskriftir og ýmsan góðan fróðleik.

Bloggarinn laumaði til hans blandi í poka af nýjustu vínunum í haust og fyrstu dómarnir hafa fallið.

Þetta eru fjögur vín frá tveimur framleiðendum, ítalska Ca Rugate og franska Domaine Combe Blanche og þótt við séum ekki alveg alltaf sammála er eins og Steingrímur hafi lesið hugsanir okkar hvað karakter þessara fjögurra vína varðar.

San Michele Soave 2009 frá Ca Rugate fær 4 stjörnur af fimm mögulegum (lesa allan dóminn) og fína lýsingu eins og „virkilega gott matarvín“ og „mjög góð kaup“.

Rauðvínin tvö frá Ca Rugate fá enn betri dóma því bæði slaga í 4 og 1/2 stjörnur af fimm. Valpolicella Ripasso 2008 kallar Steingrímur „hrikalega flott“ (lesa allan dóminn) og Rio Alba Valpolicella 2009 kallar hann hreinlega „frábær kaup“ (lesa allan dóminn).

Calamiac Terroir Roussanne Viognier 2007 frá Combe Blanche fær síðan 4 stjörnur (lesa allan dóminn) með ummælum eins og „karaktermikið og heillandi“.

Allt voða jákvætt og skemmtilegt.

Fleiri dómar frá Steingrími verða birtir hér á blogginu þegar þeir koma í hús.

3 athugasemdir

Filed under ítalía, ca rugate, combe blanche, frakkland

Betrumbætt Belja komin í Vínbúðirnar (er það virkilega hægt?)

beljan_hvit_minniBetrumbætt Belja er komin í Vínbúðirnar.

Sú hvíta var farin að þreskjast heldur mikið svo okkur var hætt að lítast á blikuna. Við lýstum þessu vandamáli við framleiðandann og pöntuðum nýja áfyllingu sem er að skila sér í Vínbúðirnar þessa dagana.

Árgangur er sá sami (2008) en betra og ferskara hvítvíni hefur verið bætt á spenana í heimahögum Beljunnar í eikarlundinum í Toskana.

Hún er öll orðin huggulegri.

Rauða er hins vegar óbreytt enda hefur hún bara batnað frá átöppun fyrir rúmu ári síðan. 2008 árgangur er reyndar alveg að klárast og öðru hvoru megin við áramótin mun 2009 taka við.

Færðu inn athugasemd

Filed under beljan, castello di querceto

Bragðlaukahátíð í Tórínó

beljan_mjolkBloggarinn og frú héldu til Tórínó á haustdögum til þess að heimsækja Salone del Gusto, hina miklu bragðlaukahátíð sem haldin er á vegum Slow Food samtakanna á hverju ári.

Skoðaðu myndirnar

Sýningin virkar í stuttu máli þannig að matvælaframleiðendur víðs vegar úr heiminum, aðallega Ítaliu þó, byggja sér bás á sýningarsvæðinu í 5 daga og bjóða vörur sína til kynningar og sölu. Þetta er því raunverulegur markaður þar sem sýningargestir geta gert matarinnkaupin auk þess að fræðast heilmikið.

Varan er öll það sem mætti kalla „slow food“, þeas. vönduð í víðum skilningi þess orðs.

Í fyrsta skipti var íslenskur framleiðandi með bás á sýningunni, Móðir Jörð í Vallanesi, auk þess sem hið virka samfélag Í ríki Vatnajökuls kynnti vörur undan jöklinum, brennivín og vestfirskan harðfisk á básnum við hliðina á Móðir Jörð. Básinn hjá Móðir Jörð var vel heppnaður og varan rauk út. Vonandi verður framhald hér á.

Mikil mannmergð var á sýningarsvæðinu svo þetta er ekki beint kósý markaður en gagnlegur til að skoða, fræðast og fá hugmyndir. Sérstaklega var erfitt að keyra barnakerru um svæðið en bloggarahjónin höfðu tekið yngsta krílið með í ferðina, sem fékk þó ekkert annað en móðurmjólkina og barnamat.

Stór þáttur sýningarinnar eru samkomur af ýmsu tagi og smakkaði bloggarinn sig í gegnum tvö mjög svo náttúrulega námskeið („Natural Wine“ og „Wine Additives“). Terra Madre samfélagið var auk þess með ýmsa fundi þar sem m.a. var rætt um stöðu matarmenningar á Norðurlöndum og margt fleira.

Íslenskir Slow Food-ingar áttu sinn hlut í samkomuhaldinu og héldu námskeið sem fjallaði um ýmis konar íslenskan mat og stórmathákarnir Óli og Gunnar á DILL héldu matarsýningu sem sló í gegn. Bravó!

Bloggarahjónin versluðu ekki ýkja mikið á sýningarsvæðinu enda svo margt í boði að maður vissi vart hvar ætti að byrja en versluðu aðeins meira afturámóti hjá góðum nágranna sýningarsvæðisins, EATALY, sem er risastór og dásamleg Slow Food matarbúð. Bloggarinn misskildi þetta reyndar aðeins í byrjun og hélt að nafnið væri EATALL en var stöðvaður rétt svo í tíma af frúnni. Alls voru gerðar fjórar innkaupaferðir í þennan draumaheim sem hlýtur að teljast Disneyland Slow Food smjattpatta og ýmislegt ítalskt góðgæti verslað til nánari glöggvunar — ó já, auk þriggja bretta af pasta sem koma til landsins 6. desember næstkomandi!

Gúlp!

Eitt var sérstaklega áhugavert í Eataly sem verður að benda á en það var BELJAN en sú var ekki þriggja lítra rauðvínskútur eins og Beljan okkar heldur þúsund lítra mjólkurtankur af ófitusprengdri og ógerilsneiddri mjólk (sjá mynd). Muuuuuu….!!! Síðan var bara skrifað „ath – best að sjóða fyrir notkun“ og fólki leyft að bera ábyrgð á lífi sínu sjálft.

Við gátum aðeins skoðað Tórínó og fær hún 3 stjörnur af 5 mögulegum. Miðborgin er flott, svolítið grand og Parísarleg með flottum klassískum arkítektúr víða, en þetta er mikil bílaborg því fyrir utan miðbæinn eru breiðar götur og bílar, bílar, bílar, með tilheyrandi mengun og skítugheitum. Þarna er líka eitthvað skrítið og yfirgefið Ólympíuþorp og það er eins og borgin geti ekki ákveðið sig hvort hún ætli að vera gamaldags sporvagnaborg eða nútíma neðanjarðarlestarborg. Nóg um það, vel var snætt og borgin nýtur þess að vera í hjarta víngerðarsvæðanna Barolo, Barbaresco, Barbera o.sfrv. og dramatískt Alpalandslagið er nú ekki slappur bakgrunnur fyrir stórborg.

Færðu inn athugasemd

Filed under ítalía, ferðalög, myndir

Wine Spectator Top 100 2010 — Flaccianello trompast aftur

ws100Bandaríska víntímaritið Wine Spectator var að gefa út hinn árlega TOP 100 lista yfir vín ársins 2010.

Listinn er ekki skipaður 100 einkunnahæstu eða „bestu“ vínum ársins heldur eru þáttaðir inn hlutir eins og verð og aðgengi víns.

M.ö.o. listi yfir framúrskarandi vín að mati blaðsins, hvernig sem á það er litið.

Í fyrra var eitt af okkar vínum í svokölluðum Top 10 hluta listans, Flaccianello 2006 frá Fontodi. Þær 120 flöskur sem við fengum af þessu víni voru fljótar að fara en eingöngu var hægt að kaupa það með sérpöntun í gegnum ÁTVR (þeas. vínið fékkst ekki í hillum Vínbúðanna).

Nú hefur hið merkilega gerst að 2007 árgangur af Flaccianello nær líka inn á listann í ár en ekki hefur það gerst oft að sama vínið geri það tvö ár í röð. Reyndar er þetta í þriðja sinn sem Flaccianello kemst á Top 10 listan tímaritsins síðasta áratug sem er einstakt. 2007 árgangur kemur hingað til lands á næsta ári.

Til hamingju Giovanni Manetti og fjölskylda!

Við eigum reyndar fleiri vín á Top 100 listanum eða framleiðendur sem við flytjum inn eða höfum flutt inn. Fyrir utan Flaccianello 2007, sem er í 8. sæti listans, má finna Chateau Flaugergues Cuvee Sommeliere 2007 í 50. sæti, Christian Moreau Chablis Les Clos 2008 í 59. sæti, d’Arenberg The Stump Jump 2008 í 63. sæti, Chateau de Lascaux Languedoc 2008 í 85. sæti, Chateau Saint Cosme Cotes de Rhone 2008 í 88. sæti og Domaine Tempier Bandol Rose 2009 í 99. sæti.

3 athugasemdir

Filed under Chateau du Lascaux, christian moreau, d'arenberg, fontodi, saint cosme, tempier, verðlaun/viðurkenningar, wine spectator

Hin hérumbil árlega haustútsala



lini-lambrusco-scuroÚtsalan er farin aftur af stað.

Svolítill afsláttur af tíu góðum vínum (þar af eitt grappa) sem væri ekki svo galið að næla sér í fyrir jólin.

Mikið neðar var ekki komist í verðum því restin fer að mestu til Skattmanns.

Vínin hafa hætt sölu í Vínbúðunum og því aðeins hægt að kaupa þau á útsölunni. Þau eru öll virkilega góð, hvert með sínum hætti.

Fyrirkomulagið er mjög einfalt. Þú velur vínin og magnið og gefur upp tilheyrandi upplýsingar og 5 dögum síðar eða svo sækir þú pöntunina í þá Vínbúð sem þú óskar eftir.

Smelltu hérna til að skoða útsölulistann og panta

Ekki hugsa þig tvisvar um og alls ekki þrisvar, tvö vínanna eru nú þegar næstum uppseld.

Færðu inn athugasemd

Filed under útsala, tilboð, vínbúðirnar

Afmæli í Frú laugu – myndir


Vorum að setja á flickr nokkrar góða myndir af grænmeti, gestum og gangandi úr afmælisveislu Frú Laugu í ágúst.

Frábær dagur, sól, góður matur og gott fólk.

Skyldi hér vera komið einkennislag Frú Laugu?

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, sjónvarp

Tveir hljóta titilinn Winery of the Year

Tveir af okkar vínbændum eru svo heppnir að hafa verið bestaðir af bandarísku vínpressunni Wine and Spirits. Tímaritið veitir 100 framleiðendum titilinn BEST WINERY OF THE YEAR sem þeim hefur þótt skara framúr árið 2010.

Bestunina hljóta Castello di Querceto í Toskana og hinn ástralski d’Arenberg.

Þetta er flott viðurkenning sem þessir góðu vínbændur eiga vel skilið og óskum við þeim innilega til hamingju!

Vel á minnst, Beljan vill koma því að að hún er fædd og uppalin hjá Castello di Querceto (sjá nánar).

Til upprifjunar birtum við í gamni mynd sem átti að prýða utanverðan botn Beljunnar.

beljan_botn

Færðu inn athugasemd

Filed under ástralía, ítalía, castello di querceto, d'arenberg, dómar, vín, wine and spirits

Hugs!

guignier_biovitisBloggarinn er hér enn þrátt fyrir mánaðar bloggbindi.

Hann hefur meira verið að hugsa en skrifa.

Hann er til dæmis ekki ennþá búinn að tilkynna hérna á blogginu þrjú ný vín frá Hubert Sandhofer.

Rauðvínið St. Laurent Eisner, ilmsprengjuna Gelber Muskateller og hugsleiðsluvínið með langa nafnið Trockenbeerenauslese.

Þau fást öll í Vínbúðunum Heiðrúnu, Skútuvogi og Kringlunni.

Verið er að uppfæra upplýsingar um þessi vín á http://www.vinogmatur.is en þangað til má lesa um þau hjá Vínbúðunum.

Bloggarinn er líka að hugsa um framtíðina og eins og alltaf eitthvað að vesenast með óþekkt og illa seljanleg vín.

Það er einhver Frakklandshugur í honum þessa dagana og nú frá svæði sem er landsþekkt en hefur ekki verið sinnt nægjanlega vel í langan tíma. Þegar ÁTVR óskaði síðan eftir lífrænum vínum slógum við tvær flugur í einu höggi því bæði vantaði vini okkar í ÁTVR lífræn vín og BEAUJOLAIS svo við fundum tvö rauðvín frá Beaujolais og annað þeirra lífrænt. Höfundur þeirra beggja er þó hinn sami, Michel Guignier hjá Domaine Les Amethystes – einn þessari nýju frumkvöðla á svæðinu sem upphefja sem náttúrulegastar framleiðsluaðferðir.

Þetta eru svokölluð Villages þorpsvín, annað frá þorpinu Brouilly og hitt frá Morgon. Ekki það sem kallast Beaujolais Nuoveau.

Annað títt er að ÚTSALAN góða verður endurtekin í byrjun nóvember og þar mun kenna ýmissa grasa. Meira um það síðar.

Færðu inn athugasemd

Filed under austurríki, útsala, frakkland, lífrænt, Michel Guignier, sandhofer, vínbúðirnar

Uppskeruhátíð í Frú Laugu — Tónlist, matur og vín

Köllum það afmælisveislu, köllum það uppskeruhátíð, köllum það haustfagnað, póstlistapartí eða þakkagjörðarhátíð.

Það verður gleði í í Frú Laugu næsta fimmtudag.

Tónlist, matur og vín.

Frú Lauga vill umfram allt þakka fyrir góðar og hlýlegar móttökur og alla þá hvatningu sem hún hefur fengið.

TAKK!

Dagskráin hefstu klukkan 16.00 með harmonikkuleik að hætti Gunnars Kvaran en hann ætlar að spila næstu tvo tímana. Dill-uð grænmetissúpa verður í boði vina okkar Óla og Gunnars frá hinum frábæra veitingastað DILL auk þess sem við ætlum að smyrja makríl frá Höfn í Hornafirði á góðu flatkökurnar frá sveitabakaranum á Auðkúlu.

Bændur verða líka í búðinni því Sveina á Sogni ætlar að mæta með nauta-carpaccio og grafið naut til að smakka og í kringum 17.00 mæta Erpsstaðabændur með nýlagaðan rabarbaraís.

Kl. 18.00 ætlar tríóið Kolgeit að leika fyrir utan Frú Laugu. Það er skipað heiðursmönnunum Davíð Þór Jónssyni, Sigtryggi Baldurssyni og Helga Svavari Helgasyni. Gréta og Stína ætla síðan að spila nokkur íslensk dægurlög.

Beljan verður veislustjóri og nú má fylla glösin — muuu!

Af þessu tilefni ætlar Frú Lauga að hafa opið alla leið til 20.00.

Og vorum við búin að segja það?

TAKK!

Færðu inn athugasemd

Filed under fréttir, frú lauga

Aftur til framtíðar — Rauðvínið sem þarf ekki að bíða eftir

Við erum alltaf að heyra leiðbeiningar um að þetta eða hitt rauðvínið eigi eftir að verða svo og svo mikið betra við rétta geymslu í svo og svo mörg ár en fæst höfum við þolinmæli til að bíða og bíða.

Hér er komið rauðvín sem þarf ekki að bíða eftir.

Minervois La Liviniere Clos de Causse 2001

Það er búið að geymast, búið að þroskast og komið á þann stað sem flest góð rauðvín dreymir um að ná en aðeins fáeinum tekst.

Rauðvínið sem okkur hefur verið fært úr fortíðinni hefur verið geymt samviskusamlega af vínframleiðandanum sjálfum en hans markmið meðal annars er að sýna einmitt hversu vel vínin hans af Minervois svæðinu geta geymst því Languedoc héraðið í S-Frakklandi hefur ekki beinlínis verið rómað fyrir geymslugóð vín sökum offramleislu m.a. (þetta hefur verið að breytast mikið síðustu ár). Hann bíður því pollrólegur frekar en að selja lagerinn og fá peninga í kassann strax eins og flestir gera.

Og rukkar hann vexti og verðbætur fyrir öll þessi ár sem hann geymir vínið?

Nei.

Þetta er ódýrt rauðvín miðað við gæði og þá erum ekki einu sinni byrjuð að taka inn í reikninginn renturnar fyrir árin 9 sem það hefur á herðunum.

Svona eiga rauðvín að bragðast eftir rétta geymslu í svo og svo mörg ár.

Svona.

Domaine Combe Blanche — Minervois La Liviniere Clos du Causse 2001 kostar aðeins 2.790 kr. í Vínbúðunum Heiðrúnu, Kringlunnig Skútuvogi.  Þetta er hreinasti þjófnaður og ekki spillir fyrir hvað flaskan er flott.

Nú skulum við þegja og látið vínið tala sínu máli.

Færðu inn athugasemd

Filed under combe blanche, frakkland

Sumarvín með grillmat — Gestgjafinn velur Valpolicella Rio Albo VÍN MÁNAÐARINS

Í síðasta tölublaði Gestgjafans fékk rauðvínið Calamiac Terroir Minervois 2005 frá Domaine Combe Blanche titilinn Vín mánaðarins og það er því ekkert leiðinlegt að annað vín frá okkur skuli hljóta sama heiður í næsta tölublaði strax á eftir.

Það kemur í hlut Ca Rugate Valpolicella Rio Albo 2009 — VÍN MÁNAÐARINS með fjögur glös af fimm í hús.

Þau nefna víninu til ágætis ferskleika og fínleika þess sem rekja má til þess að vínið er aldrei sett á eikartunnur heldur eingöngu í stáltanka en það varðveitir hreinleika ávaxtarins frekar en dylja hann með eikarblæ. Þau nefna líka mikinn og góðan ilm vínsins og getum við tekið undir það því hann rýkur úr glasinu, áleitinn og lokkandi.

Það er eitthvað mjög svo „more-ish“ við þetta vín.

Ca Rugate Valpolicella Rio Albo 2009VÍN MÁNAÐARINS og 4 glös
Í Veneto héraðinu standa tvö vín upp úr: hvítvínið Soave úr garganega og rauðvínið Valpolicella úr corvina, rondinella og molinara. Við smökkuðum síðast Soave frá Ca Rugate og vorum mjög ánægð með það vín. Ca Rugate notar corvinone í staðinn fyrir molinara og geymir vínið á stáltönkum – ávöxturinn verður þá mjög ferskur og vínið fíngerðara. Í nefi er hellingur af kirsuberjum og jarðarberjum, allt mjög hreint og arómatískt, og það sama er í bragði: mjúkt, lítil og fíngerð tannín og yndislegur ávöxtur (sama og ilminum, kirsuber og jarðarber), aðeins vottur af tóbaki og nokkuð langt eftirbragð, einstakleg gott jafnvægi. Sumarvín með grillmat, sérstaklega kjúklingi, en allt árið með góðum pastaréttum og risotto – eða með ostabakkanum.
Okkar álit: Drekka aðeins kælt (gjörbreytir víninu til hins betra) og þá er það alveg frábært. Ljúffengt vín við flest tækifæri. Verð: 2.597 kr.

Domaine Combe Blanche Calamiac Terroir 2007 — 4 glös
Við völdum Combe Blanche-rauðvínið frá Minervois Vín mánaðarins síðast því það vín var svo dæmigert fyrir þetta skemmtilega hérað og vorum spennt fyrir hvítvíninu. Það er ekki undir Minervois AOC vegna þess að þrúgurnar sem eru notaðar í blönduninni eru óhefðbundnar: roussanne og viognier. En mikið er árangurinn flottur; vín með góða fyllingu, ríkt í nefi með mikið af gulum ávöxtum (ferskjum, apríkósum og melónum) sem tengjast báðum þrúgunum. Í munni er það nokkuð þétt og krafturinn í roussanne sameinast vel við léttleikann og fágun viognier. Þetta er virkilega fágað og afar skemmtilegt vín sem kallar á bragðmikinn fisk, skelfisk eða góðan sveitakjúkling.
Okkar álit: Afar ánægjulegt að fá Vin de Pays í þessum gæðaflokki, mikið vín og fágað. Verð 2.390 kr.

– Gestgjafinn 10. tbl. 2010

Ein athugasemd

Filed under ca rugate, combe blanche, dómar, Gestgjafinn

Sveitin í glasinu — Gestgjafinn velur Minervois frá Domaine Combe Blanche VÍN MÁNAÐARINS

Okkur finnst það alltaf kostur að finna svolítið fyrir sveitinni í glasinu.

Þá finnur maður betur fyrir landinu og svæðinu, sveitinni, náttúrulegum uppruna vínsins frekar en það sé hannað í verksmiðju.

Vissulega er þetta ekki skilyrði fyrir góðu víni en okkur finnst það kostur þegar sveitin gægist uppúr glasinu. Stundum kallar maður þetta „jörð“, „leður“, „steinefni“, „lággróður“, „terroir“ jafnvel „fjós“ og ákveðnar tengingar í krydd eins og lavender, tímjan eða rósmarín geta kallað fram þessa tilfinningu. Vínið ber uppruna sínum einkenni, er dæmigert fyrir svæðið í jákvæðum skilningi. Jörð, vindar, og gróður sveitarinnar hefur áhrif á karakter vínsins.

Okkur finnst það þess vegna góð meðmæli þegar Gestgjafinn segir um Minervois „Calamiac Terroir“ 2005 frá Domaine Combe Blanche að það sé „öll Minervois-sveitin í glasinu“.

Vínið er kosið VÍN MÁNAÐARINS og hlýtur 4 glös.

Tvö önnur vín frá okkur fá góða umfjöllun í blaðinu en það eru Chablis frá Christian Moreau sem fær 4 1/2 glas og Soave frá Ca Rugate sem fær 4 glös.

Domaine Combe Blanche Minervois 2005 – 4 glös VÍN MÁNAÐARINS
Loksins vín frá Minervois (héraðinu í vesturhluta Languedoc, við miðaldabæinn Carcassonne!). Þessi vín, ásamt þeim frá Faugéres og Corbiéres, hafa ætíð verið mjög vinsæl á Norurlöndum en sjaldan náð til okkar af einhverjum dularfullum ástæðum. Þrúgurnar sem eru notaðar þar eru dæmigerðar Miðjarðarhafsþrúgur: carignan og cinsault (70%), grenache og syrah (30%) og vínið hefur mikinn karakter. Það fyrsta sem gýs upp úr glasinu er margslunginn ilmur af kryddi pipar, negull, kanill, dökkur ávöxtur og rauður þar sem þroskuð kirsuber eru mest áberandi, fjólur, kryddjurtir og loks mokkakaffi. Í munni er vínið ekki eins höfugt og mætti halda, það er ferskt, mjúkt með litlum, þurrum tannínum og ávöxturinn og kryddið er eins og ilmurinn lofaði, eftirbragðið er langt þar sem kaffi kemur vel fram. Fágað matarvín í mjög góðu jafnvægi, prófið með lambafillet, nautalundum  eða T-bone í kryddjurtum eða ratatouille.
Okkar álit: Öll Minervois-sveitin í glasinu, karakterríkt vín og elegant, gómsætt.
Verð: 2.390 kr.

Chablis Christian Moreau 2008 – 4 1/2 glas
Christian Moreau er einn af „púristum“ í Chablis, framleiðir lítið magn af mjög terroir-kenndum vínum sem koma aldrei nálægt eikartunnu en við höfum áður smakkað Premier Cru og Grand Cru frá honum hér, mikil vín sem eru ímynd Chablis og kosta sitt fyrir vikið. Hér er venjulegt Chablis en allt sem var sagt hér á undan gildir um það vín líka. Þetta er eins dæmigert Chablis og hugsast getur: ferskt, þétt og nokkuð öflugt, með sítrónur og steinefni, epli og perubrjóstsykur, blómaangan, fíngert og fágað. Í munni heldur þetta áfram á sömu nótum, einstaklega hrein nálgun, steinefni og sýran sem beinagrind og þéttur og ferskur ávöxtur (sama og í nefinu) sem klæði, afar langt eftirbragð þar sem allt er í jafnvægi. Hreint út sagt frábært vín sem á heima í bestu fisk og skelfiskveislum.
Okkar álit. Mjög flott Chablis, einstaklega fágað og öflugt, með því besta sem við höfum smakkað.
Verð: 3.480 kr.

Ca Rugate Soave Classico San Michele 2009 – 4 glös
Ca Rugate er annar tveggja framleiðanda frá Veneto sem er nýr í vínbúðunum og hann hefur verið þekktur í sínu heimalandi fyrir Soave-vínin sín sem hafa átt stóran þátt í að betrumbæta ímynd Soave sem var lengi vel ekki glæsileg. En glæsilegt er þetta Soave Classico, með margslungna angan af hvítum og gulum blómum, hvítum fíngerðum ferskjum og nektarínum, og nógu af hunangi. Í munni er það álíka ferskt og bragðmikið, þar sem þessir hvítu ávextir með hunangskeim halda sér alla leið til enda. Þetta er matarvín frekar en söturvín og það verðskuldar þroskaða en milda, harða osta, ljóst kjöt og pastarétti með sjávarfangi.
Okkar álit: Létt en nokkuð öflugt, arómatískt og margslungið, karakterríkt og flott Soave.
Verð: 2.597 kr.

– Gestgjafinn 9. tbl. 2010

Ein athugasemd

Filed under ca rugate, christian moreau, combe blanche, dómar

Uppskrift: Græn leynisósa á grillsneiðarnar frá Miðey

Hvernig viltu steikina þína?

Á ferðalagi í Parísarborg árið 1996 fórum við á veitingastaðinn Entrecote sem bauð eingöngu upp á „entrecote“ steikur og eina sem maður þurfti að velta fyrir sér var hversu lengi átti að steikja hana. Með steikinni voru bornar franskar (og þessar voru ekta „franskar“) og grænleit sósa sem gerði útslagið.

Við rákum nefið í þessa gómsætu leynisósu staðarins og reyndum að greina hráefnið. Þegar heim var komið elduðum við samskonar sósu eins og best við gátum og vorum bara ansi hreint sátt við útkomuna. Hún var ekki svo ósvipuð leynisósunni.

Grillsteikurnar frá Miðey eru mjög líkar þunnum grillsteikum Entrecote staðarins svo það var viðeigandi að prófa þær með leynisósunni og rifja upp í leiðinni uppskriftina.

Hún er einhvern veginn svona:

Við notuðum einn poka af basiliku frá Heiðmörk (250 kr. í Frú Laugu) og settum í matvinnsluvél ásamt hálfum desilíter af ólífuolíu, einu hvítlauksrifi (má sleppa), handfylli af cashew hnetum (geta verið furuhnetur) og 5 matskeiðum af parmeggiano osti (eða grana padano). Maukað í vélinni og sett í pott þar sem sósan er hituð og út í hana settar tvær teskeiðar gæðasinnep, salt og svona 1/2 til heill desilíter af vatni.  Auðveld og afskaplega góð grænsósa sem í raun er byggð á því sem við köllum pestó.

Steikurnar voru settar á heitt grill og grillaðar í eina mínútu á hvorri hlið (max) því þær eru svo þunnar. Þær voru ferlega góðar og sósan smellpassaði með.

Rauðvínið var Clos de Causse Minervois frá Domaine Combe Blanche.

Færðu inn athugasemd

Filed under uppskrift

Flaccianello 2006 er komið til landsins!

Eitt rómaðasta vín 2006 árgangs frá Toskana er án efa Flaccianello 2006 frá Fontodi víngerðinni.

Það hlýtur 99 stig í Wine Spectator og 8# sæti á TOP 100 listanum góða sem tímaritið gefur út.

Robert Parker gefur því 96 stig.

Aðrir dómar eru eftir því.

Það er því óhætt að segja að þetta hreinræktaða Sangiovese rauðvín sé svolítið merkilegt með sig þessa dagana. Fyrir okkur er það holdgervingur Toskana þar sem frábær víngerð og fegurð sveitarinnar sameinast í einhverju einstöku.

Giovanni Manetti, eigandi Fontodi víngerðarinnar, var svo elskulegur að leyfa okkur að fá rausnarlegan skammt af víninu þrátt fyrir hina miklu eftirspurn og þá staðreynd að það er uppselt víða um heim.

Vínið kom til landsins í síðustu viku og við eigum nóg til ennþá. Verð 8.900 kr.

Áhugasamir sendi okkur vinsamlegast póst á vinogmatur@vinogmatur.is til að kanna stöðuna áður en það er sérpantað hjá ÁTVR.

Færðu inn athugasemd

Filed under dómar, fontodi, robert parker, wine spectator

Mitt á milli Soave og Valpolicella — Nýr framleiðandi í Vínbúðunum

Vínin frá Ca Rugate eru mætt í hillur Vínbúðanna.

Fjögur vín frá hinu þekkta Soave hvítvínssvæði og enn þekktara Valpolicella rauðvínssvæði í hjarta Veneto héraðsins.

Rauðvínin Valpolicella Rio Albo 2008 (2.597 kr.) og Ripasso Valpolicella 2007 (3.998 kr.) og hvítvínin Soave San Michele 2008 (2.597 kr.) og Bucciato 2008 (2.790 kr.).

Megi þau lengi lifa!

Einnig fæst ljómandi góð OLIO EXTRA VERGINE ólífuolía frá framleiðandanum í Frú Laugu (2.980 kr./500ml). Hún er í mjög flottum pakka og fylgir með hverri flösku olíustútur sem hægt er að geyma og nota áfram.

Ca Rugate er einn af þessum framleiðendum sem hafa verið á kortinu okkar í einhver ár (tja, þau eru amk. orðin tvö) og er því ánægjulegt að þetta sé orðið að veruleika.

Það er eitthvað heillandi og einlægt við þessi vín (þú skilur) sem gerir þau þess virði.

Færðu inn athugasemd

Filed under vínbúðirnar

Langamýri — Rabbarbarabarónar Íslands

Það var á sólríkum sunnudagsmorgni sem við renndum í hlað hjá Kjartani og Dorothee á Löngumýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Hér er ekki látinn duga hefðbundinn búskapur, þótt góður sé, heldur stigið skrefinu lengra í vöruþórun og framleiðslu. Það hófst fyrir nokkrum árum í góðu samstarfi með hönnunardeild Listaháskóla Íslands og afurðin var Rabarbía, gómsæt karmella úr Löngumýrar-rabbarbara í frumlegum og fallegum umbúðum.

Karmellan hefur fengist í Frú Laugu frá því við opnuðum dyrnar ásamt sultum og fíflasýrópi en Kjartan og Dorothee hafa líka sent okkur gærur, lambakjöt og sauðakjöt, landnámshænuegg og ristaðar möndlur fyrir jólin. Að ógleymdum rabbarbaranum sjálfum sem hefur komið til okkar bæði ferskur og frosinn. Lífrænn búskapur.

Heimsóknin þennan sunnudag var afar skemmtileg. Lamb fæddist í beinni, fjárhús voru rannsökuð, landnámshænur hvattar til að halda áfram að verpa fyrir Frú Laugu, klappað á kettlingum, gengið út í haga og borðuð kjötsúpa og rabbarbarapæ. Hér hljóta allar máltíðar að enda á rabbarbarapæ.

Ný sending af ferskum rabbarbara er væntanleg upp úr miðjum júní.

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, vín

Hollar og mikilvægar ólífur í Frú Laugu

Ólífur eru mikilvægar.

Að horfa á þennan litla, bitra ávöxt er eins og hafa sögu mannkyns í hendi sér.

Egyptar, Grikkir, Rómverjar; Hómer, Biblían, Kóraninn; Aþena, Múhammeð, Tutankhamen; viður, lauf, ávöxtur, olía – fáar plöntur eiga eins langa og jákvæða sögu sem lækningarmáttur, næring eða boðberi dýrðar, visku og friðar.

Ólífur eru líka hollar.

Þær eru sjaldnast borðaðar beint af trénu heldur verkaðar í saltlausn eða olíum sem kemur af stað náttúrulegri gerjun sem breytir eiginleikum ólífunnar svo hún verður betri og hollari. Hollar ólífur eru m.a. taldar styrkja ónæmiskerfi, vernda DNA, minnka líkur á hjartasjúkdómum og svo mætti lengi telja.

Til þess að hámarka ferskleika, bragð og ekki síst hollustu er hins vegar mikilvægt að ólífurnar séu einmitt framleiddar á þennan náttúrulega hátt en ferlinu ekki flýtt eins og gjarnan er gert með vítissóda í iðnaðarframleiddum ólífum og ýmsum óþarfa aukefnum bætt þar samanvið.

Ólífurnar í Frú Laugu eru „markaðsferskar“ sem þýðir að þegar við höfum sett þær í dollur endast þær eingöngu í 2 vikur svo það þarf að nálgast þær og meðhöndla eins og hvert annað grænmeti.

En þær eru góðar og þær eru hollar.

Það skiptir öllu máli.

Fimm tegundir eru fáanlegar í Frú Laugu:

Dökkar Kalamata frá Grikklandi og dökkar Gaeta frá samnefnu svæði á S-Ítalíu, grænar Nocellara del Belice frá Sikiley, miðjarðarhafsblanda af nokkrum grænum og dökkum tegundum með smávegis rósmarín og loks stórar grænar með fyllingu (hvítlauk, papriku og sítrónu). Þær eru verkaðar í saltvatni þar sem ýmist er bætt við sólblómaolíu, vínediki eða náttúrulegum sýrum (mjólkursýru, sítrus, c-vítamíni).

100 grömm af ólífum kosta 290 krónur og höfum við sett þær í 200g dollur til að byrja sem greiðast eftir vigt.

Ólífur Ragnar Grímsson munu fást með haustinu

Færðu inn athugasemd

Filed under frú lauga, heilsa, matur

Chablis frá Christian Moreau skorar hátt

Í næstu viku kemur sending af Chablis vínum frá Christian Moreau. Fyrirferðamest er Chablis 2008 sem þeir Moreau bændur og feðgar eru nýfarnir að setja í framleiðslu en hingað til hafa þeir eingöngu framleitt 1er og Grand Cru Chablis vín en ekki svona „venjulegt“ þorpsvín. Með í för verður líka eitt Rully hvítvín frá Vincent Girardin (meira um það síðar).

Vínin frá Christian Moreau hafa verið að skora hátt í amerísku pressunni undanfarið.

Tímaritið Wine Spectator sendir út tölvupóst til áskrifenda sinna undir fyrirsögninni „Hot Wines“ og „Editor’s Most Exciting Wines“ um það sem ber hæst í nýjasta tölublaði hverju sinni. Nú eru það Chablis vínin frá Moreau, 2008 árgangur. Þorpsvínið er ekki til umfjöllunar (2007 árgangur af því fékk reyndar „Top value“ stimpil og 88 stig á síðasta ári) en öll hin vín feðganna, frá 1er til Grand Cru, fá einkunnir á bilinu 92 til 95 stig. Ekki slæmt.

Burghound, sem sérhæfir sig í Búrgundarvínum, hefur alltaf verið hrifinn af vínunum frá Moreau feðgum og er 2007 og 2008 árgangar engin undantekning með einkunnir á bilinu 88 til 94 stig af hundrað.

Robert Parker. hefur ekki enn fjallað um 2008 árgang vínanna en 2007 fá á bilinu 88 til 92 stig og Stephen Tanzer gefur þeim frá 86 til 96 stig.

Það verða bara þrjú Chablis vín í þessari sendingu (feðgarnir framleiða alls átta ólík Chablis) og aðins tveir kassar af hvoru 1er og Grand Cru þar sem þau fást ekki í Vínbúðunum en hægt verður að sérpanta þau. Þau verða ekki ódýr þegar þau koma hingað en fyrir þá sem vilja öðru hvoru tryggja sér gott hágæða Chablis þá er óhætt að mæla með þeim. Þetta eru Chablis 2008, 1er Cru Vaillon 2008 og Grand Cru Les Clos 2007.

Þetta hafa sérfræðingarnir að segja um vínin þrjú:

Chablis 2008  

88-90 stig Burghound
A classic aromatic profile of green fruit, oyster shell and saline hints slide into racy and pure middle weight flavours where more minerality resurfaces on the punchy and lingering finish. This is a lovely villages and definately worth a look for both value and quality. 2012+

86-89 Stephen Tanzer
Candied fruits lifted by violet and the nose. Sweet and creamy but high-pitched, with floral and orange peel flavors framed by bright acidity. There´s a slight exotic fruit quality here that Fabien Moreau says will disappear. A bit tricky to taste today on its finings.

Chablis 1er Cru Vaillon 2008

92 stig Wine Spectator
Rich and creamy, with hints of vanilla and spice augmenting the peach, melon and yellow plum. Beautifully integrated now, with a lingering aftertaste of spice and mineral. Should only get better. Best from 2011 through 2022.

90-93 stig Burghound
A less elegant but more expressive nose features notes of mineral reduction, iodine and oyster shell that are also reflected in varying degrees by the very rich and full-bodied flavors that are less complex but possess the same lenght on the driving and balanced finish. 2013+

90-92 Stephen Tanzer
Crystallized orange and lemon peel aromas. Sweet, creamy and tactile with lovely palate-saturating fruit and gingery spice flavors. Finishes with terrific lift and length.

Chablis Grand Cru Les Clos 2007

93 stig Burghound
This is perhaps the most aromatically elegant wine in the range today with its airy, pure and layered nose of white flower, lemon peel, hint of wod spice, white peach and oyster shell nuances that seem even stronger on the impressively scaled broad-shouldered flavors that possess a beguiling texture as well as an almost painfully intense, palate staining and austere finish that is bone dry. In a word, gorgeous. 2014+

92 stig Robert Parker
The Moreau 2007 Chablis Les Clos mingles fresh white peach, rhubarb, orange zest, and vanilla in the nose, and comes to the palate with a corresponding sense of invigoration, refreshment and tart, pungent chew, even as one registers a distinct sense of underlying chalk and stone. Les Clos is not about richness (except of extract) this year, and Moreau’s dense Clos underscores that point. Utilizing a technique reminiscent of Meursault’s Patrick Javillier, Moreau reports that he vinifies three separate lots with different barrel and lees regimens to enhance the complexity of the final, blended wine. There is a severity and practically blazing intensity to the finish that’s not loveable, but certainly is formidable. I’d give this several years in the bottle, and would not anticipate it fading inside of a decade. 

93 (+?) stig Stephen Tanzer
 Pale, bright yellow. Knockout nose projects lemon oil, crushed stone, spices and minerals. As creamy as this is in the mouth, it’s most notable for its sheer energy and verve, with lemon and crushed stone flavors that pulsate in the middle palate and on the very long aftertaste. A classic vintage for this wine. Chrstian Moreau reminded me that the family’s major parcel of Clos goes from the bottom to the top of this grand cru. Fabien does three different vinifications before blending the lots at the end. Part of this cuvee went back into barrels for five months following the racking after the malolactic fermentaion. 

Færðu inn athugasemd

Filed under christian moreau, dómar, vín

Uppskrift: Humar að hætti hússins með fersku salati

Það er nú varla hægt að tala sérstaklega um „að hætti hússins“ sem einhverja eina ákveðna leið þegar humar er annars vegar heldur frekar hvað er við höndina hverju sinni og hvernig stemningin er. Á að grilla úti, á pönnu eða ofni? Súpu, risotto, pasta, salat?

Frú Lauga fékk í hendur humar beint frá sjómönnum á Höfn í Hornafirði — sýnishorn af því sem verður fáanlegt í búðinni fljótlega með vorinu.

Við ákváðum að gera eitthvað einfalt og byrjuðum á að taka hann úr skelinni og hreinsa svörtu görnina — auðvelt að gera það með því að halda þétt aftast á sporðinum þegar humar er dreginn út og þá verður görnin oftast (!) eftir. Skeljarnar setjum við svo í poka, frystum og geymum til að nota síðar í fiskisoð.

Ólífuolía hituð á pönnu og humrinum (1kg) skellt út á. Velta til og frá svo hann bakist jafnt á öllum hliðum og út í gegn. Líklegast um 5-6 mínútur í heildina, alls ekki of lengi. Þá er humar fjarlægður en allur safinn skilinn eftir á pönnunni.

Safinn á pönnunni er allur úr humrinum sjálfum kominn fyrir utan væga ólífuolíu svo hann er bragðmikill og hægt að nota sem grunn í ýmsar útfærslur. Við gerðum þetta svona í þetta sinn: útí fór skvetta af hvítvíni og staup af sætvíni (hægt að sleppa eða setja örlítið koníak eða uppáhalds líkjör jafnvel), u.þ.b. desilíter af rjóma, salt og pipar og bingó! Sósugerðin tekur 3-4 mínútur og síðan hellt yfir humarinn og borið fram með góðu fersku salati.

Þar sem er humar þar er hvítvín.

Við mælum með alll-þéttu hvítvíni með humrinum og notuðum að þessu sinni Little James frá Chateau Saint Cosme sem gaf máltíðinni aðra vídd með sínum mikla, ilmríka karakter.

Færðu inn athugasemd

Filed under fiskur, saint cosme, uppskrift

Tvíburarnir vilja vera áfram í Vínbúðunum

Öll vín sem hefja REYNSLU í Vínbúðunum hafa eitt ár til að komast í KJARNA þar sem þeim er tryggður staður í a.m.k. ár til viðbótar. Í kjarna fær vínið meiri dreifingu í fleiri Vínbúðir og ef vínið selst virkilega vel endar það út um allt land. Vínin í kjarna eru líka staðgreidd að hálfu ÁTVR við hverja pöntun en ekki fengin „að láni“ og síðan greidd eftir því hvað selst í hverjum mánuði eins og reynsluvínin.

Sem dæmi: ef ÁTVR pantar 60 flöskur af ákveðnu víni frá okkur og eingöngu þrjár seljast í mánuðinum greiðir ÁTVR aðeins þessar þrjár flöskur. Ef sama magn yrði pantað af kjarnavíni yrði það staðgreitt innan tveggja vikna óháð sölu í Vínbúðunum.

Það er því eftir nokkru að sækjast.

Í hverjum mánuði fáum við framlegðarskýrslu frá ÁTVR þar sem við getum séð hvernig öll vörunúmer í Vínbúðunum eru að standa sig, okkar og annarra. Við sjáum m.a. hvaða vín fara í kjarna, getum séð hversu margir mánuðir eru eftir af reynslu-árinu og hveru mikið vantar upp á í „framlegð“ til þess að komast í kjarnann. Vín sem nær ekki í kjarnann dettur úr sölu og þarf þá að bíða utan Vínbúða í heilt ár eftir að eiga möguleika á endurkomu á reynslulistann ef viðkomandi vínkaupmaður kýs að reyna aftur.

Í augum ÁTVR setur vínkaupmaður vín í reynslusölu með það fyrir augum að koma því í kjarna og velur vín til landsins sem eiga þennan möguleika.

Við erum svolítið óþæg hvað þetta varðar og erum alltaf að setja þarna inn alls konar ósöluvænleg og skrítin vín sem eygja aldrei raunverulegan möguleika á þessari stöðuhækkun úr reynslu í kjarna. Þeir sem þetta lesa vita af hverju það er svo við sleppum langloku um tilgang og ástríður okkar að þessu sinni. Okkar vín eru því alltaf að detta úr sölu og dvelja því gjarnan ekki lengur en árið í Vínbúðunum – og á meðan finnum við einhver önnur ný og ómöguleg vín til að setja í staðinn.

Við getum bara ekkert að þessu gert.

Reyndar hefur svokallaður SÉRLISTI Vínbúðanna komið okkur til hjálpar því þar veljast inn vín til hliðar við þetta sjálfvirka kerfi sem við vorum að lýsa, vín sem er valin af fagmönnum Vínbúðanna. Þetta eru einu vínin í Vínbúðunum sem eru valin inn af gæðum og í þeim tilgangi að auka fjölbreyttni í hillum Vínbúðanna svo landinn drekki nú ekki bara Chardonnay og kassavín út í eitt. ÁTVR auglýsir eftir umsóknum á sérlistann u.þ.b. tvisvar á ári og er tekið tillit til gæða, verðs og þarfar m.a. og samkeppni um hvert sæti.

Nú er þessi póstur orðinn alltof langur og komið að raunverulegri ástæðu hans (ef einhver er ennþá að lesa).

Tvíburavínin Little James rautt og Little James hvítt, frá Chateau Saint Cosme í Rónarhéraði Frakklands, vantar ekki mikið upp á til að komast úr reynslu í kjarna. Reynsluárið rennur út 31. maí og þurfa viðskiptavinir Vínbúðanna að versla 25 flöskur af hvoru víni í hverri viku héðan í frá og út maí til að það takist. Hljómar ekkert svo rosalega mikið en þarf samt átak til.

Öll hjálp vel þegin.

Það er varla hægt að finna meira lifandi og hressileg vín í okkar röðum eins og flöskumiðinn gefur til kynna. Þau fara þó ekki út af sporinu í taumlausri gleði – þrátt fyrir allt þá eru þetta BARA venjuleg og góð frönsk léttvín með svona smá suðrænum samba.

Little James rautt og Little James hvítt kosta bæði 2.289 kr. í Vínbúðunum sem við leyfum okkur að kalla af mikilli hógværð ÞRUSUKAUP.

Takk fyrir hjálpina.

Færðu inn athugasemd

Filed under áskorun, saint cosme, vínbúðirnar